Helgarpósturinn - 05.12.1985, Blaðsíða 2

Helgarpósturinn - 05.12.1985, Blaðsíða 2
ÚRJÓNSBÓK Trúna get ég ekki gefið þér Hvassradda móðir skýtur yggldum sjónum á þrjú barnsandlit, slétt og felld af ein- skæru sakleysi. „Hvert ykkar var að skrökva," spyr hún og er æst. Brjóstin hníga og hefjast ótt og títt og loftið í stofunni er hlaðið slíkri spennu að blöðin standa pinnstíf á jukkunni. „Ekki ég," segir yngsta barnið. „Það var hann," segir stúlkan í miðið og bendir á bróður sinn. „Ég er bundinn þagnarheiti," svarar strákur og hvikar ekki hársbreidd undan gneistum móður sinnar. Hún fórnar höndum, stynur og fer í vinnuna, hugsar með sjálfri sér að þetta skuli hún segja föðurnum. En framan við tölvuskjáinn verður henni Ijóst að það er ekki til neins. Börnin fá að vita í fimmta bekk grunnskóla, hvaða hlutverki faðirinn gegnir, og eftir það er hann orðinn heldur léleg grýla á „þig og mig". Þann veg gengur lífið. Ævinlega er til- veran að neyða okkur til að horfast í augu við þann sannleika að sannleikurinn getur hrakið okkur í meiri nauðir en sem svarar til ávinnings af því að segja satt. Hlutskipti okkar verður svo næstum óbærilegt í Ijósi þeirrar staðreyndar að það stríðir gegn samvisku okkar, uppeldi og kristinni lífsreglu að skrökva. Hvað er til ráða út úr slíkri sjálfheldu? Hvernig á að svara spurningu sem er ekkert vit í að svara með því að segja satt ef maður hefur engan áhuga á að koma sjálfum sér í botnlaust klandur eða styggja aðra sem manni er lífsnauðsyn að hafa góða? Ég ætla mér ekki þá dul að geta leyst úr þessu álitaefni í eitt skipti fyrir öll, en nefni um úrræði nokkur dæmi að ný- fenginni reynslu, lesendum til leiðsagnar og eftirbreytni. Setjum sem svo að Jón Jónsson sé farinn að fitna og konan reki athugul augu í þungar fellingar sem hvolfast yfir buxnastrenginn á honum eins og norðangúlpur yfir brúnina á Esju. Konan fullyrðir við Jón að hann sé farinn að fitna, en þar sem fátt er mikilvægara fyrir íslending á miðjum aldri en að vera ekki farinn að fitna, svarar Jón að hann sé alls ekki faririn að fitna; hann hafi grennst upp á síðkastið ef nokkuð er. Eftir tvo til þrjá mánuði er svo komið að Jón getur ekki hneppt að sér buxunum og konan lítur á manninn með allt flakandi frá sér að framanverðu og segir að hann hafi skrökvað. Hverju á Jón að svara? í þessu dæmi er Jóni ráðlegast að horfast beint í augu við konu sína, fórna höndum svo að hann missir niður um sig og segja, blásaklaus á svip: „Ég skrökvaði alls ekki. Það sá þetta enginn fyrir." Konan er líkleg til að hreyta út úr sér að hún hafi séð þetta í sumar snemma en Jón hafi þvertekið fyrir að hafa þyngst nokkurn skapað- an hlut, og þá er sterkasti leikurinn fyrir Jón að svara af bragði með aðdáunarhreim: „Ástin mín, ég viðurkenni núna að þú ert gædd alveg einstakri spádómsgáfu." Með því að svara svona sneiðir Jón hjá að skrökva því aftur í sama samtali að hann hafi ekki verið að skrökva í sumar, um leið og hann kemst undan því að játa að konan hafi þá sagt satt sem leiddi af sér á hinn bóginn að Jón hafi þá verið að skrökva. Svar af þessu tagi er óbrigðult við fyrrgreindar kringumstæður og Jón slær vopnin alger- lega úr höndum konu sinnar ef hann hnýtir aftanvið: „Þú ættir að gefa fleirum, elskan mín, kost á að njóta þessarar spádómsgáfu." Tökum annað dæmi. Setjum sem svo að smákökuboxin, sem kona Jóns Jóns- sonar fyllti með fimm sortum á sunnudaginn var, séu næstum tóm. Þegar konan hefur náð andanum eftir áfallið framan við smákökuhilluna, æðir hún vitstola inn í stofu til Jóns og kemur vart upp orði þrátt fyrir einlægan áhuga stjórnmálamanna á að stuðla að varðveislu íslenskrar tungu. „Var ég ekki búin að biðja þig að líta eftir því að krakkarnir gengju ekki í smákökurnar," segir hún loksog rýfur setninguna öðru hverju með þungum andköfum. „Það átti að borða þær um jólin!" Jóni Jónssyni, sem situr í makindum við sjónvarpið að æfa tannvarablásið, uppgómmælt og raddað hliðarhljóð, verður svo mikið um að í brot stundar getur hann ekki svarað konunni öðru en þessu tilgreinda hljóði. En hún heimtar svar og stappar niður fæti og Jón verður að svara einhverju. Hverju á Jón að svara? í þessu dæmi stendur þannig á að Jón hefur — þrátt fyrir beiðni konunnar — látið það óátalið þó að krakkarnir gengju í smákökurnar, og það sem meira er: hann hefur stolist í smákökurnar sjálfur og gert um það samkomulag við krakkana að Ijóstra engu upp gegn því að þau kjafti ekki frá. „Ég bað þig að líta eftir þessu," áréttar konan. Hverju á Jón að svara án þess að skrökva, án þess að brjóta gegn sam- visku sinni, uppeldi og kristinni lífsreglu? Að nýfenginni reynslu tel ég skynsam- legast af Jóni að byrja svarið með því að leggja áherslu á að krakkarnir hafi ekki hnuplað jafnmiklu af jólasmákökum og konunni virðist i fljótu bragði. í öðru lagi hafi hann sinnt eftirliti með jólasmákök- unum eins vel og kostur var, þrátt fyrir miklar annir og ófyrirséð verkefni af öðrum toga, og þó að ekki sé útilokað — af eðlilegum ástæðum, sem réttast er af Jóni að útskýra ekki nánar — þó að ekki sé útilokað af eðlilegum ástæðum að einstöku smá- kaka hafi horfið, þá sé ekki við sig að sakast þar sem áminningar konunnar hafi ekki búið yfir nægilegum slagkrafti. Á það sé að líta í þriðja lagi að hafi gengið svo á jóla- smákökurnar að þær séu næstum búnar, þá sé Ijóst að konan hafi ekki bakað nægi- lega mikið af smákökum í upphafi. í fjórða lagi megi velta þvífyrir sér út í hið óendan- lega, hvort það sé að öllu leyti lögmætt að ganga í jólasmákökurnar, en skoðanir fræðimanna um þetta atriði séu ærið misjafnar og flestir hallist að því að það sé lög- mætt. Lögmætt en siðlaust, kunni sumir að segja, en það sé að sjálfsögðu einstakl- ingsbundið hvað menn telji siðlaust í þessu efni og fari ekki síst eftir því hvort í hlut eigi þeir, sem bökuðu jólasmákökurnar, eða hinir, sem borðuðu þær. Þegar hingað er komið svari Jóns, er harla líklegt að konan hafi gleymt, að hverju hún spurði manninn. En þráist konan viðog spyrji íviðþolslausri ákefð, hver hafi stolið smákökunum, er það afar sterkur leikur hjá Jóni að láta augun leiftra af réttlætis- kennd og svara mjög alvarlegur í bragði: „Ég er bundinn þagnarheiti." FRETTAPÓSTUR Skiparekstur íslenska skipafélagsins að stöðvast Skiparekstur íslenska skipafélagsins er nú aö stöðvast þar sem Útvegsbanki Islands hefur neitað því um rekstrarlán. Skipin stöðvast í Beykjavíkurhöfn eitt af öðru en Skaftá er enn í farbanni í Antwerpen og ekkert sem bendir til þess að hún losni þaðan í bráð. Talið er að erlendir kröfuhafar hafi nú lagt fram kröf- ur á Skaftána sem nemi um 1,2 milljónum dollara, eða um 48 milljónum króna, og er ekki talið að allar kröf- urnar séu fram komnar. Fulltrúar Eimskips og Út- vegsbankans ræddust við á þriðjudag, en ekki var gengið frá neinu. Er málið í biðstöðu á meðan reynt er að fá niðurstöðu í Skaftármálinu og því með hvaða hætti kaup Eimskips á eignum íslenska skipafélags- ins fara fram. Útlit er þó fyrir að niðurstaða fáist í málinu í þessari viku. Fjármálaráflherra: skuldbreyting skammtímalána og afnám lánskjaravísitölu Þorsteinn Pálsson f jármálaráðherra og Steingrimur Hermannsson forsætisráðherra kynntu á ríkisstjórn- arfundi á þriðjudag tillögur sínar um afnám láns- kjaravísitölu af skammtímalánum og skuldbreytingu skammtímalána til lengri tíma. Málið verður ekki af- greitt fyrr en fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa rætt nánar við fulltrúa viðskiptabankanna. Þeir hafa ekki tekið þessum hugmyndum ráðherranna ýkja vel en fjármálaráðherra er þó bjartsýnn á sam- starf við viðskiptabankana. Lág laun í Beykjavík Þrátt fyrir launaskriðið sem orðið hefur á höfuð- borgarsvæðinu undanfarin ár virðast stórir hópar launafólks liggja algerlega eftir og meðaltekjur í Eeykjavík eru undir landsmeðaltali. Á milli áranna 1983 og 1984 jukust tekjur Reykvikinga um 28,2% en um 34,2% á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. Tekj- urnar jukust um 29,6% á Suðurlandi, 28,5% á Reykjanesi, 33% á Vesturlandi, 30,4% á Norðurlandi eystra og þær jukust minnst á Austurlandi, um 27,1%. Vífltæk samstafla um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd Um síðustu helgi lauk í Kaupmannahöfn norræn- 2 HELGARPÖSTURINN um þingmannafundi um kjarnorkuvopnalaus Norð- urlönd. Á fundinum lýsti mikill meirihluti þing- manna yfir eindregnum vilja til að ræða hugmyndina um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum til hlítar, skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka á Norðurlöndunum til að ræða málið og boða fljótlega á næsta ári til nýrrar ráðstefnu. Þetta er i raun í fyrsta skipti sem skýr samstaða myndast i öryggis- og utan- ríkismálum milli þessara landa eftir að þrjú Norður- landanna gengu í NATO. í fundarlok gáfu forystu- menn sósíaldemókrata að Alþýðuflokknum undan- skildum út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir heita því að fylgja þessu brýna máli eftir. Framboð á leiguhúsnæði fer minnkandi Húsaleiga á tveggja herbergja íbúð á höfuðborgar- svæðinu er að meöaltali 10 til 15 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt upplýsingum Húseigendafélags Reykjavíkur. Er þetta mun hærri leiga en fram kemur i nýlegri könnun Félagsvísindadeildar Háskólans, þar sem talið er að meðalleiga á landinu sé um 6 þúsund krónur á mánuði og lítill munur á húsaleigu á höfuð- borgarsvæðinu og úti á landi. Meðalleiga fyrir þriggja herbergja íbúð er um 17 þúsund samkvæmt upplýs- ingum Húseigendafélagsins, en um og yfir 20 þúsund krónur á fjögurra herbergja íbúðum. Fréttapunktar • Frá og með 1. desember hækkaði verð á mjólkurvör- um á bilinu 6—7% í smásölu, én grundvallarverð til bænda hækkar um 4,6%. Á næstu dögum er að vænta hækkunar á kjötvörum. • Tæplega 100 manns hafa játað aðild sína að við- skiptum Hermanns Björgvinssonar og yfirheyrslur standa enn yfir. Rannsókn málsins nálgast nú loka- stig. • Sakadómur ísafjarðar sakfelldi á þriðjudag tíu manns fyrir brot á útvarpslögum og lögum um fjar- skipti, en þeir höfðu í sameiningu rekið útvarpsstöð í verkfalli BSRB fyrir rúmu ári. • Hlýr sjór er nú fyrir öllu Norðurlandi og allt austur fyrir land og er hitastig sjávar á þessum slóðum vel yfir 4 stig en það er um einni gráðu yfir meðallagi. • Stefnt er að þvi að taka i notkun um áramótin sam- eiginlegt sjálfsafgreiðslukerfi, eða tölvubanka, allra banka og sparisjóða nema Iðnaðarbankans. • Sjö ára Reykjavikurmær, Heiðrún Ásta Guðmunds- dóttir, vann fyrstu verðlaun í alþjóðlegri teiknisam- keppni barna sem haldin var á vegum Samtaka lækna gegn kjarnorkuvá í ár. • Sjálfstæðismenn í fræðsluráði Reykjavíkur sam- þykktu í gær bókun þar sem sá dómur er kveðinn upp yfir kynfræðslubókinni Þú og ég að hún henti ekki til kennslu í grunnskólum og skuli ekki vera til útlána í skólasöfnum í borginni. • íslensk tónverkamiðstöð hefur nýlega gefið út fjór- ar hljómplötur með nýrri íslenskri tónlist eftir ellefu tónskáld. Þessi útgáfa er gerð í samvinnu við Ríkisút- varpið og með stuðningi frá menntamálaráðuneyti. • Sautján ára piltur beið bana í geysihörðum árekstri á Vesturlandsvegi 27. nóv. Pilturinn ók fólksbifreið sem skall harkalega á langferðabifreið. • Um mánaðamótin tók Böðvar Bragason við embætti lcgreglustjóra í Reykjavík af Sigurjóni Sigurðssyni. • Krafttak sf. hefur hafið borun á jarðgöngum við Blönduvirkjun, en það er i fyrsta sinn sem slíkt er gert á íslandi. Krafttak sf. mun bora tvenn lóðrétt göng við virkjunina. Göngin eru 3,72 metrar í þvermál, sam- tals um 500 metra löng. • Svæðisútvarp fyrir Reykjavík og nágrenni hóf út- sendingar mánudaginn 2. desember. Þær eru á FM- bylgju á 90,1 MHz, milli kl. 17.03 og 18.03 fimm daga vikunnar frá mánudegi til föstudags. HELGARPÚSTURINN LÁN OG ÓLÁN Alltaf er stykki Steina feitt og stórfenglegt hans gaman: Af lánum sem að aldrei verða veitt verðbæturnar nam hann. Niðri

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.