Helgarpósturinn - 05.12.1985, Blaðsíða 32

Helgarpósturinn - 05.12.1985, Blaðsíða 32
POPP Rennt inn á krossgötur CROSSROADS - Magnús Pór Sigmundsson Útgefandi: Höfundur Eftir nokkur hliðarspor á tónlistarferli sínum er Magnús Þór Sigmundsson kominn á réttu slóðina að nýju. Platan Crossroads er fagmennskan uppmáluð hvar sem litið er. Kannski ekki beint skemmtileg enda tekur Magnús sig og list sína alvarlega. En áheyrileg er platan Crossroads og það í besta lagi. Það hefur alla tíð verið ljóst, frá því platan Magnús og Jóhann kom út í gamla daga, að Magnús Þór Sigmundsson kann að semja grípandi lög. Með árunum hefur honum einnig farið mjög fram í textagerð. Hann yrkir að mestu leyti á ensku. í fljótu bragði man ég ekki eftir neinum lslendingi sem ferst það betur úr hendi. Enda var Magnús búsettur árum saman ytra og hefur því gott vald á enskri tungu. Greinilegt er að hann hugsar á ensku en þýðir ekki né heldur klambrar saman með orðum sem kannski þýða hér um bil það sama og hann ætlaði að segja. Berið bara texta Crossroads saman við annað það sem er að koma út þessa dagana hér á landi með erlendum textum. í gamla daga meðan veröldin var ennþá ung og sæmilega saklaus skein enlægnin út úr plötum Magnúsar. Dæmi Happiness Is Just A Ride Away, Still Photographs og jafnvel Álfarnir líka. Listamaðurinn er orðinn öllu veraldarvanari núna ef marka má Crossroads. Textar eru úthverfari en fyrr og reyndar yfirbragð plötunnar allt. Voldugar rauðgrautsútsetningar sem einkenndu Still Photographs og Börn og daga eru fyrir bí. Sándið er nú hámódern. Prógrammeraðar tölvur og framarlega blandaður trommusláttur. Og þrátt fyrir að gömlu grunnhljóðfærin séu enn til staðar skemma þau síður en svo fyrir. Satt að segja var maður orðinn efins um að. Magnús Þór Sigmundsson ætlaði að hafa sig| í fullorðinspoppið að nýju. En þó svo að Óli prik sé orðinn honum ofarlega í huga nú orðið ætlar hann ekki að sérhæfa sig í pelapoppi. Það er fagnaðarefni. SMARTBAND — Smartband Útgefandi: Smart-art Smátt er sætt. Plata Smartbands er aðeins fjögurra laga, umslagið í sama dúr og Magnús og Jóhann (no. 2), það er hvítt með Iímmiða. En það er innihaldið sem skiptir máli, ekki umbúðirnar. Og innihaldið er í aldeilis fínasta lagi. Skemmtileg lög og dásamlega öðruvísi en annað það sem er að koma út um þessar mundir. Öll lög plötunnar eru eftir Kjartan Ólafs- son tónskáld. Ekki þekki ég til tónsmíða hans en hann kann handverkið greinilega þegar rokk er annars vegar. Textar Illuga Jökulssonar eru sniðugir. Meðal hljóðfæraleikara á Smartband-plöt- unni eru Pétur Grétarsson, Skúli Sverrisson og Kristján Eldjárn. Þeir standa sig með prýði. Magnús Ragnarsson syngur og hefði áreiðanlega mátt finna fagmannlegri söngv- ara. En þar sem platan er auðheyrilega einkaflipp valins hóps dugar hann til síns brúks. SOKKABANDSÁRIN - Ásthildur Cesil Útgefandi: Þor Ásthildur Cesil Þórðardóttir garðyrkju- stjóri á ísafirði með meiru hefur ráðist í það stórvirki að senda frá sér plötu með eigin lögum og textum. Hún fær flínka stráka í spilamennskuna og syngur lögin sín sjálf. Fyrir duginn og þorið ætti hún skilið heiðurs- merki. Sum lög Ásthildar eru þokkaleg. Hins veg- ar heyrist mér rödd hennar ekki passa vel til rokksöngs. Að minnsta kosti taka undirleik- „Platan Crossroads er fagmennskan upp- máluö hvar sem litið er. Kannski ekki beint skemmtileg enda tekur Magnús sig og list sína alvarlega". eftir Ásgeir Tómasson ararnir á stundum völdin með þeim afleið- ingum að rödd Ásthildar hverfur næstum. Burtséð frá því að gallar Sokkabandsár- anna séu nokkrir er framtakið gott. Sér í lagi þegar haft er í huga að plötusala er dræm, allskyns óáran og allt miklu verra en það var í gamla daga. ANSWERS WITHOUT QUESTIONS - Cosa Nostra Útgefandi: Cosa Nostra Þessi sex laga plata ber þess fá merki, að um byrjendaverk ungrar hljómsveitar er að ræða. Það er raunar aðeins eitt atriði, sem ég hef yfir að kvarta og það því miður talsvert stórt. Ekkert laganna er nógu afgerandi til að vekja áhuga minn sem almenns og hlutlauss hlustanda. Öll sóma þau sér reyndar ágæt- lega á plasti, en það vantar eitthvað, sem grípur mann. Eftir svona yfirlýsingu kemur það sjálfsagt eins og skrattinn úr sauðarleggnum að halda því fram, að þrátt fyrir allt sé Answers With- out Questions áheyrileg plata. Og það er hún. Fjórmenningarnir, Máni Svavarsson, Ólöf Sigurðardóttir, Pétur Hallgrímsson og Guðmundur Sveinbjörnsson kunna ágæt- lega til verka. Helst að Ólöf mætti vera dálít- ið líflegri í röddinni. Hún er ekki sérlega kraftmikil, en aðeins persónulegri blær hefði gert mikið fyrir sönginn. Liðsmenn Cosa Nostra eru allir ungir að ár- um. Það þarf talsvert áræði til að ráðast í plötugerð og ennþá meira að gefa hana út sjálfur. En ef eitthvað er að marka vinsælda- lista rásar tvö hefur hljómsveitin fólkið með sér. Vonandi lætur það sér ekki bara nægja að hringja og gefa Cosa Nostra stig í vin- sældavali, heldur kaupir líka plötuna An- swers Without Questions. Það hlýtur að virka hvetjandi til dáða að sleppa fjárhagslega með skrekkinn frá sinni fyrstu plötu. Cosa Nostra er líkleg til afreka í framtíðinni ef samheldnin endist. Ekki er hægt að ætlast til meistarastykkis í fyrstu tilraun, en byrjunin lofar góðu. BÓKMENNTIR Evrópa í öldudal? Saga mannkyns Ritröð AB 6. bindi Evrópa við tímamót 1300—1500 eftir Káre Lunden Snœbjörn Jóhannsson íslenzkaði Þetta er voldugt rit, 272 bls. í stóru broti, með skrá um bækur, nöfn og myndir, prent- að á vandaðan pappír, myndir fjölmargar og kort, svo sem vera ber, og að mestu í lit. Fjöl- þjóðaprent er til margra hluta nytsamlegt, og án þeirrar tækni væri útgáfa þessa ritsafns án efa ókleif, því slík bók yrði rándýr ef unn- in væri að öllu leyti fyrir innlendan markað. Á hinn bóginn fylgir ýmiss konar óregla fjöl- þjóðaútgáfum, t.d. ruglast hin rétta útgáfu- röð. Þetta er þó svo sem ekki mjög bagalegt, en sagnfræði er þó fremur en önnur vísindi bundin ákveðinni reglu í tíma; t.d. er í þessu bindi vísað í hin fyrri, en þau eru enn ekki komin út. I fjölþjóðaprenti verður hins vegar að sæta lagi, prenta með íslenzkum texta þá bókina sem á hverjum tíma er til útgáfu í fleiri löndum. Þetta bindi fjallar um ýmsa þætti úr sögu Evrópu á síðmiðöldum 1300—1500. Fullur þriðjungur bókarinnar er hagsögulegs eðlis, og þar er vikið að fólksfjölda, drepsóttum, einkum svarta dauða, eyðingu þorpa, akur- yrkju og kvikfjárrækt. Rækilega er fjallað um lénskerfið, bæði gósseigendur og undir- sáta, fjallað um verzlun, iðnað og borgir. Því næst er stjórnmálasaga, lýst stéttum og þó einkum hinum æðri, fjallað um styrjaldir og ríkisvald, stjórnvísi ýmiss konar, án þess beinlínis sé farið land úr landi. Kirkja og trú- arbrögð fá sinn skerf, enda voru þessar aldir tími umbrota og niðurlægingar í sögu páfa- dóms, og ýmsar trúarhreyfingar skutu rótum til frambúðar. Loks er fjallað um vísindi og listir. Höfundur segir í upphafsorðum, að síð- miðaldir í Evrópu séu „einmitt besta dæmið um öldudal sem þekkist í sögunni" (bls. 9), reyndar ekki að öllu leyti, en t.d. hvað varðar fólksfjölda og framleiðslu. Fjöldi bænda var í ánauð, frelsi annarra var skert, og yfir öllu trónaði yfirstétt, andleg og veraldleg. Skil- merkilega er lýst þeim kvöðum, sem lagðar voru á leiguliða, réttleysi þeirra og eymd. ít- arlegast er lýst enska góssakerfinu, en þó er víða farið, og ætli merkustu atburðir síðmið- alda markist ekki einmitt í þessum hluta: Bændur á Englandi öðluðust frelsi á bak svarta dauða og þar með var lagður grunnur að nýrri þjóðfélagsþróun, sem hámarki náði með iðnbyltingunni. Á meginlandinu voru breytingar hægari nema e.t.v. í borgríkjun- um á N-Ítalíu, og með öfugum formerkjum í Austur-Evrópu, þar sem fremur var hert á tökunum eftir sigur á Mongólum. Og sé litið til lengri tíma var góssakerfið einungis af- numið í Vestur-Evrópu; í einhverri mynd er það við lýði víðs vegar í A-Evrópu, Asíu, Afríku og Mið- og Suður-Ameríku, kannski ekki jafn seigdrepandi, en harðsnúið samt. Atvinnulífi er lýst með þeim hætti, að litið er yfir Evrópu sem eina heild, fremur en rekja þráðinn í einu landi í senn. Vitaskuld eru atvinnuháttum ekki gerð tæmandi skil, en með glöggum dæmum, kortum og línurit- um er sýnt hvernig t.d. kaup og verðlag breyttist, tekjur gósseigenda, uppskera o.s.frv. Síðan er dálítill kafli helgaður sögu og sérkennum hvers lands. Með þessu móti eftir Sölva Sveinsson vinnst, að lesendur fá betri heildarsýn yfir at- vinnulíf álfunnar, kjör fólks og lífshætti. Verzlunin var enn að mestu bundin við innhöfin og siglingaleiðir með ströndum fram, lestaferðir farnar til fjarlægra landa, stundum yfir fjallháa tollmúra. Kaupmenn áttu fótum fjör að launa undan reyfurum, og margur týndi Iífi á þurrum sandi eða í söltum sjá. Samt sem áður var verzlunin ábatasöm. Rakin er að nokkru saga Hansasambandsins og ítölsku borganna, en að mestu er frásögn- in bundin við verzlunarhætti yfirleitt; eftir hverju sóttist fólk, hver var hagnaðurinn, hvaðan komu vörur o.s.frv. Línurit og upp- drættir eru til glöggvunar. Hér væri fróðlegt að fá til samanburðar íslenzkar tölur. Hversu stór hluti skreiðarinnar frá Björgvin skyldi t.d. hafa verið dreginn á íslandsmiðum? Þáttaskil í verzluninni urðu með úthafssigl- ingum Spánverja, Portúgala, Hollendinga og Englendinga, en grunnurinn var lagður á þessu skeiði; burðargeta skipanna jókst að mun og sjóhæfni þeirra batnaði. Styrjaldir voru margar háðar á þessu tíma- bili, t.d. hundrað ára stríðið og rósastríðin. Raunar er athyglisvert, að allt þetta skeið voru einhvers staðar styrjaldir eða skærur og efldu völd konunga og fursta. Skýrust varð þessi þróun í Englandi og Frakklandi, en í Austur-Evrópu ber hæst útþenslu Moskvufurstadæmisins og innrás Tyrkjans. I ljósi nútímans er eftirtektarvert, hvað fá- mennur aðall, 0,5—2% eftir atvikum, hafði mikil völd og var þó sundurþykkur. Kon- ungsvaldið efldist í skjóli nýrrar hernaðar- tækni, en aðallinn tók að sér innheimtu kon- ungstekna og hélt sínum skerf af kökunni, í bili. Kirkju og klaustrum er borin ófögur saga, gjörspilling var ríkjandi, og munkar virðcist einkum hafa stundað drykkjur og annað bí- lífi. Mér finnst hallað á þessar stofnanir, því vitaskuld voru margir munkar snjallir vís- indamenn, t.d. á sviði landbúnaðar og lækn- isfræði. En víst er það rétt, að kirkja og klerk- dómur mökuðu krókinn í skjóli valda yfir andlegri velferð manna, og margvísleg óstjórn og siðleysi viðgekkst. Höfundur lýsir andófi gegn klerkaveldinu, sem sprottið var af ýmsum rótum. Lúter og Kalvín bíða hins vegar næstu binda. I síðustu köflum bókar er fjallað um listir, endurreisnina, og heimspeki og náttúrúvís- indi. Að mörgu leyti er heppilegt að lesa þessa kafla fyrst, því þar er lýst þeim grunni, sem hástéttirnar byggðu vald sitt á, skóla- spekinni, hvernig kirkjan varði með orði og eldi þá heimsmynd, sem hún hafði skapað. Myndir eru geysimargar í þessari bók, а. m.k. 2—5 í opnu. Nokkuð ítarlegur texti fylgir hverri, ýmist sóttur í meginmál að ein- hverju leyti eða reistur á öðrum heimildum. Auk þess eru í römmum ýmsar klausur, t.d. samtímaumsagnir eða ártalaskrá. Þetta leið- ir stundum athyglina frá meginmáli, en er þó oftast til glöggvunar. Þýðingin á þessari bók er víða stirðleg, einkum orðaröð: ,,... telst samkvæmt nýjustu niðurstöðum mannfjöld- inn á öllu landinu hafa verið árið 1300 milli б, 5 og 4,5 milljónir...“ (bls. 20) — eða: „Hneykslanlegar embættaveitingar eins og sú með Gueldre . ..“ (bls. 114) — og: „Skýrsl- ur gerðar af mönnum henni engan veginn hiiðhollum ...“ (bls. 167). Firenze vil ég kalla Flórenz, og Genúa finnst mér fallegra en Genova. Prentvillur fann ég sárafáar. 32 HELGARPÖSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.