Helgarpósturinn - 15.05.1986, Page 2
URJONSBOK
eftir Jón Örn Marinósson
/
On Liberty — Grundlegung zur Metaphysik der Sitten eða Astir aðstoðarráðherra
Ég er ekki í nokkrum vafa um að slíkt efni þætti
mikils virði og býsna fróðlegt og yrði þjóð minni
hvort tveggja í senn til aukins þroska og ærinnar
hrellingar, en ég er samt sem áður hræddur um að
ástir mínar verði seint blaðamatur. Þó að hrjái mig
ekki, þegar á heildina er litið, meiri hugmyndafá-
tækt en eðlilegt má teljast að lokinni áttatíu og fjög-
urra stunda vinnuviku minni og konan hafi í frammi
tilburði til viðbragða, sem hljóta að þykja eðlileg að
lokinni níutíu stunda vinnuviku hennar, er það borin
von að birtist nokkurn tímann heilsíðulitmynd af
okkur hjónum í vönduðu mánaðarriti ásamt opin-
skáu viðtali. Jafnvel sú nakta staðreynd að ég þyki
harla aðgangsharður eftir árshátíðina og þorrablótið
ár hvert breytir engu um það að við hjónin erum
ekki flokkuð meðal tíu kunnustu para landsins. Hjá
okkur þykir ritstjórum eftir litlu að slæðast í harðri
samkeppni um lesendur og ég verð að viðurkenna
að ég veit ekki til hvers mennirnir ætlast af fólki áður
en þeir sjá ástæðu til þess að ljá því rúm í blaði sínu.
Öllu eru nú takmörk sett, jafnvel ástum aðstoðarráð-
herra þó að ekki sé annað en það að þeir komast
ekki hjá því stundum að vera í sinn hvoru ráðuneyti.
Ég Ieyfi mér jafnframt að spyrja í framhaldi af
þessu hvort ástir aðstoðarráðherra séu athyglisverð-
ari yfirleitt en ástir annars fólks. Þjóðin er vissulega
sammála um og dæmir þar af reynslunni að að-
stoðarráðherrar verða að vera gæddir ekki síðri
mannkostum en ráðherrar, í einstaka tilfellum jafn-
vel meiri mannkostum. Þar með er ekki sjálfgefið að
almenningi sé hollara að fræðast um ástir aðstoðar-
ráðherra en um ástir annarra samborgara sinna. Er
hugsanlegt meira að segja að birta mætti almenningi
að skaðlausu greinar í tímaritum varðandi ástir ráð-
herranna sjálfra. Sumt af því yrði samkvæmt Iíkinda-
reikningi í formi endurminninga og af þeim sök-
um ekki ýkja freistandi fyrir útgefendur á harðnandi
blaðamarkaði en játningar einstaka ráðherra hlytu
að örva sölu og gætu í ofanálag orðið þeim til góðs
sem hafa af því sífelldar áhyggjur hvað má gera og
hvað má ekki gera.
Er þá komið að kjarna málsins.
Traust og heilbrigt mannfélag grundvallast á þeirri
meginreglu að sérhver einstaklingur viti hvað hann
má gera og hvað hann má ekki gera og geri það, sem
hann má gera, en geri það, sem hann má ekki gera,
án þess að aðrir viti að hann sé að gera það. Sé brotið
út af þessari reglu er voðinn vís svo sem dæmin
sanna mýmörg og þjóðin hefur orðið vitni að, nú síð-
ast hjá landhelgisgæslunni. Varðskipsmenn gerðu
það, sem þeir máttu ekki gera, án þess að halda slíku
leyndu fyrir sérfræðingi norska sjóhersins, sem gat
ekki gert það með þeim af því að hann var sjóveikur,
og þarf ekki að orðlengja hvílíkri upplausn þetta olli.
Gáleysi varðskipsmanna er ámælisvert í fyllsta
máta, einkum þegar haft er í huga að hér á landi og
allt út að tvö hundruð mílna mörkum gilda mjög ein-
faldar reglur um það hvað má gera og hvað má ekki
gera og taka einungis til tveggja þátta í mannlegri
hegðun, meðferðar áfengis og kjarabaráttu. Á öðr-
um sviðum gætir engra forskrifta eða siðareglna
nema hvað talið er óviðurkvæmilegt að krefjast þess
af iðnaðarmanni að hann láti í té kvittun fyrir
greiðslu.
íslensk drykkjusiðfræði grundvallast á einni meg-
inreglu: maður má ekki drekka. Og með hliðsjón af
því sem áður var sagt leiðir reglan til þess að íslend-
ingur bragðar ekki áfengi nema hann sé innan um
svo drukkna íslendinga að þeir verði þess ekki varir
að hann sé að bragða áfengi eða þá að hann er svo
drukkinn sjálfur að hann veit ekki af því heidur.
Siðfræði kjarabaráttunnar er öllu flóknari. Þar
gildir sú höfuðregla að maður má ekki gera það sem
maður má gera. Til skýringar má nefna til dæmis að
það er talinn heilagur réttur sérhvers vinnandi
manns að fara í verkfall og krefjast hærri launa; slíkt
er flokkað til grundvallarreglna í íslensku lýðræðis-
þjóðfélagi og tryggt með löggjöf svo að ekkert fari á
milli mála. Samt er það svo að á íslandi mega menn
ekki krefjast hærri launa og enn síður mega þeir fara
í verkfall. Kemur þó stundum fyrir að menn ringlast
í siðfræði kjarabaráttunnar og gera það, sem þeir
mega ekki gera þó að þeir megi gera það, og er þá
óhjákvæmilegt að stjórnvöld, hversu svo sem þau
unna frelsinu, gefi út bráðabirgðalög á slíka menn og
svipti þá hinum heilaga rétti.
Enginn má skilja orð mín svo að ég sé að gagnrýna
stjórnvöld eða gefa í skyn að þau unni ekki frelsinu
Allir hljóta að viðurkenna að frelsi er vandmeðfarin
guðsgjöf. Óheft frelsi getur jafnvel skaðað mannfé-
lag, hvað þá flugfélag eða skipafélag. Athafnafrelsi
einstakra stétta eða einstaklinga verður að tak-
marka á ýmsa lund og hafa þá mið einkanlega af
hagsmunum heildarinnar líkt og tíðkast í Sovétríkj-
unum þar sem enginn er settur á geðveikrahæli eða
í þrælkunarbúðir nema ljóst sé að það skaði hags-
muni heildarinnar, þjóðarinnar og þjóðarbúsins að
hann neyti þess frelsis sem honum er tryggt með
almennri löggjöf og stjórnarskrá. Ekkert bendir til að
íslendingar fari betur með sitt frelsi en sovéskir borg-
arar. Hins vegar er það margreynt að Islendingar
misnota oft frelsið, sumir jafnvel ferðafrelsið eins og
til dæmis forsætisráðherra og aðalvitnið í okurmál-
inu. Það var augljóst einnig um daginn að farmenn
ætluðu að misnota frelsið og vera í verkfalli til þess
að krefjast hærri launa sem var að sjálfsögðu fá-
heyrð ósvífni og í hróplegri andstöðu við tilgang lög-
gjafans þegar hann tryggði mönnum verkfallsrétt
með lögum. Stjórnvöld gátu ekki annað en svipt far-
menn hinum heilaga rétti og frelsinu.
Enginn skyldi þó trúa að það hafi verið stjórnvöld-
um ljúft að skerða þannig frelsi þegna sinna. Jafnvel
þó að forsætisráðherra væri búinn að ná úr sér
strengjunum eftir bogrið í kartöflugarðinum með því
að stynja fyrstur manna af vellíðan í nýja heita pott-
inum í Laugardalslauginni, var hann mjög þungur á
brún þegar hann tilkynnti þjóð sinni um réttinda- og
frelsissviptingu farmanna. Ékki skal dæmt um rétt-
mæti þeirrar fullyrðingar sumra sjónarvotta að tár
hafi blikað á hvörmum ríkisstjórnarinnar en hitt er
víst að enn einu sinni varð ríkisstjórnin að víkja
sannfæringu sinni til hliðar í þágu heildarinnar,
hagsmuna þjóðarinnar og þjóðarbúsins. í reynd var
það ríkisstjórnin sem mátti í þessu tilfelli þola meiri
frelsisskerðingu en nokkur annar.
HAUKUR I HORNI
VALDATAFL
STÓRVELD-
ANNA
„Þeir kalla þetta
kerfisbundnar
stórfórnir á báða
bóga..!"
2 HELGARPÓSTURINN