Helgarpósturinn - 13.08.1987, Blaðsíða 25

Helgarpósturinn - 13.08.1987, Blaðsíða 25
LISTAP Alltaf þótt langmest gaman að mála Sveinn Björnsson, rúmlega sextugur sjálf- menntaður málari, opnar sýningu í Gallerí Svörtu á hvítu á laugardaginn. Sveinn Björnsson er ekki hinn dœmigerdi málari. Hann er svo til sjálfmenntaður, hefur alla tíð haft máluerkið sem áhugamál samfara fullri vinnu sem sjómaður og síðar lögreglumaöur. Hann hefur málað í 40 ár og alltaf haldið sínu striki þrátt fyrir oft á tíðum óblíðar við- tökur þeirra sem hafa það að brauði að skrifa um myndlist í blöð og tímarit. Sveinn heldur nú einkasýn- ingu á verkum sínum í Gallerí Svörtu á hvítu ennú eru tvö ár síðan hann sýndi síðast hér heima, þá myndir viö Ijóð Matthíasar Jo- hannessen, ritstjóra Morgunblaðs- ins, en í millitíðinni sýndi hann í Kaupmannahöfn. Fékk þar góða dóma en seldi lítið og er bara ánœgður með það. „Ég byrjaði að máia 1948, það eru að verða 40 ár síðan, þetta er eigin- lega afmælissýning — þú getur haft það með. Ég var sjómaður, var á tog- ara á Halamiðum þegar ég málaði og teiknaði mínar fyrstu myndir. Ég gerði þær á dýptarmælingapappír, það var eini pappírinn um borð. Þessar myndir eru löngu orðnar svartar, pappírinn var þannig." Þú ert sjálfmenntaður, er ekki svo? „Nei, nei, ég var á akademíunni í Kaupmannahöfn í eitt ár. Það var 1956. Svo fór ég með akademíunni til Italíu og skoðaði ítalska list — en ég var auðvitað barn og nýgræðing- ur á þessum árum. Eg var líka í myndlistarskóla í mánuð árið 1948 en líkaði það illa. Fór heldur á sjóinn og málaði á frívöktum og svaf þá bara þeim mun minna." Hvenœr sýndirðu fyrst? „Það var 1954, í Listamannaskál- anum, þ.e. í Reykjavík, en ég hafði sýnt einu sinni áður í Hafnarfirði." Og hefur málað jafnt og þétt allar götur síðan? „Já — ég hef verið símálandi, mik- ið málað í Hafnarfirði, þá málaði ég húsamyndir og þess háttar og svo landslag — ég málaði líka á Þing- völlum og svo frá Krísuvík. Þar hef ég búið og haft vinnustofu síðan 74. Ég hef alltaf haft langmest gaman af að mála, miklu meira en að fara út og skemmta mér, að dansa og svo- leiðis, ekki það að mér finnist það ekki lika ágætt en ég hef alltaf haft mest gaman af að mála. Og vera einn — ég get ekki málað nema að vera einn. Þess vegna er það fínt að vera í Krísuvík, frá öllum skarkala, enginn sími. Ég álít að ungir málar- ar ættu að fá sér vinnustofu út úr Reykjavík. Þar er of margt sem glep- ur fyrir. Menn þurfa að vera í friði með hugsanir sínar. Það er gott fyrir alla málara að komast í burtu, já og fyrir alla listamenn." Það hefur aldrei freistað þín að gerast atvinnumálari? „Nei, ég gat það aldrei. Ég þurfti að kosta börnin mín til náms. Það hefði ég ekki getað hefði ég verið málari. Ég hef alltaf orðið að vinna tvöfalda vinnu og þannig er það með mig að eftir því sem ég vinn meira, þeim mun meiri löngun hef ég til að mála. Þetta hefur verið ágætt, ég hef haft gaman af. Var ekki Einar Ben. lögmaður og bisnessmaður með því að vera skáld og Stephan G. Hann vann á akrinum 16 tíma en gerði samt þessi fínu ljóð. En það þarf mikið þrek og það hefur Guð gefið mér. Það bjargar mér. Það hefur alltaf verið mín skoðun að menn þurfi að vinna mikið og mál- aralist er mikil vinna. Sagði ekki Kjarval: Listin er vinna?" En hvernig hefur gagnrýnin verið í gegnum tíðina? „Þetta hefur oft verið erfitt hjá mér, ég var kallaður frístundamálari og svoleiðis. Ég fékk oft slæma Sveinn við mynd sína Myndir málarans. krítík og var hakkaður niður. Stund- um var ekkert skrifað, ég þótti ekki nógu fínn pappír til þess að skrifa um, en þegar var skrifað var maður skammaður. En þeir eru orðnir já- kvæðari núna. Ég er eiginlega orðinn hálfhræddur við gagnrýnendurna núna. Þeir hrósa öllu. En ég er auð- vitað orðinn betri, ég vona það í það minnsta að ég sé betri en fyrir 40 ár- um.“ Þú hefur ekkert látið skammirnar á þig fá? „Nei, ég hef alltaf haldið mínu striki. Það þýðir ekkert að mála og sýna það aldrei, ég hef alltaf haft þá hugsun. Ég hef sennilega haft mesta trú á mér sjálfur í upphafi. Ég er mikill egóisti og hef þá trú að málar- ar þurfi að vera það. Annars var þetta öðruvísi í gamla daga, þá voru fáar sýningar og meira gert af að taka menn í gegn. Ég hef alltaf þótt grófur — kannski kemur það af sjón- um — þeir héldu kannski að ég væri með sjóvettlinga." Hvernig þótti félögum þínum á sjónum að þú vœrir að mála um borð? „Blessaður vertu, ég þótti bæði óalandi og óferjandi. Eg var kallað- ur ýmsum ónöfnum, vitlausi stýri- maðurinn og svoleiðis, ég var nefni- Iega búinn með Sjómannaskólann, kláraði hann 1947. Þeir höfðu aldrei séð neitt svona áður. Annars var ég líka kallaður Sveinn klessa, mynd- irnar mínar þóttu vera klessumynd- ir. Mér þótti það leiðinlegt fyrst en það vandist og svo fór mér bara að finnast það ágætt." Hvernig líst þér á unga fólkið í myndlistinni í dag? „Ungu málararnir hafa aldrei ver- ið eins efnilegir og í dag. Ég hef mest gaman af þeim, það er ekkert varið í þessa gömlu miðað við þá nýju. Þeir eru grófir eins og ég og mála innan frá eins og ég er að reyna. Annars máttu líka hafa það með að mér finnst vera alltof mikið af þessari grafík. Þetta er ekki mikið að búa til. Þetta er mest prent- smiðjuvinna og bisness en þetta er svo sem ágætt fyrir ungt fólk sem vantar eitthvað á veggina hjá sér. Mér óar við þessari grafík allri en þetta er náttúrulega komið utan úr heimi, það er allt vitlaust þar, og svo finnst mér hún vera orðin töluvert dýr." Hefurðu fylgst með straumum og stefnum öll þessi ár? „Ég hef ekki fylgst mikið með, ekki verið mikið í útlöndum að stúdera list — ég hefekki einu sinni komið til London. Ég hef ekki séð Turner. Mér finnst íslenskir málarar eigi að vera hér heima — þetta hangs í útlöndum. Ég hef alltaf verið á móti því. Það er auðvitað lærdóm- ur i þessu fyrir unga menn en ég held það rugli þá bara að vera þetta alltaf í útlöndum að skoða list þar. Menn eiga að vera hér heima ef þeir vilja kallast íslenskir málarar. Þessir menn sem búa erlendis og koma svo og sýna þegar þeir eru auralaus- ir — það þykir voða mikið fínt, en mér finnst ekki það eigi að vera svo- leiðis." Saknarðu þess að hafa ekki átt kost á meiri menntun? „Nei, ég sé ekki eftir því að hafa ekki menntað mig meira. Kannski væri ég þá að mála með eitt hár í pensli, einhverjar nákvæmnis- myndir. Annars hef ég bara aldrei hugsað um það.“ Þú talaðir áðan um að þú málaðir innan frá. „Já. Mér þykir mest gaman að mála innan frá, það sem maður sér ekki. Myndirnar á þessari sýningu eru einskonar hugsýnir, það eru myndir inná myndunum sem verða til þegar ég sé eitthvað sem ég tek svo með mér og svo spretta þær fram og lenda inná málverkinu, þær koma bara, beint frá hjartanu. Þetta eru fantasískar myndir í hvítu og gráu, ég hef ekki verið með þessa gráu liti fyrr. Kannski má líka segja að þetta séu draumsýnir því mig dreymir oft myndir, heilu sýning- arnar. Þetta, að sýna í svona litlu galleríi, hefur líka sína kosti, þá get- ur maður valið saman fáar og góðar myndir. Ég vona að þetta sé mín besta sýning til þessa." -KK. Stravinsky, Mozart og Hródmar í Bústaðakirkju Sunnudaginn 16. ágúst verða haldnir tónleikar í Bústaðakirkju þar sem hljómsveit skipuð ungu fólki flytur áheyrendum þrjú verk, Oktett eftir Hróðmar I. Sigurbjörns- son, fiðlukonsert nr. 5 í a-dúr, K-219 eftir Wolfgang Amadeus Mozart og balletttónlistina Appollon Musagat- es eftir Igor Stravinsky. Einleikari á fiðlu verður Auður Hafsteinsdóttir en stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Oli Gunnarsson. „Þetta er eiginlega gert að mínu frumkvæði," sagði Guðmundur Óli, „mér buðust ekki önnur verkefni á meðan ég er hér heima í fríi í sumar. Ég er eini maðurinn sem ekki getur setið heima í stofu og æft sig. Það voru reyndar haldnir svipaðir tón- leikar hér í fyrra, þá undir stjórn Hákons Leifssonar. Ég varð þess vegna að gera eitthvað sjálfur og þess vegna var smalað saman fólki sem er heima í sumarfríi og fólki sem er hér við nám og er þá lengra komið. Við erum alls 27 sem tökum þátt í þessum flutningi, lítil 26 manna hljómsveit — reyndar eru það sirka 20 manns sem mest spila í einu. Við byrjuðum að æfa oktettinn í síðustu viku en stærri verkin á mánudagskvöldið, þau koma eigin- lega hvert úr sinni áttinni, bæði frá misjöfnum tímum og eru í misjöfn- um stíl." Einleikari í fiðlukonsert Mozarts er Auður Hafsteinsdóttir, en hún hefur undangengin fjögur ár dvalið við nám i Boston og mun verða þar áfram undir leiðsögn James Bus- well. Auður sagði aðspurð að það væri alltaf nóg að gera fyrir unga hljóðfæraleikara, þegar þeir kæmu heim. Aftur á móti væri það sérstætt við þessa tónleika að þarna léki ein- göngu ungt fólk, allt af sömu kyn- slóð. Eins og áður er getið verða verkin flutt af ungu fólki, sem öllu jöfnu dvelst erlendis við nám í hljóðfæra- leik. Guðmundur Óli, stjórnandi sveitarinnar, dvelur einnig erlendis við sitt nám, nánar tiltekið í tónlist- arskólanum í Utrecht í Hollandi, en þar er einnig Hróðmar I. Sigur- björnsson við tónsmíðanám. Verk Hróðmars er lokaverkefni hans við tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík. Verkið er samið fyrir 5 blásara og 3 strengjaleikara en frá því það var þar fyrst flutt, 1985, hef- ur hann breytt verkinu nokkuð. Að sögn Guðmundar Óla hefur Hróð- mar látið hafa það eftir sér að verkið sé í nýrómantískum anda og verður það því tekið gilt. Verkið sem flutt verður eftir Stravinsky hefur ekki verið flutt hér á landi áður, reyndar er það mjög sjaldan flutt, en að sögn þeirra Guð- mundar og Auðar má kalla þetta lýriskan Stravinsky og er verkið gjarna flokkað með nýklassískum verkum hans. Verkið er skrifað fyrir strengjasveit árið 1928 en kom út í endurskoðaðri mynd um tuttugu ár- um síðar. Guðmundur Óli og Auður HELGARPÓSTURINN 25

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.