Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 5

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 5
Litli-Bergþór 5 Ritstjórnargrein Á undanförnum árum hafa mkilar breytingar orðið á atvinnulífi hér í sveit. Mikilvægi hefðbundins búskapar hefur minnkað, einnig hefur dregið úr fjölda garðyrkjustöðva. Viðbrögð við þessari þróun voru til að byrja með stofnun Límtrés sem varð 30 ára gamalt nýlega. Rekstur þess hefur gengið misjafnlega en veitir þó nokkuð mörgum atvinnu í dag og er vonandi að reksturinn gangi vel framvegis. Önnur ráð sem brugðið var á voru fiskeldi sem ekki reyndist nógu vel og loðdýrarækt sem hefur gengið í bylgjum. Er verð fyrir skinn nú í hæstu hæðum og er það vel. Búast má við að verð lækki aftur síðar, en er á meðan er. Sú atvinnugrein sem hefur blómgast mest á síðustu árum er móttaka og þjónusta við ferðamenn. Er það ekki að undra í þessu sveitarfélagi, þar sem mestur hluti allra ferðamanna sem til landsins koma hefur einhverja viðdvöl hér. Þegar litið er til þess hverju þetta hefur skilað til nærsamfélagsins er erfitt að greina það nema þá að tekjur hafa ef til vill eitthvað aukist vegna útsvars þeirra sem vinna við þessa þjónustu. Það verður þó að segjast að margir sem við ferðaþjónustu vinna eru hér til skammrar dvalar og oft af erlendum uppruna og að auki er sagt að laun séu lág og allavegana staðið að greiðslum. Ljóst er að töluverður ágangur er af ferðamönnum bæði á náttúru landsins og ýmsa þjónustu sem byggð er upp fyrir heimafólk og ekki reiknað með því álagi sem ferðamenn valda. Má hér nefna verslun, heilsugæslu, björgunarsveitir og löggæslu. Oft er það svo, að minnsta kosti er varðar heilsugæslu og björgunarsveitir, að engar greiðslur koma fyrir þjónustu sem látin er í té til dæmis við útköll í óbyggðir og ekki leggja ferðaþjónustuaðilar neitt til vegna þessa. Á þessu ári hafa verið til umræðu hugmyndir um að auka þjónustu við ferðamenn sem koma að Skálholti. Var meðal annars rætt um að byggja ferðamannakirkju sem tæki mið af miðaldakirkjum sem stóðu á staðnum fyrr á tíð. Eitthvað féllu þessar hugmyndir í misjafnan jarðveg og sumir lögðust gegn þeim. Voru þá talin til rök um tilgátuhús og eftirlíkingar auk þess sem helgi staðarins var talin rýrna. Ekki verður séð að tilgátuhús séu öðrum húsum verri, enda er þegar eitt á staðnum, ef þau nýtast til að þjónusta ferðamenn og afla staðnum tekna af þeim. Er Auðunnarstofa á Hólum dæmi um tilgátuhús sem þykir staðarprýði. Hvað varðar helgi staðarins þá var hún varla mikil eftir að stóllinn var lagður af og ekkert var þar eftir sem minnti á forna frægð, enda er helgi einhvers ekki bundin við ytra byrði. Það eru skrítin fræði að vilja fá sem flesta ferðamenn en mega svo ekki gera þeim neitt til góða eða afla tekna af þeim. Best væri að reyna auka innstreymi fjármagns í sveitarfélagið sem mest með aukinni uppbyggingu fyrir ferðamenn, bæði hvað varðar hús og alla þjónustu, og reyna þannig að styrkja atvinnu heimamanna og auka þar með velsæld í sveitarfélaginu. P.S. Ég færi nú létt með að byggja eitt stykki tilgátuhús

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.