Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 30

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 30
30 Litli-Bergþór Líkamlegir burðir voru meira metnir og nú vildi einnig svo til að Jón Gissurarson var bæði stór og sterkur og þar að auki alvanur sjómennsku. Þar var nú eitthvað sem hægt var að nýta fremur en að láta manninn dútla við tágakörfusmíð. Með því að senda hann á vertíð, þó blindur væri, gat hreppurinn fengið vertíðarhlutinn hans upp í meðlagskostnaðinn. Engum sögum fer af því hvort Jón Gissurarson átti nokkurt val. Ef til vill hefur honum fundizt að verbúða- og vertíðarlíf syðra væri tilbreyting frá slímusetum í baðstofu. Svo mikið er víst að formaður á Álftanesi féllst á að taka Jón í skiprúm til reynslu og vermenn úr Tungunum leiddu hann alla leið suður, enda fóru menn ekki í verið öðruvísi en fótgangandi. Eftir að Jón hafði verið leiddur til skips og settur niður á sína þóftu, kunni hann vel til verka og reyndist hinn nýtasti sjómaður. Þá tíðkuðust enn hin gömlu handfæri, sem Jón hefur kunnað vel með að fara, en ekki hefur hann getað hagrætt seglum eða staðið í aðgerð. Hann var leiddur til búðar þegar komið var úr róðri og þegar hann hafði matazt tók hann fram tágar og fór að bregða körfur. Hjá þessum sama formanni reri hann nokkrar vertíðir, en þegar sá formaður hætti að gera út gátu hreppstjórnarmenn komið Jóni í skiprúm í Þorlákshöfn. Ekki þótti taka því að setja undir hann hest og leiddu vermenn hann ævinlega. Þórður á Tannastöðum mundi eftir því, uppúr 1870, að þar beiddust þrír vermenn gistingar og leiddu þá Jón blinda. Það var sögn gamalla manna, að alls hafi Jón róið tíu vertíðir í Þorlákshöfn, alltaf hjá sama formanni, Þorkatli Jónssyni í Óseyrarnesi. Í verið hafði Jón blindi með sér knippi af tágum. Félagar hans komu stundum með tágar með sér og það þótti Jóni innilega vænt um. Körfur Jóns bárust víða og voru eftirsóttar. Um þær hefur Böðvar Magnússon á Laugarvatni skrifað svo í endurminningum sínum: „Aðalatvinna Jóns eftir að hann varð blindur var að ríða körfur úr viðartágum og þóttu þær snilldarlega vel gerðar, jafnvel vatnsheldar. Munu flestar konur í Biskupstungum hafa átt körfur eftir Jón, stórar og smáar, og hér á Laugarvatni voru tvær til eftir hann, hvor annarri betur gerð.“ Enginn veit hve margar körfur voru til eftir Jón blinda, né heldur hversu víða þær bárust. Ein þeirra var gefin Kristjáni konungi IX á þjóðhátíðinni 1874. Á byggðasafninu í Skógum er varðveitt ein karfa eftir hann, komin frá Keldum á Rangárvöllum, og önnur í byggðasafninu á Selfossi, [nú á Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka] gefin af Þórði á Tannastöðum. Einnig eru varðveittar körfur eftir Jón í Þjóðminjasafninu. Jóhannes Kr. Ólafsson, bóndi og smiður í Helli í Ölfusi, ólst upp á Tannastöðum og mundi vel eftir Jóni Gissurarsyni. Skúli Helgason hefur í handriti sínu um Jón Gissurarson skráð eftir honum sem hér segir: Á útmánuðum 1892 kom Jón að Helli á leið til Eyrarbakka. Var hann með poka á bakinu og í honum voru körfur. Ég sá eina og giska á, að hún hafi verið um 30 sm á vídd um bunguna, með djúpum löggum og loki og smá höldu. Margir dáðust að körfum Jóns, bæði að gerð og útliti. Í þessari ferð, sem ég minntist á, var ég látinn fylgja Jóni fram að Fossi (Selfossi) til Gunnars bónda Einarssonar. Á heimleiðinni kom hann einnig að Helli, en var þá í fylgd með lestamönnum úr Tungunum. Var hann þá látinn halda í bandspotta úr aftasta hestinum ... Ég heyrði sagt að sjálfur færi hann með fylgd upp í Úthlíðarhraun að útvega sér tágar í körfurnar. Hann var mikill á velli, hár og þrekinn, hvítleitur með alskegg, ekki þykkt. Hann var látinn ganga á milli bæja í Tungunum á sinni þyrnum krýndu ævibraut. Böðvar á Laugarvatni skrifaði ennfremur svo um Jón blinda: Á meðan hann hafði sjón máti svo heita, að hann bæri af yngri mönnum af myndarlegheitum og greind og allri karlmennsku, og svo var það reyndar alla ævi. En snemma mun hafa borið á því að hann væri nokkuð ör í skapi og hefur sjálfsagt ekki um batnað eftir að hann missti sjónina fyrir fullt og allt ... Það var verk okkar krakkanna að leiða Jón á milli bæja og gerði ég það oft síðustu ár mín í Úthlíð. Var hann ósköp góður við mig og svo mun hann hafa verið við öll börn, því hann var afar barngóður ... Biskupstungnamenn báru Jóni Gissurarsyni misjafnt söguna og jafnframt komu þeir ekki alltaf vel fram við hann. Jón var vel hagmæltur; hann notaði þann hæfileika sem vopn í lífsbaráttunni og gat átt það til að senda mönnum meinleg skeyti í ferskeytluformi ef honum sárnaði. Síðast dvaldi hann í Kjarnholtum og þar dó hann 15. janúar 1903, á 75 aldursári. Séra Magnús Helgason, síðar skólastjóri Kenn- araskólans, var prestur Biskupstungnamanna um 20 ára skeið, frá 1884 til 1905 og talinn með mestu ræðumönnum í prestastétt landsins. Hann hafði oft gefið sér tíma til að spjalla við Jón Gissurarson og honum var umhugsunarefni hin meinlegu örlög annarsvegar og hinsvegar andlegt atgervi Jóns. Séra Magnús jarðsöng Jón frá Haukadalskirkju og flutti þá að mörgum þótti merkilega útfararræðu. Það var þó sízt af öllu reglan þegar sveitarlimir áttu í hlut að prestar færu að vanda sig sérstaklega. Daginn fyrir jarðarförina hefur Magnús skrifað svo í dagbók sína: „Bylur, svo regn“. Næsta dag, laugardaginn 24. janúar ritar hann: „Farið af stað kl. 8 upp að Haukadal, færð afar ill. Kl. 2.30 jarðaður Jón Gissurarson. Gisti í Haukadal. Andvökunótt. Menn geta velt því fyrir sér hversvegna presturinn gat ekki sofnað eftir að hafa jarðsungið sveitarliminn og haldið yfir honum eftirminnilega ræðu. En ef til vill var séra Magnús aðeins þreyttur eftir langa göngu frá Torfastöðum að Haukadal í umbrotafærð. Í blaðinu Fjallkonunni var getið um lát Jóns Gissurarsonar með svofelldum orðum: Nýdáinn er Jón nokkur Gissurarson sveitarlimur í Biskupstungum, nálega áttræður. Hann missti sjónina af slysum á bezta aldri og varð að lúta þeim íslenzku örlögum „að fara á sveitina.“ En

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.