Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 10

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 10
10 Litli-Bergþór stundaði hann nám við íþróttaskólann í Haukadal. Við nutum þess að ferðast saman tveir víða um landið á efri árum Steina. Það held ég að hafi verið þær bestu stundir sem við áttum saman. En ef minnst var á utanlandsferðir heyrðist „Ég fer ekki óbundinn úr landi“. Mikla ánægju hafði Steini af að fara í fjallferðir og réttir fram eftir ævinni. Ekki var fyrir að fara óhófi á áfengi í gegnum lífið. En þegar tappi var tekinn úr flösku í örfá skipti á ári var tekið rösklega á því. Það var annaðhvort af eða á. Ekki kom til greina að blanda vínið, bjór eða léttvín þýddi ekki að nefna. Sturtað var í sig með miklum hraða og áhrifin létu ekki á sér standa. Það var eins og losnaði úr læðingi allur hans mikli persónuleiki. Við þessar aðstæður var Steini fyrirferðarmikill, glaðvær og söng af þvílíkri innlifun, var allra manna skemmtilegastur og kærleiksríkastur og ekki laust við að hann yrði stríðinn. Hans daglegi barlómur hvarf og honum fannst sér allir vegir færir. Það féllu allir sem í kringum hann voru í skuggann af honum þegar hann var í þessum ham. Óskar Björnsson frændi minn hefur oft rifjað upp réttarferð þeirra frændanna fyrir margt löngu. Heimleiðina riðu þeir upp Eystri Tungu og ákváðu að koma við hjá Sigurði Greipssyni á Sandinum eins og kallað var á mínum bæ, öðru nafni við Geysi. Það var slagveðursrigning og ákveður Steini að fara með hrossin inn fyrir dyrnar á hótelinu og inn í eldhús. Enginn var heimavið annar en Sigurður. Steini og Óskar fara upp á loft þar sem Sigurður tók þeim fagnandi. Þar þáðu þeir veitingar og stöldruðu nokkuð lengi við. Þegar frændurnir búa sig til heimferðar biður Steini Sigurð um greiða. Hvort hann væri nú ekki fáanlegur til að geyma fyrir sig hrossaket. Sigurður hafði rúmar kæligeymslur og var vanur að geyma fyrir nágranna sína matvæli. Það var því meira en sjálfsagt að geyma ketið. Steini segir Sigurði að hann sé nú með hrossaketið með sér. Þeir fara niður stigann og inn í eldhús. Þar blasa við reiðhestarnir í fullu fjöri búnir að gera þarfir sínar og nokkurn usla. Frændurnir áttu fótum fjör að launa þar sem Sigurður brást við ævareiður og þarf ekki að undra. Ekki fara sögur af því hvernig Sigurði gekk að fyrirgefa nágranna sínum þetta uppátæki. Úr því minnst er á hrossaket, þá var mataræði Steina nokkuð einsleitt. Hann elskaði saltað ket, hvort sem var hrossa- eða kindaket og hann var mikið fyrir sykur. Hann borðaði saltket flesta daga vikunnar meðan hann eldaði sjálfur í sinn pott, og hann tók það beint úr saltketstunnunni án þess að afvatna. Þegar hann borðaði hjá mér bað hann ævinlega um salt út á matinn sama hvaða nafni hann nefndist. Fékk sér jafnvel salt í lófann og setti í sig. Ætli hann hafi ekki verið saltfíkill. Það kom því ekki á óvart að blóðþrýstingurinn fór upp úr öllu valdi þegar komið var yfir miðjan aldur. En Steini gerði bara grín að því, skeytti því engu og hélt áfram saltketsáti. Hann bakaði hnausþykkar ljúffengar pönnukökur og kenndi mér bráðungum þá iðju. Pönnukökurnar voru sykraðar ríflega. Sett var aukalag af sykri milli raða þegar þeim var staflað. Hann var ekki matvandur og tilbúinn að prófa flestan mat. Ekki þó fuglaket. Uppáhaldsálegg á brauð var saltketsflot. Líf þeirra bræðra Steina og föður míns var mjög samofið. Því miður var samkomulagið milli þeirra oft erfitt. Báðir voru þeir skapmiklir. Í hreinskilni sagt hafði þó faðir minn stífari lund. Oft kom til þess að þeir rifust og skömmuðust hvor í öðrum. Sjaldnast var hægt að greina hverjar ástæðurnar voru. Í smalamennskum og fjárstússi gekk mikið á. Það var samt oftast fljótt úr þeim og það lygndi og þá töluðu þeir oft saman eins og menn. Það var eins og þeir gætu hvorki saman verið né aðskildir. Þeir báru samt sem áður umhyggju hvor fyrir öðrum. Það var sammerkt með þeim að þeir gátu gert stórmál úr smámunum, en yfirleitt var það svo, ef mikið lá við, að þeir sýndu mikla yfirvegun og rósemi. Aldrei verður fullþökkuð sú velvild sem Steini sýndi mér er við báðir lifðum. Þegar hallaði undan fæti í mínum búskap og tekin var ákvörðun um að bregða búi sýndi Steini því mikinn skilning og það met ég mikils. Ég held ég geti leyft mér að tala fyrir munn okkar barna systkina hans þegar ég segi að hann átti mikið í okkur öllum og við í honum. Hann sýndi okkur einstaka væntumþykju. Eftir stendur minning um mikla persónu. Eins og segir í grafskriftinni á leiði hans í Haukadal: „Vandaður drengur, vinur í raun“. Kristófer Tómasson. Ungmennafélag Biskupstungna sendir félögum sínum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.