Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 41

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 41
Litli-Bergþór 41 Aðalfundur LSE Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda var haldinn á Hótel Örk í Hveragerði dagana 30.-31. ágúst síðastliðinn. Það var Félag skógareigenda á Suðurlandi sem tók á móti skógarbændum þetta árið í samstarfi við stjórn og starfsmann LSE, en fundurinn færist á milli landshluta og bera skógarbændafélögin á viðkomandi stað þungann af undirbúningi fundarins. Edda Björnsdóttir (Austurlandi) formaður LSE setti fundinn og flutti skýrslu stjórnar í síðasta sinn en hún gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Jóhann Gísli Jóhannsson (Austurlandi) var kjörinn formaður LSE en aðrir stjórnarmenn eru María E. Ingvadóttir (Suðurlandi), Anna Ragnarsdóttir (Norðurlandi), Bergþóra Jóns- dóttir (Vesturlandi) og Sighvatur Jón Þórarinsson (Vestfjörðum). Ýmis mál voru lögð fyrir fundinn m.a um eignarhald á kolefnisbindingu í skógrækt, breytingar á lögum samtakanna, endurskoðun á uppbyggingu félagskerfis skógarbænda og áskorun til stjórnvalda um að vinna eftir lögum nr. 95 frá 2006 um landshlutaverkefni í skógrækt. Mjög heitar umræður sköpuðust í kringum kolefnisbindinguna og er mörgum skógarbændum mikið niðri fyrir um að ríkið hirði ekki allt í eigin vasa af kolefniskvótanum heldur láti það renna til skógræktar eða til skógarbónda eftir stærð skógræktar! Þetta er mjög flókið mál, eins og svo oft var að orði komist, en mjög öflug nefnd fyrir hönd skógarbænda er búin að vera að störfum til að ná á fundum og samningum við „ráðuneytið“. Enn er þó langt í land þangað til þessir hlutir verða komnir á hreint og hvernig þessari kolefnisbindingu verður skipt. Hrönn Guðmundsdóttir tók formlega við starfi framkvæmdastjóra Landsamtaka skógareigenda (LSE) af Birni B. Jónssyni. Starfshlutfallið hefur verið aukið talsvert þar sem umfang samtakanna er að færast í vöxt eins og skógræktargreinin öll er að gera. Talað er um að skógrækt verði orðin mikilvæg atvinnugrein innan fárra ára. Lokaorð Eins og við sögðum í upphafi þá hefur það verið til gleði að eiga skóg. Við erum ekki bara að njóta þess að horfa á trén vaxa og dafna, komast smám saman að því að jörðin okkar er að verða verðmætari og hafa gaman af því að vinna við skóginn. Það var t.d. augljóst okkur í Hrosshaga þetta haustið að kornið varð betra eftir þetta erfiða sumar en annars út af skjólbeltunum, trén skýla og hækka hitastigið. En hver er nú tilgangurinn með þessu öllu, kann einhver að spyrja. Og sumir agnúast út í það að lokað sé fyrir útsýnið. Vissulega er ekki bæði sleppt og haldið. Allt þarf að vera undir stjórn, ekki má planta hvar sem er þó það hafi kannski ekki verið spáð í það á okkar fyrstu árum. Skógur á Íslandi er bæði til nytja og yndisauka. Víða er erfitt að koma upp skógi, bæði veðurfars- og jarðfræðilega. Þar er lögð áhersla á að hann skapi skjól og sé til útivistar og ánægju, en þar sem hagstæðust skilyrði eru, þar á hann einnig að verða til nytja, til timburframleiðslu. Við höfum oft sagt í gamni að við ætlum að höggva trén eftir 80 ár, og víst er að einhver á eftir að gera það. En samt er núna komið að grisjun hjá okkur þannig að vonandi förum við með keðjusögina okkar út í skóg strax í vetur og hefjumst handa. Skógarbændur hafa mjög gaman af því að hittast og skoða skóginn hver hjá öðrum. Við lærum líka svo mikið af því að sjá hvað aðrir eru að gera. Það er svo ótal margt við skóginn sem gefur manni ánægju og erfitt er að skilgreina, það þarf ekki að vera annað en fuglasöngur af grein eða uglan sem flýgur yfir, kyrrðin og aukasúrefnið, að ég tali ekki um að leggjast niður og horfa upp í himininn í gegnum laufþykknið. Grein þessa tóku saman skógarbændurnir: Sigríður J. Sigurfinnsdóttir (Sigga Jóna) í Hrosshaga, stjórnarformaður Suðurlandsskóga, og Hildur María Hilmarsdóttir á Spóastöðum, stjórnarmaður í Félagi skógarbænda á Suðurlandi. Þess má og geta að báðar hafa lokið námi í Grænni skógum 1 og 2 á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.