Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 15

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 15
Litli-Bergþór 15 Ég byrjaði í barnaskólanum í Reykholti, einhvern tíman eftir 3. janúar 1929, 10 ára gömul. Ég man að þegar ég fór í skólann í fyrsta sinn var enginn botn í Tungufljótsbrúnni. Aðeins borð öðru megin, sem brúarsmiðirnir notuðu. Það var hífandi rok og sá sem hjálpaði mér yfir hélt í mig og ég gleymi því ekki að ég sá beint niður í vatnið. Áður var farið yfir á hestum á Fossvaði, sem er rétt fyrir ofan fossinn Faxa. Guðjón Rögnvaldsson á Tjörn kenndi mér smávegis fyrsta veturinn, svo kom Stefán Sigurðsson. Hann var ótrúlega duglegur kennari, kenndi allt. Við vorum um 20 krakkar, vorum hálfan mánuð í skólanum og hálfan mánuð heima og þar var ráðskona sem eldaði ofan í okkur. Ég var fjóra vetur í barnaskólanum. Svo fór ég í húsmæðraskólann á Staðarfelli veturinn 1942 til 43, það var nú öll skólagangan. Ég var einn vetur í Grindavík þegar ég var rúmlega tvítug og nokkrar vikur vann ég á heimili hjá systur mömmu að Tóftum í Grindavík. Annars var ég alltaf heima þar til ég gifti mig og hafði nóg að gera. Við vorum með ær í þrem húsum og sauði í tveim húsum. Sauðirnir voru aldir fyrir kjötið, slátrað heima þriggja vetra, kjötið reykt og selt fyrir jólin í Reykjavík. Þeir fóru einu sinni saman pabbi og Einar í Holtakotum með hesta og sleða og lentu í miklum snjó og erfiði og þurftu að snúa við. Ullin var spunnin á 25 þráða vél, sem nokkrir bændur áttu í félagi og var hún flutt milli bæjanna. Heima var það Sveinn sem spann og svo var prjónað og ofið. Kristrún sýnir blaðamanni fallegt salonsofið teppi, sem hún óf á yngri árum. Á veggnum í stofunni í Efstadal hanga líka myndir af fallegum hestum. Kristrún: Þetta er Bergstaða-Bleikur sem pabbi átti. Valgerður Magnúsdóttir teiknaði hana eftir mynd sem tekin var á Álfaskeiði. Ég hef alltaf verið mikið fyrir hesta og kindur. Ég man að þegar við systur vorum litlar, vildum við reka á fjall með pabba. Þórunn var þá um fimm ára og var sett á Bergstaða-Bleik og ég, ári eldri, var sett á lítið taminn fola sem hét Skúrel (af því að það rigndi svo mikið þegar hann fæddist!) og hnýtt í taglið á Bleik. Við Drumboddsstaði sagði pabbi: „Farðu nú heim með stelpurnar Bleikur“ og það gerði hann!. Pabbi sagði stundum að maður ætti að njóta lífsins meðan maður gæti og hafa gaman af því. Ég held að það sé eitthvað til í því. Pabbi var stundum settur í leitir við Seyðisá og kom þá ekki fyrr en um miðjan dag á Tungnaréttadaginn. Karlarnir í Tunguhverfinu reiddu okkur krakkana þá yfir á Valdavaði, sem er dálítið fyrir ofan gömlu Tungnaréttirnar, svo við kæmumst í réttirnar. Pabbi reiddi okkur svo til baka.Kristrún við salonsofna teppið. Foreldrar Kristrúnar, Sigurfinnur og Guðrún fyrir utan húsið á Bergsstöðum. Það var þá búið að vera í eyði í einhvern tíma.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.