Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 29

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 29
Litli-Bergþór 29 Jóni Gissurarsyni var stefnt til réttarhalds og gekkst hann fúslega við verknaðinum. Hvort sem Guðmundur á Torfastöðum átti eitthvað óuppgert við hann áleit rétturinn að Jón væri brotlegur maður og dómsuppkvaðningin var svohljóðandi: Finnur rétturinn með tilliti til hinnar mjög svo litlu verðhæðar þess út á fölsku ávísunina af ákærða tekna varnings og ákærða fúsu játningar og umvitnaðrar tæpa kristindómsþekkingu, að ákærði sem kominn er langt yfir lögaldur sakamanna og ei hefur fyrr verið lögsóttur eða straffaður fyrir nokkurt lagabrot, sé hæfilega þungt fyrir þennan misverknað hans með tuttugu vandarhagga refsingu. Dómnum var fullnægt með því að sýsluböðullinn lét Jón hafa öll tuttugu vandarhöggin, en að auki var honum gert að endurgreiða verzluninni 55 skildinga. Hér var um smáafbrot að ræða og sjálf refsingin, hýðing með tuttugu höggum, gefur hugmynd um aldarandann og miskunnarleysi yfirvalda, ekki sízt þegar einhverjum minnimáttar varð á í messunni. Eftirtektarvert er að dómurinn virðist hafa verið mildaður vegna þess að sakborningurinn hafði aðeins „tæpa kristindómsþekkingu“. Fátt gerðist frásagnarvert næstu árin í lífi Jóns Gissurarsonar. Vegna dugnaðar og verklagni var hann eftirsóttur í vinnu til sjós og lands. Þá kom reiðarslagið, miskunnarlaust eins og örlögbundið straff: Hann missti sjónina, fyrst á öðru auga og eftir skamman tíma einnig á hinu. Það var áfall sem segja má að hafi algerlega kippt fótunum undan hverjum manni í þjóðfélagi 19. aldar. Ekki er ljóst hvernig þetta vildi til, en af slysum var það. Líklega sprakk hvellhetta í fyrra skiptið en í síðara skiptið fékk hann glóandi smiðjugjall í augað. Jón var þá 29 ára og til heimilis að Kasthúsum á Álftanesi; búinn að vera þar vinnumaður í tvö ár. Það var í aprílmánuði á því herrans ári 1858 að ógæfan dundi yfir. Blindur á báðum var Jón Gissurarson fluttur á fund nafna síns, Hjaltalíns landlæknis í Reykjavík. Að líkindum hefur hann engan þekkt í höfuðstaðnum því landlæknirinn gekk sjálfur í að útvega honum verustað á meðan hann gerði tilraun til að bjarga sjóninni. Sá verustaður var í þrengslum hjá fátæku en góðu fólki, Ásmundi Sigurðssyni í Grjóta í Grjótaþorpinu og fjölskyldu hans. Eins og nærri má geta reyndust lækningatilraunir Jóns Hjaltalíns árangurslausar. Í framhaldi af því var Jón Gissurarson í einhverskonar hjúkrunarmeðferð hjá Skafta lækni og smið í Skaftabæ og hresstist hann brátt. Reikningur frá Skafta barst bæjarfógetanum í Reykjavík sem framvísaði honum til sýslumannsins í Árnessýslu með svohljóðandi orðsendingu: „Læt hjermeð fylgja reikning frá Skafta Skaftasyni fyrir hjúkrun sjúklingsins Jóns Gissurarsonar og lækningagöngur til hans að upphæð 5 rd. er ég leyfi mér að vænta fyrir tilstilli herra kammerráðsins borgaða frá Biskupstungnahreppi.“ Dvöl Jóns hjá Ásmundi í Grjóta varð lengri en við hafði verið búizt, frá því um vorið 1858, allt sumarið, næsta vetur og fram á sumar 1859. Þá fyrst var búið að ráðstafa honum á fæðingarsveit sína, Biskupstungnahrepp. Ásmundur í Grjóta og Guðbjörg kona hans voru bæði fullorðin og lasburða og í bréfi sem Ásmundur skrifaði sýslumanni Árnessýslu kvartaði hann yfir því að sér hafi engin borgun borizt fyrir sjúklinginn og þau hjónin væru nærri því að fara á sveitina. Auk hjónanna í Grjóta og Jóns Gissurarsonar voru þar til heimilis ung kona með barn og tvær aldraðar konur. Þar hefur hver smuga verið nýtt. Ekki virðist hafa verið alveg ljóst hvort Jón Giss- urarson átti framfærslu í Biskupstungum þar sem hann fæddist, eða í Flóanum þar sem hann ólst upp. Bréf fóru á milli en hreppstjórnarmenn í Sandvíkurhreppi vildu ekki viðurkenna að Jón ætti þar framfærslusveit. Eftir að sýslumaður hafði ritað bæjarfógetanum í Reykjavík og óskað eftir „æviferilsskýrslu“ frá Jóni, var loks hægt að komast að niðurstöðu: „Var þá Reykjavíkur bæjarpóletíréttur settur“ og mætti Jón fyrir réttinum, áminntur um sannsögli, og staðfesti fæðingarstað sinn í Laugarási í Biskupstungum. Enda þótt þetta væri ljóst vildu hreppstjórnarmenn í Tungum ekki fallast á þann úrskurð að þeir yrðu að „forsorga téðan Jón Gissurarson“, heldur bæri Sandvíkurhreppi að gera það. Fóru nú bréf milli yfirvalda og alltaf beið Jón hjá fólkinu í Grjóta. Var um sinn gefið með honum úr sjóði Reykjavíkurbæjar. Þar kom þó að bæjarfógeti lét flytja Jón Gissurarson austur til sýslumannsins í Árnessýslu; það var í júlímánuði 1859. Þaðan var hann síðan fluttur upp í Biskupstungur og fylgdi með alllöng lagaskýring handa sveitarstjórnarmönnum. Einnig fylgdu Jóni óborgaðir reikningar uppá 77 rd. sem Tungnamönnum var ætlað að greiða. Í bréflok var óskað eftir því að Jóni Gissurarsyni yrði séð fyrir góðum samastað. Til bráðabirgða tóku sveitarstjórnarmenn í Tungun- um við Jóni, greiddu reikningana sem höfðu verið lækkaðir niður í 50 ríkisdali, en niðurstöðunni vildu þeir ekki una. Báðu þeir um úrskurð amtmanns, sem taldi að Jón ætti tvímælalaust sveitfestu í Biskupstungum. Þá var þrautaráðið að leita til stjórnar dómsmála úti í Kaupmannahöfn, sem vitaskuld gerði ekkert annað en að staðfesta úrskurðinn. Það var ekkert einsdæmi að sveitarstjórnir reyndu með flestum ráðum að koma hreppsómögum af sér, en hér var langt seilst og óvenjulegt að slík mál kæmu til úrskurðar úti í Kaupmannahöfn. En nú gat „forsorgun“ Biskupstungnahrepps á Jóni Gissurarsyni hafizt og hún stóð í 44 ár. Á yngri árum sínum fékkst Jón eitthvað við að bregða körfur úr viðartágum. Þeirri iðju hélt hann áfram eftir að hann missti sjónina og nú kom meðfæddur hagleikur honum til góða. Með velvild og einhverju skipulagi hefði hann hugsanlega getað unnið fyrir sér með þessari iðju, en mörg dæmi eru um það úr þjóðfélagi 19. aldarinnar, að óvenjulegir hæfileikar voru lítils eða einskis metnir.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.