Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 12

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 12
12 Litli-Bergþór Jessika Kenney og Christian Wolff undir stjórn Ilans Volkov. Eftir þátttöku í Óperunni Ragnheiði í ágúst 2013, sem sagt er frá hér að ofan, var kórinn beðinn um að syngja í ýmsum tilfallandi giggum, eins og við friðarsúlu Yoko Ono og í afmæli Egils Ólafssonar í október 2013. En aðalverkefni haustsins voru æfingar fyrir tónleikaferð okkar til London 14. – 17. nóvember. Kammerkór Suðurlands varð þess heiðurs aðnjótandi að hið virta breska tónskáld, sir John Tavener, valdi kórinn til að frumflytja nýtt verk eftir sig „Three Shakespeare Sonnets“, sem hann tileinkaði eiginkonu sinni Maryanna eftir að hann reis upp úr erfiðum veikindum. En Tavener og Hilmar Örn hafa haft náið samstarf um árabil. Var ákveðið að tónleikarnir yrðu í Southwark Cathedral, hinni gömlu sóknarkirkju Shakespeares í London föstudaginn 15. nóvember 2013 - og þá var bara eftir að fjármagna dæmið! Leigu á kirkju, hljóðfæraleikara, einsöngvara o.s.frv, auk fargjalda og gistingar. En allt gekk þetta upp með góðra manna hjálp. Samstarf sir John Tavener og Kammerkórs Suðurlands hófst árið 2003 þegar Hilmar Örn fór til Englands og var gestur tónskáldsins í eina viku. Þar voru lögð drög að verkefnavali fyrir geisladisk með verkum Taveners og ákvað tónskáldið þá að semja nýtt verk, Schuon Hymnen, tileinkað Kammerkór Suðurlands. Þá hófst sjö ára vinnuferli sem endaði með útgáfu geisladisksins Heilagur draumur á Íslandi og Englandi. Diskurinn fékk lofsamlega dóma og var valinn plata mánaðarins í október 2010 hjá Gramophone og tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2011 í flokknum ,,sígild og samtímatónlist“. Auk Shakespearesonnettana og fleiri verka eftir Tavener, var ákveðið að flytja á þessum tónleikum Kammerkórsins nokkur af verkum ungu íslensku tónskáldanna, sem við fluttum á síðasta ári, sem og frumflytja nútímatónverk eftir ungt og upprennandi tónskáld frá Wales, Jack White að nafni. En Hilmar Örn hafði kynnst honum í gegnum samstarfsaðila í London. Dramatísk tónleikaferð til Lundúna í nóvember 2013. Eftir strangar æfingar, og þegar einungis tveir dagar voru til brottfarar, bárust þau sorglegu tíðindi að tónskáldið, sir John Tavener, hefði látist að morgni 12. nóvember. Fjölskylda hans, sem Hilmar Örn var í nánu sambandi við, tók samt ekki annað í mál en að tónleikarnir yrðu haldnir, en þetta breytti óneitanlega stemmningunni í hópnum, sem hélt utan árla morgnuns þann 14. nóvember. Er ekki að orðlengja það, að það brast á fjölmiðlafár við komuna til Lundúna. Kórinn fór rakleiðis í beina útsendingu í útvarpi BBC, þar sem hann flutti hluta af íslenska prógramminu og tekin voru viðtöl við Hilmar og Björgu um tengsl þeirra og kórsins við Tavener. Eins voru sjónvarpsmyndavélar og fréttamenn í kringum kórinn á æfingunni um kvöldið. Biðraðir mynduðust við kirkjuna á föstudeginum og komust færri að en vildu, voru hátt í 1000 manns í kirkjunni á tónleikunum um kvöldið og hver krókur og kimi setinn. Tónleikarnir tókust frábærlega vel í alla staði og fékk kórinn og kórstjórinn mikið hrós fyrir flutninginn. Gagnrýnendur bresku dagblaðanna héldu vart vatni (í orðsins fyllstu, því tárin flóðu) og gáfu tónleikunum fjórar stjörnur sem telst mjög gott. Fjölskylda Taveners var viðstödd tónleikana og maður spyr sig hvað hann sá fyrir? Tónleikarnir enduðu á sonnettunni (nr. 71) sem byrjar á orðunum „syrgðu mig ekki þegar ég er dáinn“. En það var sæll og stoltur kór sem flaug heim á rósrauðum skýjum á sunnudagskvöldið - og lenti í fárviðri á Keflavíkurflugvelli. Hluti kórsins, sem flaug með Wow air lenti norður á Akureyri og komst ekki til baka suður fyrr en kl. tvö um nóttina - í sama fárviðrið og blindbyl á Reykjanesbraut. En heim komust þreyttar Tungnakórkonur milli kl. sex og sjö um morguninn í heiðskíru og fallegu veðri, sem var allsstaðar á Íslandi nema á Reykjanesi þetta kvöld!. Nú er fyrirhugað að fylgja Tavenerplötunni eftir í samvinnu við Smekkleysu og Chester Music í London, sem er útgefandi og umboðsaðili Taveners, og fara með Kammerkór Suðurlands á ýmsar tónlistarhátíðir í Evrópu árið 2014, en Tavener hefði orðið sjötugur á næsta ári. Kórinn hefur fengið breskan umboðsmann sem vinnur að framgangi hans á erlendri grund og einnig er kórinn í samstarfi við ÚTÓN, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Kammerkór Suðurlands hefur hlotið styrk frá Kraumi tónlistarsjóði sem er mikilvæg viðurkenning á starfi kórsins og stuðningur. Texti: Geirþrúður Sighvatsdóttir Viðar Gunnarsson sem Brynjólfur biskup og Guðrún Jó- hanna Ólafsdóttir sem Ingibjörg vinnukona í Skálholti.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.