Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 16

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 16
16 Litli-Bergþór Þú hefur heyrt söguna um sýrukerið á Bergsstöðum og Bergþór í Bláfelli? Þjóðsagan segir að Bergþór hafi klappað kerið í móbergsklöppina vestan við túnið meðan hann beið eftir að vera færður drukkur. Þetta er hola, um 1,4 m í þvermál og 55 sm að dýpt og er sagt að hann hafi mælt svo fyrir að það skyldi alltaf geymd sýra í kerinu og hún endurnýjuð árlega. Ef ekki væri passað upp á það, myndi eitthvað koma fyrir. Það var alltaf passað vel upp á sýrukerið heima og skipt um sýru í því á hverju ári, nema tvisvar. Í annað skiptið drápust tvö folöld og í hitt skiptið einhverjir gemlingar minnir mig. Það er svo skrítið að sýran var alltaf undir og blandaðist ekki vatninu, vatnið flýtur ofaná og rennur út úr ef kerið fylltist. L-B: og svo kynnist þú Vilmundi og þið flytjið í Efstadal? Kristrún: Já, við Vilmundur giftum okkur 1945, bjuggum fyrst heima á Bergsstöðum en fluttum í Efstadal, á efri bæinn, vorið 1947. Keyptum jörðina af foreldrum Villa og tókum við búi af Auðbergi bróður hans. Það var rigningarsumar og Heklugos og Sigurfinnur var fimm vikna þegar við fluttum! Vilmundur var fæddur í Efstadal 1916 en fluttist fjögurra ára í Arnarholt og ólst þar upp hjá foreldrum sínum, Indriða Guðmundssyni frá Kjarnholtum og Theodóru Ásmundsdóttur frá Efstadal. Þau voru sjö systkinin, elstur Ingvar Ásmundsson fæddur 1913, svo Magnhildur, kona Sveins uppeldisbróður míns á Drumboddsstöðum, fædd 1914, Auðbergur fæddur 1915, Vilmundur fæddur 1916, Steinunn fædd 1918, Guðný fædd 1921 og Magnhildur (Hulda) fædd 1924. Vilmundur hafði verið eina 10 vetur á vertíð í Keflavík sem landformaður áður en hann gerðist bóndi í Efstadal. Síðasta árið fórst báturinn sem hann vann hjá með manni og mús. Þá um vorið gafst honum kostur á að kaupa Willys herjeppa, en hafði þá aldrei tekið í stýri á bíl. Hann fór í bæinn, og lærði á hálftíma það helsta sem viðkom bílnum á kappreiðavelli í bænum. Síðan keyrði hann í skjóli nætur, próflaus, austur að brúnni á Tungufljóti, því vegurinn var ekki kominn lengra, og flutti daginn eftir með fjölskylduna, mig og Sigurfinn fimm vikna, yfir gömlu brúna á Brúará, og í Efstadal. Með okkur í þeirri ferð var Magnhildur systir hans á Drumboddsstöðum. Einhvern veginn kom hann bílnum yfir brúna þó léleg væri og varla nógu breið fyrir bílinn! Enda var hún ekki gerð fyrir bíla. Við farþegarnir vorum látin ganga yfir brúna og svo keyrði Villi með opna hurðina svo hann yrði fljótur út úr bílnum ef eitthvað kæmi fyrir. Magnhildur hjálpaði mér með barnið og þegar Sigurfinnur var óvær, gaf hún honum skyr og þá þagði hann! Sigurður og Guðrún voru á hinum helmingnum af jörðinni, á neðri bænum. Þeir voru náfrændur Siggi og Villi, Theódóra Ásmundsdóttir móðir Villa og Jórunn Ásmundsdóttir móðir Sigga voru systur. Siggi súper var þá eins árs, tæplega ári eldri en Sigurfinnur. Þau voru hjálpsöm og greiðvikin, en stundum var Siggi að flýta sér, eins og þegar hann ætlaði að slá fyrir Villa með traktornum og lenti utaní íbúðarhúsinu. Það voru miklir skruðningar og læti! Húsakosturinn var ekki góður í Efstadal. Íbúðahúsið gamalt og lítið og fyrsta árið var rottugangur, þar til það kom köttur sem settist að hjá okkur og hrakti kvikindin á flótta. Ég verð að segja að það var besti gestur sem ég hef fengið. Fjósið var gamalt og illa farið og þurfti að byggja það upp. Fyrst var byggt úr holsteini, en það gafst ekki vel. Það var óþétt og lélegt. Við uppgröftinn kom upp mikið af mannabeinum og þá kom í ljós að þarna hafði verið bænhús og grafreitur. Við höfðum samband við Þjóðminjasafnið og eftir að hafa fengið leyfi var beinunum safnað saman í poka og þau jörðuð rétt utan við grunninn. Seinna kom upp meira af beinum þegar nýja fjósið var byggt og í hænsnakofanum við fjósið mátti sjá tanngarða standa út úr moldarveggjum. Mér var hálf illa við þetta en var samt ekki hrædd. Ekið yfir gömlu Brúarárbrúna 1958. Kristrún með afla dagsins!

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.