Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 18

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 18
18 Litli-Bergþór Haukadalsskógur – útivistarskógur allt árið Einn af fallegustu skógum á Suðurlandi er að finna í Haukadal. Haukadalsland var vaxið birkiskógi fram eftir öldum, bæði í dalnum sjálfum og á Haukadalsheiðinni allt inn að Langjökli. Þegar skógunum var eytt með beit og skógarhöggi var jarðvegurinn berskjaldaður fyrir roföflum og blés jarðvegur í burtu af stærstum hluta heiðarinnar og ógnaði gróðurlendi dalsins. Haukadalur komst í eigu Skógræktar ríkisins eftir að Kristian Kirk, danskur kaupsýslumaður, keypti jörðina og gaf Skógræktinni hana árið 1939. Var Haukadalskirkja endurbyggð fyrir styrk frá Kristian og var hafist handa við að stöðva jarðvegsfok í heiðarbrúnum með því að gera sandvarnargirðingar úr hrísi. Hefur á síðustu áratugum verið unnið stórvirki í uppgræðslu á svæðinu í samvinnu við Landgræðslu ríkisins sem hefur aðallega unnið á heiðinni sjálfri ásamt Landgræðslufélagi Biskupstungna. Samhliða uppgræðslunni var hafist handa við að gróðursetja ýmsar trjátegundir í kjarr og lynglendi í brekkum og flatlendi Haukadals. Hafa tæplega tvær milljónir trjáa verið gróðursettar í skóginn síðustu 74 árin. Lágvaxið birki- og víðikjarr var fyrir í brekkum á svæðinu, en eftir beitarfriðun hafa birkiskógarnir breiðst út langt upp hlíðar Sandfells og fyllt mýrlendi, árbakka og fyrrum rofsvæði. Lúpínu var sáð í rof í heiðarbrúninni og hefur hún náð að þekja stærstu moldirnar og hefur hún síðan víða hopað undan kjarri og skógi. Síðustu árin hefur aðallega verið gróðursett í heiðarnar ofan við skóginn sem og í jólatrjáareiti og tilraunir. Grisjun skóganna hefur aukist mikið síðustu fimm árin og skapað ný störf í skóginum. Þúsundir rúmmetra af grisjunarviði hafa verið felldir til að skapa betra vaxtarrými fyrir eftirstandandi skóg. Eru skökk og margstofna tré fjarlægð og hefur mest af efninu verið selt í járnbræðslu eða spónaframleiðslu. Ýmsar aðrar afurðir eru seldar úr skóginum auk timburs, s.s. viðarkurl, hjallaefni, borðviður og jólatré. Öll aðstaða til útivistar fyrir almenning hefur verið stórbætt á síðustu árum, m.a. með skógarstígum fyrir hreyfihamlaða, reiðleiðum, grillaðstöðu, bálskýlum og salernishúsum. Hefur stígaverkefnið verið unnið í samvinnu við Sjálfsbjörgu á Suðurlandi og notið styrkja frá ýmsum aðilum. Er skógurinn í Haukadal rómað svæði til útivistar fyrir alla fjölskylduna, opinn allan sólarhringinn, alla daga, allt árið. Velkomin í Haukadalsskóg! Hreinn Óskarsson skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.