Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 40

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 40
40 Litli-Bergþór í kennslu. Ný heimasíða, sem kostuð er af verkefninu og nýtist Landshlutaverkefnunum, Landssamtökum skógareigenda og skógarbændum þar með er http:// www.skogarbondi.is/ . Í Svíþjóð hefur verið sagt að „það að vera skógareigandi þýðir að þú ert atvinnurekandi. Að reka fyrirtæki er það sama og að keyra bíl. Fyrst af öllu verður þú að ákveða hvert þú ætlar, áður en þú leggur af stað“. Kraftmeiri skógur mun leggja áherslu á skógrækt sem fjölskyldufyrirtæki sem þarf að hlú að til að það nái árangri. Að hlúa vel að og sinna umhirðu á réttan hátt er oft á tíðum leiðin að hagkvæmri skógrækt. Til þess þarf þekkingu og skilning. Núna eru allir þessir þættir í fullum gangi og er byrjað að fara í heimsóknir á skógarjarðir til að skilgreina og skipuleggja næstu aðgerðir eins og grisjun. Er Björn Bjarndal hjá Suðurlandsskógum ásamt fleirum í stýrihóp sem heldur utanum verkefnið og leiðbeinir. Einnig eru að fara í gang leshópar eða leshringir þar sem skógareigendum verður boðið að hittast og ræða um skógrækt. Hver hópur mun koma alls sjö sinnum saman, tvo til þrjá tíma í hvert skipti, bæði inni í húsi sem úti í skógi. Stjórnendur leshópanna koma úr röðum skógarbænda sem lokið hafa námskeiðaröðum Grænni skóga og fengið þjálfun í stjórnun leshópa Kraftmeiri skóga. Grunnur að umræðum hvers kvölds byggir á bókinni Skógarauðlindin – ræktun, umhirða, nýting. Teknir verða fyrir ákveðnir kaflar bókarinnar í hvert sinn og efni þeirra rætt. Höfum við tekið að okkur að vera hópstjórar í þessum leshringjum með sitthvort svæðið, Sigga Jóna með skógarbændur búsetta á höfuðborgarsvæðinu en sem eiga skógræktir út á landi, Hildur með skógareigendur úr Árnes- og Rangárvallasýslu. Eins og lýsingin hér að ofan sýnir er þetta ákaflega spennandi og hlökkum við mikið til að vinna í þessum hópum til að efla og sameina krafta skógræktenda fyrir komandi skógarvinnuár. Þá eru einnig í gangi jólatrjáhópar skógarbænda víðs vegar að af landinu. Kennsla og aðstoð við jólatrjáaræktina mun koma frá Dönum sem eru samstarfsaðilar að Kraftmeiri skógum. Einn færasti sérfræðingur þeirra hefur komið hingað og á eftir að koma aftur og segja okkur til. Hóparnir voru settir af stað fyrir um þrem árum og hefur hópurinn verið einna öflugastur hér á Suðurlandi. Suðurlandsskógar (Sls) styðja við jólatrjáaræktina með því að veita ráðgjöf og einnig að koma upp skjólbeltum, en það er einmitt hluti starfs Sls, þ.e. skjólbeltarækt. Jólatrjáarækt Í Hrosshaga erum við byrjuð á jólatrjáarækt og einnig á fleiri bæjum hér í sveit og ýmsir í startholunum. En nú veltir fólk kannski fyrir sér, hvernig jólatrjáarækt? Hér á landi hefur sala á jólatrjám verið úr skógarreitum, aðallega fura eða rauðgreni sem plantað var til að verða að skógi en lítil tré eru höggvin sem jólatré þegar þau eru komin í rétta stærð og þar með grisjað lítillega. Núna erum við að hefja nýja ræktunaraðferð. Það má segja að þetta sé frekar garðrækt, akurræktun jólatrjáa er þessi aðferð kölluð. Svona gera Danirnir það, þeir hafa mikla reynslu og við sækjum okkur fræðslu í reynslubrunn þeirra og kunnáttu. Við tökum kannski gamalt tún undir ræktunina, bútum það niður í skjólbelti, mjög mikilvægt er að koma upp góðu skjóli og sumir eru komnir með það. Síðan plöntum við í beinar raðir og með nákvæmu millibili, oft 125 sm, aðallega rauðgreni, blágreni og fjallaþin. Einnig stafafuru en þá í rýrara land og ekki endilega með eins nákvæmu millibili, oft mólendi, jafnvel í kjarr. Beinu raðirnar auðvelda síðan alla vinnu og umhirðu, það þarf að vera hægt að koma vélum við, það þarf að halda grasi niðri, slá eða eitra, því miður virðist ekki vera komist hjá því. Síðan er talsverð handavinna þegar trén stækka, þá þarf að klippa þau til, binda upp nýjan topp ef hann brotnar o.m.fl. Þessar plöntur þurfum við að kaupa sjálf enda kemur hagnaðurinn eftir vonandi aðeins 10-12 ár, jafnvel fyrr. Með því að hugsa vel um plönturnar ná Danirnir allt að 95 % söluhæfum jólatrjám en annars ekki nema um 50 % svo það segir sig sjálft að það er til mikils að vinna. Svo á eftir að koma í ljós hvernig okkur gengur með þetta.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.