Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 8

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 8
8 Litli-Bergþór Það hefur fennt mishratt yfir sporin sem maður hefur gengið með samferðamönnum í tæpa hálfa öld. En seint mun fenna í huga mér yfir sporin sem við Steini gengum saman. Ég var samferða Steina föðurbróður mínum meira og minna í 37 ár og varð ég snemma fylgispakur honum. Návígi mitt við þá bræður Steina og Tómas föður minn var mikið um langt skeið. Sérstaklega meðan mitt búskaparbasl stóð um 11 ára skeið. Steinar Tómasson fæddist í Helludal 1917 og lést á Selfossi 2002. Tveimur árum áður en hann fæddist fluttu foreldrar hans, Ósk Tómasdóttir frá Brattholti og Tómas Bjarnason frá Drumboddsstöðum, að Helludal og þar var hann búsettur alla sína tíð síðan, utan tvö síðustu árin, sem hann eyddi á Ljósheimum á Selfossi. Þau voru sjö systkinin sem komust á legg. Eldri voru Helga á Gýgjarhóli, Sæunn í Hafnarfirði, Bjarni í Hveragerði og Tómas faðir minn í Helludal, yngri voru Magnús í Reykjavík og Eiríkur í Miðdalskoti. Systkinin eru nú öll látin. Steini var barnlaus og giftist aldrei. Um áratugaskeið deildi hann heimili með Ósk móður sinni og Möngu móðursystur sinni og sinnti þeim af stakri alúð. Eftir að þær létust árið 1968 bjó Steini einn í gamla bænum sínum í Helludal. Ég held að það dragi enginn úr því sem til þekkti að Steini var sterkur persónuleiki. Stórbrotinn maður með lítið hjarta. Sterklega vaxinn, dökkur yfirlitum með þykkar varir. Úr andlitinu mátti lesa festu og úr augunum hlýju. Maður andstæðna og býsna sérvitur. Oft hrjúfur á yfirborðinu og ör í skapi en í senn allra Ég held ég yrði ekkert bættari með það Kristófer Tómasson segir frá kynnum sínum af Steinari föðurbróður sínum í Helludal manna ljúfastur og meyrastur. Það kom best í ljós þegar börn og skepnur voru í hans návist, hann bráðnaði ef börnin komu í fang hans svo unun var á að horfa. Hann náði til barna og jafnvel ungmenna á augabragði og vann sér traust og trúnað þeirra. Hann tók ævinlega málstað þeirra sem minna máttu sín. Mont og tilgerð voru honum ekki að skapi. Hann mat sjálfan sig ekki eins og verðleikar stóðu til. Óvenjulegur húmor Steina var gjarnan skammt undan. Hann gat látið út úr sér stórskrítnar en meitl- aðar setningar sem enginn skyldi og virtust ýmist barnalegar eða teknar aftan úr forneskju. Í næstu andrá sagði hann svo gjarnan eitthvað djúpt úthugsað sem gat, að ég held, flokkast með heimspeki. Er mér minnisstætt heilræði sem hann lagði mér er ég hafði misst út úr mér einhverja vitleysu. Það var á þessa leið: „Reyndu að forðast að segja nokkuð Kristófer sem þú munt sjá eftir að hafa sagt“. Hann gat verið mjög fljótur að átta sig á aðstæðum og skynjaði vel líðan annarra. Var betur lesinn en margur hélt og fylgdist með innlendum og erlendum fréttum. Hann unni mjög bundnu máli og kunni lifandis ósköp af ljóðum og kvæðabálkum og þuldi þá stundum upp í hálfum hljóðum. Passíusálmana las hann alla á hverjum vetri upphátt svo lengi sem hann hafði heilsu til. Hann var fastur á sínum skoðunum og seldi þær ekki fyrir stundarvinsældir, eins og Inga frænka mín á Gýgjarhóli komst svo snilldarlega að orði í minningargrein um Steina. Í pólitík var hann sveigjanlegur en í trúmálum varð honum ekki hnikað. Hann var sannkristinn og undi því illa ef menn töldu sig trúlausa. Fyrir mér sem barni og unglingi var Steini ósköp venjulegur maður og áður en ég fór að fara af bæ, fannst mér flestir aðrir en mitt heimafólk óvenjulegt Kristófer Tómasson. Málverk af Steina, eftir Gísla Sigurðsson frá Úthlíð, sem prýðir heimili greinarhöfundar.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.