Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 38

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 38
38 Litli-Bergþór Skógurinn okkar - grisjunarmál Þar sem tvö tré koma saman þar er skógur, en þar sem tvær skógræktarjarðir koma saman, er bara gaman. Því höfum við fengið að kynnast í gegnum okkar starf sem skógarbændur og horfum við björtum augum til framtíðar í þeim verkefnum. Nú eru liðin 24 ár síðan skógrækt hófst á Spóastöðum og í Hrosshaga og eru nú samtals um 180 hektarar af samfelldum skógi á þessum jörðum. Lifun hefur verið misjöfn en allt er þetta nú að koma og er vel hægt að týnast og jafnvel villast í skóginum í dag. Að mestu er búið að planta í alla skipulagða reiti og undanfarin ár höfum við verið að setja íbætur og bera áburð á nokkur svæði. Næsta mál á dagskrá á þessum jörðum er að grisja en mikil grisjunarþörf er orðin og höfum við aðeins verið að taka niður af öspinni til að greiða leið og opna fyrir ljós á greninu sem leynist á milli. Öspin er fljót að vaxa og er sums staðar farin að skemma grenið, þannig að hún þarf að fara að víkja. Eins er komið að meiri stíga- og gatnagerð því þegar farið verður að grisja þarf að vera hægt að komast inn á milli svæða með allar gerðir af tækjum og tólum. Góður markaður hefur orðið til fyrir grisjunarvið sem fer að mestu í járnblendið á Grundartanga og vilja menn þar á bæ kaupa allt grisjunartimbur sem fellur til á Íslandi. Skógrækt ríkisins hefur selt þeim allt grisjunartimbur sem ekki nýtist í annað síðustu ár. Þar er timbrið kurlað mjög gróft niður og notað til brennslu, það gerir brunann hreinni og betri (og framleiðsluna betri) að geta notað timbur með en ekki eingöngu kol/koks. Sumum kann að þykja það slæm meðferð á timbri og að ekki eigi að stefna að slíku. En víða (m.a. í Skandinavíu) eru fljótvaxnar tegundir einmitt ræktaðar gagngert til iðnaðarframleiðslu, víðir og ösp eru slegnar á jafnvel 10 ára fresti og eru fljót að vaxa upp aftur. Það er mikil framför að geta selt grisjunartimbur og fengið greitt fyrir þannig að standi undir kostnaði, oft var timbrið látið liggja og rotna í skóginum. Og ekki má trassa að grisja því bestu trén þurfa að fá svigrúm til að vaxa. Einnig eru til verksmiðjur hér á landi sem eru að framleiða spæni úr íslenskum við t.d. Skógarvinnslan. Landshlutaverkefni í skógrækt - LHV Landshlutaverkefnin í skógræk, er verkefni sem er styrkt af ríkinu til að hjálpa til við að koma upp skógi á Íslandi. Verkefnin eru fimm, eitt í hverjum landshluta. Suðurlandsskógar eru eitt verkefnanna og hafa starfssvæði frá Reykjanesi austur í A-Skaftafellssýslu. Það er hlutverk LHV samkvæmt lögum að treysta byggð og efla atvinnulíf á starfssvæðum sínum og að skapa skógarauðlind á Íslandi með því að rækta fjölnytjaskóga og skjólbelti. Skógar í Hrosshaga og á Spóastöðum eru ásamt flest- um bændaskógum á Íslandi í Landshlutaverkefnunum en einstaka bændur planta alfarið á sínum vegum. Aðrar skógarjarðir í Tungunum eru í Miklaholti, Helgastöðum, Bergsstöðum, Skálholti, Helludal, Vatnsleysu, Arnarholti, Múla, Gýgjarhóli, Galtalæk og Borgarholti, sumar eingöngu í skjólbeltarækt. Þar að auki eru fleiri skógarjarðir í Bláskógabyggð. Landshlutaverkefnin styrkja bændur til plöntu- kaupa, útplöntunar, jarðvinnslu, áburðargjafar o.fl. Þessi verkefni hafa vissulega orðið til þess að upp hafa komist skógarreitir hér og þar, en langt er samt enn í land að ná markmiði ríkisins um að stefna að því að 5 % lands undir 400 m verði klætt skógi. Mikill niðurskurður hefur verið til LHV síðustu ár og hefur það komið illa niður á ýmsum, t.d. garðyrkjustöðvum sem hafa sérhæft sig í framleiðslu skógarplantna, en þær eru nokkrar hér í Biskupstungum. Í nýju lokaverkefni Lilju Magnúsdóttur um „Hagræn áhrif skógræktar“ við LBHÍ, segir að greidd ársverk í skógrækt á vegum LHV á árunum 2001- 2010 séu 81,4. Einnig að ef afleidd ársverk eru talin með hefur atvinnuuppbygging á vegum LHV skilað að jafnaði sem svarar 90-140 launuðum ársverkum á landsbyggðinni, eftir þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar. Aðrar nytjar skógarins Ekki má gleyma að minnast á hvað skógurinn getur gefið okkur annað en timbur og ánægju. Það er ótal margt, sérstaklega ef horft er til framtíðar. Strax eru bændur austur á Héraði farnir að nýta sveppi í stórum stíl. Á Íslandi er mikið magn alls kyns skreytingarefnis t.d. í blóma- og jólaskreytingar flutt inn, en á að vera og verður hægt að finna hér í skógunum okkar. Eldiviður, kurl, girðingastaurar, veggskífur og efni í ýmiskonar handverk eru dæmi um aðrar nytjar skógarins. Og þannig mætti lengi telja. Kraftmeiri skógar Núna er verkefni í gangi sem heitir „Kraftmeiri skógar“ sem er samstarfsverkefni fimm aðila innan þriggja landa sem tekur þátt í LLP endurmenntunaráætlun ESB (2007-2013). Grunnhugmynd að Kraftmeiri skógum kemur frá verkefninu Krafsamling skog í Svíþjóð. Þar var verkefnið í gangi í þrjú ár og gekk mjög vel. Hér mun verkefnið taka rúmlega tvö ár. Þessu nýja verkefni er ætlað það hlutverk að ná til sem flestra skógareigenda á Íslandi með almennri fræðslu, persónulegum heimsóknum, útgáfu á kennsluefni, með virkri heimasíðu og ýmiskonar endurmenntun bæði í skólastofum, á netinu sem og úti í skógi. Nokkrir skógar verða einnig opnaðir sem leiðbeinandi skógar Skógræktin í Hrosshaga og á Spóastöðum árið 2013 Kúnum í Hrosshaga líður ve l og sækja í skjólið af trjánum.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.