Morgunblaðið - 10.03.1974, Qupperneq 10

Morgunblaðið - 10.03.1974, Qupperneq 10
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 10. MARZ 1974. í málverkinu yrki ég undir vissum stefjum Viðtal við Önnu Sigríði Björnsdóttur — I málverkinu yrki ég undir vissum stefjum, eins og í músíkinni. Ekki þó undir sömu stefjum. Ég held að hverri manneskju sé meðfædd viss hrynjandi og sá taktur fylgi henni. Þetta kemur ekki sízt fram í tónlistinni. I málverkinu nota ég þessa ákveðnu hrynj- andi, sem er ásköpuð hverjum manni. Þetta eru ummæli Önnu Sigríðar Björnsdóttur list- málara. Og það er kannski ekki undarlegt þó músikin eigi sterkan hljómgrunn í henni, því hún lærði upp- haflega píanóleik, en byrjaði ekki að mála fyrr en síðar á ævinni. Og þarna á veggjunum heima hjá henni, þar sem málverkin bíða þess að fara á sýningu í Norræna húsinu 16. þessa mánaðar, kem ég einmitt auga á myndina Tokkata og fúga, sem Anna Sigríður segir að beinlínis sé unnin út frá músikinni. Þá má greinilega sjá áhrif tokkötunnar ofantil i myndinni og fúguna neðan til, en þyngstu litirnir sýna lokakaflann neðst. Þarna má greina fjögur stef samofin og fjórskipti takturinn er greinilegur. — Ég hefi líka málað mynd fyrir áhrif elektronískr- ar tónlistar og gerðist meira að segja svo djörf að mála hljómkviðu ársins 1974, segir Anna og hlær við. Við byrjum á byrjuninni, þegar við fórum að rekja feril hennar. Anna Sigríður fór snemma að læra að leika á píanó og lauk prófi í píanóleik við Tónlistar- skólann 19 ára gömul. — Mitt besta vegarnesti í listinni gaf mér þá strax kennarinn minn, Árni Krist- jánsson, og mér finnst það hafa fylgt mér síðan, segir hún. Hann lagði áherzlu á innra eðli listarinnar, en ekki það yfirborðskennda og að gefa hæfilega mikið af sjálfum sér. — Nýttirðu ekki framan af þína menntun i píanó- leik í kennslu eða til tónleikahalds? — Ég kenndi í tónlistarskólanum í 3 ár og í 15 ár kenndi ég heima. En aðstæðnanna vegna varð ég að leggja það niður og spila sjálf. Ég gat ekki samræmt það heimílishaldi. Þá hafði ég leikið í útvarp og leikið undir hjá Samkór Reykjavíkur. Á árinu 1947 fór ég til Sviss og var í tímum hjá Walter Fry. Síðan komu blessuð börnin. — Hvað urðu þau mörg? — Sjö og þá gafst ég upp á að spila. Börnin tóku við og þurftu líka að læra. Snerirðu þér þá strax að þvi að mála? — Nei, það var eiginlega tilviljun að ég byrjaði á því. Ég var einhverju sinni að leika við krakkana. Anna Sigríður við mynd sína, sem hún nefnir Tokkata og fúga, eins og sjá má í uppbyggingu málverksins. Margar litlar hendur voru að hnoða leir. Og ég fór að búa til fígúrur úr leirnum til að hjálpa þeim og úr því varð heljarmikil balletdansmær. Þá rámaði mig i að ég hafði hitt Ragnar Kjartansson á götu og hann spurt hvort ég fengist ekki við myndlist. Það hafði borizt í tal að ágætur skóli biði upp á tilsögn í sliku. Þetta varð til þess að ég fór í skóla, sem síðar varð Myndlistar- skólinn við Freyjugötu. Kennarinn var Asmundur Sveinsson. Þegar ég kom inn, þekkti ég þar Jón og Guðmund Benediktssyni, sem þá voru mjög upprenn- andi listamenn og tyllti mér við hlið þeirra. Þarna fór ég að móta styttu, sem fór á sýninguna um vorið — ekki sérlega falleg. Þá sagði Ásmundur Sveinsson: „Þetta kalla ég nú frekju og hafa aldrei komið nálægt myndlist áður. Líklega nýtur hún þess að hafa spilað.“ — Svo fór ég að læra að teikna. Teiknaði mér til gamans og ætlaði mér ekkert með því. Ég mótaði sáralítið 1 leir, enda ekki hægt að vera í öllu. Það ríkti alltaf mjög góður andi í myndlistardeildinni og ég hafði gaman af þessu. Þá stakk vinstúlka mín upp á því að ég kæmi í málaradeildina. Ég taldi mig ekki hafa neitt litaskyn, en dreif mig samt. Ég stóð um skeið við að mála og við snerum bökum saman við Ragnheiður Jónsdóttir, sem ég hafði kynnzt í teikni- deildinni. Við héldum sambandinu, máluðum mikið og nutum þess vel. Og svo drifum við okkur 1 að halda sýningu saman. Það var okkar fyrsta sjálfstæða sýning árið 1968. Eftir þetta tók Anna Sigriður þátt í samsýningum hjá FÍM og á Listahátíðinni. Síðan sýndi hún grafik- myndir i Frakklandi 1969 og tvisvar sinnum í Buenos Aires í Argentínu. 1970 og 1972, hjá Norræna grafik- sambandinu í Lundi 1971 og í Reykjavík 1972. — Svo kemur að því að mann langar að vita hvar maður stendur og ég ætla að halda mína aðra einkasýningu í Norræna húsinu 16. marz, segir hún. Talið berst aftur að málverkunum hennar. — Fyrst eftir að ég fór að mála, var ég svo litaglöð að litirnir réðu eiginlega yfir mér, útskýrir Anna Sig- ríður. — Síðan hefi ég reynt að snúa þessu við. — Hefur tónlistin alltaf jafn mikið að segja fyrir þig, þegar þú ert að mála? — Já, tónlistin og raunar líka leiklistin. Ég sæki mikið leikhús og hefi málað þó nokkrar stemnings- myndir þaðan. Ein myndin „Að leikslokum", er einnig dálítil ádeila á lófaklappið, sérstaklega eftir harm- leiki. Tjaldið mætti gjarnan falla og síðan yrði beðið örlítið áður en við þökkum okkar ágætu leikurum. Svo mætti einnig vera á tónleikum, sem ég hefi ekki notið færri ánægjustunda á um ævina. Þessir þættir báðir koma fram í kaflaskiptingunni á sýningu minni, en henni skipti ég í 4 kafla: Mannlífið, tónlistin og myndsýnir og grafik. Ég er þar með lausar myndir, sína úr hverri áttinni. Ég fór t.d. til Vestmannaeyja eftir að eldgosið hófst þar og svo aftur síðar og varð fyrir miklum áhrifum. Þaðan eru því tvær myndir. Ein myndin heitir Morgun í Belfast og er unnin undir áhrifum af einum slíkum morgni. Einn daginn heyri ég kannski að friður sé kominn á einhvers staðar og þá verður til myndin Dagur friðarins. En ég verð fyrst að skynja áhrifin og byrja ekki að mála fyrr en ég kann myndina hér um bil utan að í huganum. — Mér finnst létt að mála hlutina eins og þeir koma fyrir sjónir og mála því fremur eftir því hvaða áhrif þeir hafa á mig. En ég hefi ekki sótzt eftir þvi að fá persónulegan stíl. Ég er mjög hrifnæm, gríp heils hugar allt sem verður á leið minni, en reyni jafnframt að segja ekki of mikið, þannig að fólk langi að finna hvað ég á við. — Málaralistin og tónlistin eru mjög skyldar list- greinar, sagði Anna Sigriður ennfremur. — Sá sem leikur á píanó, verður að tjá sig frammi fyrir áheyr- endum og ég átti alltaf erfitt með að tjá mig í músíkinni frammi fyrir heilum hópi af fólki. Ég á miklu betra með að tjá mig með því að mála, þvi þá er ég ein. Ég get málað mynd í huganum meðan ég er að gera hvað sem er annað. Svo set ég hana niður, vinn venjulega hratt í fyrstu, síðan rólegar og viðurkenni, að oftast taka myndirnar miklum breytingum í vinnslu. I lok samtalsins spyr ég Önnu Sigriði hvort ekki sé líka erfitt á stóru heimili að mála, og hún svarar: — Slíkt er ekki hægt að gera nema góður andi og skilningur ríki á heimilinu. Og mér finnst ekki saka neitt heimili þó einhver menning sé höfð þar um hönd. Það getur aðeins orðið til góðs. — E.Pá. Þarna er Anna Sigríður að leggja síðustu hönd á mynd úr leikhúsinu.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.