Morgunblaðið - 06.01.1979, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 06.01.1979, Blaðsíða 8
g MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 6. JANÚAR 1979 Theodór Júlíusson (Sk*'"6«-Sveinn). Bolli Gústavsson: Svona eiga Skugga - Sveinar að vera Leikfélag Akureyrar SKUGGA-SVEINN eftir Matthías Jochumsson. Búningari Freygerður Magnúsdóttir. Leikmyndi Þráinn Karlsson og Hallmundur Kristinsson. Leikstjórii Sigrún Björnsdóttir. Sýning Leikfélags Akureyrar á Skugga-Sveini Matthíasar er sérstakt fagnaðarefni og birting þess nauðsynlega afturhvarfs, sem íslenskt þjóðfélag er í þörf fyrir í listum og ýmsum öðrum þáttum menningar. Þar gætir óneitanlega einhverrar bólgu, ekki síður en í efnahagslífinu. Það er þessi illkynjaði þroti, er að líkindum hefur knúð Halldór Laxness til að hvetja til útgáfu á ritum Kjartans Júlíussonar á Skáldsstöðum og rita að auki Iistilegan og einlægan formála að perlum kotbóndans. Þær eru svo órafjarri þeim illa þefjaða sportkommúnisma ættuðum frá Svíþjóð og danskri klámflat- neskju og öfuguggaskap, sem dælt hefur verið eins og svörtum olíudampi yfir Island á síðustu árum. „Eg velti þessu hámenta- bókmáli fyrir mér af þeirri orðlausu undrun sem einstöku sinnum getur gripið mann gagn- vart íslendingi," skrifar Halldór um bók ársins 1978. Það þarf og nokkra dirfsku til að sviðsetja og flytja Skugga-Svein á hefð- bundinn, íslenskan hátt, leggja áherslu á þá takta og þau tilþrif, sem afi þinn og amma kunnu best að meta, og koma textanum óbrjáluðum til skila. „Sástu Jón Steingrímsson leika Skugga- Svein? spyr aldrað fólk á Akureyri nú. „Það kemst enginn í fötin hans. Þessi tröllaukni, svipmikli maður með fimbul- raust og þó svo frábæran kvæðaróm. Ég man, að okkur afa þínum rann kalt vatn á milli skinns og hörunds, þegar hann geystist fram með atgeirinn fyrir sér og öskraði: „Drepum, drepum!" Þvílíkur ofsi! Já, Jón lék aldrei annað en þetta hálftröll og nafn hans mun lengi uppi fyrir það afrek." Þannig er ennþá talað á Akureyri og menn minnast Páls Vatnsdals í hlut- verki Ketils skræks og Jóhannesar Jónassonar sem Grasa-Guddu. En forystumenn Leikfélags Akureyrar láta það ekki á sig fá, þó þeir góðu menn séu löngu allir, heldur safna liði. Það er valínn maður í hverju rúmi á sviði gamla Samkomu- hússins og sú ósvikna leikgleði ríkir þar, sem er nauðsynleg í þessum gamla skólaleik. Matthías skrifaði vini sínum og skáldbróður, Steingrími Thor- steinssyni, í mars 1862: „Ég bjó til eða sullaði eða skrúfaði saman leikrit í jólafríinu. Það heitir „Útilegumennirnir" og er í 4 þáttum með ljóðmælarusli hér og þar. Mér leiddist þessi danska „Kommindía", sem grið- konur hérna segja, og tók mig til, og þó þetta rit mitt í raun og veru sé ómerkilegt, gjörði það hvínandi lukku.“ Matthías var skáld andagiftar og andlegt fjör hans lifir góðu lífi í „Útilegu- mönnunum“, sem hann átti eftir að fægja og snurfusa og gefa annað nafn. Leikritið var ekkert sull, en olli tímamótum í leikrit- un hér á landi og ávann sér almannahylli. Það varð mikil- vægur þáttur í félags- og menningarlífi þjóðar, sem var á leið til frelsis og endurreisnar. Sigrún Björnsdóttir leikstjóri hefur unnið gott verk. Sýningin fer að vísu hægt af stað, en fumlaust, og er laus við blá- þræði til enda. Þess er ávallt vel gætt, að textinn komist sem best til skila. Ekki hefur verið valið í hlutverkin með það í huga, að söngur yrði framúrskarandi. Hver söng með sínu nefi, en þrír hljóðfæraleikarar bættu þar um og útsetning Michael Clark á hinum gamalkunnu lögum er þekk og dálítill forleikur fellur vel að sýningunni. Jón Kristinsson leikur Sigurð lögréttumann í Dal af hófsemi og öryggi. Svanhildur Jóhannes- dóttir í hlutverki Ástu hefur til að bera nauðsynlega reisn og þokka, sem því hæfa. Leikur hennar og Everts Ingólfssonar í hlutverki Haralds er laus við þann vandræðasvip, sem oft einkennir unga elskendur á leiksviði, þar sem hrifningin er í viðjum gagnkvæmrar virðingar og hæversku, þeirra hamla, sem margt nútímafólk lítur á sem forngrip. En þau strjúka rykið af þessum gamla grip og mynd- in, sem þau draga upp, er í senn tær og sönn. Jóhann Ögmunds- son leikur Ögmund af innlifun og myndugleik. Hann setur sterkan, klassiskan svip ís- lenskrar leikhefðar á sýninguna og eintal hans á fjöllum er snjallt og meðferð bundins máls til fyrirmyndar. Theodór Júlíus- son fellur ekki í glímunni við Skugga-Svein, þótt ekki sé hann tröllslega vaxinn. Hann sýnir ótrúlegt þrek og slakar hvergi á, án þess að það bitni á blæbrigð- um. Tjáning hans á giftuleysi og þreytu útlagans er trúverðug. Bestan leik sýnir hann í ráns- ferðinni á sýslumannssetrið. Sigurveig Jónsdóttir bætir hér við nýjum og nýstárlegum þætti í glæsilegan leikferil sinn. Lík- lega þykir hún víkja lengst af leið þeirrar hefðbundnu tjáning- ar á þessu gamla verki. En Ketill skrækur í meðförum Sigurveigar leiðir glöggt í ljós það djúp mannlegrar niðurlæg- ingar, sem mörgum er óljúft að skyggnast niður í. Ketill er þarna sá sótmórauði rakki og sótsvarti uppvakningur eins og annar stúdentinn lýsir honum og þó er hann tákn miklu meiri vesaldóms og vanrækslu, en orð fá lýst. Sennilega hefur Skugga- Sveinn aldrei átt eins í vök að verjast á sviðinu gegn þessum fylgisspaka félaga sínum, því Sigurveig er nærri því að vera hinn svarti senuþjófur. Heimir Ingimarsson leikur sýslumann- inn í gömlum ungmennafélags- stíl, skemmtilega stirðbusalegur og hæfilega fálkalegur frá upphafi til enda. Ég trúi því naumast, að aldraðir unnendur þessa leikrits verði fyrir von- brigðum með Þráin Karlsson í hlutverki Grasa-Guddu. Þráinn fer á kostum, framsögn hans er með ágætum og látbragð allt. Það lá við að legði af honum eim af eldhússreyk. Þannig eiga Grasa-Guddur að vera. Ungur leikari, Viðar Eggertsson. leikur Gvend smala og einnig Hróbjart vinnumann. Má ekki á milli sjá, hvorum hann gerir betri skil, en Viðar lofar góðu og spillir sannarlega engu. Jóhanna Birgisdóttir er kát og kotroskin í hlutverki Margrétar þjónustu- stúlku. Hún og Jónsteinn Aðal- steinsson, sem leikur Jón sterka með miklum handasveiflum, sýna bæði þá hjartanlegu leik- gleði, sem bætir upp reynslu- leysið, en þau eiga ýmislegt ólært. Þeir félagar, Aðalsteinn Bergdal og Gestur Jónasson, í hlutverki stúdentanna gjalda þess nokkuð að hafa þurft að leika í svo til hverju leikriti, sem sett hefur verið á svið á Akureyri um nokkurra ára skeið. Þeir eru orðnir dálítið þreyttir, en hins vegar ekki gamlir. Starfið er þeim jafn- framt strangur skóli, því þeir gengu til leiks án teljandi undirstöðumenntunar. Sannar- lega skortir þá ekki hæfileika og nægir að benda á leik Aðalsteins í Glerdýrum T. Williams og Gests í Kristnihaldi undir Jökli, en báðum þeim verkum leik- stýrði Gísli Halldórsson á Akur- eyri. Sú spurn vaknar, hvort ekki sé ástæða til, að atvinnu- leikhúsin skiptist á leikurum og þessir ungu menn, sem gert hafa leiklist að ævistarfi, fái t.d. tækifæri til að spreyta sig í Leikhúsi þjóðarinnar, þar sem strangar kröfur eru gerðar. Aðalsteinn hefur ágæta söng- rödd, sem kemur sér vel í þetta sinn. Umgerð leiksins er með þeim hætti, að sviðsskiptingar taka skamman tíma. Leiktjöld eru einföld, nærri því fátækleg, og álitamál, hvort rétt hafi verið að bregða út af þeirri hefð, sem ríkt hefur frá því, er Sigurður málari gerði hin frægu tjöld árið 1862. „Andi voru teppin hans í „Útilegum" falleg," skrif- aði Matthías í öðru bréfi til Steingríms. Það urðu fleiri til þess að dásama verk málarans. Síðan hafa þau jafnan verið höfð til fyrirmyndar. En hin einföldu leiktjöld Hallmundar Kristinssonar og Þráins Karls- sonar eru brúkleg og bætir rétt notkun ljósa allmjög um. Ástæða er til að hvetja fólk að sjá þessa sýningu Leikfélags Ákureyrar og að það gefi börnum og unglingum tækifæri til að skyggnast aftur til liðinna alda. Tómas Guðmundsson rit- aði um annað þjóðlegt verk, Gullna hlið Davíðs: „Yfir því hvílir gamall og geðfelldur hlýleiki, tilsvör þess eru óbrotin og alþýðleg að framsetningu, fyndnin hvergi sótt um langan veg og einfaldleiki formsins bægir sjálfkrafa frá sér ótíma- bærum vangaveitum í spak- mælastíl.“ Þessi orð eiga jafn vel um Skugga-Svein Matthías- ar eins og leikritið er flutt á Akureyri. Megi sú hefð haldast, að þjóðleg leikrit, sem spegla umhverfi, málbrag og hug- myndaheim liðinna alda, verði jafnan á verkefnaskrá hvers leikárs í framtíðinni og þó ekki síst um jól. Nýir straumar eru nauðsynlegir, en þá verður betra að meta af réttsýni og skynsemi í ljósi þeirrar listar, sem hæst rís í fortíðinni. íslendingar hafa gjarnan verið örir að kasa ýmsum fornum mætum fyrir róða. Það leiðir saga gamalla muna og minja ótvírætt í ljós og hatrammar deilur um fátækleg- an arf byggingarlistar í landinu, listar, sem hvað eftir annað hefur verið ógnað af ýtutönnum. Leikstjórinn, Sigrún Björns- dóttir, átti erindi norður yfir heiðar. Svanhildur Jóhannesdóttir (Ásta) og Evert Ingólfsson (Haraldur).

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.