Morgunblaðið - 12.06.1979, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 12. JÚNÍ 1979
37
Jón Júl. Þorsteinsson
kennari—Minning
Fæddur 3. júlí 1898.
Dáinn 4. júní 1979.
Jón Júl. Þorsteinsson kennari
andaðist á heimili sínu, Byggða-
vegi 94, Akureyri, aðfaranótt ann-
ars hvítasunnudags, á miðri stofn-
unarhátíð kristinnar kirkju, sem
hann unni mjög og vann svo
margt fyrir um dagana. Að liðinni
langri ævi gekk hann þá vamm-
laus inn í fögnuð herra síns.
Hann fæddist 3. júlí 1897 í
Hringverskoti í Ólafsfirði, en ólst
annars að mestu upp í Ósbrekku,
þar sem foreldrar hans, hjónin
Guðrún Jónsdóttir og Þorsteinn
Þorkelsson hreppstjóri, bjuggu
lengst. Jón vandist ungur allri
almennri vinnu til lands og sjávar
og gerðist snemma mikill íþrótta-
maður, enda vaskur og ötull frá
fyrstu dögum. Hann tók mikinn
þátt í félagslífi í heimabyggð sinni
þegar á ungum aldri og var þar
snemma til forystu valinn. Auk
þess starfaði hann mikið í góð-
templarareglunni, var t.a.m.
æðstitemplar stúkunnar Norður-
ljóssins, og vann einnig að söng-
málum, enda var hann organisti
Ólafsfjarðarkirkju í aldarfjórð-
ung. Enn má nefna, að hann var
ungur kosinn til ýmissa opinberra
trúnaðarstarfa, svo sem í hafnar-
nefnd, vegamálanefnd og sóknar-
nefnd.
Liðlega tvítugur hóf hann svo
kennslustörf, og þau áttu siðan
eftir að verða aðalviðfangsefni
hans ævilangt, verða til blessunar
og uppbyggingar óteljandi ein-
staklingum, og bera hróður hans
víða. Jón gerðist farkennari í
Ólafsfjarðarhreppi árið 1920 og
gegndi því starfi nokkur ár, þar til
hann fór í Kennaraskóla Islands.
Þegar hann var kominn að loka-
prófi þar, barst honum sú þung-
bæra freng að heiman, að eigin-
kona hans hefði andast. Þetta var
mikil raun, og þá lá honum við að
fallast hendur og hverfa heim frá
náminu, en fyrir eggjan kennara
sinna, sr. Magnúsar Helgasonar,
skólastjóra, og Asgeirs Asgeirs-
sonar, fræðslumálastjóra, ákvað
hann að vera um kyrrt og ljúka
prófi. Hafa verður í huga, að þá
var ekki auðvelt eða ódýrt að
komast milli landsfjórðunga að
vetrarlagi, en þetta var örðug
ákvörðun.
Þegar heim kom til Ólafsfjarð-
ar, tók Jón til óspilltra málanna
við uppfræðslu ungmenna. Hann
gerðist kennari við Barnaskóla
Ölafsfjarðar og stofnaði þar jafn-
framt unglingaskóla, sem hann
veitti forstöðu til 1942. Einnig reri
hann til fiskjar á sumrum og
minntist síðan oft þeirri björtu
daga og nátta á sjónum úti fyrir
Norðurlandi með hlýjum huga.
Honum þótti afar vænt um æsku-
stöðvar sínar í Ólafsfirði, og
þangað hvarflaði hugur hans oft
og þangað beindist tal hans oft,
þegar hann rifjaði upp minningar
frá árdögum ævinnar.
Þó átti það fyrir honum að
liggja að flytjast þaðan. Veturinn
1943—1944 fór Jón til náms í
íslenskri hljóðfræði í heimspekis-
deiid Háskóla Islands, þar sem
kennari hans var dr. Björn Guð-
finnsson. Jón varð þegar mjög
handgenginn dr. Birni, og oft tóku
þeir saman langar göngur á
sunnudögum og ræddu um hugð-
arefni sín, málfræði og einkum
hljóðfræði og tengdar greinar, svo
sem lestrarkennslu. Þar gat hvor
um sig mikið af hinum lært, því að
Jón var þá þegar orðinn annálaður
snillingur við að kenna byrjendum
lestur og hafði öðlast í því mikla
reynslu. Vináttusamband þeirra
hélst, meðan báðir lifðu, og báðir
mátu þeir hvor annan mikils.
Þegar Jón hóf kennslustörf aft-
ur, tók hann hljóðfræðina í sína
þjónustu og beitti nú í þágu
kennslulistar sinnar þeirri þekk-
ingu, sem hann hafði hlotið hjá dr.
Birni og drukkið í sig með áfergju.
Hann kom sér upp nýju kerfi eða
nýrri aðferð við lestrarkennsluna,
byggða á myndunarlögmálum
málhljóða, og beitti henni upp frá
því. Hann samdi og gaf út lesefni
fyrir yngstu börnin, Byrjandinn,
og einnig kom hann upp mynd-
spjaldkerfi til notkunar við
kennsluna, sem sýndi myndunar-
staði og myndunarhætti einstakra
málhljóða, í sama skyni. Eg þykist
vita, að þetta verk hans eigi eftir
að auðvelda mjög lestrarkennslu
framvegis, þessa grundvallar-
kennslugrein, sem yfirleitt hefir
verið alltof lítill sómi sýndur að
undanförnu, e.t.v. af því að við
eigum sorglega fá góða lestrar-
kennara, þó að ekki séu nefndir
snillingar í listinni á borð við Jón
Júl. Þorsteinsson. Margir skóla-
menn gerðu sér ljóst, meðan tími
var til, að rétt og skylt var að nýta
kennara á borð við Jón til leið-
beiningarstarfa við aðra kennara,
enda var hann oft fenginn til að
heimsækja skóla, fylgjast með
lestrarkennslunni og gefa góð ráð,
einnig að leiðbeina á námskeiðum.
Jón gerði sér einnig sérstakt far
um að vanda málfar sitt og fram-
burð, enda í samræmi við eðli
þessa vandaða manns. Að vonum
var hann fenginn ásamt öðrum til
að lesa á lingvaphone-plötur ís-
lenskan texta með samræmdum
framburði, ætlaðar til kennslu í
íslensku við erlenda skóla. Fram
til síðasta dags var málfræði,
einkum hljóðfræði sífellt tilefni
heilabrota og umræðu. Hann tal-
aði líka af fræðilegri þekkingu og
starfsreynslu í senn, svo að alltaf
var uppbyggilegt og lærdómsríkt
að hlýða á hann og eiga við hann
tal.
Nokkru áður en hann lét af
störfum fyrir aldurs sakir, tók
hann sér ferð á hendur í orlofi frá
kennslu og heimsótti skóla á
Norðurlöndum, einkum í Noregi,
og kynnti sér þar kennslu í lestri,
ekki síst þeirra barna, sem áttu í
einhvers konar erfiðleikum vegna
líkamlegra eða andlegra ágalla. I
þessari för fór hann hamförum í
fræðaleit sinni, stofnaði til kynna
við afar marga kennara og fræði-
menn og heimsótti skóla og stofn-
anir af brennandi áhuga hins
síunga manns. Hér var einmitt
það sérsvið lestrarkennslu á ferð-
inni, sem lengi hafði heillað Jón og
hann hafði lengi fengist við, þ.e.
að lagfæra málgalla og ágalla
talfæranna hjá börnum, sem áttu
við slíkt að stríða. Til hans hafði
lengi verið leitað víða að um land
um aðstoð af þessu tagi við börn
og unglinga og oftast með góðum
árangri, svo að stundum gat
minnt á kraftaverk.
Árið 1944 gerðist Jón kennari
við Barnaskóla Akureyrar og
kenndi þar við mikinn orðstír, þar
til hann lét af störfum fyrir aldurs
sakir. Eftir það kom hann oft í
skólann til að leiðbeina um lestr-
arkennslu fyrir atbeina skóla-
stjórans, og einnig tók hann nokk-
ur börn heim til sín til kennslu,
vegna þess að hann hafði af því
yndi og afþreyingu að umgangast
börn. Þau, sem urðu fyrir því
happi að njóta þessarar tilsagnar
hans, búa að því alla ævi. Hann
var kennari af lífi og sál. Hann
stundaði kennslustarf af hugsjón
og köllun, en ekki í ábata- eða
ávinningsskyni um laun greidd í
peningum, því að hann var lítill
fjármálamaður þegar sleppti
þeirra grundvallarreglu að skulda
engum neitt og standa ævinlega í
skilum við aðra. Jóni þótti vænt
um börn, var þeim ekki aðeins
kennari og fræðari, heldur einnig
vinur, ráðgjafi og félagi, stundum
leikbróðir. Þess vegna þótti þeim
öllum væntum um hann.
Jón var mikill áhugamaður um
félagsmál. Hann starfaði frá
æskudögum til æviloka í Reglunni
og unni hugsjónum hennar. Hann
vann mikið að söngmálum og
tónlist, lék vel á orgel og söng í
Krikjukór Akureyrar, meðan
hann hafði heilsu til. Þá söng
hann í Kantötukór Akureyrar og
var formaður hans árum saman,
m.a. á þeim vandasama og anna-
sama tíma, þegar kórinn fór hina
sigursælu för sína til Danmerkur,
Svíþjóöar og Noregs 1951 og kom
heim með silfurverðlaun frá norr-
ænu söngkeppninni í Stokkhólmi.
Enn má nefna, að Jón var árum
saman formaður sóknarnefndar
Akureyrarkirkju, enda mikill
kirkjumaður og trúmaður alla
ævi. Þá var hann í áratug stjórn-
armaður í Barnaverndarfélagi
Akureyrar.
Jón var fríður maður og knáleg-
ur á velli, bjartur á svip og
yfirbragð. Hann var alltaf bjart-
sýnn og allra manna kátastur, þó
að hann léti aldrei inn fyrir varir
sínar nein aðfengin efni i því
skyni. Hann hvorki vildi það né
þurfti þess, eðli hans var að vera
glaður og góður. Hann mátti í
engu vamm sitt vita, var hreinn í
lund og hreinn í hjarta, treysti
alltaf á guðlega forsjón og hand-
leiðslu og trúði á hið góða og
göfuga í mannheimi og manneðli.
Gott var að eiga Jón að vini og
viðmælanda. Hann var síungur í
anda, þó að líkamleg heilsa stæði
völtum fótum undir lokin, og hélt
sér ungum með ýmsu móti, t.a.m.
því að rifja upp árlega og halda
við kennsluefni frá fyrri dögum.
Jón var tvikvæntur. Fyrri kona
hans, sem hann gekk að eiga 15.
desember 1923, en lést 2. mars
1929, var Dýrleif Marteinsdóttir
frá Burstarbrekku í Ólafsfirði.
Síðari kona Jóns, sem hann
kvæntist 14. júlí 1949, er Margrét
Elíasdóttir frá Vestmannaeyjum,
og lifir hún mann sinn. Börnum
hennar af fyrra hjónabandi
reyndist Jón jafnan sem besti
faðir, en sjálfur átti hann ekki
afkomendur.
Við Ellen og börn okkar sendum
Margréti og öðrum vandamönnum
Jóns einlægar samúðarkveðjur á
saknaðarstund og þökkum Jóni
órofa vináttu og margar velgerðir
þá áratugi, sem liðnir eru, síðan
kynni okkar hófust. Við biðjum
Margréti blessunar og styrks og
sendum Jóni þakklátan hug með
fyrirbæn og góðum oskum inn á
ókunn landið. Við vitum, að hann
á þar góða heimavon, því að guð
skapaði í honum hreint hjarta.
Sverrir Pálsson.
Um árabil hefur vinur minn og
frændi sem nú er til moldar
borinn átt við nokkurn heilsubrest
að stríða, en allt um það vildi
hann, er við hittumst eða töluð-
umst við í síma, sem minnst um
það ræða. Hann var ætíð hress og
glaður og bar aldur sinn svo vel,
að fæstum datt í hug, að Jón væri
kominn á níræðisaldur.
En enginn má sköpum renna, og
ég veit að Jonni eins og við í
Ólafsfirði kölluðum hann, beið
rólegur síns aldurtila, þess eina,
sem við mennirnir vitum með
fullri vissu að hlýtur að koma yfir
okkur.
Jón Júlíus Þorsteinsson var
fæddur hinn 3. júlí 1897 í Hring-
verskoti í Ólafsfirði, sonur hjón-
anna Þorsteins Þorkelssonar
hreppstjóra og Guðrúnar Jóns-
dóttur en þau hjón bjuggu lengst
af í Ósbrekku í Ölafsfirði.
Þótt Jón hefði ekki hlotið aðra
menntun en nám í barnaskóla og
nokkurt kvöldskólanám í ólafs-
firði um eins vetrar skeið, þá hóf
hann að kenna börnum í Ólafsfirði
sem farkennari um 1920. En brátt
fann hann til menntunarskortsins
og löngunin til að verða fullnuma í
þeirri starfsgrein, sem hann strax
fylltist áhuga fyrir, knúði hann
áfram til náms í Kennaraskólan-
um þrátt fyrir mjög lítil efni.
Eftir skamman tima lauk hann
þaðan kennaraprófi vorið 1929. En
vormánuðirnir þetta ár urðu Jón
ákaflega erfiðir, því í byrjun marz
1929 andaðist fyrri kona Jóns og
föðursystir mín, Dýrleif Marteins-
dóttir, af barnsförum. Heimkom-
an í Ólafsfjörð var þvi önnur en
þessi ungi og áhugasami barna-
kennari hafði hugsað sér.
Jón var skipaður kennari við
barnaskólann í Ólafsfirði um
haustið 1929 og þar starfaði hann
til hautsins 1943, að hann var
skipaður kennari við barnaskól-
ann á Akureyri.
Jón var með eindæmum góður
og áhugasamur kennari, og ég er
sannfærður um að ég mæli fyrir
munn okkar allra, skólabarnanna
hans Jóns, að betri og samvisku-
samari kennara hefðum við ekki
getað hugsað okkur. Hann var
okkur hvort tveggja í senn læri-
faðir og félagi, og hver kennslu-
stund hjá Jóni var í senn
skemmtun og fræðsla sem við
hlökkuðum til.
Hann átti þetta einstaka lag, að
gera jafnvel skriftarkennslu
skemmtilega, enda leynir
árangurinn sér ekki ef maður sér
rithönd þeirra, sem lærðu að
skrifa hjá Jóni.
Hugleiknast var þó Jóni að
kenna börnum að lesa. Á kennara-
skólaárunum kynntist hann nýrri
aðferð til lestrarkennslu, hljóð-
lestraraðferðinni, sem var þá að
ryðja sér til rúms fyrir, forgöngu
ísaks Jónssonar og fleiri.
Jón tók þessa aðferð þegar upp
við sína lestararkennslu í Ólafs-
firði, og lagði ríka áherzlu á sem
réttastan framburð. Mun hann
með kennslu sinni hafa átt
drjúgan þátt í að uppræta á
skömmum tíma flámæli sem
nokkuð bar á í Ólafsfirði á þessum
árum.
En Jón rak sig bráðlega á það,
að ekki var vandalaust að segja
ákveðið til um, að hver
framburður var réttastur. Hann
sótti því um leyfi til að stunda
nám í íslenzkri nútíma hljóðfræði
í Háskóla íslands hjá dr. Birni
Guðfinnssyni. Það leyfi fékkst og
lauk Jón háskólaprófi í hljóðfræði
vorið 1944. Veturinn 1948—49
stundaði Jón aftur nám hjá dr.
Birni Guðfinnssyni í samræmdum
íslenskum framburði. I framhaldi
af því las Jón sjálfur og sá um
lestur íslenskra leskafla eftir dr.
Stefán Einarsson inn á plötur hjá
Lingnaphon-fyrirtækinu í London.
Áhugi Jóns á hljóðfræði og
framburði íslenszkrar tungu staf-
aði umfram allt af lögum hans til
að geta kennt börnum að lesa á
sem beztan hátt. Og honum þótti
ekki síst áhugavert að kenna þeim
börnum, sem áttu við einhverja
erfiðleika að etja við lestrarnámið
eins og t.d. málhelti. Þeir munu
líka ekki fáir nemendur Jóns, sem
eiga honum að þakka, að þeir tala
skýrar og bera betur fram íslenzkt
mál einmitt vegna kennslu hans.
Til þess að auðvelda sjálfum sér
kennsluna og börnunum námið bjó
Jón til sérstaka leskafla, sem
hann nefndi „Byrjandinn", og
gefnir hafa verið út á almennan
markað af Ríkisútgáfu námsbóka.
Hins vegar hafa þeir aðilar, sem
mestu ráða um útgáfu kennslu-
gagna og hjálpartækja við lestrar-
kennslu, ekki talið sér fært fram
til þessa að gefa út aðalverk Jóns,
sem liggur í handriti, en það eru
skýringarmyndir ásamt leið-
beiningum um hvernig hljóð allra
hinna einstöku bókstafa eru
mynduð. Lét Jón teikna þessar
myndir á eigin kostnað eftir
rönhenmyndum, sem sýna hvernig
einstök hljóð myndast.
Þe'ssar myndir notaði hann
sjálfur við kennsluna með svo
frábærum árangri að löngu eftir
að Jón var hættur fastri kennslu
vegna aldurs, leituðu foreldrar og
forráðamenn fjölda barna, sem
erfiðlega gekk við lestarnám, til
Jóns um að kenna þeim. Og fram á
síðustu ár var Jón að kenna, því að
kennarastarfið var Jóni lífið
sjálft.
Raunar átti Jón sér mörg
hugðarefni utan skólans. Hann
var organisti Ólafsfjarðarkirkju í
25 ár og mikill unnandi sönglistar.
Hann var í stjórn kirkjukórs og
kantötukórs á Akureyri um árabil
og virkur þátttakandi í þeim
kórum um langt skeið.
í Ólafsfirði starfaði Jón af
miklum áhuga á ungmennafélag-
inu þar og var lengi í stjórn þess.
Hann stofnaði ungliðadeild innan
felagsins, sem síðan varð svo
upphafið að ungliðadeild í íþrótta-
félaginu Sameining í Ólafsfirði og
var formaður þessara deilda um
langt skeið.
A Akureyri tók Jón mikinn þátt
i starfi góðtemplarareglunnar og
gegndi þar ýmsum trúnaðarstörf-
um. Einnig vann hann mikið að
málefnum Akureyrarkirkju og
starfaði í Barnaverndarfélagi
Akureyrar um árabil.
Eins og fyrr segir missti Jón
fyrri konu sína 1929, en tuttugu
árum síðar gekk hann að eiga
eftirlifandi konu sína, Margréti
Elíasdóttur. Voru þau hjón mjög
samrýnd og var Margrét Jóni
einatt stoð hans og stytta þrátt
fyrir erfið veikindij sem hrjáð
hafa Margréti um langt skeið.
Jón var kennari af guðs náð,
sem helgaði allt sitt líf því háleita
starfi að kenna börnum, og með
fullri vissu er óhætt að segja um
Jón að öllum þeim börnum, sem
hann kenndi, kom hann til
nokkurs þroska.
Eg og systir mín Dýrleif Jónína,
sem heitir eftir fyrri konu Jóns og
Jóni sjálfum, áttum því láni að
fagna fyrir sakir frændsemi og
mágsemda að eiga hann nánast
sem heimiliskennara og sem náinn
vin alla ævi. Að því höfum við búið
og fáum víst ekki héðan af full-
þakkað.
Við flytjum eftirlifandi konu
Jóns, systkinum hans og öðrum
nánum ættingjum innilegar sam-
úðarkveðjur, minnug þess að
minningin um góðan dreng deyr
ekki.
Baldvin Tryggvason.
+
Bróðir minn,
HARALDUR W. HALLGRÍMSSON,
fyrrverandi bakari,
andaöist aö Elliheimilinu Grund 10. þ.m.
Fyrir mína hönd og annarra vandamanna,
Guöbjörg Hallgrímsdóttir.
t
Konan mín,
KRISTRÚN KRISTJANSDOTTIR,
andaðist í Landspitalanum 10. júní. Jarðsett verður frá Mosfells-
kirkju föstudaginn 15. júní kl. 2.
Ingvar Þorkelsson,
Þórisstööum Grímsnesi.