Morgunblaðið - 25.10.1980, Page 17
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 25. OKTÓBER 1980
17
Ríkisstjórnin hefur tvívegis komið í veg
fyrir þá hækkun vaxta, sem æskileg var
talin með hliðsjón af þessu lagaákvæði, 1.
mars og 1. september. Þegar útflutnings-
atvinnuvegir landsmanna eiga við mikla
erfiðleika að glíma og telja vaxtabyrðina
eina af orsökum vandans, taldi ríkis-
stjórnin ekki fært að leggja á þá enn
meiri vaxtabyrði, sem valda mun enn
meiri gengislækkun en orðið hefur.
Kjarasamningar
Varðandi kjaramál mótaði ríkisstjórnin
afstöðu sína í stjórnarsáttmálanum á
þessa lund:
„Ríkisstjórnin leggur höfuðáherslu á að
leysa launamál með samstarfi og samráði.
Skal í því sambandi lögð áhersla á
eftirgreind meginatriði.
Ríkisstjórnin mun leita eftir samkomu-
lagi við aðila vinnumarkaðarins um
niðurstöður í kjarasamningum, sem geta
samrýmst baráttunni gegn verðbólgu og
þeirri stefnu stjórnarinnar að jafna
lífskjör og bæta kjör hinna lakast settu í
þjóðfélaginu.
Til þess að draga úr almennum pen-
ingalaunahækkunum er ríkisstjórnin
reiðubúin til þess að beita sér fyrir
eftirtöldum ráðstöfunum í tengslum við
kjarasamninga."
Eru þessi atriði svo rakin nánar í
hinum prentaða stjórnarsáttmála á bls. 4,
en hér er um margvíslegar félagslegar
umbætur að ræða.
Viðræður um kjarasamninga hafa tekið
langan tíma. Um miðjan ágústmánuð
tókust samningar milli ríkisins og opin-
berra starfsmanna, sem samþykktir voru
í allsherjar atkvæðagreiðslu hjá Banda-
lagi starfsmanna ríkis og bæja. Þessir
samningar voru gerðir af ábyrgðartilfinn-
ingu og hófsemi af hálfu beggja aðila og
voru mjög í samræmi við fyrrgreinda
stefnu stjórnarinnar.
Hinum almennu kjarasamningum er
enn ekki lokið. Leggja verður áherslu á, að
ekki dragist lengi enn að Ijúka þeim, og að
þar verði einnig gætt hófs, svo að ekki
valdi verðþenslu.
Gjaldmidilsbreyting um
áramót og aðgerðir í
sambandi við hana
Sú breyting á íslenskri krónu, sem
verður nú um næstu áramót, er í
meginatriðum forbreyting, en hefur einn-
ig raunverulegt gildi. Hún á í fyrsta lagi
að auka traust manna á krónunni. Þegar
hver króna verður hundrað sinnum meira
virði en nú, þá er hún komin í hóp annarra
gjaldmiðla á Norðurlöndum. En þessi
hugarfarsáhrif geta því aðeins orðið að
gagni, að aðrar ráðstafanir fylgi, sem
sannfæri almenning um, að alvara sé á
ferðum til þess að treysta gildi krónunnar
og veita verðbólgunni viðnám. Samfara
þessari breytingu hefur ríkisstjórnin í
huga margháttaðar efnahagsaðgerðir.
Gagnger athugun og endurskoðun er nú
hafin á þeirri víðtæku sjálfvirkni, sem nú
á sér stað, ýmist samkvæmt lögum,
samningum eða venjum, um verðlag,
vexti, kaupgjald, lán og önnur atriði, er
verulega skipta um þróun efnahagsmála.
Þessi sjálfvirkni og víxlhækkanir eiga
sinn mikla þátt í verðþenslunni. Um þessi
mál verður haft samráð við þau samtök,
sem hlut eiga að máli.
Unnið er að nýjum vísitölugrundvelli,
sem ætti að geta gengið í gildi kringum
áramótin.
Orkumál
Ahersla hefur verið lögð á orkufram-
kvæmdir, m.a. til að flýta fyrir, að
innlendir orkugjafar komi í stað inn-
fluttrar orku. Þannig er áætlað, að
framkvæmdamagn í raforkuframkvæmd-
um sé nálægt 50% meira í ár en í fyrra og
um fimmtungi meira í varmaveitufram-
kvæmdum. Ríkisstjórnin mun áfram
leggja mikla áherslu á framkvæmdir í
orkumálum, einnig til að tryggja öryggi
notenda.
Sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar
til að auka raforkuvinnslu á komandi
vetri með uppsetningu gufuaflsstöðva og
með borúnum fyrir Kröfluvirkjun. Vest-
firðir hafa veirð tengdir landskerfinu nú í
haust og einnig Vopnafjörður, og unnið er
að framkvæmdum við Suðausturlínu milli
Héraðs og Hornafjarðar. Framkvæmdir
við Hrauneyjarfossvirkjun ganga sam-
kvæmt áætlun og á 1. áfanga hennar að
komast í notkun að ári.
Rannsóknum vegna fyrirhugaðra virkj-
unarkosta fyrir landskerfið miðar vel.
Samkvæmt stjórnarsáttmála er að því
stefnt, að næsta virkjun verði utan
eldvirkra svæða. Er þess vænst, að unnt
verði að taka ákvörðun þar að lútandi á
næsta ári.
Stjórnarsáttmáli gerir ráð fyrir fram-
kvæmdaáætlun í orkumálum til næstu
5—10 ára og að mörkuð verði samræmd
orkustefna til langs tíma. Er undirbún-
ingur hafinn um þau efni.
I undirbúningi er stefnumörkun um
áframhaldandi rannsóknir vegna hugsan-
legra olíulinda á íslenska landgrunninu í
samræmi við stjórnarsáttmála.
Sjávarútvegur
og fiskvinnsla
Þorskafli Islendinga verður, að öllum
líkindum, 380—400 þúsund lestir á þessu
ári. Miðað við síðustu niðurstöður Haf-
rannsóknastofnunar er ekki ástæða til að
ætla að þorskstofninum sé ofgert með
þessari veiði. Virðist eðlilegt að stefna að
svipaðri veiði árið 1981.
Utgerðin hefur átt í verulegum rekstr-
arerfiðleikum síðustu mánuði, og stafar
það fyrst og fremst af hækkun á olíu og
öðrum útgerðarkostnaði. Með ákvörðun
fiskverðs 1. október er brúttóafkoma
útgerðar orðin jákvæð, að mati Þjóð-
hagsstofnunar.
Skreiðar- og saltfiskverkun hefur staðið
vel og virðist ástæða til að ætla að svo
verði einnig á næsta ári.
Gerðir hafa verið viðunandi samningar
um sölu á saitsíld. Frystingin hefur átt í
verulegum erfiðleikum. í lok síðasta árs
var verðhækkunum innanlands og stöðn-
un fiskverðs á Bandaríkjamarkaði ekki
mætt með nauðsynlegri aðlögun gengis.
Með ýmsum aðgerðum stjórnvalda, miklu
gengissigi undanfarnar vikur, minnkandi
birgðum og hagkvæmari framleiðslusam-
setningu, telur Þjóðhagsstofnun, að
rekstrargrundvöllur frystingarinnar sé að
verða jákvæður að nýju.
Unnið er að mörkun fiskveiðistefnu,
fyrst og fremst með tilliti til þorskveiða.
Að því er stefnt að samræma veiðar og
vinnslu, að reyna að tryggja, að heildar-
markmið veiða standi, og að gæði afla og
framleiðslu séu sem mest. í þessu skyni
mun einnig gæða- og framleiðslueftirlit
verða hert. Fátt er mikilvægara fyrir
okkur íslendinga en að framleiðsla sjáv-
arafurða hér á landi sé ætíð til fyrir-
myndar.
Landbúnaðarmál
Ríkisstjórnin hefur gripið til ráðstaf-
ana í landbúnaðarmálum, sem hafa það
að markmiði að laga búvöruframleiðsluna
eftir markaðsaðstæðum. M.a. þess vegna
varð samdráttur í mjólkurframleiðslu á
nýliðnu verðlagsári landbúnaðarins um
5,2% eða 6 millj. lítra.
Til þess að vega upp á móti þeim
erfiðleikum, sem samdrætti í hefðbundn-
um búgreinum eru samfara, er unnið að
aukinni fjölbreytni í framleiðslugreinum
og atvinnustarfsemi sveitanna. Jafnframt
verður útvegað fé til að mæta hluta af
þeim halla, sem varð af útflutningi
búvara á síðasta verðlagsári, svo sem gert
var vegna ársins á undan, eftir að
ríkisstjórnin tók við í febrúar.
Á þessu Alþingi mun landbúnaðarráð-
herra leggja fram af hálfu ríkisstjórnar-
innar tillögu um stefnu í landbúnaðar-
málum og munu væntanlega fylgja henni
lagafrumvörp, er miða að breytingum á
landbúnaðarlöggjöfinni, m.a. í þá átt að
ákvarðanir um verðlagningu á búvörum
verði teknar með beinni aðild fulltrúa
ríkisins.
Iðnadur
I iðnaði hefur verið við ýmsa örðugleika
að etja á þessu ári í kjölfar kostnaðar-
hækkana innanlands. Ríkisstjórnin beitti
sér f.vrir ýmsum ráðstöfunum til að létta
á þessum erfiðleikum, m.a. voru niður-
greiðslur auknar á ull til iðnaðar og
hraðað endurgreiðslu á uppsöfnuðum
söluskatti. Staðan hefur breyst til hins
betra í útflutningsiðnaði að undanförnu.
Einstakar greinar iðnaðar hafa átt í vök
að verjast vegna harðnandi samkeppni við
innfluttar vörur í kjölfar tollalækkana,
svo sem sælgætisiðnaður og húsgagnaiðn-
aður.
Til að bregðast við þessu og auka
svigrúm til aðlögunar var settur á tíma-
bundinn toilur á innflutt sælgæti og hafið
þróunarátak í greininni. Að margháttuð-
um endurbótum er nú unnið með sam-
vinnu fyrirtækja og samtaka iðnaðarins,
og stuðningi stjórnvalda og þjónustu-
stofnana iðnaðarins. Markmiðið er að
styrkja stöðu iðnaðarins á heimamarkaði
og í útflutningi, auka framleiðni og
afköst.
Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika eru
horfur á, að iðnaðarframleiðsla vaxi í
heild um nálægt 4% á þessu ári. Gætir
þar aukningar kísiljárnsframleiðslu, en
framleiðsla á öðrum iðnaðarvörum hefur
einnig vaxið verulega á árinu.
Jafnhliða því sem ríkisstjórnin beitir
sér fyrir bættum starfsskilyrðum í iðnaði
er unnið að stefnumörkun um iðnþróun til
lengri tíma. Verður þingsályktunartillaga
um iðnaðarstefnu lögð fram á þessu þingi.
Unnið er að gagnasöfnun og mati á
meiriháttar nýiðnaði, er m.a. byggi á
innlendri orku og hráefnum, eins og
kveðið er á um í stjórnarsáttmála.
Athugun á hagnýtingu orkulinda landsins
til eflingar íslensku atvinnulífi er mikil-
vægt verkefni, og brýnt að fá sem
skýrasta mynd af þeim kostum, er til álita
koma.
I undirbúningi er reglugerð um iðn-
garða og unnið er að stefnumótun um
opinber innkaup.
Flestar innlendar skipasmíðastöðvar
hafa haft næg verkefni á árinu og aðgang
að stofnlánum til endurbóta á aðstöðu
sinni. Athugun á framtíðarstöðu skipa-
smíðaiðnaðarins stendur yfir og tengist
m.a. stefnumörkun um viðhald og endur-
nýjun fiskiskipastólsins, ekki síst báta-
flotans.
Lánasjóðir iðnaðarins hafa verið efldir
á árinu með fjármagni og ný lög verið sett
um Iðnrekstrarsjóð, sem ætlað er að
styðja undirstöðuverkefni varðandi iðn-
þróun.
Félagsmál
Frá því að ríkisstjórnin tók við, hefur
margt gerst á sviði félagsmála, sem
markar þáttaskil. Þar ber fremst að nefna
lögin um húsnæðismál. í þeim lögum er
gert ráð fyrir stórauknum framlögum til
verkamannabústaða, tryggt að gert verði
átak til útrýmingar heilsuspillandi hús-
næðis, og í lögunum er ákvæði um
verðtryggingu skyldusparnaðar.
í annan stað ber að nefna lögin um
aðbúnað á vinnustöðum, en þar eru
skapaðar forsendur fyrir verulegum
áhrifum starfsmanna á nánasta starfs-
umhverfi á vinnustað. í þriðja lagi skal
hér bent á framkvæmd laganna um aðstoð
við þroskahefta, þar sem þegar er um að
ræða myndarlegar athafnir, en í fjárlaga-
frumvarpinu er enn gert ráð fyrir auknu
átaki á þessu sviði.
Þá skal þess getið, að alþjóðaár fatlaðra
hefur þegar verið undirbúið og skipuð
sérstök framkvæmdanefnd vegna þess.
Tekjutrygging hefur hækkað, og áfram
verður stigið nýtt skref í þá átt á næsta
ári.
Samgöngumál
Á sviði samgöngumála hefur erfiðleika
Flugleiða borið einna hæst. Vegna þess
hve Norður-Atlantshafsflugið frá Lux-
embourg til New York hefur haft mikla
þýðingu fyrir íslenskan þjóðarbúskap,
ákvað ríkisstjórnin að bjóða aðstoð til
þess að því mætti halda áfram á meðan
framtíð flugsins er skoðuð nánar. Rekstr-
arfjárstaða Flugleiða er mjög erfið, svo að
innanlandsflug og nauðsynlegustu tengsl
við umheiminn eru í hættu. Við þeim
vanda ber stjórnvöldum skylda til að
bregðast. Því hefur verið lagt fram á
alþingi frumvarp til laga um aðstoð við
Flugleiðir.
í ár er lagt bundið slitlag á 92 km af
vegum. Það er yfir tvöfalt meira en áður
hefur verið gert á einu ári. Slíkum
framkvæmdum þarf að halda áfram með
svipuðum eða auknum krafti, samhliða
öðrum verkefnum á sviði vegamála.
í dómsmálum. kirkjumálum. mennta-
málum og heilbrigðismálum eru margvís-
legar umbætur fyrirhugaðar og verða
ýmis frumvörp um þau efni lögð fyrir
Alþingi í vetur.
Islenska þjóðin á við mikla og marg-
háttaða örðugleika að etja. Verðbólgan er
þar verstur Þrándur í Götu. Hún er að
verulegu leyti okkar eigin smíð, íslend-
inga. Til þess að vinna bug á þessum
alvarlegu erfiðleikum þurfa allir að taka á
sig skyldur og byrðar.
En hins vegar megum við ekki einblína
á erfiðleika og dökkar hliðar. Við eigum
því láni að fagna, að meðan flestar
grannþjóðir okkar stynja undir böli at-
vinnuleysis, hefur hér á landi tekist að
tr.VRKja næga atvinnu og afstýra atvinnu-
leysi. En einnig þetta lán er fallvalt, ef við
sjáum ekki fótum okkar forráð.
Með samhentum átökum, stillingu og
festu mun íslenska þjóðin nú sem fyrr
sigrast á örðugleikum og andbyr og sigla
fleyi sínu í farsæla höfn.