Morgunblaðið - 17.01.1981, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 17.01.1981, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 17. JANÚAR 1981 25 Halldór Laxness: Ávarp vegna Máríusögu Herra forseti Bókmentafélags, heiðruðu aðalfundargestir. Þegar forseti okkar bauð mér að taka til máls á þessum aðalfundi Hins íslenska Bókamentafélags 1980, tók ég boðinu fegins hendi af þeirri ástæðu að ég hef leingi, vonandi þó ekki of leingi, þóst eiga dálítið erindi við félagið sakir málefnis sem mér er hugarhaldið. Reyndar hef ég aldrei vitað með vissu hvar skyldi bera niður ef ég ætti að fá íslendínga til að taka við sér í því máli. Nú hef ég komist að þeirri niðurstöðu að Bókmentafélagið kynni að vera ólíklegt til að láta þetta erindi mitt með öllu sem vind um eyrun þjóta. En orð eru til alls fyrst. Svo er mál með vexti, og stundum þarf að minna íslendínga á það, að við hófumst til bókmenta á þjóðtúngu okkar um svipað leyti og sú þjóð frakkar, sem að sínu leyti hafa um aldir verið mest bókmentaþjóð álfunn- ar. Líklegt er að bækur hafi fyrst borist híngað með norrænum mönn- um, þeim sem við nefndum Vestmenn, og stofnað höfðu nýlendu á austur- strönd Einglands og tekið þar kristni skömmu fyrir landnám íslands. Eing- lendíngar nefndu þjóð þessa dani til forna, en kalla þá „víkinga" núna, eftilvill af ástæðum sem meir heyra undir túristaprópaganda en sagn- fræði. Þegar þessir skandínavar voru gerðir útrækir úr nýlendu sinni í Austur-Anglíu á frumtíð íslandsbygð- ar, hafa margir þeirra fyrir víst leitað híngað til lands. Þessi norræna þjóð af Einglandi var bóklesið fólk. Ekki er það útí bláinn þegar Ari teingir tímatal á íslandi við hneisufult enskt ártal, 870, og kynni að hafa markað upphaf á endi norrænna yfirráða á Einglandi. Fróðum mönnum um sögu „vík- ínga"-tímabils á Einglandi, þarámeðal próf P.H. Sawyer, ber saman við íslenskar bækur fornar um að ísland hafi að verulegu leyti byggst af Vestmönnum; en þetta fólk var kristið og mart af því læst á bækur þegar það kom til íslands, — þveröfugt við landflótta bændur sem híngað rákust úr Noregi. Kanski var það þetta fólk sem samþykti með lófataki á Alþíngi við Öxará að heiðnir menn á íslandi skyldu verða kristnir uppúr þurru þar sem þeir stóðu á Lögbergi einn vordag á því hentuga og velmeðfærilega ári í sagnfræði, árinu þúsund. Eitt er víst, áðuren við byrjuðum að semja íslendíngasögur og safna eddu- fræðum og öðrum kellíngabókum upp- úr 1200 hafði hér staðið frjósamt bókmentaskeið í heila öld, svo á latínu sem á móðurmálinu. Hér höfðu gervöll landslög verið bókfest snemma á 12tu öld; jafnvel á lltu öld eru að minsta- kosti skráð tíundarlög Gissurar bisk- ups. Þó hljóta hómilíubækur og aðrar „þýðíngar helgar" að hafa verið enn eldri á íslensku, amk nokkurnegin jafngamlar kristniboði í landinu, því Flutt Hinu íslenska Bókmentaf élagi á aðalfundi, 13da des- ember 1980. án slíkra handbóka er jafnógerlegt að smíða kirkjur einsog að messa eða botna yfirleitt í nokkru sem í kirkju framfer. Sama á við um kirkjutónlist, en án hennar hefði ekki verið hægt að sýngja messu né halda uppi skyldugri tíðagerð. Svo vill til að lifað hafa af fáein skinnblöð frá lltu öld með því tónletri, „neumum", sem fornmenta- menn nútímans, aðrir en franskir benediktsmúnkar, hafa ekki lagt útí að rannsaka svo mér sé kunnugt. Ýmsir klerkar og skólamenn gerðust snemma latínuhöfundar, þar sem bókmenníng barst okkur öll á því máli, svo latína má heita grundvöllur í mentun okkar enn í dag; og eins fyrir því þó nú vefjist fyrir mönnum að beygja mensa. Segja má að á þessu uppgosi bók- menta okkar hafi útlendíngar laung- um haft daufan skilníng. Jafnvel þeim mönnum sem síst skyldi, gleymdist stundum að tólfta öldin var á Islandi lærð öld. Þannig hafa heilar aidir fornra bókmenta hér á landi fallið í skugga hinnar þrettándu, og ekki notið athygli og skilníngs sem vert væri hjá seinni mönnum. Tímabil múnka vék fyrir háklassík einsog íslendíngasögum og eddukvæðum upp- úr tólfhundruð. Hinsvegar má telja það óhjákvæmilegan árángur af „sið- bót Lúters" þegar þarað kom, að eftir innleiðslu hennar hér var skolleyrum skelt við kaþólskri bóköld okkar sem verið hafði undanfari íslendíngasagna og Eddu. I Siðbótinni voru leiðarmörk okkar á mentabraut ekki aðeins flutt frá Einglandi og Frakklandi, og kristilegt uppeldi okkar leyst úr teingslum við" Róm sjálfa, heldur fór svo að við feingum okkur kristilega utanáskrift í skrýtilegum saxneskum sveitapláss- um, tilamunda Wittenberg og Pomm- ern, og lauk með því að við drógum einhversstaðar „Vinda og Gauta her- toga" á tombólu (en svo hljóðar einn af titlum danakonúnga) auk hertogans af Lauenburg og svo framvegis. Sjálf höfuðborg danaríkis, þaðan sem hét að okkur væri stjórnað, var nú lögð undir lágþýska hertoga og kórdjákna Lúters. Norðurevrópskir útkjálkamenn Sið- bótarinnar, og íslendíngar upplærðir af þeim, einsog Arngrímur lærði, flokkuðu í raun réttri bókmentaskeið okkar hið fyrsta, tólftu öldina, undir villu og svíma; svo gerði jafnvel sjálfur Arni Magnússon. Fyrir bragðið liggja bækur þessa guðvísa frumtíma enn í rusli, lítt rannsakaðar, einstöku þó útgefin, en illa og þá mestanpart af útlendum fræðimónnum. Lærdóms- menn okkar létu sér ekki duga að hunsa kirkjulega texta forna, heldur tókst þeim í Siðbótinni að brenna eða rista sundur til iðnaðarþarfa hinar miklu messubækur kirkjunnar og aðr- ar saungbækur, gulls ígildi, dýrlega lýstar og útflúraðar á bókfell, svo og brjóta flestallar myndir og önnur listaverk kirkjuleg sem til voru í landinu, þeim sem ekki var stolið eða rænt og seld útlendíngum fyrir smá- penínga ellegar gefin. Og víkur nú sögunni að bók sem hefur inni að halda mjög fjölvíslega markað litróf þess guðfræðilega raun- veruleiks miðalda, sem kalla má að verið hafi fógnuður og leiðarljós þeirr- ar tíðar manna: máríutignun. Hér gefst ekki tóm til að útlista blöndu sem miðaldir gerðu af skáldskap náttúrufræði sagnfræði guðfræði, öllu í senn, auk aðdáun helgrar meyar; en ég vil aðeins minna á þá tíð þegar maríumyndin var ímynd öryggis og mildi; tákn móðurfaðmsins; og um leið eitt sterkast afl siðmenníngar á her- skáum tíma í Evrópu, þegar Kristur. rómakeisari var myndaður þar sem hann stóð í keisarakápu föstum fótum á þartilgerðum fótstalli, festum utaná krossinn, og krýndur kórónu herkon- únga. Á tólftu öld hafa verið hér höfundar á íslandi sem tóku sér fyrir hendur ýmist að safna semja eða ritstýra að sínum hætti sögu heilagrar meyar, og mikil smiðvél var kristins dóms um þær mundir og upphaldsafl mannúð- arstefnu í heiminum. Sjónarmiðið er okkur nútímamönnum að vísu fjar- lægt; ýmsum finst það óviðkunnan- legt. Eingu síður er hin guðlega kvenmynd þó merki þess að fornís- lendíngar voru bornir uppi af alþjóð- legri siðmenníngu síns tíma. Og bókin Máríusaga, sem samanstendur einsog af mörgum hólfum, þar sem ekki er alténd innangeingt úr einu í annað, er óumdeilanlega höfuðrit frá fyrsta blómaskeiði íslenskra bókmenta, sam- in áðuren Islendíngasögur voru byrj- aðar; og ber þessi bók með sínum hætti fram kvenmynd sem táknaði mildi drottins á vargöld og vígöld. Ég kom ekki híngað til að setja á lángar tölur um Máríusögu en aðeins til að nefna þetta rit á aðalfundi þessa lærða félags í þeirri von að einhver fróður íslendíngur og góðgjarn maður uppvekist til að kanna bókina í útgáfuskyni; ég stend jafnvel í þeirri trú að ekki" einir saman norðmenn, heldur einhver hleypidómalaus landi okkar, kunni að finna sér renna blóðið til skyldunnar gagnvart minníngar- merki frá einu höfuðtímabili íslenskra bókmenta, öndvegisverki sem af ann- arlegum orsökum hefur ekki átt upp á pallborðið hjá íslenskum fræðimönn- um. Ég vona að sú tíð nálgist að íslendíngum, sem stundum eru þrúg- aðir af sjálfbirgíngshætti samfara óþarflega sterkum saxneskum prótest- antisma, megi auðnast að taka til handargagns þetta merkilega íslenska rit frá því öldinni á undan íslend- íngasögum, og láta sér detta í hug að gefa út bókina á prent. Einhver var kanski að halda að sú tíð væri liðin, að við þættumst of góðir lúterstrúarmenn til að líta réttu auga hðfuðrit og sálarbækur íslenskra forn- höfunda frá tíma þegar íslendíngasög- ur voru enn hugur guðs. Má kalla gott dæmi þess, hvers íslendíngar meta bókmentaheiður sinn fornan, að norð- menn, sem sjálfir eignuðust þó ekki heimsbókmentir fyren laungu síðar, skyldu hafa til orðið að hirða upp af götu sinni þetta forníslenska plagg og láta það á prent í Kristjaníu 1871 (í útgáfu sem kend er við norðmanninn Unger). Þessi útgáfa var vísast gerð í málvísindalegum tilgángi, prentuð í tveim bindum, og er rúmar 1200 blaðsíður að stærð. Slík útgáfa hefði mörgum þó að óreyndu virst fremur höfða til ræktarsemi íslendíngs en norðmanns, þar sem bókin er umfram alt vitnisburður um samheyrileik Is- lands yið evrópska menníngu á tíma þegar íslendíngasögurnar sjálfar voru ekki orðnar til. Mér þykir slæmt að útvarpsstjóri skyldi ekki fara að svo eindregnum óskum - segir Vilhjálmur Hjálmarsson formaður útvarpsráðs „ÉG HEF í þessu máli reynt að halda mig við þær staðreyndir, að samkvæmt Iögum veitir iilvarpsstjóri stoður aðrar en forstöðumanna, þó að fengn- um tillögum ráðsins. Ég tel þvi, að hann hafi ekki farið út fyrir valdssvið sitt," sagði Vii- hjálmur Hjálmarsson, formað- ur útvarpsráðs, i samtali við Morgunblaðið í gær, er hann var spurður álits á umdeildum ráðningum fréttamanna til Ríkisútvarpsins. „Ég get hins vegar einnig sagt það," sagði Vilhjálmur ennfremur, „að mér þykir það slæmt að útvarpsstjóri skyldi ekki geta farið að svo eindregn- um óskum útvarpsráðs eins og um var að ræða í þessu tilviki. Hér var atkvæðamunurinn svo mikill." Vilhjálmur sagði, að vegna þessa máls hefði verið boðað til útvarpsráðsfundar í gær. Þar hefðu mætt allir útvarpsráðs- menn og útvarpsstjóri, og mál- in verið rædd. Fréttastjóra Ríkisútvarpsins sagði Vil- hjálmur ekki hafa setið fund- inn, og hefði ekki verið óskað eftir því. Vilhjálmur sagðist ekki vilja rekja umræður á fundinum, en sagði útvarps- stjóra þar hafa svarað ýmsum fyrirspurnum útvarpsráðs- manna. Engar ályktanir voru gerðar. Vilhjálmur Hjálmarsson kvaðst ekki búast við að nein breyting yrði á þeim ráðning- um sem þegar hefðu verið gerðar, enda væri valdið í höndum Andrésar Björnssonar útvarpsstjóra. Ekki kvaðst formaður útvarpsráðs vilja spá um hvort þetta mál yrði til að koma upp erfiðleikum í sam- skiptum útvarpsráðs og út- varpsstjóra í framtíðinni, en hann kvaðst vona, að svo yrði ekki. Þá gat Vilhjálmur þess, að undanfarið hefðu farið fram umræður um verktilhögun í ýmsum málum sem þessum, svo sem er varðandi tilskilda menntun umsækjenda og aug- lýsingar á lausum stöðum, um mætingu fréttastjóra útvarps á útvarpsráðsfundi og fleira. Kvaðst Vilhjálmur vona, að ýmis mál mætti færa til betri vegar í framtíðinni, en þau hefðu ekki verið rædd sérstak- lega vegna síðustu atburða.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.