Morgunblaðið - 13.12.1981, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 13.12.1981, Blaðsíða 18
Ævi og störf flokksleiðtoga Bókmenntir Erlendur Jónsson Matthías Johannessen: ÓLAFIÍR THORS. Ævi og störf. I.—II. 439 + 464 bls. Alm. bókafé- lagið. Rvík, 1981. Þetta er geysimikið rit — á tíunda hundrað blaðsíður alls, margra manna getið eins og gleggst má marka af langri nafnaskrá, efnisatriði í rauninni óteljandi en þó ekki skilið við neitt fyrr en því hafa verið gerð svo tæmandi skil sem kostur er. Ævi og störf er undirtitill bók- arinnar. Höfundur hefur kosið að tvinna það saman. Því verður ekki metið með nákvæmni hversu miklu rúmi er varið til að fjalla um ævi Ólafs Thors né heldur hvað störf hans eru mik- ill hluti efnisins; þó er augljóst að mun meira segir frá hinu síð- ar talda. »Ólafur var alla tíð mikill verkmaður. I raun og veru féll honum aldrei verk úr hendi, og honum þótti skemmtilegra að vinna en skemmta sér,« segir Matthías Johannessen. Fyrst segir frá æsku- og upp- vaxtarárum Ólafs Thors og tek- ur sá hlutinn tiltölulega lítið rúm í ritinu. Ólafur hefur verið glaðvær og einkar líflegur ungl- ingur; og snemma vinsæll meðal jafnaldra; en að öðru leyti fara af honum fáar sögur. Faðir hans, Thor Jensen, var þá og lengi sið- an langumsvifamesti athafna- maður landsins. Ólafur ólst því upp við góð efni, en einnig við atorku og vinnusemi, því Thor Jensen hafði hafist úr fátækt og vissi hvað það gilti að láta hend- ur standa fram úr ermum. Þeir feðgar voru allir í athafnalífinu. Þótt Ólafur lyki stúdentsprófi hefur því tæplega freistað hans að sitja enn marga vetur á skóla- bekk í þeim vændum að ljúka háskólaprófi og gerast embætt- ismaður. Þess konar staðlað líf hefði ekki átt við hann. Stjórnmálaáhugi hefur sýni- lega vaknað snemma með Ólafi. í þann mund sem hann tók að skipta sér af stjórnmálum urðu þau gagngerðu straumhvörf á pólitíska sviðinu að gömlu flokk- arnir frá tímum sjálfstæðisbar- áttunnar liðu undir lok en nýja flokkakerfið varð til — það sem enn stendur. Ólafur gekk til fylgis við Ihaldsflokkinn. Leið- togi hans var Jón Þorláksson, »maður fámáll og fáskiptinn og seintekinn í kynningu.* Athygl- isvert er að Ihaldsflokkurinn hefur strax notið svipaðs fylgis með þjóðinni og Sjálfstæðis- flokkurinn eftir að hann var stofnaður með sameiningu við Frjálslynda flokkinn 1929. Fylg- ið hefur hvikað þetta frá fjörutíu til fimmtíu prósent, en þó yfir- höfuð nær lægri tölunni. Frjáls- lyndi flokkurinn var stofnaður 1926 og varð aldrei fjölmennur. Eigi að síður hafði hann sín áhrif á hinn nýja flokk: »1 stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins gætti meira þjóðernisstefnu Frjálslynda flokksins en fjár- málastefnu Ihaldsflokksins.* Jón Þorláksson sá snemma foringjaefni í Ólafi Thors og hvatti hann til framboðs og seinna til að taka sæti í ríkis- stjórn. En Ólafur fór sér hægt í hvoru tveggja, hugði að læra þyrfti stjórnmál eins og hvað annað og greip ekki fyrstu tæki- færi, sem buðust á þeirri frama- braut. Einnig má minna á að fyrsta áratuginn, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn var stofn- aður, mátti kalla Framsóknar- tímabil; Sjálfstæðisflokkurinn var þá í stjórnarandstöðu og hafði alls ekki þau áhrif á lands- málin sem atkvæðamagnið að baki hans gaf þó tilefni til. Merkilegt er að bera saman skapgerðareiginleika og forystu- hæfileika þeirra þriggja sem drýgstan þátt áttu í að móta sjálfstæðisstefnuna: Jóns Magn- ússonar, Jóns Þorlákssonar og Ólafs Thors. Jón Magnússon »þekkti dularheima mannssálar- innar flestum betur, og átti gengi sitt að þakka glöggri inn- sýn í skapgerð manna. Jón Þor- láksson leit á mannfélagið eins og óbrúað fljót, þar sem ein- göngu þyrfti að beita þekkingu á náttúrulögmálunum til að sigra efnisheiminn.* Um Ólaf segir Matthías að hann »var dulari en margir hugðu og fáir þekktu það sem inni fyrir bjó. Hann var mikill alvörumaður þrátt fyrir hnyttin tilsvör, gáska og spaugs- yrði, sem hann hafði á hrað- bergi.« Má það meðal annars hafa verið að þakka hinu síðar- talda að Ólafur »átti ákaflega auðvelt með að kynnast fólki á fundum og samkomum«. Inn á heimili fór hann ekki til at- kvæðaveiða eins og sumra var háttur. Allir voru menn þessir fastir fyrir. Þegar Jón Þorláksson hugðist hækka gengi krónunnar 1925 er sagt að útgerðarmenn hafi gengið á fund Ólafs og beðið hann að telja Jóni hughvarf svo hann hætti við gengishækkun- ina. Á þá Ólafur að hafa svarað: »Farið upp að Korpúlfsstöðum og snúið niður stóra nautið hans föður míns.« Matthías Johannessen Olafur Thors átti allt sitt gengi að þakka sigrum í frjáls- um kosningum, bæði í flokki sín- um og með þjóðinni. Samt hafði hann slíkt töfravald yfir flokki sínum að hann mun oftast hafa ráðið því sem hann vildi. Þetta ótvíræða vald átti hann meðal annars óskilgreindum persónu- töfrum að þakka. En lipurð hans og hæfileiki til að meta aðstæður hverju sinni vógu líka þungt á metunum. »Óiafur Thors átti menn ekki að óvinum,* segir Matthias Johannessen. Minnum á að pólitíkin var hörð og óvæg- in, margt óþvegið orð látið falla og persónuníð algengt í blöðum og á mannfundum. Víða er drepið á baráttu þeirra Hermanns Jónassonar og Ólafs Thors en þeir höfðu svo ríkan metnað hvor fyrir hönd síns flokks að talið var að hvor- ugur vildi vera ráðherra í ríkis- stjórn þar sem hinn væri forsæt- isráðherrann. »... það var væn- legast til vinsælda í Framsókn- arflokknum að berjast af hörku gegn Sjálfstæðisflokknum.« Þetta kann að þykja furðulegt þar sem um er að ræða tvo borg- araflokka, báða nærri miðju stjórnmálanna. Ráðningin á þeirri gátu fæst ekki á einni síðu þessa rits heldur í því öllu. Bar- átta þessara flokka hefur lengur en annað sett svip á stjórnmálin íslensku. Og svo munu fram- sóknarmenn telja að þeir njóti enn góðs af þessum gamla arfi, auki fylgi í hlutfalli við hörku baráttunnar gegn Sjálfstæðis- flokknum. Kjördæmabreytingin og tvennar kosningar 1942 fóru líka illa í framsóknarmenn sem lengi hugðu á hefndir vegna hrakfaranna þá. Nokkra atburði ber öðrum hærra á stjórnmálaferji Ólafs Thors, t.d. Kveldúlfsmálið á fjórða áratugnum þegar and- stæðingarnir hugðust knésetja Sjálfstæðisflokkinn með því að eyðileggja Kveldúlf. Skjótasti pólitíski sigur Ólafs Thors mun hins vegar talin myndun Nýsköpunarstjórnar- innar þó umdeild væri vegna þess að þar með var kommúnist- um í fyrsta skipti veitt aðild að ríkisstjórn á Islandi. Nokkrir flokksbræður Ólafs Thors studdu ekki þá ríkisstjórn en ekki virðist það hafa valdið nein- um vandræðum þeirra á milli, hvorki persónulega né pólitískt. Það var með naumindum að Al- þýðuflokkurinn fékkst til að taka sæti í Nýsköpunarstjórn- inni eða eins og segir í kaflanum um hana »að engin vandkvæði voru á því, að sjálfstæðismenn og sósíalistar næðu saman, en þeim mun meiri á því, að þeir og alþýðuflokksmenn gætu samið um ríkisstjórn. Það er einnig at- hyglisvert, hvernig framsókn- armenn misskildu stöðuna og töpuðu skákinni.« Þarna var talið að Óiafur Thors hefði leikið á Hermann Jónasson og hefði Hermann un- að þeim málalokum illa. Fyrra bindi ritsins endar á myndun Nýsköpunarstjórnar- innar og ýmsum umræðum um hana. Hið síðara hefst á kafla sem ber yfirskriftina Keflavík- ursamningur en hann markaði endalok sömu stjórnar. And- stæðingar Sjálfstæðisflokksins og varnarsamstarfs Islands við vestrænar lýðræðisþjóðir hafa eflaust gert sér í hugarlund að forystumenn sjálfstæðismanna og bandarískir ráðamenn hafi haft svo góðan aðgang hvor að öðrum að samningur þessi hafi gerst fyrirhafnarlaust. Við lest- ur þessa rits má komast að raun um hið gagnstæða, samningur- inn kostaði mikla vinnu, funda- höld og heilabrot, enda var þar með breytt frá hinni fyrri hlut- leysisstefnu íslendinga. Og Sósí- alistaflokkurinn hvarf úr ríkis- stjórn. Forsetakosningar 1952 eru dá- lítið sérstæður kapítuli í stjórn- málasögunni. Þá gerðist það að margir sjálfstæðismenn fóru ekki að tilmælum flokksforyst- unnar. Upplýst er að Ólafur hafi fyrst viljað styðja Ásgeir Ás- geirsson en eining hafi ekki náðst um það. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn buðu þá fram séra Bjarna Jónsson á móti Ásgeiri og Gísla Sveinssyni, gömlum sjálfstæðismanni. Þeir munu ekki hafa átt skap saman, Ólafur Thors og Gísli Sveinsson. Þegar öllu var á botninn hvolft réðu í þessum framboðsmálum ýmiss konar málamiðlanir eins og gengur og gerist í pólitíkinni. — Sjálfur hafði Ólafur Thors enga löngun til að verða forseti. Næstu árin blésu vindar úr ýmsum áttum. En 1960 var Við- reisnarstjórnin mynduð undir forsæti Ólafs Thors. Reyndist hún einkar farsæl og var við völd allan næsta áratug eins og kunn- ugt er. En Ólafur Thors var orð- inn aldurhniginn þegar stjórnin var mynduð og féll frá á miðju því tímabili. Ólafur Thors átti sér fleiri áhugamál en stjórnmálin þó hann hefði nauman tíma til að sinna þeim. Sem ungur maður iðkaði hann skák og var alla tíð síðan skákáhugamaður. »Skák- fréttir voru það fyrsta, sem hann las í blöðunum,« segir Matthías. Hann hafði líka mikinn áhuga á menningarmálum og voru ýmsir rithöfundar og menntamenn heimagangar hjá honum. Ólafur Thors var vel ritfær en þó sýnu meiri ræðumaður. »Þó að margar ræður Ólafs Thors sómi sér vel á prenti, eru þær ekki nema svipur hjá sjón miðað við það, þegar hann flutti þær sjálfur,* segir Matthías. Þau eru lokaorð þessa rits að Ólafur Thors hafi verið »um fram allt brjóst og forusta fyrir þeim íslendingum, sem trúa á frelsi einstaklingsins, samstarf stéttanna og allsherjaruppbygg- ingu í frjálsu landi.* Eins og fyrr segir er þetta rit geysimikið að vöxtum og um- fangi. Höfundur vann að því ár- um saman og leitaði víða fanga. Margar heimildir hans eru frá fyrstu hendi. Höfundur hefur leitast við að skoða viðfangsefn- in bæði innan frá og utan frá: með augum samherja og and- stæðinga. Hér eru margs konar upplýsingar sem aldrei hafa komið fram áður. Ólafur Thors var svo fyrirferðarmikill í ís- lenskum stjórnmálum um sína daga að ekkert gat gerst hér markvert á því sviði sem varðaði ekki að einhverju leyti hann sjálfan og flokk hans. Má því heita að þetta sé íslensk stjórn- málasaga þess tímabils sem hann var áhrifamaður og flokks- foringi. Þetta er undirstöðurit. Sagn- fræðirannsóknir, sem beinast að tímabili Ólafs Thors í íslenskri stjórnmálasögu, munu byggja á því um ókomna tíð. Þess utan vekur ritið svo auðvitað athygli vegna þess að það nær að J^rösk- uldi samtíðarinnar, þorri Islend- inga man Ólaf Thors. Og málefni þau, sem hátt ber í ritinu, eru mörg baráttu- og hitamál enn þann dag í dag. MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 13. DESEMBER 1981 Olafur Thors Margrét og Thor Jensen ásamt börnum sínum. Aftari röð f.v. Richard, Kjartan, Olalur, Haukur, Kristín, Kristjana. Fremri röð: Lorentz, Thor, ('amilla, fyrir framan foreldrana Hilmar, þá Margrét.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.