Morgunblaðið - 09.10.1982, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 09.10.1982, Blaðsíða 16
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 9. OKTÓBER 1982 16 L Úr tónlistarlifinu eftir MARGRÉTI HEINREKSDÓTTUR trr I- •tiártíi, nSttfd^ Morgunstundir með Joseph Bloch Undanfarin ár hefur þaö færzt mjög í aukana, að samtök tónlist- armanna fái hingað til nám- skeiðahalds og tímabundinnar kennslu kunna erlenda tónlist- armenn. Söngvarar hafa til dæm- is fengið hingað fræga ljóða- söngvara og píanóleikara, sem hafa sérhæft sig í að starfa með söngvurum, kórarnir hafa fengið söngvara til raddþjálfunar síns fólks — nú síðast á Ung Nordisk Musik Festival voru haldnir fyrirlestrar og námskeið um nú- tímatónsmíðar og þá söngtækni, sem nútímamúsík krefst og þann- ig mætti áfram telja. I tíu ár hefur Félag tónlistar- kennara fengið kunna kennara í hljóðfæraleik til að halda slík námskeið, nú síðast píanóleikar- ann og fyrirlesarann Joseph Bloch, sem verið hefur kennari í túlkun tónbókmennta fyrir píanó við Juillard-tónlistarskólann í New York frá 1948. Eru fyrir- lestrar hans þar orðnir víðfrægir en jafnframt hefur hann ferðast víða og sameinað hljómleikahald og fyrirlestra. Halldór Haralds- son, píanóleikari, heyrði mjög af þessum manni látið fyrir nokkr- um árum á ráðstefnu Evrópu- samhands píanókennara í Lund- únum og fór þá þegar að leggja drög að því að fá hann hingað. Boð stjórnar Félags tónlistar- kennara um að fylgjast með nám- skeiði Blochs gat ég því miður að- eins þekkzt tvo morgna, en þá flutti hann mjög áhugaverða og skemmtilega fyrirlestra um Franz Joseph Haydn og Erik Satie. Fléttaði hann saman fróð- leik, gamansemi og snjallan píanóleik, þar sem hann gaf lýs- andi tóndæmi máli sínu til stuðn- ings. Illa giftur indælismaður í fyrirlestrinum um Haydn gerði hann meðal annars sam- anburð á verkum Mozarts, Haydns og Galuppis, rakti sónöt- ur Haydns upp í einstaka þætti og fjallaði um góðar og slæmar nótnaútgáfur. Hann benti í því sambandi á, að enginn vissi í raun og veru, hver væri hin eina rétta útgáfa verka frá þessum tíma, þar sem útgefendur í þá tíð áttu til að bæta við verkin hinu og þessu flúri, eða fella niður, án þess að geta þess, hvort gert væri með vilja eða vitund höfundar. Fyrir áhugafólk er rétt að geta þess, að Bloch mælti sérstaklega með útgáfu Cristu Landon, sem hann sagði hafa rannsakað verk Haydns árum saman. Maður hennar, Robert Landon, hefur skrifað sögu Haydns í fimm bind- um. „Haydn var víst mikill indælis- maður, vinsæll í samstarfi og góður félagi, en illa giftur," sagði Bloch, þegar við tókum tal sam- an, ásamt Halldóri Haraldssyni, píanóleikara, að fyrirlestrinum loknum. „Hann giftist víst af lít- illi ást konu, sem gerði honum lífið leitt á ýmsan hátt, notaði meðal annars nótnablöðin hans stundum fyrir krullupinna í hárið á sér“. Það er bót í máli, að Haydn var afar afkastamikill tónsmiður, er þó aldrei að vita nema snilldarverk hafi farið þarna forgörðum. Haydn náði, sem kunnugt er, hárri elli og var mikils metinn sem tónskáld. Hans er í dag minnzt bæði sem föður hinnar sí- gildu sinfóníu, sem hann þróaði bæði að formi og hljóðfæraskip- an, og jafnframt þess manns, sem lagði grundvöllinn að kammer- tónlistinni. Frægðarferiil hans fór hægt af stað, hann var kom- inn undir fertugt, þegar byrjað var að gefa verk hans út, að sögn Blochs, en eftir það lá leiðin stöð- ugt upp á við og honum var sýnd- ur margvíslegur sómi. Þess þarf þó að minnast, að ekki er víst, að öll verk Franz Joseph Haydns séu réttilega eignuð honum, hann átti nefnilega yngri bróður, Johann Michael, sem einnig var ágætt tónskáld en ekki eins þekkt og munu brögð hafa verið að því, að verk hans væru eignuð Franz Jos- eph. Innsýn í kennsluhætti Juillardskólans I rabbi okkar kom fram, að þeir Halldór og Bloch heföu hitzt í sumar á ráðstefnu Evrópusam- bands píanókennara (European Piano Teachers’ Association — EPTA) en þar hefðu þeir Halldór og Gísli Magnússon leikið saman á hljómleikum á tvö píanó við mjög góðar undirtektir. Fór Bloch afar lofsamlegum orðum um leik þeirra, sagði þá fyrsta flokks píanóleikara og bætti við, að nemendurnir, sem hann hefði hlustað á hér á námskeiðinu bæru þess merki, að píanókennsla væri hér á háu stigi. Námskeið Blochs var aðeins ætlað píanókennurum og nem- endum langt komnum í námi. Á morgnana voru fyrirlestrar um tónskáld en síðdegis léku nem- endurnir og Bloch leiðbeindi þeim, ekki um tækni heldur túlk- un, fjallaði m.a. um hina ýmsu túlkunarmáta mismunandi píanóleikara á sömu verkum. Spurning sýnist mér, hvort ekki væri ástæða til að gefa áhuga- fólki kost á að hlusta á fyrirlestra á slíkum námskeiðum, gegn til- teknu gjaldi, þótt því væri haldið utan við kennslustundirnar. Það gæti verið mikil uppörvun bæði þeim, sem fást við hljóðfæraleik í frístundum, þó ekki sé nema í heimahúsum, og þeim, sem sækja tónleika. Halldór benti á hve mikils virði það væri að fá Bloch hingað vegna þess, að hann byggði námskeiðið upp eins og kennslu sína við Juillard-skólann. Fengju þátttakendur þar með innsýn í kennsluhætti þar. Nem- endur þess skóla, sem allir eru í framhaldsnámi, sækja tíma hjá Bloch í þrjá vetur. Fyrstu tvo vet- urna er farið yfir píanótónlist frá 17. öld til þessa dags, en á þriðja árinu eru tekin fyrir verk eins tónskálds. í fyrra sagðist Bloch til dæmis hafa farið yfir allan Mozart, í ár yrði farið yfir verk Faurés. Nemendurnir verða að læra verk eftir viðkomandi tón- skáld en geta líka komið meö í tímana tónverk, sem þeir hafa æft fyrir hljómleika, leikið þá hver fyrir annan og fengið leið- sögn Blochs. Margir frægir listamenn hafa stundað nám hjá Bloch og er þess tíðum getið til gamans, að hann felldi einu sinni á prófi píanóleik- arann Van Cliburn, sem frægur varð á sínum tíma fyrir að ná fyrsta sæti í Tschaikovsky- keppninni í Sovétríkjunum, fyrst- ur Bandaríkjamanna. Bloch sagð- ist reyndar orðinn hálf leiður á að láta skrifa um þetta, en gat þess þó, að sér hefði fundizt Van Cli- burn hafa takmarkaðan áhuga, hann hefði lítt skeytt því að læra ný verk og látið sér nægja að spila það, sem hann þegar var orðinn vinsæll fyrir. Van Cliburn er nú farinn að nálgast fimmtugsaldurinn, vel efnum bú- inn og að sögn Blochs, hættur að leika opinberlega. Húmoristinn Satie Fyrirlesturinn um Satie var hinn síðari á námskeiðinu og þá flutti Bloch meðal annars verk, sem Satie samdi á sínum tíma við teikningar eftir franskan lista- mann, Charles Martin að nafni. Hann hafði líka skrifað smá sögur við hverja mynd, þannig að texti og tónar máttu heita mynd- skreyting teikninganna. Þetta teikninga- og tónsmíðasafn var gefið út í lúxusútgáfu í kringum 1914 í aðeins 225 eintökum. Kvaðst Bloch hafa verið svo heppinn að ná í eitt eintak í New York, áður en menn upp- götvuðu almennt hvílíkt fágæti bókin væri. Nú sæist hún aðeins á uppboðum og seldist geypiverði. Bloch sýndi litskúggamyndir af teikningunum um leið og hann sagði sögurnar og spilaði, áheyr- endum greinilega til óblandinnar ánægju. I fyrirlestrinum fjallaði hann að sjálfsögðu um hugmyndir Saties um hlutverk tónlistarinn- ar í lífi manna — „hann vildi að hún yrði hluti hins sjálfsagða í umhverfi hvers manns, þáttur í hversdagsleikanum, jafn sjálf- sagður og stóllinn við skrifborðið eða veggfóðrið í íbúðinni". Hann rakti feril Saties á námsárum hans í París, þar sem hann var rekinn úr tónlistarskóla, gaf dæmi um kaffihúsamúsíkina, sem hann samdi og spilaði sér til framfæris þar og fjallaði um húmor Saties og þróun hans bæði í tónlistinni og töluðu orði. Hann spilaði og spjallaði um hið síend- urtekna stef tónverksins „Vex- ation" sem hann sagði að ætti að leika 840 sinnum og tæki heildar- flutningurinn um sjö klukku- stundir. John Cage, sem Bloch sagði mikinn aðdáanda Saties, hafði einhverju sinni tekið sér fyrir hendur að nota þetta verk til fjáröflunar fyrir gott málefni. Það var flutt á kaffihúsi í New York og skyldu menn borga fimm dollara fyrir aðgang að hljóm- leikunum, en gátu fengið þá endurgreidda, ef þeir sátu hljómleikana til enda. Ekki fylgdi sögunni hve margir fengu endur- greitt, en málefnið mátti víst vel við árangurinn una. „EPTA opnar píanó- kennurum nýjan heim“ Píanólcikararnir Gísli Magnússon og Halldór Ilaraldsson eins og skopteikn- arinn Halldór Pétursson sá þá. Lofsamleg ummæli Joseph Blochs um samleik þeirra Hall- dórs Haraldssonar og Gísla Magnússonar á tvö píanó komu svo sem ekkert á óvart — að öðru leyti cn því, að ég mundi ekki til þess að hafa séð þess að neinu getið, að þeir hefðu leikið í Lund- únum í sumar. Halidór Haralds- son var því inntur nánar eftir þessu ferðalagi þeirra. „Við höfum, eins og þú veizt, verið að spila saman öðru hverju frá 1975,“ sagði hann, „en þetta er í fyrsta sinn, sem við leikum á tvö píanó erlendis. Hljómleikarnir voru haldnir á ráðstefnu Samtaka evrópskra píanóleikara og áheyr- endahópurinn því mjög gagnrýn- inn. Hljómleikarnir voru teknir upp á myndsegulband, sem við gerum ráð fyrir að fá síðar." Nánar aðspurður um samtökin EPTA sagði Halldór, að þau væru tiltölulega ung að árum, stofnuð 1978, að tilhlutan rúmanskrar konu, sem búsett væri í Bretlandi. „Carola Grindea heitir hún og er píanókennari við The Guildhall School of Music — mikil hug- sjónamanneskja. Skipulagið er með þeim hætti, að aðaibækistöð er í Lundúnum og ráðstefna haldin þar árlega, en sérstakar EPTA-landsdeildir í hverju aðild- arlandanna og gangast þær einnig fyrir ráðstefnum öðru hverju. Þess má geta,“ bætti Halldór við, „að við hér á íslandi vorum með fyrstu EPTA-deildunum. Markmið Carolu Grindea var að efla kynni og innbyrðis tengsl píanókennara, sem eru alla jafna fremur einangraðir vegna eðlis starfsins. Á hinum árlegu EPTA- ráðstefnum hittast menn og bera saman bækur sínar — og gangast fyrir tónleikum kennara og nem- enda.“ Halldór kvaðst hafa sótt ráð- stefnur EPTA frá 1979. Þær standa yfir í þrjá daga og eru fyrirlestrar og umræður frá morgni til kvölds auk hljómleika. Samtökum þessum er ætlað að gegna margþættu hlutverki fyrir utan að efla persónuleg kynni píanókennara. í Lundúnum er verið að byggja upp miðstöð upp- lýsinga þar sem á að vera unnt að fá allar nótur, sem fram koma með nýrri píanómúsik, svo og bækur, hljóðbönd og myndbönd, meðal annars með fyrirlestrum og kennslu frægra kennara. Einnig er í bígerð að koma á skipti- kennarastöðum milli landanna, sem gæti orðið píanókennurum mikil hvatning. „Ég held mér sé óhætt að segja, að samstarfið í EPTA hafi reynzt þátttakendum afar gagnlegt,“ sagði Halldór að lokum, „bæði vegna þess lærdóms, sem þangað hefur verið að sækja og hinna persónulegu kynna. Þeim hefur opnast þarna nýr heimur." Islenzka hljómsveitin minnist Haydns I ÁR er þess víða minnzt, að 250 ár eru liðin frá fæðingu Haydns. Það gerir líka íslenzka hljóm- sveitin nýja með því að helga honum og verkum hans tónleika sína 27. nóvember. Þeir bera yf- irskriftina „Haydn sækir Lond- on heim“ og þar verða fluttir tveir strengjakvartettar og tvær sinfóníur Haydns auk frum- flutnings verka eftir íslenzk tónskáld um stef eftir Haydn. Hefur hljómsveitin haft um það frumkvæði að fá þessi verk sam- in í tilefni afmælisins. Þá mun Jón Þórarinsson tónskáld minn- ast Haydns með ávarpi á tón- leikunum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.