Morgunblaðið - 09.10.1982, Side 31
31
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 9. OKTÓBER 1982
|«V
Sigríður Guðjóns-
dóttir - Minning
Fædd 11. maí 1921
Dáin 1. október 1982
„Far þú í friói,
frióur («uós þig blessi,
hafóu þökk fyrir alli og 8111.“
Haustið 1971 hóf ég nám í ní-
unda bekk Vogaskóla. Ég þekkti
þar engan, hvorki kennara né
nemendur, en mamma sagði mér,
að þar kenndi handavinnu skóla-
systir hennar, Sigríður Guðjóns-
dóttir, og henni væri óhætt að
treysta.
Ég kynntist krökkunum fljót-
lega og einnig kennurunum. En
Sigríður reyndist mér alveg sér-
stök. Ég var nýkomin utan af
landi, ókunnug öllum, og setti
traust mitt á Sigríði, af því að ég
fann að það var óhætt, og því
trausti brást hún aldrei. Hún
kenndi mér aðeins einn tíma í
viku, en þeir tímar urðu mér mik-
ils virði. Alltaf var hún reiðubúin
að aðstoða okkur nemendurna við
flest það sem við stungum upp á.
Allar nýjungar kynnti hún sér
jafnóðum og þær komu fram, og
hvatti okkur til þess að læra
eitthvað nýtt, heldur en að fást við
það sem flestir kynnu.
Hún vildi að við ynnum handa-
vinnuverkefnin sem mest sjálfar,
þ.e. teiknuðum munstrin og röðuð-
um síðan litunum, þannig að engin
tvö verkefni yrðu eins, og það bar
oft góðan árangur. Með þessu móti
hvatti hún okkur til þess að vinna
meira sjálfstætt og ef vel tókst til
urðu þessir hlutir okkur mikils
virði.
Ég var aðeins einn vetur nem-
andi Sigríðar, en sá vetur er mér
ógleymanlegur. Það er hverjum
nemanda ómetanlegt að lenda hjá
kennara eins og henni, sem leggur
sig allan fram til þess að ná fram
því besta hjá hverjum og einum.
Kynni okkar urðu ekki ýkja mikil,
en í hvert skipti sem ég hitti hana
urðu mér betur ljósir hennar
miklu mannkostir.
I síðasta skipti, sem ég kom til
hennar, var hún á sjúkrahúsi, og
þá var henni vel ljóst, að hverju
stefndi. En þrátt fyrir það var hún
enn sama góða og glaða Sigríður,
og samtal okkar snerist mest um
lítinn dótturson, sem var stærsti
sólargeislinn hennar.
Ég þakka Sigríði öll kynni okkar
og allt það góða, sem ég naut hjá
henni. Éiginmanni hennar og fjöl-
skyldu sendi ég mínar innilegustu
samúðarkveðjur.
Anna Sólveig Gunnarsdóttir
Löngum hefur viðgengist hér að
skólar væru vanbúnir húsnæði til
íþróttakennslu, einkum fyrstu ár-
in. Sumum þótti því Vogaskóli vel
settur hvað þetta snerti, er hann
hóf störf haustið 1959, því að
skammt frá skólanum stóð gamall
hermannabraggi, arfur frá setu-
liðinu. Sá hafði einnig verið
byggður og búinn með það fyrir
augum m.a., að þar gætu stríðs-
menn fengið nokkra líkamsþjálfun
við sitt hæfi. Skólar og íþróttafé-
lög borgarinnar fengu þar strax
inni er stríði lauk, og leysti vissu-
lega úr þörf, þótt ekki væri vist-
arveran hlý eða þægileg.
Þarna hóf Sigríður Guðjóns-
dóttir störf sín ásamt öðrum
íþróttakennurum þegar á fyrsta
ári skólans. Ekki skorti rýmið,
hátt til lofts og vítt til veggja, á
gólfi gátu jafnvel hundruð manna
verið að sýningu eða æfingum, og
til beggja handa voru hækkandi
bekkjaraðir fyrir þúsund áhorf-
enda. Hins vegar fór minna fyrir
hreinlætisaðstöðu, jafnvel fá sal-
erni og lítt fýsileg. Verra reyndist,
að hús þetta, sem aðrar íverur
setuliðsins, var ekki reist fyrir ís-
lenskt veðurfar og aldrei ætlað til
frambúðarnota. Fór svo oft, að
tæpast var þar líft fyrir kulda, og
stundum var ís á gólfi að morgni
fyrstu kennslustunda, enda hélt
kumbaldinn hvorki vindi né vatni
þrátt fyrir ýmsa viðleitni til úr-
bóta. Við þennan búnað varð þó að
una um árabil, en kannske hefur
su vosbúð m.a. leitt til þess að Sig-
ríður varð eftir nokkur ár að
hverfa frá íþróttakennslu að
læknisboði.
Varð hún nú að hverfa einvörð-
ungu að handmenntakennslu.
Enginn nauðungarkostur var það
skólanum, slík var fjölhæfni henn-
ar og þekking á því sviði. Nemend-
ur hennar, piltar eigi síður en
stúlkur, námu hin fjölbreyttustu
handbrögð við ólíkustu efni, sam-
an virkjuðust hugur og hönd svo
að mótuðust hinir fegurstu og eigi
síður gagnlegustu gripir. Kom
Sigríði þar allt að gagni: með-
fæddir hæfileikar hennar og fyrri
starfsreynsla, menntun hennar
sem handavinnu- og myndlistar-
kennara svo og sífelld viðleitni til
að afla sér nýrrar þekkingar. Þar
naut hún eigi síst hagleikshanda
og kunnáttu eiginmanns síns við
ný viðfangsefni er hún síðan flutti
nemendum sínum.
Glettist hún með það, er ég
heimsótti hana fyrir fáum dögum
á Landspítalann, hvernig bóndi
hennar hafði kennt henni að
kvöldi þá málmsmíði, er hún svo
lét nemendur sína glíma við að
morgni næsta dags. Og allt fór
þetta vel.
Eitt sinn að hausti, er skóla-
starf skyldi hefja, vantaði smíða-
kennara handa hópi fjórtán ára
stráka, sem þóttu heldur seinfærir
og stundum gustmiklir. Leitaði ég
nú til Sigríðar, en hún hafði þá
eigi kennt piltum hér „smíði",
enda handavinnugreinar á þeim
árum mjög kynskiptar. Gaf hún
þess kost að reyna. Heldur tóku
piltar ráðstöfun minni þunglega,
kváðust ekki kæra sig um neina
„kellingu", hvað gæti hún kennt
þeim í smíði? Sumir þeirra leyndu
heldur eigi ógleði sinni í fyrstu
tímum hjá kennaranum, en við-
horfin breyttust svo að um mun-
aði. Þegar nær dró skólalokum og
próftaflan birtist í apríl og þar
stóð að venju, að öll kennsla félli
niður frá byrjun prófa, stormuðu
piltar á minn fund og kröfðust
sinnar handavinnukennslu allt til
síðasta starfsdags skólans hvað
sem liði öllum prófum og lestri
fyrir þau. Var mér ljúft að flytja
Sigríði þessa ósk piltanna og varð
hún vel við henni. Mun sá próf-
mánuður hafa reynst öllum vel, og
hvergi fréttist af skólaleiða.
Svona er margs góðs að minnast
við ferðalok, þótt fleiri dæmi verði
ekki rakin.
Sigríður Guðjónsdóttir var
fædd að Litlu-Háeyri á Eyrar-
bakka 11. maí 1921. Foreldrar
hennar voru hjónin Guðjón Jóns-
son, en ætt hans mun mega rekja
ausur í Skaftártungu, og Jóhanna
Jónsdóttir ættuð úr Gnúpverja-
hreppi. Uppeldi sitt átti Sigríður í
foreldragarði, en systkinin voru 8
og fjögur þeirra eru enn á lífi.
Tæpast mun hafa verið rúmt fjár-
muna á kreppuárunum til að veita
slíkum barnahópi langskóla-
menntun eða listnám, en góð und-
irstaða var Sigríði þó lögð fyrir
ævistarfið. Fyrst lá leiðin í Hér-
aðsskólann á Laugarvatni árin
1937—’39, og íþróttakennaraprófi
lauk hún 1942. Var nú fengin
grundvöllur til starfa, og næstu ár
kenndi hún sund, leikfimi og aðrar
íþróttir við ýmsa skóla og víðs
vegar á vegum UMFÍ. Jafnhliða
annaðist hún handavinnukennslu í
heimabyggð sinni. Fýsti hana að
hljóta frekari menntun og réttindi
á því sviði og lauk prófi sem
handavinnukennari frá Kennara-
skólanum vorið 1953 og ári síðar
teiknikennaraprófi frá Handíða-
og myndlistarskólanum. Var nú
traustur grundvöilur lagður. Síðar
kenndi hún nokkuð við þessa sömu
skóla auk annarra, og lýsir það
best hvert álit hún hafði þegar
hiotið.
En lengstan starfsferil átti hún
við Vogaskóla, 22 ár samfellt frá
stofnun skólans og þar til í fyrra,
er hún veiktist af krabbameini.
Hún lést 1. þessa mánaðar.
Sigríður var grandvör kona og
góður starfsmaður. Hún reyndist
nemendum sínum vel, mat þá
fremur eftir vilja og viðleitni
heldur en upplagi og eðlisgáfum.
Hún var hæversk og hæglát, eigi
afskiptin um annarra mál og lagði
aldrei illt til neins það ég vissi.
Þótt Sigríður fagnaði ekki alltaf
stjórnunarákvörðunum mínum
frentur en vænta má á svo löngum
ferli, þá eru mér minnisstæðari öll
hin atvikin, þar sem hún leysti
með sínum hljóða og hæverska
hætti störf sín af hendi svo að
skólinn mætti eflast að orðspori
og athöfn. Mér fannst Sigríður
jafnan bera með sér þann listræna
ungmennafélagsanda, sem átti svo
sterkar rætur í bernsku- og æsku-
stöðvum hennar, litlu þorpunum
við brimótta suðurströndina. Ekki
er það tilviljun að þaðan komu
frömuðir á tónlistarsviði svo sem
ættbogi ísólfs Pálssonar, mynd-
listarmenn sem Sigurjón Ölafsson
eða ungmennafélagsleiðtoginn
Eiríkur J. Eiríksson, skólamaður
og prestur, svo að nefnd séu nöfn
einhverra þeirra, er fæddir voru
eða uppeldi áttu á Stokkseyri og
Eyrarbakka.
Sigríður var trygg landi sínu og
þjóð og naut þess oft að ferðast
hér um vegi og vegleysur með
manni sínum og dóttur, sækja sér
orku og unað um fjöll og sléttur
fósturjarðarinnar. En líklega hafa
þó sterkastar taugar dregið hana
til bernskuslóða. Þangað leitaði
hún m.a. hvert sumar til sáningar-
og uppskerustarfa, og í dag verður
hún lögð þar til hinstu hvíldar að
eigin ósk.
Ég hygg að Sigríður Guðjónsdótt-
ir hafi verið hamingjusöm. Nefni
ég þar fyrst, hversu henni auðnað-
ist að gefa mögum veikburða nem-
enda trú á eigin getu til mótunar
fagurra og gagnlegra muna. Marg-
ur á henni því að þakka gott hugð-
arefni í tómstundum eða jafnvel
verkefni til arðbærrar iðju. Hún
var ein þeirra góðu kennara, sem
kenna nemendum handbragðið en
hvetja þá til eigin frumkvæðis um
gerð eða myndræna mótun verks-
ins. Slíkir gripir urðu því vinsælir
til eignar eða gjafa.
Sigríður var því gæfusöm í
starfi. En heimilið hygg ég þó að
hafi verið besti unaðsreitur og
griðastaður hennar. Það hafði hún
byggt svo upp með manni sínum,
völundinum Sigurði ó. Haralds-
syni, ættuðum úr Fljótshlíðinni.
Allt þar bar á einfaldan hátt vitni
þess listfenga handbragðs er þeim
lét svo vel að beita. í þessu um-
hverfi hinnar ævafornu íslensku
verkmenningar og nútíðartækni
ólu þau upp einkadóttur sína Val-
gerði Kristínu. Hún gegnir nú
starfi sem handavinnukennari og
ber í öllu foreldrum sínum fagurt
vitni.
Síðustu ævimánuðir Sigríðar
urðu erfiðir, en hún bar þrautir
sínar og örlög með rósemi og jafn-
aðargeði. Svo var því líf hennar
allt.
Við hjónin, samstarfsfólk henn-
ar og nemendur úr Vogaskóla
kveðjum Sigríði Guðjónsdóttur
með söknuði og þökk og vottum
eiginmanni hennar, dóttur og
dóttursyninum litla sem og öðru
venslafólki innilega samúð.
Helgi Þorláksson.
Hver má lýsa þeim heljar
harm,/ horfandi lífs af yztu nöf,/
dauðann leggja óvægnum arm/
elskaðan vin í kalda gröf?
Trúlega getur enginn lýst því —
jafnvel ekki einu sinni sá, sem
reynir ... Þegar bært er við sjálf-
um innviðum lífsins, verður
mönnum jafnan orðfátt.
En þó svo sé, erum við samt ekki
eftir skilin huggunarlaus. Tvennt
er það jafnan, sem bregður birtu
yfir svið sorgarinnar og saknaðar-
ins. Annars vegar ljómi ljúfra
minninga, hins vegar eilífðarvonin
sjálf.
Þegar ég lít um öxl við fráhvarf
Sigríðar Guöjónsdóttur, blasir við
sjónum litríkur og fagur minn-
ingaljómi. Hún var grandvör, ein-
kenndist af yfiveguðu rólyndi og
óhagganlegu jafnvægi. Næmt feg-
urðarskyn hennar birtist í mark-
vissri listsköpun og vinnubrögð-
um. Að mennt var hún kennari í
fimleikum og handíð. Á handíða-
sviðinu eyddi hún mestri starfs-
ævi sinni. Þar komu fram og nutu
sín vel meðfæddar listrænar og
óvenju fjölþættar gáfur hennar.
Allt sem hún gerði, bjó til eða
framreiddi, var fagurt. Á það
jafnt við um munina, sem hún bjó
til og veizluborðin sem hún reiddi
fram. Þau voru listileg skrautverk
í sjálfu sér. Gestrisni, rausn, höfð-
ingslund og örlæti voru henni í
blóð borin, enda var hún gestgjafi
mikill.
Ekki var Sigríður margorð. En
ígrunduð viðhorf hennar birtust í
hnitmiðun athugasemdanna. Þessi
eiginleiki kom fram, hvort heldur
var snert við alvarlegri hliðum
lífsins eða léttari strengir látnir
hljóma. Hún kunni vel að litast
um á vettvangi alvörunnar. En í
góðvinahópi á glaðværri stund var
hún heilsteypt í hjartanlegri gleði,
sem og öllu öðru, og var þá hót-
fyndin, hnyttin og orðheppin —
allt með þessari sérstæðu mark-
vissu hnitmiðun, sem einkenndi
öll verk hennar.
Sigurður Haraldsson, eftirlif-
andi eiginmaður Sigríðar, er móð-
urbróðir konu minnar. Voru leiðir
því alopnar okkar millum, sem
veitti aftur það innsæi í þá eigin-
leika Sigríðar, sem hér eru saman
dregnir í þessum fáu orðum. Sjálf-
ur er Sigurður listilegur völundur
af Guðs náð eins og fagrir smíðis-
gripir hans sýna. Yndislegt var að
sjá, hve samstillt hjónin voru í því
að fylla heimilið sitt heimatilbú-
inni fegurð ... Að sækja þau heim
var alltaf gleðilegt. Að dvelja með
þeim var alltaf mikil ánægja, og
frá þeim fórum við jafnan endur-
nærð af fögnuði. Þess vegna ríkir
angurblíð gleði yfir heimi minn-
inganna, og þakkiæti í huga fyrir
samfylgdina við slíka mannkosta-
veru.
Eilífðarvonin er hinn annar
þátturinn, sem lýsir ofar skuggum
dauðans. Jesús sagði: „Hjarta yðar
skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið
á mig. í húsi föður míns eru marg-
ar vistarverur ... Þegar ég er far-
inn burt og hef búið yður stað,
kem ég aftur og tek yður til mín,
svo að þér séuð einnig þar sem ég
er.“ ... „Sjá, eg gjöri alla hluti
nýja.“ ... „Og hann mun þerra
hvert tár af augum þeirra. Og
dauðinn mun ekki framar til vera,
hvorki harmur né vein né kvöl er
framar til. Hið fyrra er farið."
Kæru, syrgjandi ástvinir, ætt-
ingjar og tengdafólk. Látum ljóma
þessara fyrirheita sameinast
bjarma minninganna, styrkja
okkur öll og hugga á skilnaðar-
stundinni, í fullvissu um sæla
endurfundi.
Jón Hjörleifur Jónsson
l m sumardag blómið í sakleysi hló
en sólin hvarf, og élió til foldar þaó sló.
M J.
Það var fyrir 31 ári, haustið
1951, að 16 stúlkur, sitt úr hverri
áttinni, komu til náms í handa-
vinnudeild Kennaraskólans.
Nú sitjum við hnípnar með
löngun til að setja á blað minn-
ingar og þakkir, þegar ein úr
hópnum kveður skóla lífsins.
Sirrí, eins og við kölluðum hana
alltaf, hét Sigríður Guðjónsdóttir,
fædd 11. maí 1921 að Litlu-Háeyri
á Eyrarbakka. Hún var yngsta
barn hjónanna Jóhönnu Jónsdótt-
ur og Guðjóns Jónssonar. Ólst hún
upp í stórum, samrýndum systk-
inahópi.
Áður en Sirrí kom í Kennara-
skólann hafði hún lokið prófi frá
Héraðsskólanum á Laugarvatni
1939 og íþróttakennaraskólanum
1942.
Handavinnukennaraprófi lauk
hún 1953 og teiknikennaraprófi
ári síðar. Á árunum 1940—1950
kenndi Sirrí á Stokkseyri og Eyr-
arbakka, en lengst kenndi hún við
Vogaskólann í Reykjavík. Sirrí
var þróttmikill og röskur íþrótta-
kennari. Síðari árin sneri hún sér
alfarið að mynd- og handmennta-
kennslu og komu þar vel í ljós list-
rænir hæfileikar helinar og ein-
stök vandvirkni. Árangur af starfi
hennar mun varðveitast í vitund
og verkum þeirra sem kennslu
hennar nutu.
Árið 1956 giftist Sirrí Sigurði
Haraldssyni og eignuðust þau eina
dóttur, Valgerði Kristínu.
Heimili þeirra var fallegt og
traust, enda hjónin bæði listfeng
og fjölhæf og samvinnan góð.
Alls þess besta naut dóttirin og
stöðugt hélst sterkt samband
systkina og systkinabarna. Það
sáum við glöggt á samskiptum
þeirra systra sem lengst hafa búið
í sama húsi og ferðum Sirríar
austur að Eyrarbakka um sauð-
burðinn til hjálpar á æskuheimil-
inu. Og aldrei munu ættingjarnir
hafa staðið þéttar saman en í erf-
iðleikum síðustu mánaða.
Sjálf horfðist Sirrí í augu við
sjúkdóm sinn af hreinskilni og
kjarki.
1. október síðastliðinn leysti
dauðinn hana frá þrautum og í
dag kveðjum við einlæga vinkonu.
Alltaf var hún tilbúin að hitta
okkur á góðri stundu. Ýmist tók
hún á móti okkur á heimili þeirra
Sigurðar eða við hittumst á öðrum
heimilum.
Margar ógleymanlegar ferðir
fórum við saman, m.a. til Noregs
1953. Sú venja myndaðist að fara í
ferðalag á fimm ára fresti, síðast
fórum við í Eyjafjörðinn fyrir
fjórum árum.
Þá var glatt á hjalla, margt
skemmtilegt rifjað upp frá skóla-
árunum, t.d. vísurnar hennar.
Við þökkum Sirrí samfylgdina
og biðjum henni blessunar á
ókunnum leiðum.
Innilegar samúðarkveðjur send-
um við eiginmanni, dóttur,
tengdasyni, dóttursyni, litla sól-
argeislanum, og öllum ættingjum
og vinum.
Hve sæl, ó, hve sjel er hver leikandi lund,
ojj lukkan hún er eilíf, þótt hverfi um stund.
MJ.
Skólasystur
ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minn-
ingargreinar verða að berast blaðinu með góðum
fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í mið-
vikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á
mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. í minn-
ingargreinum skal hinn látni ekki ávarpaður. Þess
skal einnig getið, af marggefnu tilefni, að frumort
ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningarorðasíð-
um Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera vélrituð
og með góðu línubili.