Morgunblaðið - 01.06.1983, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 01.06.1983, Blaðsíða 28
2g MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 1. JÚNÍ1983 Safii í skinnbandi eða ómerkilegum shirtingi? — eftir Guðriinu Ólafsdóttur lektor Skilmálum aflétt Á baksíðu Morgunblaðsins á hvítasunnudag birtist frétt af borgarstjórnarfundinum 19. maí sl. Þar er sagt frá því að skilmál- um um hús i Ártúnsholti við Ár- bæjarsafn hafi verið aflétt. Fram kemur að þessir skilmálar hafi verið settir í tíð vinstri meirihlut- ans að kröfu Árbæjarsafns og haft eftir borgarstjóra, að þeir séu fár- ánlegir og verið væri að leiðrétta mistök. Eftir Vilhjálmi Þ. Vil- hjálmssyni, formanni skipulags- nefndar, er haft, að „engin sérstök rök væru fyrir því að halda uppi þessum furðulegu skilmálum", og hann spyr: „Hvers vegna ætti að skylda fólk til að klæða hús sín timbri að hluta og banna því að hafa svalir?" (Leturbr. mín). Reyndar ætlast hann ekki til að fá svar, af því að honum er full- kunnugt um ástæðuna. Fyrir utan greinargóðar skýringar í skipu- lagsgögnum lágu fyrir á fundinum bréf frá borgarminjaverði, Nönnu Hermannsson, þar sem hún skýrir frá sjónarmiðum safnsins. Enn- fremur lá fyrir einróma samþykkt umhverfismálaráðs, sem er rétt- kjörin stjórn Árbæjarsafns, þar sem lagst er gegn því að skilmál- um verði aflétt og færð rök fyrir því. í fréttinni í Morgunblaðinu var bréfs borgarminjavarðar og samþykktar umhverfismálaráðs að engu getið, enda hvort tveggja að engu haft af meirihluta skipu- lagsnefndar og borgarstjórnar. Þar sem ég álít að málefni Ár- bæjarsafns snerti fleiri en kjörna borgarfulltrúa hverju sinni, af því að það er eign allra borgarbúa og á mikilvægu menningarhlutverki að gegna bæði í nútíð og framtíð, vil ég freista þess að svara þessari spurningu formanns skipulags- nefndar, svo að lesendur Morg- unblaðsins og þar með væntanlega obbi Reykvíkinga haldi ekki að hér sé um ofríki og afskiptasemi borg- arminjavarðar að ræða eins og fréttin gefur óbeint í skyn. Hvers vegna skilmálar? Þegar ákveðið var að byggja íbúðarhús í Ártúnsholti í tíð vinstri meirihlutans var gengið allmjög á það svæði, sem Arbæj- arsafni var ætlað í samþykktu að- alskipulagi 1963—1983 og þrengt verulega að safninu að norðvest- anverðu. Stjórn safnsins, þ.e. þá- verandi umhverfismálaráði og borgarminjaverði, var þá heitið að gengið skyldi frá girðingu og að- komu að safninu og skyldi það Guðrún Ólafsdóttir kostað af því fé sem lagt yrði til skipulagsvinnunnar. í annan stað var því heitið að umhverfismála- ráð og borgarminjavörður skyldu hafa hönd í bagga með að ákveða útlit húsa næst safnsvæðinu til þess að umgjörðin utan um það félli sem best að því og truflaði ekki heildaryfirbragð svæðisins. í tillögum að deiliskipulagi í Ártúnsholti sem samþykktar voru í megindráttum þann 21. des. 1981 í skipulagsnefnd og 22. des. s.á. í borgarráði, gefur að líta þessa klausu: „Mikilvægt er að raðhúsin næst safnsvæði Árbæjarsafns hafi lát- laust og heilsteypt yfirbragð, þannig að útlit þeirra stingi ekki í stúf við byggingar safnsins. Skipulagsnefnd mun setja nán- ari skilmála um raðhúsabyggð næst Árbæjarhverfi, s.s. varðandi þakgerð og þakhalla, sem tryggir að húsin falli vel að safnasvæð- um.“ Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í þáverandi skipulagsnefnd tóku þátt í umfjöllun um þetta skipulag eins og eftirfarandi bókun ber með sér: „Við höfum tekið þátt í umræð- um um gerð þessa skipulags í ein- stökum atriðum og gerum ekki at- hugasemdir við það. Með tilvísun til fyrri afstöðu okkar til þess að svæði þetta sé tekið til íbúðabygg- inga, sitjum við hinsvegar hjá við endanlega afgreiðslu þess.“ (Ár- skýrsla skipulagsnefndar og Borg- arskipulags 1981, bls. 24). Ekki er að finna neinar bókanir um „fáránlega" eða „furðulega" skilmála, né heldur varnaðarorð um að verið væri að gera mistök. Hverjir eru svo skilmálarnir? Reyndar er réttara að tala um sérskilmála, af því að allir hús- byggjendur verða að sjálfsögðu að hlíta einhverjum skilmálum. Hér er um að ræða skilmála sem þeim, sem hafa verið svo lánsamir að ná í lóð við Reyðarkvísl, hinni nýju götu meðfram safninu að norð- vestanverðu, er gert að hlíta um- fram aðra sem byggja í þessu hverfi. Borgarminjavörður, umhverf- ismálaráð, Borgarskipulag og höf- undar skipulagsins, Knútur Jeppe- sen, arkitekt og samstarfsmenn hans, lögðu mikla vinnu í að finna þessari væntanlegu raðhúsalengju form án þess þó að leggja óeðli- legar kvaðir á húsbyggjendur eða binda þá við fyrirframgerðar teikningar. Sérskilmálarnir sem endanlega voru samþykktir eru í stuttu máli þessir. 1) Auk þess að þurfa að hlíta ákvæðum um tiltekna stærð og þakhalla, eins og allir hús- byggjendur verða að gera, eiga þök þessara húsa að vera klædd gáruðum málmplötum, járnrauð- um að lit. 2) Kvistir eru ekki leyfð- ir, en heimilt er að setja þak- glugga í þakflöt, þó ekki kúpla. 3) Útskot og svalir sem ganga út úr vegg á efri hæð eru ekki leyfðir. 4) Langhliðarnar eiga að vera klædd- ar standandi borðum. Litur borð- anna á að vera brúnn, en stein- steypu ljós, t.d. hvítur. Já, formaður skipulagsnefndar fer ekki með staðlausa stafi. Það er bannað að hafa svalir. En innan þess ramma sem að ofan greinir eru ótal möguleikar fyrir ráð- snjallan arkitekt. Það er til að mynda hægt að hafa svokallaðar franskar svalir á efri hæð, þ.e. hurð eða hurðir sem opnast beint út úr stofu. Á neðri hæð má gera verönd með glerskála ef vill. Að sjálfsögðu er garður fyrir framan húsin, sem veit á móti suðri og handan götunnar sér á grænt tún Árbæjar. Það verður margur Reykvíkingurinn að sætta sig við minna, jafnvel þótt hann eigi sval- ir og þurfi ekki að klæða hús sitt með timbri. Að sjást eða ekki sjást Haft er eftir borgarstjóra í áð- urnefndri frétt, að húsaröðin muni ekki sjást nema af litlum hluta safnsvæðisins. Þetta er ekki allskostar rétt. Húsaröðin mun sjást af verulegum hluta svæðis- ins og hvað best frá þeim hluta þess þar sem höfuðdjásn safnsins er að finna, kirkjuna og sjálfan Árbærinn. Og þó svo væri ekki, þá fara gestir safnsins um allt svæð- ið, ekki bara um hluta þess ef rétt er að málum staðið. Þeir eiga að skynja svæðið sem heild og allt sem truflar þá heildarmynd, hvort heldur er innan safnsins eða í um- gjörð þess, spillir áhrifunum sem stefnt er að, þ.e. að veita fólki ofurlitla sýn inn í fortíðina, í líf genginna kynslóða eins og það speglast í gömlum húsum og am- boðum. Hvað kemur til? Ástæðan fyrir því, að farið var að hrófla við þessum skilmálum nú er sú, að umsókn um niðurfell- ingu þeirra barst frá byggingarað- ilum einnar húsaraðar (17—25) af fimm, sem eiga að rísa við götuna. Á teikningum sem bárust með umsókninni og umhverfismálaráð fékk til umsagnar, var brotið í bága við öll atriði sérskilmálanna, nema e.t.v. um liti og þakklæðn- ingu. Þakgluggar skaga þó nokkuð upp fyrir mæni, gert er ráð fyrir svölum á efri hæð og farið fram á að losna við timburklæðningu á þeirri forsendu að erfitt sé að halda henni við. Þessi rök vekja mér furðu. Eru íslendingar virki- lega ekki búnir að læra að halda við timbri á því herrans ári 1983? Ég hef ferðast um Noreg þveran og endilangan út á ystu og nyrstu annes þar sem veður eru ekki síð- ur rysjótt en hér. Samt standa timburhúsin við hvern fjörð og hverja vík og þeim er ekki ver við haldið en steinsteyptu húsunum hér, nema síður sé. Ef við erum ekki búin að læra þetta er sann- arlega kominn tími til að fara að gera eitthvað í málinu nú, þegar þúsundir íslendinga eru ótrauðir að byggja sér timburhús. Eins og fyrr segir lagði um- hverfismálaráð til að umsókn þessara húsbyggjenda yrði hafn- að. Ég held ég megi fullyrða að ástæðan hafi ekki verið sú, að það hafi sérstakt yndi af því að leggja stein í götu fólks, heldur af því að forsendur fyrir þessum sérskil- málum eru óbreyttar og margir aðilar höfðu lagt sig í líma við að setja þá, þannig að allir mættu sæmilega við una. Það virðast að- rir húsbyggjendur við götuna gera, en þeir hafa, að því er mér er tjáð, farið eftir skilmálum um- yrða- og athugasemdalaust. Um formlegt lýðræði og raunverulegt Nú er ég ekki með þessum orð- um að vefengja að borgarstjórn hafi rétt til þess að fella niður eða breyta samþykktum eins og gert var í þessu máli. Ég viðurkenni líka að hér er um smekksatriði að ræða og um þau má lengi deila. En ég vil mótmæla hvernig var að þessu staðið. I fyrsta lagi var sam- þykkt umhverfismálaráðs ekki virt viðlits. f öðru lagi hafnaði bæði meirihluti skipulagsnefndar og meirihluti borgarstjórnar (allir fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks) beiðni borg- arminjavarðar og umhverfismála- ráðs um frestun svo að borgar- minjavörður gæti skýrt málið fyrir húsbyggjendum. f þriðja lagi þóttust allir þessir borgarfulltrú- ar, fjórtán talsins, þess umkomnir að dæma störf þess ágæta fag- fólks, sem þarna hafði verið að verki, þ.e. starfsfólk Árbæjar- safns, forstöðumaður Borgar- skipulags, arkitektarnir, sem að skipulaginu unni, ómerk og að engu hafandi með einni handar- uppréttingu að lítt eða óathuguðu máli. Verst er þó að hér voru hags- munir nokkurra einstaklinga látn- ir sitja í fyrirrúmi, en ekki hags- munir borgarstofnunar sem hefur því sérstaka hlutverki að gegna að vera öllum borgarbúum og gestum okkar til uppfræðslu og yndis- auka. Hér hefur lýðræði verið virt að forminu til, en það er langt frá því að ákvörðunin sé lýðræðisleg í raun, því að raunverulegt lýðræði getur það eitt kallast þegar kjörn- ir fulltrúar lýðsins taka heill fjöldans fram yfir hagsmuni ör- fárra einstaklinga. Og ekki er þessi framkoma við eina borgarstofnun til þess fallin að örva starfsmenn hennar til að sýna kostgæfni og árvekni í starfi, ekki síst þegar allt útlit er fyrir, að ekki verði heldur staðið við hitt loforðið, sem safninu var gefið, að reist skyldi girðing á hinum nýju mörkum safnsins því að kostnað- arlausu. Niöurlag Við erum svo lánsamir, Reyk- víkingar, að hafa fengið til starfa einstaklega vel menntaðan og áhugasaman borgarminjavörð, sem hefur rækt sitt starf af mik- illi alúð og dugnaði og eflt safnið á allan hátt og þokað því áleiðis til að verða sómasamlegt sem saga okkar í mannvirkjum og munum. Það má kannski orða það þannig að borgarminjaverði, stjórn safns- ins og öðrum velunnurum þess sé umhugað um að þessi saga okkar sé í veglegu bandi. Það þykir ekki hæfa að gefa út vandaðar bækur í lélegum shirtingi. Þær eru gefnar út í skinnbandi. Gleðin og ánægjan yfir þessu safni, sem þó nokkru af útsvörum borgarbúa er varið til, verður meiri ef umgjörð- in hæfir því. Ég vil því skora á það ágæta fólk, sem er að undirbúa bygg- ingar sínar við Reyðarkvísl að virða þessi sjónarmið og sýna þegnskap sinn og drengskap með því að falla frá breytingunum á sérskilmálunum, jafnvel þótt 14 hendur hafi verið á lofti á borgar- stjórnarfundinum 19. maí. Með þökk fyrir birtinguna. Guðrún Ólafsdóttir Guðrún Ólafsdóttir, lektor, er full- trúi Krennaframboðsins íumhverf- ismálariði. Stóðhestasýning í Gunnarsholti HIN ÁRLEGA sýning stóðhesta- stöðvar Búnaðarfélags íslands var haldin á laugardaginn síðast- liðinn í Gunnarsholti. Sýndir voru rúmlega tuttugu folar, bæði í eigu stöðvarinnar og einstaklinga. Mikill fjöldi áhorfenda fylgd- ist með sýningunni og voru menn sammála um að aldrei hefði stöðin boðið upp á jafn efnilega fola sem nú. Einn fjög- urra vetra foli, Adam frá Með- alfelli, fékk I. verðlaun og 8.13 stig í einkunn, sem er mjög góð- ur árangur. Einnig voru eldri hestar sýnir og sjáum við á myndinni Þorkel Bjarnason hrossaræktarráðunaut ásamt tamningamönnum stöðvarinn- ar, þeim Gísla Gíslasyni og Páli Pálssyni á aldursforsetum stöðvarinnar. Þeir eru frá vinstri talið, Þorkell á Glað frá Reykjum, Gísli á Ými frá Ysta-Bæli og Páll á Hrana frá Hrafnkelsstöðum. Nánar verð- ur sagt frá sýningunni síðar. Ljósmynd Valdimar Kristins- son.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.