Morgunblaðið - 07.02.1984, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 07.02.1984, Blaðsíða 14
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 7. FEBRÚAR 1984 14 GESTSSAGA Kvlkmyndlr Sæbjörn Valdimarsson Framleiðandi FILM Reykjavík, Viking Film AB og Sænska kvikmyndastofnunin Stokkhólmi. Handrit og leikstjórn: Hrafn Gunnlaugsson. Kvikmyndataka: Tony Forsberg. Hljóðstjórn: Gunnar Smári Helgason. Leikmynd: Gunnar Baldursson. Búningar: Karl Júlíusson. Förðun: Gunilla Gransbo. Klipping: Hrafn Gunnlaugsson. Tónlist: Hans-Erik Philip. Sýningartími: 109 mínútur. Aðalhlutverk: Jakop Þór Einars- son, Helgi Skúlason, Flosi Ólafsson, Edda Björgvinsdóttir, Sveinn M. Eiðsson, Gottskálk Sigurðsson, Júlíus Hjörleifsson. Skáld hafa löngum fengist við það freistandi verkefni að draga upp mynd af Söguöld, háttum forfeðra okkar og umhverfi. Oftast hefur útkoman verið glansmyndarleg, fínkembd og strokin. í myndinni Hrafninn flýgur kveður við annan tón. Garparnir eru kolkrímóttir af skít, úfnir og ósjálegir. Klæði fremur léleg, hí- býlin hreysi. Það er þungt í mönnum, þeim stekkur vart bros. Fátt um hlýjar tilfinn- ingar. Mannvíg jafn eðlilegur þáttur í mannlífinu og víxilslátt- ur nútímamannsins. Söguþráður í Hrafninn flýgur er ekki nýstárlegur en skorin- orður, samtölin meitluð og skynsamleg, engu orði ofaukið. Æði og athafnir látnar tala. Hrafninn flýgur segir af Gesti er mátti sem ungur drengur á írlandi horfa uppá norska vík- inga, Þórð og Eirík, drepa föður sinn, leggja eld í húsin og nema systur sína á brott. Hefndar- þorstinn er vakinn og að þessum kafla slepptum er sögusviðið ís- land á Landnámsöld. Gestur er nýkominn að landi, vitandi að féndurna er að finna á þessum fjarlægu slóðum. í stað þess að ganga beint að verki, etur hann þeim fóstbræðr- unum, Eiríki og Þórði, saman, sáir eitruðum grunsemdum hjá þeim í garð hvors annars og veg- ur húskarla þeirra til skiftis. Að endalokum liggja allir í valnum utan Gestur, systir hans, sem orðin er barnsmóðir Þórðar, og sonur hennar, sem fylgst hef- ur með vígum Gests og grefur upp vopnin og hyggur á hefndir er hataður móðurbróðir hans leggur einn á braut. Myndatökunni var valinn staður austur undir Eyjafjöllum og á söndunum við Dyrhólaey og Vík. Þetta hrikalega landslag er ægirammi utanum kalda frá- sögn sem knúin er áfram af hefndarþorsta Gests. Og ekki skaðar að Hrafninn flýgur var tekinn rigningarsumarið mikla, 1983, slabbið og drunginn gerir myndina enn raunverulegri og launar kvikmyndagerðarmönn- unum erfiðið. Hrafn Gunnlaugsson hefur skapað hér nýja íslendingasögu og tekist það vel. Hrafninn flýg- ur er tvímælalaust jafnbesta verk þessa ódeiga listamanns, sem ótrauður framkvæmir það sem hann ætlar sér. Grunar mig að þeir sem helst vildu sjá hann falla flatan á andlitið þurfi lengi að bíða ... Hin sterka framvinda mynd- arinnar, trúverðugt, uppskáldað sögualdarumhverfið og mannlíf- ið, ásamt afburðaleik og kvik- myndatöku að ógleymdri bestu tæknivinnu, (einkanl. hljóðupp- töku), í íslenskri kvikmynd til þessa, gera Hrafninn flýgur að einni athyglisverðustu kvik- mynd, sem gerð hefur verið um þessa tíma. Hún minnir mann reyndar á vissar gerðir vestra og samurai-myndirnar japönsku, enda er efnið skylt. En fyrst og fremst er hún heilsteypt lista- verk sem sómir sér vel frá öllum sjónhornum. Einkanlega eru þó vígasenurnar eftirminnilegar. Þær eru með eindæmum hraðar, velútfærðar, sjokkerandi. Hafa ekki sést betri í erlendum mynd- um. Leikurinn er stórkostlegur, þar er hvergi veikan blett að finna. Er hér, auk atvinnu- manna, marga að finna úr leik- hópi Hrafns. Helgi er ógnvekjandi. Þessi mikilúðlegi leikari hálf-drottnar yfir myndinni, túlkun hans á þessum kuldalega og einræna harðjaxli er minnisstæð. Fram- sögnin karlmannleg og með ein- dæmum skýr og heillandi, að venju. Flosa minnist ég ekki að hafa séð í aðra tíð betri. Hann gerir refnum Eiríki afbragðsskil, læ- vísin og ómennskan lekur af honum. Þeir hafa áður gert góða hluti saman, Flosi og Hrafn. Mikið mæðir á Jakob Þór Ein- arssyni í aðalhlutverkinu, Gesti. Hann nær á því réttum tökum, ekki víðsfjarri velkunnum víga- mannsstíl Eastwood. Það mætti helst finna að framsögninni hjá þessum gjörvulega leikara. Edda Björgvinsdóttir sviptir af sér farsagervinu, sem allir landsmenn þekkja, og nær sterk- um, dramatískum tökum á frek- ar litlu en erfiðu hlutverki. Öll minni hlutverk eru ein- staklega vel mönnuð, margir leikaranna hafa áður unnið með leikstjóranum, hann þekkir þá og laðar það besta fram hjá þeim. Egill Ólafsson og Júlíus Hjörleifsson gera hlutverkum sínum góð skil og Sveinn M. er ómissandi, sér kapítuli. Tónlist Hans-Erik Philip er, þrátt fyrir uppruna hans, ramm- íslensk. Notar m.a. talsvert til- brigði við lagið Á Sprengisandi, e. Kaldalóns. Þó má segja að hún sé jafnvel djössuð á köflum. Annar snjall erlendur lista- maður kemur mikið við sögu í myndinni Hrafninn flýgur, kvikmyndatökumaðurinn Tony Forsberg, sem m.a. hefur unnið með meistara Bergman. Það er unup hvernig hann beitir myndavélinni og gefur köldu myndefninu ljóðrænt yfirbragð. Áður hefur verið vikið að þætti förðunarmeistarans, Gun- illu Gransbo, búningahönnuðar- ins Karls Júlíussonar, leik- myndagerðarmannsins Gunnars Baldurssonar og hljóðstjórnar Gunnars Smára Helgasonar. Öll eiga þau stóran þátt í trúverð- ugheitum myndarinnar og af- hjúpun ósennilegs hetjuskapar og glæsimennsku fornmanna. Hrafn Gunnlaugsson og félag- ar hafa gert tímamótamynd í is- lenskri kvikmyndasögu og hef ég þá trú að Hrafninn flýgur eigi eftir að fljúga hærra og víðar en myndir okkar hafa áður gert og fyrsti viðkomustaðurinn er ekki af lakari endanum — ein fræg- asta kvikmyndahátíð Evrópu, Berlin Film Festival. Einhverjum þykir sjálfsagt nóg um lofgjörðina en þá vil ég hvetja þá, sem aðra landsmenn, að sjá það magnþrungna lista- verk, sem Hrafninn flýgur er óumdeilanlega. Örkin hans Nóa Tónlist Egill Friðleifsson íslenska óperan frumsýndi Örkina hans Nóa eftir Benjamin Britten í Gamla bíói sl. sunnu- dag. Raunar átti sýningin að fara fram daginn áður, en veðurguð- irnir komu í veg fyrir það með fannfergi og tilheyrandi ófærð. Eins og titillinn ber með sér er efni verksins sótt í frásögn Gamla testamentisins af synda- flóðinu. Britten samdi óperuna við texta eins af hinum svoköll- uðu Chester-leikjum, Noye’s Fludde, en þessum leikjum eru gerð ítarleg skil í efnisskrá. Sag- an er hverjum manni kunn. Við fylgjumst með Nóa, konu hans, sonum og tengdadætrum hlýða kalli Drottins um að byggja örk- ina áður en ósköpin dynja yfir. Reyndar er sagan færð dálítið í stílinn í þessu verki. Þannig koma við sögu skrafskjóðurnar, vinkonur frúarinnar, sem ég man ekki eftir að hafa heyrt minnst á í biblíusögunum i gamla daga. Þar að auki er kona Nóa baldin nokkuð. Hún hæðist að bónda sínum fyrir bjástrið við örkina, leggur lítinn trúnað á yfirvof- andi hættu, þverneitar að stíga um borð í örkina, en sest í þess stað að sumbli með vinkonum sínum. Er hér aftur hnikað til heilagri ritningu, því hingað til hefur Nói gamli verið talinn sá ölkæri, en kannski hefur bara þeim báðum þótt gott í staupinu, hver veit? Sem fyrr segir er frúin treg til að stíga um borð í örkina þrátt fyrir ákafar fortölur eig- inmannsins. Lýkur þeim við- skiptum svo að synir þeirra þrír, kapparnir Sem, Kam og Jafet, þrífa kerlingu móður sína, hefja hana á loft og henda henni um borð, en þar var fyrir borð, en þar var fyrir ótölulegur fjöldi dýra, stórra og smárra. Eftir það fylgir verkið hefðbundnum sögu- þræði. Hallór Vilhelmsson fer með hlutverk Nóa. Mikill á velli, guð- hræddur og virðulegur í fasi eins og sönnum ættföður sæmir stjórnar hann fjölskyldu sinni. Og þótt hann þurfi að hasta á kellu sína og hirta nokkur dýr- anna „þá samt bar hann prís“ eins og segir í vísunni góðu. Hann bar sig einnig vel, einkum ef haft er í huga að hann var 600 ára gamall er atburðir þessir gerðust samkvæmt 1. bók Móse og átti þá eftir að tóra í hálfa fjórðu öld til viðbótar. Halldór gerir þessu hlutverki mjög góð skil. Voldug rödd hans nýtur sín vel í þessu verki og hann gætir þess vel að yfirgnæfa hvergi börnin er hann syngur með þeim. Hrönn Hafliðadóttir fer með hlutverk eiginkonunnar og gerir það með prýði, en mætti e.t.v. sýna enn meiri gribbugang er hún gerir uppsteyt gegn bónda sínum. Róbert Arnfinnsson flyt- ur rödd Guðs af myndugleik. Og þá er að minnast á öll þessi elskulegu velsyngjandi, velleik- andi og velspilandi börn, en um 120 börn koma fram á sýning- unni, þar af er um helmingur í hljómsveitinni, sem myndar þennan dásamlega ísafoldar- hljóm, sem er svo aðlaðandi þeg- ar lágvaxnir fiðlungar og hljóð- pípuleikarar feta sín fyrstu spor í stórhljómsveit. En auk þeirra koma nokkrir atvinnuhljóðfæra- leikarar við sögu og spila erfið- ustu raddirnar. Sem kór bera börnin þess nokkur merki að hafa ekki hlotið langa markvissa þjálfun, heldur er hóað saman úr ýmsum áttum. En miðað við æfingatímann verður árangur að teljast furðu góður og hljómurinn var frísk- legur. Jón Stefánsson hljóm- sveitarstjóri kann tökin á ung- viðinu og stjórnar öllum þessum skara af mikilli lagni. Þá er einn- ig ástæða til að geta þess að sex börn, þau er leika syni og tengda- dætur Nóa gamla, fóru með ein- söngshlutverk í óperunni og einnig fjórar unglingsstúlkur er léku skrafskjóðurnar. Öll stóðu þau vel fyrir sínu, voru frjálsleg í fasi og virtust ekki haldin telj- andi sviðsskrekk. Það hlýtur að hafa verið meiri- háttar púsluspil fyrir leikstjór- ann, Sigríði Þorvaldsdóttur, að koma öllum þessum fjölda fyrir á þröngu sviðinu í Gamla bíói. En hún reyndist vandanum vaxin. Sýningin rann í gegn hratt og furðu hnökralítið. Það er sérstök ástæða til að óska þeim Jóni og Sigríði til hamingju með vel unn- ið verk. Það skal skýrt tekið fram, að sá sem hér ber blek að blaði er ekki sérfróður um leikhús. En augu leikmannsins gátu ekki bet- ur greint en einföld leikmynd Gunnars Bjarnasonar, litríkir búningar Huldu Kristínar Magn- úsdóttur, kostulegir dýrahausar Brynhildar Þorgeirsdóttur og látlaus lýsing Árna Baldvinsson- ar hafi tekist mæta vel og mynd- að líflegan ramma um þetta skemmtilega verk. Sömuleiðis setti dans hrafnsins og dúfunnar, sem Ingibjörg Björnsdóttir samdi, sinn blæ á sýninguna. Benjamin Britten hefur lag á því að skrifa einfalda og auð- skilda tónlist, sem hvert barn getur skilið og notið, án þess að nokkurs staðar örli á því að hún sé ódýr eða ómerkileg. Þvert á móti felst í einfaldleikanum hinn hreini tónn, sem gæðir verkið lífi og lit. Þetta verk Brittens er gott dæmi um það, þegar hið einfalda og sjálfsagða lyftist á listrænt plan. Þýðing Jóns Hjörleifs Jónsson- ar virðist lipur og fellur yfirleitt ágætlega að tónlistinni. Þetta framtak íslensku óper- unnar er lofsvert og drjúgt fram- lag til faguruppeldis. Færi betur að ýmsir aðrir aðilar, t.d. ríkis- fjölmiðlarnir, héldu eins vel vöku sinni á þeim vettvangi. Ég vil að lokum færa söngvurum, hljóð- færaleikurum, stjórnendum og öðrum viðkomandi bestu þakkir fyrir góða skemmtun, og hvet foreldra, kennara og aðra uppal- endur til að leyfa ungviðinu að ganga á vit ævintýrsins um Nóa- flóð í velheppnaðri uppfærslu ís- lensku óperunnar. Varla getur hollari dægradvöl nú, þegar þreyja skal þorrann og góuna.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.