Morgunblaðið - 14.03.1984, Síða 18
66
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 14. MARZ 1984
Kaikúnar í girðingu f Mosfellasveit fyrir nokkrum árum. Kalkúnar af þess-
um gamla stofni munu nú vfkja fyrir nýjum og betri stofni frá Noregi, sem
fluttur hefur verið inn.
Úr sláturhúsi ísfugls. Þar er slátrað um 400 þúsund fuglum á ári og í bígerð er að stækka sláturhúsið, að sögn Alfreðs
Jóhannssonar.
Hyggjumst reyna að auka
neyslu á kalkúnakjöti
Rætt við Alfreð Jóhannsson framkvæmdastjóra ísfugls
EITT þúsund kalkúnaegg komu til landsins fyrir nokkrum dögum, flugleiðis
frá Noregi. það er fyrirtækið Hreiður hf. sem flytur eggin inn, og eru þau nú
í útungun uppi í Mosfellssveit, en ætlunin er að ungarnir úr eggjunum myndi
kjarnann í nýjum kalkúnastofni, sem ræktaður verði hér á landi. — Búist er
við að fyrstu kalkúnunum verði slátrað í sláturhúsi ísfugls fyrir næstu jól, og
verulegt magn af kalkúnum verði síðan komið á markað árið 1985. Hreiður
hf. er hlutafélag 60 framleiðenda, sem meðal annars reka sláturhús ísfugls
sameiginlega.
Guðmundur Hauksson verkstjóri hjá ísfugli með sýnishorn af framleiðsl-
unni: Pekingendur, sem eru um 3 kg. á þyngd og holdakjúkling, sem er 1,2
kg- á þyngd.
Alfreð Jóhannsson og Baldvin Viggósson ganga frá sendingu af kjúklingum.
Blaðamaður og ljósmyndari
Morgunblaðsins lögðu leið sína
upp í Mosfellssveit í vikunni, og
hittu þar að máli framkvæmda-
stjórann, Alfreð Jóhannsson, og
hann var inntur eftir hinum ný-
komnu kalkúnaeggjum og öðru í
starfsemi fyrirtækisins.
Fyrsti kalkúnainnflutn-
ingur í mörg ár
„Þessi þúsund kalkúnaegg, sem
við vorum að fá frá Noregi, eru
fyrstu kalkúnaeggin, sem flutt eru
inn hingað til lands í mörg ár,“
sagði Alfreð. „Vegna strangra
reglna um innflutning búfjár og
alifugla eru slíkum innflutningi
þröngar skorður settar, og þau egg
sem nú eru komin og ungarnir úr
þeim verða að vera i strangri
sóttkví. Ég get því ekki leyft
myndatökur af þeim eins og er,
svo dæmi sé tekið.
En þegar frá líður munu þessir
nýju kalkúnar væntanlega mynda
stofn alikalkúna hér á landi, sem
munu verða uppistaðan í ræktun
þessara fugla á íslandi næstu ár-
in. — Fyrir eru að vísu kalkúnar,
og við höfum slátrað nokkur
hundruð stykkjum árlega hin
seinni ár, en framfarir í kynbótum
í alifuglarækt eru það örar að
nauðsynlegt er að fylgjast með og
fá það besta á hverjum tíma. Slíkt
er nauðsynlegt, bæði vegna meiri
gæða framleiðslunnar og einnig
vegna minni kostnaðar við uppeldi
fuglanna, sem svo aftur gerir
okkur mögulegt að bjóða vöruna á
lægra verði til neytenda."
Hyggjast auka kalkúna-
neyslu íslendinga
— Og er markaður fyrir kalk-
úna hér á landi?
„Já, það er þegar nokkur mark-
aður fyrir kalkúna hér, og við höf-
um til dæmis ekki fyllilega getað
annað eftirspurninni undanfarin
ár. Þessi egg, sem við vorum að fá
núna, munu því verða til að gera
okkur kleift að anna eftirspurn-
inni, en um leið hyggjumst við
reyna að auka kalkúnaneyslu ís-
lendinga.
Kalkúnar eru vinsæll matur
víða erlendis, ekki síst sem veislu-
matur, og ég er sannfærður um að
auka má áhuga íslendinga á
þessu, ekki til að minnka neyslu á
öðru, heldur til að auka fjöl-
breytnina. Þetta hefur til dæmis
verið gert með kjúklinga, það er
ekki langt síðan fslendingar byrj-
uðu að borða kjúklinga."
— Og er þá hugsanlegt að hér
hefjist fjöldaframleiðsla kalkúna í
sama mæli og nú er með kjúkl-
inga, eða gilda þar önnur lögmál?
„Kalkúnar verða trúlega seint
svo ódýrir að þeir verði nánast
hversdagsfæða eins og kjúklingar
eru að verða. Kalkúnar verða trú-
lega áfram fyrst og fremst hátíða-
matur. — Þetta skapast fyrst og
fremst af því, að fuglinn er mun
stærri en hænsni og á allan hátt
vandmeðfarnari. Við áætlum til
dæmis að hver hæna verpi ekki
nema um 40 eggjum á ári, og upp-
eldið er einnig vandasamt. Þá er
fuglinn orðinn svo stór og kjöt-
mikill vegna langrar ræktunar, að
erfiðleikum er bundið að láta han-
ann frjóvga hænuna og hefur því
verið gripið til sæðinga í auknum
mæli, svo ótrúlegt sem það kann
að virðast. En íslenskur ráöunaut-
ur er einmitt úti um þessar mund-
ir, að kynna sér sæðingar á kalk-
únum."
Æskileg stærö 4 til 5 kg
— Hver er æskileg stærð kalk-
úna á markaði?
„Heppilegasta þyngdin er talin
vera 4 til 5 kg., en hægt er að hafa
þá miklu þyngri, allt að 12 kg, án
þess að gæðum hraki. En 4ra til 5
kg þyngdin hentar best venju-
legum fjölskyldum. Vaxtartími
kalkúna í þessa þyngd er um 12
vikur. Til samanburðar er vaxt-
artími kjúklinga 7 til 8 vikur, anda
7 til 8 vikur og gæsa 3 til 4 mánuð-
ir, sem er bundið við sumarið
vegna grassprettunnar. Þyngd
þessara fugla er svo talin best
þessi: Kjúklingur 1,2 kg, önd 3 kg,
gæs 4 kg og kalkúnn 4 til 5 kg eins
og ég sagði fyrr.
Vaxtartími fuglategundanna
flestra er mjög að styttast og það
hefur orðið bylting í þeim efnum
hin síöari ár, sem er meðal annars
grundvallarforsenda þess að verð-
ið lækki. Sums staðar eru uppi há-
værar gagnrýniraddir vegna
þessa, enda er víða um lönd beitt
hormónum og lífrænum efnum í
fóðrið til að stytta vaxtartímann.
Það er hins vegar ekki gert hér á
landi, og því tel ég að hér höfum
við einna best kjúklingakjöt á
markaði í heiminum. Fuglinn er
látinn vaxa á eðlilegan hátt, en
kynbótum beitt til að ná fram
betri einstaklingum í betri stofn-
um.“
9 milljónir fugla á einu búi
— Þú ert nýkominn heim frá
Bandaríkjunum, varstu þar að
kynna þér nýjungar í þessum efn-
um?
„Já, ég fór á afskaplega athygl-
isverða, alþjóðlega sýningu í Atl-
anta, þar sem fjallað var um og
sýndar nýjungar í vélabúnaöi við
slátrun og kjötvinnslu. Það er eitt
þeirra atriða, sem við höfum lagt
hvað mesta áherslu á nú síðustu
misseri. Við erum til dæmis í
auknum mæli farnir að bjóða
niðurskorna kjúklinga og úrbein-
aða „fyllta“ kjúklinga til matsölu-
staða og mötuneyta og gjörbylting
hefur orðið og á eftir að verða á
neytendaumbúðum.
Kjúklingar hafa lækkað í verði
undanfarin ár. Það hefur leitt til
aukinnar neyslu. Næsta skrefið er
að gera vöruna enn betur úr garði
og mæta þannig í einu kröfum um
hollan og kolesterolsnauðan mat
og kröfum um mat, sem handhægt
og fljótlegt er að matreiða. Með
breytingum á stöðu kvenna og
aukinni þátttöku þeirra í atvinnu-
lífi vaxa kröfur um mat, sem auð-
velt og fljótlegt er að matreiða.
Þetta er reynslan erlendis og
þannig mun þetta verða hér á
landi og er þegar farið að sjá
merki þess.
Við íslendingar eigum alla
möguleika á því að gera hið sama
og útlendingar i alifuglarækt. Úti
í Atlanta var maður nokkur til
dæmis að halda fyrirlestur um
gríðarlega mikið hænsnabú, sem
þar er nýtekið til starfa. Á því eru
um 9 milljónir fugla, sem gefið er
úr einni stjórnstöð. — Við íslend-
ingarnir létum okkur fátt um
finnast, og sögðum honum frá því,
að á stærsta alifuglabúinu hér á
landi, á Vallá, væru 50 þúsund
fuglar. — Miðað við höfðafjölda
jafngilti það 50 milljónum fugla á
einu búi í Bandaríkjunum!"
- AH
Alfreð Jóhannsson framkvæmdastjóri ísfugls á skrifstofu sinni.
- Ljósm: Kristján Örn Eliasson.