Morgunblaðið - 10.06.1984, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 10.06.1984, Blaðsíða 38
86 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 10. JÚNÍ 1984 Nýlega fékk sænski leikstjórinn Ingmar Bergman enn eina alþjóðlega viðurkenningu fyrir kvikmyndir sínar. Að þessu sinni var það myndin Fanny og Alexander sem fékk fern Óskarsverðlaun og er það einsdæmi í sögunni að mynd án ensks tals fái svo marga Óskara. Hún var valin besta er- lenda myndin og fékk einnig verðlaun fyrir kvikmynda- gerðina, sviðsetningu og myndatöku. Sjálfur höfuðpaurinn, Ingmar Bergman, lét sig vanta við verðlaunaafhendinguna, enda hafði hann lýst því yfir fyrir- fram að sér fyndist þetta verðlaunastand ómerkilegt. Fyrir hönd hans mætti kona hans Ingrid og framleiðandi mynd- arinnar, Jörn Donner, fyrrverandi forstjóri sænsku kvik- Imyndastofnunarinnar (Svenska Filminstitutet). Bergman lét ekki trufla sig við vinnu sína í Múnchen þar sem hann setur nú á svið leikrit um ævi og starf danska skáldsins H.C. Andersen. Hann lét þó hafa það eftir sér að þó hann legði lítið upp úr þessari viðurkenningu frá listrænu sjónarmiði, væri hann mjög ánægður með móttökurnar og sérstaklega væri þetta góð auglýsing fyrir myndina og hjálpaði uppá efnahaginn. Bergman þarf þó ekki að kvíða því að fara á hausinn út af þessari mynd, sem þegar hefur skilað — eftir eitt ár í bíóunum í Ameríku — meiru en sem nemur fram- leiðslukostnaði. Þó er þetta langdýrasta mynd sem tekin hefur verið í Svíþjóð. Ekki gott dæmi um Bergman-mynd Fanny og Alexander er ekki dæmigerð fyrir þær myndir sem Bergman hefur gert, en þær eru nú orðnar æðimargar. Hann er einkum þekktur fyrir að fjalla um vandamál millistéttarfóiks í nú- tímaþjóðfélagi og einkum þann hluta þess sem hefur nægan tíma til þess „að leita að sjálfu sér“, finna til einmanakenndar og sekt- ar. Sálfræðilegar greiningar hans á öryggisleysi mannsins og marg- slungnum hvötum og niðurlæg- ingu hafa gengið eins og rauður þráður um allr hans meiri háttar myndir. í mörgum fyrri myndum hans má greina trúarlegan undir- tón, tilbrigði um birtingarform þess Vonda (Djöfulsins) og leitina að Guði — Guði sem er hljóður, bak við tjöldin, sérstaklega þegar hans er mest þörf til að grípa inn í atburðarásina. Hið mystíska og magíska í myndunum á sér þó jafnan mannleg upptök og for- sendur. Myndir hans munu þó yf- irleitt kallast raunsæisverk og má sjá oft áhrif frá Sartre og exist- ensíalisma hans. Pólitísk afstaða hefur ekki verið áberandi þáttur í verkum hans, þó gætir þess í síð- ari myndunum. Vandamál lista- mannsins og forsendur listsköp- unar hafa oft verið honum ofar- lega í huga, enda brann þetta vandamál heitast á honum sjálf- um á fyrri hluta starfsferils hans sem kvikmyndagerðarmanns er áform hans og hugmyndir fram- leiðenda og smekkur áhorfenda fóru ekki ætíð saman. Nú er hann öllum óháður, á sjálfur fyrirtækin sem framleiða myndir hans eða stjórnar þeim að því leyti sem honum sjálfum þóknast. Fanny og Alexander er hlaðin íburði og lífsnautn og persónurnar lifa lífinu án þess að vera sífellt að grufla í meininguna með tilver- unni. Hún lýsir lífi velmegandi sænskrar kaupmannafjölskyldu í upphafi þessarar aldar þegar menn sem stóðu fyrir sínu höfðu ekki ástæðu til þess að ætla annað en að velmegunin og öryggið væru eilíf sannindi byggð á fyrirhyggju og útsjónarsemi þeirra sjálfra. Ættfaðirinn er látinn er myndin gerist, en amman lifir og heldur í flesta þræði — enda er hún eins konar fulltrúi höfundar og býr þrátt fyrir vonbrigði yfir stóískri ró og virðist vera úr standi til að fara úr jafnvægi í alvöru. Myndin fjallar um syni hennar þrjá og fjölskyldur þeirra . Sá sem mest ber á er hinn lífsglaði kvennamað- ur og kaupmaðurinn sem nýtur lífsins sem mest hann má. Annar bróðirinn, prófessorinn, á við persónuleg vandamál að stríða, en þau fá aldrei heimspekilega úttekt í myndinni og birtast fremur sem grátbrosleg en sem gleðispillir þegar á heildina er litið. Þriðji bróðirinn, leikhússtjórinn, faðir þeirra Fanny og Alexanders deyr í upphafi leiks en allt er í sátt og samlyndi þangað til hin unga ekkja tekur upp á því að verða hrifin af biskupi, fjölskylduvini, sem reynist vera flagð undir fögru skinni. Það dregur ský fyrir sólu hins áhyggjulausa og glaða lífs Alexanders þega hann flytur í biskupsgarð og farið er að beita hann aga hins púritaníska presta- mórals sem er algjör mótstaða þess er hann áður þekkti. Biskup- inn reynist auk þess sálsjúkur í drottnunargirnd sinni og hið nýja heimili verður konu og börnum ekki annað en fangelsi. Alexander verður fyrir andlegum og líkam- legum misþyrmingum og konan reynir án árangurs að flýja. Eftir nokkurt umstang tekst kaup- mannsfjölskyldunni þó að frelsa þau en biskupinn ferst í eldi á voðalegasta hátt. Dulskyggni Alexanders Ingmar Bergman hefur sagt frá því að stærsta stund bernsku sinn- ar hafi verið þegar hann fékk skuggamyndavél í jólagjöf frá ríkri frænku sinni. Slíkt drauma- tæki var einnig miðpunkturinn í lífi Alexanders og undi hann sér við að sýna systur sinni inn í und- raheima ævintýranna. Ævintýra- heimur hans nær einnig út yfir þennan heim því drengurinn er rammskyggn og hefur stöðugt samband við föður sinn sem fylg- ist með á sinn hátt. En drengurinn spyr hvað eftir annað: „Af hverju ertu að koma pabbi þegar þú getur ekkert hjálpað okkur?“ Alexander sér einnig fyrir örlög stjúpans, sem koma honum ekkert á óvart er fréttin berst — hvað eru yfir- náttúrulegir kraftar og hvað er óskhyggja draumlynds barns? Þvf svarar myndin ekki en atburða- rásin er Alexander í hag. Á hann að finna til sektarkenndar eða ekki? Þessi spurning læðist að áhorfandanum þó hún sé ekki sett fram með stórum stöfum af leik- stjóranum. Svör Bergmans varðandi hann sjálfan er hann var spurður um þetta atriði í sjónvarpsviðtali eru athyglisverð. Hann segist á seinni árum hafa gefið upp á bátinn þá efnishyggju sem hann tileinkaði sér á einu skeiði ævinnar. Hugs- unin um dauðann sem skelfdi hann sem ungan mann sé ekki lengur óttaleg. Persónulega gerir hann ráð fyrir öðrum heimi eða sviði og segist oft finna það svo ekki verði um villst að einhver framliðinn vinur eða vandamaður sé svo nálægur að hann geti jafn- vel rétt út höndina. Slíkar yfirlýs- ingar sem þessar í fjölmiðlum eru mjög ósænskulegar og vart væn- legar til árangurs í „kúltúr- pólitíkínni“ en Bergman er nú eins og áður sagði sjálfstæður og óháð- ur og getur sagt það sem honum finnst ef honum býður svo við að horfa. Áhrifin úr heimahúsum Hér í Svíþjóð er hróður Ingmars Bergmans ekki síður á sviði leik- húss en kvikmynda enda hefur hann ætíð jafnframt kvikmyndun- um fengist við leikstjórn og lengi verið starfandi við þjóðleikhúsið Dramaten í Stokkhólmi. Bergman er fæddur í Uppsölum árið 1918, er prestssonur og ólst upp í Stokkhólmi. Eftir stúd- entspróf hóf hann að lesa bók- menntasögu við háskólann í Stokkhólmi. Allt frá æskuárum var hugur hans allur við leikhús og kvikmyndir. Hann tók þátt í kristilegri æskulýðsstarfsemi þar sem hann fékk útrás fyrir leiklist- aráhuga sinn og breytti brátt æskulýðsheimilinu í áhuga- mannaleikhús. Hann tók einnig virkan þátt í leiksviðssetningum stúdenta. Áhrifin úr föðurhúsum koma fram í verkum Bergmans. Eins og áður segir voru trúarleg viðfangs- efni honum ofarlega í huga á fyrri hluta ferils hans. Hann var sem barn og unglingur mjög háður móður sinni sem var bæði „tilfinn- inganæm og óútreiknanleg" eins og hann sjálfur hefur komist að orði. Hann hefur bent á þaö að þangað megi eflaust rekja áhuga hans á tilfinningalífi og persónu- gerð kvenna sem er höfuðþema í mörgum hans myndum. „Konur eru,“ segir hann „miklu flóknari og áhugaverðari verur en karlar. Sem ungur maður var ég hálf hræddur við þær og átti erfitt með að komast í samband. Ég var líka hálf asnalegur í útliti." Ekki er að orðlengja það að Bergman komst yfir þetta vandamál. Stórmeistari leiksviðsins Árið 1942 setti Ingmar Bergman upp fyrsta leikritið er hann hafði sjálfur samið og nú voru ráðandi menn í kvikmyndaiðnaði og leik- húslífinu farnir að gefa honum nánari gætur. Sama ár fékk hann starf sem aðstoðarmaður við kvik- myndastofnun ríkisins, Svensk filmindustri. í samvinnunni við þá stofnun áttu eftir að skiptast á skin og skúrir, því Bergman vildi fara sínu fram og hafði óbilandi sjálfstraust sem átti ekki ætíð samleið með áætlanagerð stjórn- enda. Þau handrit sem Ingmar lét frá sér fara fyrstu árin voru flest lögð á hilluna — en voru síðar tek- in fram og endurunnin og kvik- mynduð. 1944 var ákveðið að kvik- mynda handrit hans að myndinni „Hets“ (Áróður) og var Bergman aðstoðarmaður við upptöku (scripta) sem var stjórnað af ein- um allra færasta leikstjóra Svía, Alf Sjöberg. Mynd þessi hefur ver- ið kölluð fyrsta Bergman-myndin en er í raun og veru verk Sjöberg. Bergman var þá algjör byrjandi á sviði kvikmynda og yfirmenn kvikmyndastofnunarinnar sáu ekki ástæðu til þess að styðja við bakið á honum á því sviði að svo

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.