Morgunblaðið - 03.08.1990, Side 29

Morgunblaðið - 03.08.1990, Side 29
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 3. ÁGÚST 1990 29 Hallgrímur Sig- tryggsson - Kveðja Fæddur 3. júlí 1894 Dáinn 26. júní 1990 Elsku afi er látinn. Hallgrímur Sigtryggsson, eða afi á Hringbraut eins og við sögðum alltaf, var einn af þeim lánsömu að fá langa og tiltölulega heilsu- góða ævi. Hann fæddist 3. júlí 1894 og varð því nærri 96 ára. Kominn hátt á tíræðisaldur og eftir síðasta áfallið, trúi ég að hann hafi verið hvíldinni feginn. En ég veit að elsku amma, Kristín Sigurðardóttir, sem sjálf er komin yfir nírætt, á nú um sárt að binda. Það hlýtur að vera erfitt að kveðja lífsförunaut sinn, ekki síst eftir svo óvenju langa sam- fylgd. Guð gefi þér styrk á þessari stundu elsku amma mín. Ég mun alltaf minnast afa með miklu stolti og gleði. Afi var stór og mikill maður. Hann gat verið þrjóskur og fámáll, farið sínar eigin leiðir, en hann hafði skemmtilegt skopskyn og svo fróður og minnugur var hann að undrun vakti. Afi var sér- deilis blíður og mikil barnagæla. Hann hafði alltaf tíma og ég minn- ist þess aldrei að honum hafi fund- ist ég vera fyrir þó ég væri með nefið ofan í öllu sem hann tók sér fyrir hendur þegar ég dvaldi hjá honum og ömmu. En þær voru margar stundirnar sem ég átti með þeim í æsku. Það var alltaf eitthvað um að vera á þeim bæ. Eitt af því sem mér er minnistæðast var þegar afi byggði stóra dúkkuhúsið handa okkur systrunum. Hann smíðaði það í bílskúrnum sínum og reyndi að halda því leyndu fyrir okkur. En þar sem pabbi kom stundum til að aðstoða afa og við systurnar mættum líka, þá reyndist erfitt að halda forvitnum andlitum frá rifum á gluggunum. Gleðin sem afi veitti okkur með þessu fína alvöru húsi var ein af mörgum sem komu frá honum. Afi kunni ótal skemmtileg- ar sögur og söng mikið fyrir mig. Þar skorti afa ekki hæfileika, enda landsfrægur fyrir sína miklu rödd. Sem vitni um sönghæfileikana var sagt að hann hafi á sínum yngri árum sprengt tónskala píanósins í báða enda. Alla vega var afi mikill bassi og heiðursfélagi Karlakórs Reykjavík- ur. Með fráfalli hans hverfur nú síðasti eftirlifandi stofnandi kórs- ins. Margar eru sögurnar til af afa og flestar mjög skoplegar. Afi varð með árunum mjög heyrnarsljór en þijóskaðist fram á síðustu ár við að nota heyrnartæki. Það varð oft tilefni hláturs hvernig afi gat mis- heyrt það sem sagt var. Amma var ekki alltaf jafn ánægð yfir að þurfa stundum að kalla mörgum sinnum áður en afi heyrði og vildi meina að karlinn hann afi heyrði það sem hann vildi heyra. Því laumaðist nú bros fram hjá ömmu þegar afi blandaði sér í umræður sem hann átti raunverulega ekki að heyra. Elskulega móðir mín, Ragnhildur heitin, sem lést árið 1985, hafði mikið dálæti á afa. Hún og afi áttu stundum í miklum rökræðum og glettni þeirra fór saman. Ef einhver gat fengið afa til að skipta um skoð- un J)á var það hún. Eg veit að hjá henni sem og hjá fjölmörgum öðrum fær hann nú hlýjar móttökur. Afi var kraftakarl mikill og sem ungui' iðkaði hann íþróttir m.a. glímu. Hann veigraði ekkert erfiði fyrir sér og hefur sjálf- sagt stundum lagt of hart að sér. önnur öxlin á afa var lægri en hin. Mér var sagt það stafaði af því að eitt sinn hafi hann lyft vörubifreið, sem hálfvegis fór útaf í snjóbyl, aftur upp á veginn og notaði til þess öxlina. En stóru kraftalegu hendurnar hans afa voru alltaf hlýj- ar og mjúkar. Þær gátu líka nuddað líf í kuldabláa fingur og tær á lítilli stúlku. Oftast var það með ömmu sem ég fór rúnt með strætó, en það var ekki síður ferðunum með afa að þakka að ég rataði vel um bæinn 5 ára gömul. Afi átti forláta Chevr- olet sem hann keyrði langt fram eftir aldri. Það var gaman að fara með afa og ömmu upp í kartöflu- garð, upp í sveit í beijamó eða til Hveragerðis að skoða himinháu trén sem afi hafði eitt sinn plantað við bústaðinn sinn. Mér fannst ekk- ert síðra að fara í göngutúra með afa eftir að hann lagði ökuskírtein- ið á hilluna, því undir það síðasta var ég orðin dálítið smeyk í bíl með afa og grúfði mig gjarna niður í baksætinu. Þó afi tæki að eldast og fætur hans voru oft þreyttir af að bera þennan þunga líkama lét hann það ekki aftra sér í að ferðast um allan bæ. Hann var ekki fyrir að biðja um aðstoð og fannst óþarfi að ómaka aðra út af smámunum, eins og hann sagði gjarna. Það var oft sem bæði ég og aðrir mættum afa á ferð, hvort heldur var að sumri eða vetri. Jafnvel í umferðinni að vetri fékk afi fólk til að brosa. Stundum urðu ökumenn i mið- bæjarumferðinni varir við göngu- staf sem birtist milli snjóskafla og að sjálfsögðu stöðvuðust bifreiðarn- ar. Þar var afi kominn, þreyttur á að bíða eftir að komast yfir svo hann stöðvaði umferðina með stafn- um og gekk síðan þungum en ör- uggum skrefum sína leið. Allir sem þekkja til afa kunna frá einhveiju skemmtilegu að segja um hann. Frægust er sennilega sagan af söngferðalagi Karlakórsins til Kanada. í miðju lagi byijaði fluga að sveima í kringum afa og þar sem hann stóð með galopinn munn flaug hún upp í hann. En rólegheitamað- urinn Hallgrímui' lét það ekki trufla tónleikana, heldur kyngdi einu sinni og hélt síðan áfram að syngja. Já, svona held ég að allir minnist afa. Sem rólegs, hlýs, fróðs, skondins og yndislegs athafnamanhs. Þegar tröppurnar á Hringbraut- inni urðu afa og ömmu of erfiðar og amma hafði lærbrotnað, festu þau sér íbúð á neðri hæð í sama húsi og Þorsteinn sonur þeirra í Nökkvavogi. Það gerði þeim kleift að halda eigið heimili fram yfir nírætt. En þá féll amma aftur og afi fékk áfall við að bardúsa í vaska- húsinu. Þessar framúrskarandi duglegu og yndislegu mannverur fluttu síðan eftir nokkra sjúkralegu inn á Skjól. Eftir að afi og amma fluttu af Hringbrautinni urðu heimsóknir mínar til þeirra því miður frekar stopular, en alltaf mætti ég sömu yndislegu hlýjunni. Þó amma gæti varla gengið var það með herkjum að ég fékk að laga kaffið. Og þó afi ætti erfitt með að tjá sig eftir áfallið þá veit ég hann skynjaði samt töluvert. Og þegar ég heim- sótti hann á sjúkrahúsið gerðist merkilegur atburður í mínum aug- um. Afi hafði ekkert getað tjáð sig fram að þessu, en þar sem ég sat og nuddaði á honum hendurnar eins og hann hafði áður gert við mig, þá héldum við uppi skýrum sam- ræðum í nærri klukkustund og þeg- ar ég kvaddi afa, þá var það með trega. Þetta reyndust verða okkar síðustu alvöru samræður. Hafi elsku afi minn bestu þakkir fyrir allt sem hann hefur kennt mér og gefið af sínu lífi. Guð blessi hann og varðveiti alla tíð. Ég var fjarri þegar afi var til moldar borinn, en hugur minn er hjá ykkur á Islandi. Elsku amma, pabbi, Doddi, Dísa, ,Siggi og aðrir ættingjar. Við hér í Álaborg vottum ykkur okkar dýpstu samúð og megi góður Guð gefa ykkur styrk. Kristín Sigtryggsdóttir og fjölskylda, Alaborg. Hallgrímur Sigtryggsson andað- ist í Reykjavík 26. júní sl. og var borinn til hinztu hvíldar frá Dóm kirkjunni hér í borg þann 3. júlí; þann dag hefði hann orðið níutíu og sex ára, ef honum hefði enzt líf, því fæddur var hann 3. júlí 1894 — að Gilsbakka í Hrafnagilshreppi í Eyjafjarðarsýslu. Með Hallgrími er horfinn af sjónarsviðinu sterkur og óvenjulegur persónuleiki. Hann mun ógleymanlegur hveijum þeim, sem áttu með honum samleið um lengri eða skemmri tíma. Vegferð hans sjálfs spannaði næstum því heila öld ög það var raunar öldin þegar íslendingar stigu fram úr rökkri fortíðarinnar inn í birtu nú- tímans og hófu sig í leiðinni frá örbirgð til bjargálna. Þótt ungur væri að árum var Hallgrímur orðinn liðsmaður í forystuliði samvinnu- hreyfingarinnar fyrir 1920. Er það trú mín að hann hafi hnigið síðast- ur að velli úr þeirri vösku sveit, sem árið 1920 flutti inn í nýbyggt Sam- bandshúsið við Sölvhólsgötu. Foreldrar Hallgríms voru Sig- tryggur Þorsteinsson, lengi starfs- maður hjá Kaupfélagi Eyfirðinga á Akureyri, og fyrri kona hans, Sigríður Stefánsdóttir. Hallgrímur varð gagnfræðingur frá Akureyri árið 1914; hann hóf störf hjá Kaup- félagi Eyfirðinga árið 1915 og starfaði þar til 1918. Um þessar mundir eru miklar breytingar í deiglunni hjá íslenzkum samvinnu- mönnum. Vorið 1917 kemur Hall- grímur Kristinsson heim frá Kaup- mannahöfn til þess að undirbúa opnun aðalskrifstofu Sambandsins í Reykjavík. Sú skrifstofa var fyrst tii húsa á Amtmannsstíg 5 og síðar í húsi Nathan & Olsen í Austur- stræti, unz starfsemin var flutt í Sambandshúsið við Sölvhólsgötu árið 1920 eins og áður var getið. Að áeggjan Hallgríms Kristinsson- ar, forstjóra Sambandsins, flytur Hallgrímur Sigtryggsson suður yfir heiðar árið 1918 og hefur störf á nýstofnaðri aðalskrifstofu Sam- bandsins í Reykjavík. Þar starfaði hann allt til ársins 1965, er hann hætti störfum fyrir aldurs sakir. Frá 1918 til 1939 fékkst hann við innkaup á erlendum vörum og sölu á íslenzkum afurðum. Frá 1939 til 1955 starfaði Hallgrímur í bók- haldsdeild Sambandsins, en síðan við eftirlitsstörf og heimildasöfnun að sögu sambandskaupfélaga. Árin á milli stríða, þegar Hall- grímur sinnti afurðasölu til útlanda og innkaupum erlendis frá, voru merkilegur tími í verzlunarsögu þjóðarinnar. Það er ekki ofsagt, að Islendingar hafi þá verið að hasla sér völl á markaðstorgi heimsins. Þá voru í mótun vinnubrögð og vinnuaðferðir, sem hafa enzt okkur frám á þennan dag. Samvinnumenn voru fljótir að koma auga á þýðingu þess að hafa fasta aðstöðu í mark- aðslöndunum. Skrifstofui' Sam- bandsins í Kaupmannahöfn og Leith gegndu lykilhlutverki í af: urðasölu jafnt sem innkaupum. í öllu þessu merkilega starfi var Hallgrímur Sigtryggsson beinn þátttakandi. Hann fór margar ferð- ir til útlanda á þessum árum. Þá var öldin önnur hvað snerti farar- tæki og farartíma. Þá voru ferðirn- ar mældar í jafnmörgum vikum og nú mundi til fórnað í dögum. Ein- hvern tíma á þessum árum kom Hallgrímur tii Kaupmannahafnat' úr siglingu til Spánar og höfðu þeir hreppt veður svo ströng á út- leið, að út tók mann af skipinu og náðist ekki aftur. Á Sambandsskrif- stofunni í Kaupmannahöfn er Hall- grími tjáð, að Islandsskip sé í brottu og ekki um aðra siglingu að ræða fyrr en að tveim mánuðum liðnum. Hallgrímur vann þá á Kaupmanna- hafnarskrifstofu þessa tvo mánuði en steig að þeim tíma liðnum á skipsfjöl og náði heim til Reykjavík- ur nokkru fyrir jól. Þetta brot úr löngu liðinni ferðasögu hef ég eftir góðri heimild. Það segir okkur hvert regindjúp er staðfest á milli þeirrar aðstöðu sem við búum við í dag og þeirra skilyrða sem búin voru frum- heijunum í íslenzkum utanríkisvið- skiptum. Störf Hallgríms að málefnum samvinnumanna voru ekki bundin við Kf. Eyfirðinga og Sambandið. Hann lét sér mjög annt um málefni Kaupfélags Reykjavíkur og ná- grennis og sat í stjórn þess félags í þijá áratugi, frá 1950 til 1980. Frá 1951 og fram á allra síðustu ár var hann fulltrúi KRON á aðal- fundum Sambandsins. Þá bar það jafnan við, er fundarstjóri hafði slit- ið aðalfundi með hefðbundnum árn- aðaróskum til fundarmanna, að Hallgrímur steig fram, hóf upp sína djúpu og fögru bassarödd og bar fram góðar óskir fundarmanna til fundarstjórans. Ég hef alltaf talið víst að þessi fagri siður mundi upp- runninn fyrir norðan. Hallgrírnur Sigtryggsson var einn af stofnendum Karlakórs Reykjavíkur, félagj í kórnum um áratugi og í stjórn hans um langt skeið. Hann tók þátt í hinum miklu söngferðum kórsins, sem lengi verða í annálum hafðar, svo sem Ameríkuför 1946 og Miðjarðarhafs- siglingu 1953. Þeim, sem voru í Dómkirkjunni í Reykjavík hinn sólfagra þriðjudag 3. júlí 1990, mun seint úr minni líða undurfagur söng- ur Karlakórsfélaga með Guðmund Jónsson í broddi fylkingar. Ég sagði við konu mína, þegar við gengum frá kirkju að athöfninni lokinni: ísland er líklega eina landið í heim- inum, þar sem jarðarför getur snú- izt upp í konsert á heimsmæli- kvarða. Ljóst er, að orðsins list hefur alla tíð verið Hallgrími mjög hug- leikin. Hann var prýðilega hag- mæltur, og þegar vinir hans minnt- ust hátíðlegra stunda, átti hann það tii að setja saman kvæði þeim til heiðurs. Sem ungur maður var hann einn af stofnendum Leikfélags Ak- ureyrar og þess var áður getið að á efri árum sinnti hann söfnun heimilda um sögu samvinnufélag- annaj svo og ritstörfum. Árangur- inn af þessu var m.a. afmælisrit um Kaupfélag Svalbarðseyrar 70 ára, útg. 1959; þá mun og mikið af óbirtu efni liggja eftir Hallgrím á þessum vettvangi. Þegar aðai- fundur Sambandsins 1951 tók sér fyrir hendur að velja nafn á mennta- og fundasetur samvinnumanna við Hreðavatn í Borgarfirði, kom Hall- grímur fram með tillögu um nafnið Bifröst, sem strax festist við stað- inn. Eins og það var gæfa Hallgríms að fá á ungum aldri tækifæri til þess að sinna tímamótaverkefnum í sögu þjóðarinnar, svo var hann og mikill gæfumaður í einkalífi sínu. Eftirlifandi kona hans er Kristín, fædd 30. ágúst 1897, dóttir Sigurð- ar Jónssonar, ráðherra og bónda að Yztafelli í Köldukinn í Suður- Þingeyjarsýslu, og konu hans, Kristbjargar Marteinsdóttur. Hall- grímur og Kristín gengu I hjóna- band 22. maí 1927. Varð þeim fjög- urra barna auðið, sem öll eru á iífi. Þau eru, talin í aldursröð: Sigurð- ur, verkfræðingur, búsettur í Kenýa í Afríku, kona hans er Aranka Bug- atsch sem ættuð er frá Færeyjum, þau eiga tvo syni; Sigtryggur, verzl- unarmaður í Reykjavík, kona hans, Ragnhildur Jónsdóttir, lézt árið 1985, börn þeirra eru sex og barna- börnin sjö; Vigdís, menntaskóla- kennari, búsett í Svíþjóð, hennar maður er Lars Gustav Nilson, menntaskólakennari, og eiga þau einn son; og Þorsteinn, verkfræð- ingur í Reykjavík, kvæntur Mar- gréti Ásólfsdóttur og eiga þau tvö börn. Ég naut þess að kynnast Hall- grími Sigtryggssyni persónulega á fyrstu starfsárum mínum hjá Sam- bandinu, 1951 og síðar. Hann var mikill að vallarsýn, handtakið traust og hlýtt, framkoman gædd ljúf- mennsku og léttleika, en undir niðri skap og festa. Tungutak hans var fágurt og vandað, borið uppi af óvenjulega djúpri og fagurri bassa- rödd. Á langri ævi vann Hallgrímur Sigtryggsson íslenzkum samvinnu- málum allt er hann mátti. Að leiðar- lokum þökkum við honum langa og gifturíka samfylgd um leið og við biðjum blessunar eftirlifandi konu hans, börnum og allri fjölskyldu. Sigurður Markússon stjórnarformaður Sambands ísl. samvinnufélaga. + Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, systir og frænka, ÓLÖF JÖRGENSEN DEVANEY, Suðurvöllum 2, Keflavík, andaðist á Landspítalanum að kvöldi 1. ágúst. John Devaney, Kaj Devaney, Elizabeth Devaney, David Devaney, Carol Devaney, Deirdre Devaney, Guðrún Jörgensen, Carsten Kristinsson, Bryndís Bragadóttir, Snorri Snorrason, Sigrún Snorradóttir, Stefanía Snorradóttir. Innilegar þakkir til allra þeirra, sem sýndu okkur samúð og hlýhug við fráfall og útför móður minnar, tengdamóður og ömmu, HELGU S. ÁSMUNDSDÓTTUR, Grettisgötu 11, Reykjavík. Vignir Á. Jónsson, Petrína Benediktsdóttir, Kristín Helga Vignisdóttir, Þorkell Sigurlaugsson, Heiða Björk Vignisdóttir, Gunnar Gunnarsson. + Þökkum auðsýnda samúð og hlýhug við útför SIGRÍÐAR EYJÓLFSDÓTTUR kaupkonu, Suðurbraut 6, Hafnarfirði. Sérstakar þakkir til starfsfólks 4. hæðar Sólvangs. Fyrir hönd aðstandenda, Elísabet Böðvarsdóttir.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.