Morgunblaðið - 23.07.1993, Qupperneq 23
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 23. JÚLÍ 1993
23
Ragnheiður Jóns
dóttir — Minning
Fædd 5. júlí 1910
Dáin 17. júlí 1993
Svo er sagt að í gamalli landa-
fræðibók hafi mátt lesa að Staðar-
sveit á Snæfellsnesi væri fegurst
sveita á íslandi. Þetta var áður en
menn uppgötvuðu að allir hlutir eru
afstæðir og að höfundur þessarar
kennslubókar frá gróskutíð ung-
mennafélaganna átti víst rætur sínar
í þessari sögufrægu sveit. Slíkt
skiptir heldur engu fyrir okkur sem
munum sumardagana í sveitinni í
skjóli Jökulsins — miðja vegu milli
fjalls og fjöru þar sem bjarmaði fyr-
ir bæjum með leyndardómsfull nöfn
á borð við Gaul í annán endann en
Bláfeld og Búðir í hinn og Staðar-
stað og Slitvindastaði á milli. Elliða-
hamar með gatið dularfulla gnæfði
svo yfir okkur á aðra hönd en á hina
breiddi gulur sandur Krossafjörunn-
ar úr sér svo langt sem augað eygði,
allt út að Vatnsflóa þar sem lax og
silungur biðu færis og aðeins ein-
manaleg köll himbrimans rufu kyrrð
kvöldsins. Ungum drengjum í slíkri
sveit þarf ekki að kenna fegurð.
Nokkur ár voru á milli veru okkar
bræðra í þessari merkilegu sveit;
áttum það þó sammerkt að vera
sendir í sveitina kjarklitlir og of-
verndaðir beint úr móðurfaðmi en
fara þaðan talsvert fróðari um lífið
og tilbúnir að takast á við tilveruna.
Sá eldri fékk að fljóta með fyrsta
Farmalköbbnum þegar vélvæðing
sveitanna var að hefjast og hinn
yngri fór þegar Ingólfskan var í
þann veginn að verða að offram-
leiðsluvanda. Haldreipið okkar
beggja allan þennan tíma var Heiða,
föðursystir okkar, bóndakonan í
Brautarholti.
Hún hét reyndar Ragnheiður
Jónsdóttir og var næstelst sjö barna
Jóns ívarssonar bónda og síðar
verkamanns í Reykjavík og Aðal-
heiðar Ólafsdóttur húsmóður. Hún
fæddist 5. júlí 1910 á Litla-Hálsi í
Grafningi og var því rétt 83 ára að
aldri er hún lést í lok síðustu viku.
Innan ættarinnar hefur varðveist sú
sögn að þegar foreldrarnir brugðu
búi og hófu að koma undir sig fótun-
um á nýjan leik á mölinni, hafí Heiða
spjarað sig betur en títt var enda
fer sögum af henni sem glæsilegri
Reykjavíkurmær og víst ér að ung
að árum var hún tekin við verslunar-
stjórn í einni af betri búðum bæjar-
ins.
Þá kom reiðarslagið. Heiða veikt-
ist af alvarlegum húðsjúkdómi sem
lagðist svo á andlit hennar að stór
sá á. Litla Iækningu var að fá á
þessum tíma og hver og einn getur
ímyndað sér hversu erfitt það hefur
verið fyrir glæsilega konu í blóma
lífsins að taka svo óvægnum örlög-
um. í þann mund sagði hún líka
skilið við ys og þys bæjarlífsins og
leitaði skjóls í sveitinni hjá Ingveldi
móðursystur sinni og manni hennar
séra Kjartani þúsundþjalasmið á
Staðarstað sem stundum hefur verið
talinn vera ein fyrirmynd Laxness
að Jóni Prímusi. A Staðarstað hafði
móðir hennar löngum verið kaupa-
kona og fleiri systkini í vist, og þar
átti Heiða jafnan athvarf.
í sveitinni fann Heiða lífi sínu
nýjan farveg. Ungur kaupamaður
var á Staðarstað á þessum tíma,
bóndasonur af nálægum bæ, Jón
Lúthersson frá Bergsholti. Til guðs-
lukku fyrir mörg Reykjavíkurbörnin
ákváðu Jón og Heiða að rugla sam-
an reitum sínum. Þau reistu nýbýli
í landi Bergholts og kölluðu Braut-
arholt. Bæjarlækurinn rennur þar á
milli en var óðar brúaður, svo að
mikilf samgangur var milli bæja og
gjarnan glatt á hjalla meðan at-
vinnuháttabylting eftirstríðsáranna
var ekki brostin á fyrir alvöru með
tilheyrandi fólksflótta.
í hina áttina voru nágrannabýlin
Brekka, Foss og Ölkelda, með sval-
andi heilsuvatn úr iðrum jarðar,
Álftavatn ekki langt undan ef rétt
er munað og á Ölduhryggnum
gnæfði það fornfræga kirkju- og
menningarsetur, Staðarstaður. I
okkar tíð ríkti þar lengstum séra
Þorgrímur Sigurðsson, sá merkis-
prestur sem hélt skóla fyrir margan
óknyttadrenginn úr Reykjavík og
kom þeim jafnan til nokkurs þroska.
Heiða og Jón byggðu sér lítinn
torfbæ á bæjarhólnum, tignarlegri
en nokkurn annan þótt burstir væru
bara tvær og herbergi ekki nema
eldhús, búr, stofa og svefnskáli.
Samt var pláss fyrir bækur. Einasta
góðar bækur. Þau eignuðust Ragnar
frænda sem bar enga virðingu fyrir
roggnum borgarstrákum og lagði
þeim lífsreglurnar á hveiju vori. Þau
reistu nýtt og stærra hús; réðust í
jarðarbætur og keyptu stærri trakt-
or. Og á. hieðal öllu þessu stóð orti
Jón bóndi í laumi þótt ekki færi
framhjá nokkrum heimilismanni uns
öllum að óvörum hann varð svo einn
góðan veðurdag sveitarskáldið sjálft.
Stundum hvarflar að okkur að
kannski höfum við verið í hópi síð-
ustu borgarbarnanna sem áttum
þess kost að kynnast eiginlegri
bændamenningu, eins og henni hef-
ur verið lýst í ljóma fortíðar. Búskap-
urinn gat að sönnu iðulega verið
basl en drap aldrei í dróma þennan
áhuga á fróðleik og menningu sem
við búum að allt síðan.
Heiða og Jón höfðu tíma til að
tala við unga fólkið sem kom til
þeirra með farfuglunum að vori og
var horfið á braut með þeim sömu
fuglum um haustið. Við lærðum lífið
í sveitinni með því að vera hluti af
náttúrunni meðan við lærðum staf-
rófið í skólanum. Við öðluðumst
nýja sýn á heiminn og meðtókum
innrætinguna möglunarlaust. Gerð-
umst framsóknarmenn sumarlangt
svo að það þurfti allan veturinn til
að snúa okkur til betri vegar. Vor-
hreingerningin í sveitinni var fólgin
í því að venja borgarbörnin af sunn-
lensku linmælginni, þágufallssýkinni
og öðrum þvílíkum uppdráttarsjúk-
dómum hins trausta tungutaks.
Og við þroskuðumst.
Leiðin liggur ekki lengur í Stað-
arsveit. Fólkið í Brautarholti flutti
líka á brott eitt árið — til borgarinn-
ar, og eins og stundum vill verða
varð þá fljótlega lengra á milli vina
en þegar fjarlægðir voru meiri.
Um leið og við bræður kveðjum
fóstru okkar í sveitinni með þakk-
læti fyrir allt sem hún gaf okkur
og kenndi vottum við Jóni, Ragnari
og fjölskyldu dýpstu samúð en leyf-
um okkur að minna á orð Jóníj Prím-
usar í Kristnihaldinu:
„Áður fyr þegar ég var þreyttur
hlakkaði ég til að sofna útfrá jöklin-
um á kvöldin. Eg hlakkaði líka til
að vakna til hans að morni,“ segir
þar og síðan: „Nú er ég farinn að
hlakka til að deyja frá þessu ábyrgð-
armikla kalli og gánga í jökulinn."
Björn Vignir og Jón
Sigurpálssynir.
i dag er til moldar borin Ragn-
heiður Jónsdóttir, mágkona mín og
traustur vinur um áratuga skeið.
Heiða, eins og hún var kölluð, bjó
að Brautarholti í Staðarsveit með
Jóni bróður mínum. Við Heiða vorum
sveitungar til margra ára, þar sem
ég bjó á Bláfeldi ásamt Gísla manni
mínum rétt vestar í sveitinni. Mikill
samgangur var á milli heimilanna
tveggja og í gegnum búskaparamst-
ur deildu fjölskyldurnar oft áhyggj-
um sínum, vonbrigðum og gleði. Er
erfíðleikar bjátuðu á, minnist ég
þess ætíð hve gott mér þótti að geta
leitað til Heiðu mágkonu og finna
hjá henni alltaf sömu róna og styrk-
inn. En gleðistundirnar voru líka
margar. Um jól og áramót var oft
komið saman og gjarnan gripið í
spil. Þá var glatt á hjalla.
Eftir að við fluttumst báðar til
Reykjavíkur héldum við áfram stöð-
ugu sambandi hvor við aðra. Ég vissi
að Heiða átti við veikindi að stríða,
en alltaf þegar hún var innt eftir
líðan sinni gerði hún lítið úr vanheils-
unni, sló frekar á létta strengi. Þann-
ig var Heiða, alltaf reiðubúin að rétta
hjálparhönd en draga sjálfa sig í
skuggann.
Með Heiðu sé ég á bak góðum
vini. Guð blessi og varðveiti minn-
ingu hennar og styrki Jón bróður í
sorg hans. Ragnari syni þeirra og
fjölskyldu hans sendi ég djúpar sam-
úðarkveðjur.
Fjóla Lúthersdóttir frá Bláfeldi.
Mágkona mín, Ragnheiður Jóns-
dóttir, andaðist á Borgarspítalanum
17. júlí síðastliðinn eftir stutta en
erfiða sjúkdómslegu. Hún var fædd
á Litla Hálsi í Grafningi 5. júlí 1910.
Foreldrar Ragnheiðar, eða Heiðu
eins og hún var alltaf kölluð, voru
hjónin Aðaiheiður Ólafsdóttir, fædd
á Gljúfri í Ölfusi og Jón ívarsson
fæddur á Reykjakoti í sama hreppi.
Heiða varð því 83 ára fáeinum dög-
um eftir að hún lagðist á sjúkrahús-
ið. Systkinin voru alls sjö og eru
þijú þeirra látin, þau Sigurpáll,
Margrét og Ragnar, en systur sína
lifa þau Rósa, Ólafía og ívar. Ég
gat heimsótt Heiðu á spítalann
skömmu áður en gerð var á henni
mikil aðgerð og þá hittist svo á, að
hún var óvenju hress. Þótt mig grun-
aði að sjúkleiki hennar væri alvar-
legs eðlis, datt mér ekki í hug að
þetta væri kveðjustundin, en sú var
þó raunin. Þessi stund er mér nú
dýrmæt.
Heiða mun hafa dvalist fyrstu
æviárin í Grafningi og Ölfusi uns
hún flutti til foreldra sinna í Reykja-
vík, en þau höfðu brugðið búi í von
um betri afkomu í höfuðborginni.
Heiða taldi sig alltaf hafa verið láns-
ama að ganga í æfingadeild Kenn-
araskólans. Þar voru kennarar henn-
ar Steingrímur Arason og Ásgeir
Ásgeirsson, síðar forseti. Hún vann
síðan við verslunarstörf um tólf ára
skeið, eða þangað til að hún kynnt-
ist bróður mínum, Jóni Lútherssyni
frá Bergsholti í Staðarsveit á Snæ-
fellsnesi. Þau gengu í hjúskap 17.
október 1938. Þau munu hafa
kynnst á Vegamótum á Snæfellsnesi
og má því segja að þar hafi verið
krossgötur í lífi þeirra. Þau hófu
búskap sama ár í tvíbýli við foreldra
mína, en stofnuðu árið 1940 nýbýlið
Brautarholt og bjuggu þar til ársins
1982 er þau fluttust búferlum til
Reykjavíkur.
Sumarið 1937 þegar Heiða fór í
sumarleyfi sínu til að hitta unnusta
sinn, varð hún vitni að því að sjá
bæ tilvonandi tengdaforeldra sinna
í björtu báli og verða rústir einar.
Samsumars var þar þó byggt nýtt
steinhús, með hjálp góðra manna.
Þetta varð síðar heimili ungu hjón-
anna um tveggja ára skeið. Það
hafa vissulega verið viðbrigði fyrir
borgarstúlkuna að flytjast í nýtt og
framandi umhverfi, þar sem norð-
anvindurinn næðir um Furudali,
kembir þokuna af Elliðatindi og út-
synningurinn gat varað vikum sam-
an langa vetrarmánuði. En Staðar-
sveitin bauð líka upp á lognfagra
daga með angandi töðulykt og ungu
hjónin gátu glaðst yfír vel hlöðnum
heygarði. Jón og Heiða voru einkar
samrýnd og ég minnist aldrei nema
glaðværðar og gáska í návist þeirra.
Þau bjuggu eins og áður er sagt um
tveggja ára skeið í stofunni á
bernskuheimili mínu, og má nærri
geta að þar hefur reynt á svo að
ekki kæmi til smávægilegra
árekstra.’En þar mun aldrei hafa
skorist í odda og lýsir það ekki síst
mannkostum Heiðu. Bærinn sem
þau Heiða og Jón byggðu, var óyenju
fallegur torfbær með háum burstum.
Ferðamenn stöldruðu gjarnan við og
tóku af honum myndir, teiknuðu eða
máluðu.
Um tvítugt fékk Heiða sjaldgæfan
húðsjúkdóm sem ágerðist er frá leið.
Mátti hún þola marga andvökunótt-
ina vegna stöðugra óþæginda. Hún
fór til Danmerkur árið 1949 og fékk
nokkra bót meina sinna með geisla-
lækningum á Finsen-stofnuninni í
Kaupmannahöfn. Árið 1943 eignuð-
ust þau soninn Ragnar. Hann bjó
síðar félagsbúi með foreldrum sínum
á jörðunum Bergsholti og Brautar-
holti og munu þetta vera einhveijar
best ræktuðu jarðir á Snæfellsnesi.
Fjölskyldan vann að búskapnum með
dugnaði og árvekni. Ragnar er
kvæntur Báru Valtýsdóttur og búa
þau í Reykjavík. Hann starfar nú
sem framleiðslustjóri hjá Garða-
Héðni. Brautarholt var á æskuárum
mínum sem mitt annað heimili.
Fyrsta minning mín um Heiðu er,
þegar hún var að kenna mér að lesa
og gladdist þegar nemandinn tók
framförum. Síðar átti hún eftir að
leiðbeina mér í dönsku og ensku,
þó að enginn hafí nokkurn tíma
kannast við að hún hafí lært tungu-
mál. Hún kenndi mér einnig að
meta góðar bækur og lesa ljóð. Eru
mér minnisstæð jólin þegar Heiða
fékk nýjustu bækur Laxness eða
Þórbergs. Þá var lesið upphátt og
rætt um efni og orðsnilld. Heiða
hafði yndi af tónlist og hlustaði á
útvarp þegar hún fékk því við kom-
ið. Undraðist ég oft sem unglingur,
hve glögg skil hún kunni á tónverk-
um og höfundum þeirra.
Fyrstu leikfélagar mínir voru
sumardvalarbörn hjá Heiðu og Jóni.
Þangað sóttu systkinabörn Heiðu og
síðar börn þeirra. Hún var einstak-
lega barngóð og átti auðvelt með
að breyta sárum gráti í sólskins-
bros. Mér þótti sem barni ósköþ
gott að bera undir Heiðu loftkastala
mína og tókst henni með sínu milda
brosi og hæversku að benda mér á
gildi traustrar undirstöðu og jarð-
bindingar. Þegar ég fluttist 17 ára
alfarinn að heiman varð sambandið
að vísu ekki eins náið, en fram á
síðustu ár þótti mér gott að segja
Heiðu hvað ég var að bjástra og
finna skilning hennar. Mér eru minn-
isstæð fyrstu jólin mín á erlendri
grund. Kannski var ég dálítið ein-
mana. Þá fékk ég hlýja kveðju frá
Heiðu mágkonu, og með kveðjunni
flík sem hún hafði prjónað. Sú flík
yljaði vel í nöprum næðingi í Borg-
inni við Sundið.
Heiða tók virkan þátt í félagsmál-
um Staðarsveitar. Hún söng í kirkju-
kór Staðarstaðarkirkju um 30 ára
skeið. Hún hafði brennandi áhuga á
skólamálum og sat í ein tólf ár í
skólanefnd sveitarinnar og ennfrem-
ur í bamavemdarnefnd. í stjóm
kvenfélagsins Sigurvonar var hún
um árabil, einnig í orlofsnefnd
kvenna í nokkur ár. Eftir að þau
hjón fluttust til Reykjavíkur átti
Heiða þess kost að bregða sér oftar
en einu sinni út fyrir landsteinana
og veit ég að hún naut þess í ríkum
mæli. Síðustu árin þegar ég hef
heimsótt Jón og Heiðu hef ég oft
séð litlum snáða bregða fyrir. Hann
bar einnig nafnið Ragnar og er dótt-
ursonur Báru Valtýsdóttur. Þetta
var augasteinn Heiðu og Jóns og
var löngum í gæslu hjá þeim. Mátti
vart sjá hver naut mest samvist-
anna. Síðustu vikur hafa verið þung-
bærar fjölskyldunni allri. Við Brig-
itte sendum Jóni innilegar samúðar-
kveðjur, svo og Ragnari og fjöl-
skyldu hans. Við biðjum góðan Guð
að styrkja þau í sorg þeirra.
Blessuð sé minning góðrar konu.
Pétur B. Lúthersson.
Ekki hún amma mín á „Grýtó“
og ég er bara fímm ára. Við amma
ætluðum að gera svo margt saman.
Amma var búin að lofa mér að
hjálpa mér í sveitinni, þegar ég yrði
stór, því að ég ætla að verða bóndi,
kannski vegna þess að amma sagði
mér svo margar sögur úr sveitinni.
Ég var fjögurra mánaða þegar
mamma fór að vinna hálfan daginn
og þá passaði amma á „Grýtó“ mig
og afi hjálpaði henni að vera með
drenginn sinn, eins og afí sagði allt-
af. Við amma gerðum svo margt
skemmtilegt saman. Við lásum og
spiluðum og hún kenndi mér svo
margt. Við amma lékum okkur sam-
an, hvort sem var í bílaleik, búðar-
leik, bara hvað sem var. Hún amma
kunni allt, vissi allt og gat allt.
Þegar amma fór á spítalann og
varð veik, þá fór ég til hennar í
heimsókn, og við fórum í boltaleik
og ætluðum að halda áfram þegar
hún kæmi heim af spítalanum, því
að þá vissi ég ekki að hún amma á
„Grýtó“ væri svona mikið veik.
Þegar mamma mín spurði mig,
hvort ég vissi hvað það þýddi þegar
fólk væri dáið, en af því ég er bara
fímm ára og vissi það ekki, þá sagði
hún mér að amma á „Grýtó" væri
dáin og ég sæi hana ekki oftar. En
þó að ég sjái hana ekki oftar, þá
geymi ég minningamar um ömmu
mína á „Grýtó“ i hjarta mínu. En
hann afí minn er á „Grýtó“ og hjá
honum fæ ég að sjá allt dótið okkar
ömmu.
Elsku amma, þakka þér allt það
sem þú hefur gert fyrir mig. Ég á
eftir að sakna þín mikið. * -
Ragnar Másson.
Elskuleg frænka mín, Ragnheið-
ur Jónsdóttir, er látin á 84. aldurs-
ári eftir stutta sjúkdómslegu. Heiða
frænka bjó lengst af á Brautarholti
í Staðarsveit. ásamt manni sínum,
Jóni Lútherssyni, og syni þeirra,
Ragnari.
Eins langt og ég man var tilhlökk-
unarefni að fara „vestur" í heimsókn
til Heiðu og Jóns. Bryndís systir
mín var ekki gömul þegar hún lýsti
því yfír eitt sinn, er við áttum að
fá að vera eftir í vikutíma, að hún
vildi ekki fara í sveitina í eina viku.
„Það er undireins búið.“ Þegar við
vorum síðan loksins orðnar nógu
gamlar, fengum við að vera þar
sumarlangt sem kúasmalar með
meiru, rétt eins og faðir okkar hafði
verið þegar hann var ungur, hans
systkini og nánast öll ungmenni
ættarinnar. Og öll héldum við
tryggð við sveitina og Heiðu og Jón
löngu eftir að sumardvalaraldrinum
lauk.
Mörg voru verkin í sveitinni,
ýmist hjá Heiðu í eldhúsinu, eða
með Jóni og Ragnari í útiverkunum.
Aldrei var leiðinlegt, öll verk voru
krydduð með skopskyni og alúð.
Og á kvöldin var setið og spjallað
eða spilað á spil, gert grín og mikið
hlegið.
Heiða frænka var skarpgreind og
víðsýn kona. Ekki hafði hún, frekar
en margir á hennar aldri, fengið
tækifæri til langrar skólagöngu, en
hún bætti sér það upp með lestri
góðra bóka. Hjá Heiðu og Jóni lærði
ég, ásamt ótal mörgu öðru, að meta
íslenskar og erlendar bókmenntir,
en þau hjón bjuggu sjálf yfir hafsjó
af fróðleik í þeim efnum og höfðu
með höndum gæslu á bókasafni
sveitarinnar. Átti Heiða stundum
fullt í fangi með að sjá til þess, að
litlir bókaormar fengju nægalT'
svefn.
Þegar aldurinn fór að segja til
sín, brugðu þau hjón búi og fluttu
til Reykjavíkur. Ég minnist síðustu
heimsóknar minnar til þeirra í jóla-
fríinu og þar áður um haustið í slát-
urgerð. Alltaf sama glettnin og já-
kvæðnin hjá báðum. Og þótt sjón
og heyrn væru eitthvað farin að
gefa sig hjá Heiðu þá var hugsunin
skýr og skörp sem fyrr. Hátt á átt-
ræðisaldri lét hún þann draum ræt-
ast að sjá meira af heiminum. Hún
ferðaðist ásamt systur sinni og
bestu vinkonu, Rósu ömmu minni,
fyrst um Þýskaland, svo alla leið til
draumaborgarinnar Parísar, og síð- _
ar til Kaupmannahafnar. Hún ljóm-
aði er hún riíjaði upp þessar ferðir.
Heiða frænka var einstök mann-
eskja og sterkur persónuleiki. Mér
finnst ég hafa verið lánsöm að hafa
átt hana að og hafa fengið að njóta
áhrifa frá henni.
Svo er því farið:
Sá er eftir lifír
deyr þeim sem deyr
en hinn dáni lifir
í hjarta og minni
manna er hans sakna.
Þeir eru himnamir
honum yfir.
Með þessum ljóðlínum Hannesar
Péturssonar kveð ég elsku Heiðu
frænku mína og þakka henni fyrir
samfylgdina. Jóni, Ragnari, Báru,
Rósu ömmu og öðrum ástvinum
sendi ég mínar innilegustu samúð-
arkveðjur.
Þórey Aðalsteinsdóttir,
Þýskalandi.