Morgunblaðið - 09.07.1995, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 09.07.1995, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 9. JÚLÍ 1995 11 en þau ættu að vera miðað við þjóðartekjur?" Svavar: „Vandinn hér er meðal annars sá að hér er ekki nógu mikill jöfnuður í þeim skilningi að hér er auðvitað fjöldi fólks sem býr við örgustu fátækt og/eða atvinnuleysi sem er algerlega ástæðulaust að líða. Hitt er kannski líka nauðsynlegt að hafa í huga að eitt aðalefnahagsvandamálið í dag er að menn eru að verða búnir að afnéma drifkraft- inn sem fólst í millistéttinni, þessari byggj- andi og barnandi alþýðu, sem vann og vann og byggði og byggði og rótaðist áfram. Nú eru aðstæðurnar orðnar þannig að þetta fólk er varla til lengur. Þegar við tölum um jöfn- uð segja sumir að það verði að vera ójöfnuð- ur til þess að það sé einhver drifkraftur í þjóðfélaginu." Páll: „Þú hlýtur að geta tekið undir það?“ Svavar: „Nei, það geri ég ekki og ég tek það reyndar fram í bókinni að það viðhorf sé siðlaust að maður nærist á ójöfnuði." Páll: „Er það eitthvert svar? Þú tekur undir að markaðurinn verði að vera fyrir hendi og það má sýna fram á það með rökum að þar af leiðandi verði að vera einhver ójöfnuður. Er þá eitthvert svar að segja að þetta sé siðlaust?" Svavar: „Það væri ástæða til að fara betur yfir hinar siðrænu undirstöður stjórnmálanna sem ég velti ekki alveg nógu mikið fyrir mér í þessu riti. Það að vera með markaðsbúskap hefur í för með sér ýmsar neikvæðar afleið- ingar af margvíslegum toga. Hvað gerum við þá? Þá reynum við að byggja fyrir þær eins og kostur er.“ Ólafur: „Felst þetta jafnaðarmarkmið í því að koma öllum upp á plan mannsæmandi lífs- kjara ef svo má segja eða er þetta spurning um algera jöfnun? Snýst ekki umræðan um muninn þarna á milli?" Svavar: „Ég er ekki að biðja um jöfnuð stein- aldarþjóðfélagsins. Ég er að tala um jöfnuð bæði á heimsvísu og landsvísu eins og frek- ast er kostur innan þeirra marka sem við getum unnið með. í þennan heimsmarkað set ég þrenns konar hraðahindranir sem felast í þremur alþjóðasamningum, um efnahags- mál, öryggismál og umhverfismál." Ólafur: „Má ekki alveg eins kalla það sið- laust að ætla að taka af þeim betur megandi til að stuðla að fullkomnum jöfnuði ef hægt er að sýna fram á að það sé umfram það sem er nauðsynlegt til að allir lifí mannsæm- andi lífi?“ Svavar: „Þetta snýst að lokum um það hvað sátt næst um í þjóðfélaginu. Ég tel að það sé siðlaust að fólk svelti í hel, það sé sið- laust að fólk búi við örgustu fátækt og niður- níðslu mannlegra eiginléika og verðmæta, til dæmis hér, á sama tíma og aðrir velta sér upp úr stórkostlegum fjármunum.“ Ólafur: „Ef við víkjum að jöfnuðinum á al- þjóðlega vísu, hvernig viltu koma honum á? Hvernig á til dæmis að taka á vanda þróunar- landa? Eru ekki þversagnir í því að þú segir annars vegar að það þurfi að opna markaði Vesturlanda fyrir þróunarríkjunum til að ýta undir útflutning og hagvöxt en um leið mælir þú með aðferðum á borð við að styrkja íslenskan skipasmíðaiðnað sem er í sam- keppni við láglaunafólk í Póllandi? Er ekki togstreita þarna sem erfitt er að leysa?“ Svavar: „Jú, það er meðal annars togstreita að því er þennan punkt varðar og andstæður og flækjur að því er landbúnaðarstefnuna varðar. Þannig að þessi verkefni eru auðvitað full af andstæðum. En við gefumst samt ekki upp fyrir þessum verkefnum. Ef við tökum skipasmíðarnar sem dæmi þá má auð- vitað horfa á þær í samhengi við það að við höfum verið að tryggja samkeppnisaðstöðu okkar gagnvart Norðmönnum fremur en að við værum að keppa við láglaunafólk í Pól- landi. Launin í þróunarlöndunum eru víða það lág að við myndum ekki vilja láta bjóða okkur slíkt. Ég held að leiðin sé fólgin í því að auka samskiptin og nýta hina nýju sam- skiptatækni. Ég geri mér auðvitað fulla grein fyrir því að málin eru flókin. Það er auðvitað munurinn á lífi okkar vinstri manna, sósíal- ista, núna og fyrir fjörutíu árum. Aður var þetta þannig að menn af rnínu sauðahúsi töldu að þeir hefðu svör við öllu. Þessi sjálfs- birgingsháttur hefur að einhveiju leyti skipt um heimilisfang og er núna algengari hægra megin í hugmyndaumræðunni." Ólafur: „Engu að síður fékk ég það á tilfínn- inguna þegar ég las bókina að hún væri í anda ídealistanna sem voru að skrifa um alþjóðamál upp úr fyrra stríði og sáu fyrir sér að það væri hægt að gera stóra hluti með Þjóðabandalaginu og alþjóðlegri sam- vinnu og tryggja með einhveijum hætti frið og jafnvægi en voru kannski ekki nógu raun- sæir á samskipti ríkja og það hvernig þau mætu hagsmuni sína. Eftir seinna stríðið lögðu menn líka upp með það að gera al- heimssáttmála um öryggis- og efnahagsmál sem átti að felast í Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeim tengdum. Þetta tókst ekki þá. Er eitthvað sennilegra núna að það tak- ist að yfirvinna skammtímasjónarmið hvers og eins og koma mönnum saman í þessa alheimsstjörn?" Svavar: „Já, það er sennilegra núna vegna tækninnar og auðveldari alheimssamskipta. En auðvitað má segja að það sé löng veg- ferð framundan í þessum efnum og langt í það að bæta lífskjör í Rúanda eða hinum óhugnanlegu eyðimerkurþorpum í Egypta- landi. Segjum að það sé líka langt í það að það sé hægt að fá Vesturlönd til að draga úr neyslu sinni og eyðileggingu. En það þýð- ir ekki .að menn leggi árar í bát og að hug- sjónir um annan heim séu dauðar og einskis virði. Ég tel að þessi bók sé reyndar ekki fyrst og fremst ídealistísk heldur aðallega raunsæ. Ég skrifa þetta í lokin sem pólitísk- an bækling þar sem ég segi: Þetta er hægt að gera hér og nú. Síðan sting ég út eitt- hvert ár í framtíðinni á íslandi, árið 2015, og Þjóðhagsstofnun reiknar út fyrir mig mis- munandi dæmi út frá mismunandi hagvexti og mismunandi stefnumörkun. Síðan fer ég að velta því fyrir mér hvernig þetta falli að umhverfinu. Niðurstaðan er sú að núllvöxtur gangi ekki hér á landi nema núllvöxtur sé einnig í nágrannaríkjunum. Ég skoða þetta í samhengi við það að heimurinn er að opn- ast, kerfið sem var í Austur-Evrópu er hrun- ið, guði sé lof, og Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur tekið til starfa. Þú hefðir getað gagn- rýnt mig fyrir að vera ídealískur ef ég hefði sagt um leið: Við skulum búa til eitt kerfi þar sem þetta er svona og annað kerfi þar sem þetta er hinsegin en þess í stað reikna ég með markaðsbúskapnum í heiminum, ég læt mig hafa það, ég reikna með mismun- andi eignarhaldi. Þetta er realismi.“ Páll: „En erfiðu úrlausnarefnin fyrir íslenska pólitík í þessu samhengi, eru þau ekki til dæmis hvernig fari með íslenskan landbúnað? Það er ekkert tekið á því.“ Svavar: „Jú, jú.“ Ólafur: „Þú ert að greina vanda landbúnað- ar í Evrópu en víkur ekki sérstaklega að íslandi nema undir rós einhvers staðar aftar- lega.“ Svavar: (Flettir upp í bók sinni) „Hér segir: „Við eigum að nýta kosti markaðarins. Það verður til dæmis gert með því að gefa íslensk- um landbúnaði færi á að nýta sér kosti mark- aðarins strax og umsaminni framleiðsluað- lögun er lokið svo eitt stórt dæmi sé nefnt.“ Þetta er gríðarlega mikið sagt. Þetta er að vísu bara ein setning, ég viðurkenni það. Það er auðvitað gallinn á þessari bók að hún er of stutt. Búvörusamningurinn og sú fram- leiðsluaðlögun sem þar er gert ráð fyrir geng- ur ótrúlega harkalega nærri bændastéttinni. Ég held að ekki hafi nokkur önnur stétt sjálf- viljug fallist á slíka kjaraskerðingu. Ég held að þetta framleiðslustýringarkerfi verði að líða undir lok því að það rímar ekki við aðra hluti og það ætti miklu frejnur að aðstoða menn með beinum og myndarlegri hætti við að hætta að búa eða skipta yfir í aðrar bú- greinar eins og skógrækt." Páll: „Mér finnst bókin líka bera keim af því að þótt kommúnisminn hafi hrunið og trúin á þjóðfélagið þar þá sértu ekki reiðubú- inn að fallast í faðma við kapítalismann. Það sé einhver þriðja leið fær. Svavar: „Það er alveg rétt. Hömlulaus kapít- alismi hefur líka aldrei verið framkvæmdur. Það hafa alltaf verið einhveijir menn með viti sem pössuðu upp á það. Ég er að tala um samvinnu fólks og fjármagns hvort sem menn kalla það þriðju leið eða ekki. Ég tel mig að minnsta kosti ekki vera að finna neitt upp.“ Ólafur: „Er þetta ekki bara endúrvinnsla á sænska kerfinu sem er að ganga sér til húð- ar núna, bæði hvað varðar dæmið sem þú setur upp um engan hagvöxt og dæmið um tveggja prósenta hagvöxt fram til 2015. Þú reiknar með stóraukinni skattheimtu og milli- færslu að því er best verður séð.“ Svavar:„Já, já.“ Ólafur: „Spurningin er þá í fyrsta lagi hvort það sé pólitískt framkvæmanlegt? Mun ein- hver kjósa Svavar Gestsson og Alþýðubanda- lagið með stórauknum sköttum? Og bitnar skattheimtan í öðru lagi ekki alltaf á þeim sem hún átti ekki að bitna á? Hátekjuskattar svokallaðir bitna á sjómönnum og þessari vinnandi og byggjandi millistétt sem þú talað- ir um.“ Svavar: Ég er ekki að endurvinna sænska kerfið vegna þess að ég segi að það geti verið hættulegt að ganga svo langt í milli- færslum. Hvað á þá að gera? Það á að lýð- ræðisvæða þjóðfélagið. Dreifa eignarhaldinu á öðru. Ég varpa til dæmis fram þeirri spurn- ingu hvort eigi að gefa þjóðinni allri Lands- virkjun eða Póst og síma með því að dreifa hlutabréfum til allra landsmanna. Ég tel að það geti verið hættulegt að ríkið ráði of miklu. Ég tel reyndar að hættan á íslandi í dag sé ekki sú að ríkið ráði of miklu heldur að það séu tiltekin persónuleg bönd hjá einkaaðilum þar sem valdið þjappast saman hjá allt of fáum aðilum. Ég tel að það væri bersýnilega hættulegt fyrir lýðræðið ef til dæmis Morgun- blaðið, Eimskipafélagið, Flugleiðir og ís- lenska útvarpsfélagið væru í höndunum á örfáum fjölskyldum." Ólafur: „Alþýðubandalagið hefur verið einna þjóðernissinnaðasti flokkurinn og lagt áherslu á sjálfstæði og óskert fullveldi Is- lands eins og það hefur verið kallað og lagst gegn þátttöku í vestrænu og evrópsku sam- starfi. í bókinni er engu að síður mælt með því að ríki heims taki á sig ákveðna fullveldis- skerðingu um leið og alþjóðastofnanir fái það nauðsynlega framkvæmdavald sem þarf til að framfylgja sáttmálunum þremur. Um leið vararðu við Evrópusamstarfinu af ýmsum ástæðum. Er ástæða til að ætla að þau stjórn- málaöfl hér á landi sem hafa verið andvíg svokölluðu fullveldisafsali til evrópskra stofn- ana séu eitthvað tilbúnari til að framselja valdið til alheimsstofnana? Er það ekki hugs- unarhátturinn yfirleitt og viðhorf til alþjóð- legs samstarfs hér á landi sem þarf að kom- ast yfir og breyta áður en þessi framtíðarsýn þín er möguleg?" Svavar: „Við munum ekki ná utan um um- hverfismálin án þess að láta eitthvað af þessu af hendi. Við höfum að nokkru leyti staðið að því að setja slíka sáttmála sem takmarka möguleika okkar méð Vissum hætti. Ég er aðallega að hugsa um að til þess að þjóðin sætti sig við aðild að slíkum sáttmálum verði ríkið að vera aðili en ekki að menn séu límd- ir inn í blokkir eins og Evrópusambandið. Ég held að það séu sjálfstæð ríki sem eigi að gera svona sáttmála af fullri reisn. Ein ástæð- an fyrir þessari afstöðu á íslandi er sú að það hefur ekki verið nein sátt um utanríkismálin. Nú held ég að það séu aðstæður til að skapa miklu víðtækari sátt um þau hvort sem það eru öryggis- og friðarmál eða annað. Að minnsta kosti held ég að við ættum að reyna að ná slíkri sátt áður en við kljúfum okkur í herðar niður í deilum um þá hluti.“ Ólafur: „Ertu að segja að það væri hægt að ná slíkri sátt vegna þess að það væri ekki lengur um að ræða aðild að vestrænu sam- starfi sem Evrópusamstarfið er óhjákvæmi- lega? Nú talar þú öðru vísi en helstu leiðtogar jafnaðarmanna í Evrópu sem eru margir mjög hlynntir Evrópusamstarfinu. Af hveiju er Evrópusamstarfið, þar sem hefur tekist að búa til alþjóðlegt framkvæmdavald, sem virk- ar, eitthvað verra en heimssamstarf? Getur það ekki einmitt verið vísir að meiru?“ Svavar: „Ég held í fyrsta lagi að það virki nú kannski alla vega. í öðru lagi er talsverð- ur munur á stöðu Islands og til dæmis Þýska- lands. Hér er skammt til Ameríku. Við getum mótað okkur tiltekna ávinninga út úr þessari legu landsins. Ég teldi óskynsamlegt að við seldum okkur undir Evrópusambandið með þeim hætti sem margir leggja til. Þeir sem höfðu frumkvæði að aðild okkar að Atlants- hafsbandalaginu lögðu áherslu á að ísland væri bæði tengt Evrópu og Norður-Ameríku. Ég vil horfa á þetta þannig að við tengjum okkur til allra átta. Ég held það sé varasamt fyrir litla þjóð að læsa sig inni í bandalagi eins og Evrópusambandinu. Ég er því alveg sammála uppsetningu Hjörleifs Guttormsson- ar og Davíðs Oddssonar forsætisráðherra." Ólafur: „Þú segir á einum stað í bókinni að á meðan Evrópusambandið framleiði reglu- gerðir sé heimurinn þar fyrir utan að fram- leiða samskipti. Eru þetta ekki reglugerðirn- ar, sem hægri menn margir beijast gegn og segja að dragi úr samkeppnishæfni Evrópu, en skoðanabræður þínir jafnaðarmenn beij- ast fyrir, um vinnuvernd og velferðarkerfi, félagsleg réttindi og annað slíkt?“ Svavar: „Margt af þessu er sjálfsagt ágætt og annað ekki. En ég held það verði að viður- kenna það um þessa skoðanabræður mína, vinstrimenn, sósíalista, sósíaldemókrata, að þeir hafi verið of reglustikusinnaðir. Menn hafa viljað sjá hlutina fyrir sér í stórum lausn- um, stórum kippum. Við ætluðum að setja alla inn í stórar blokkir..." segir Svavar og bendir yfir Elliðaárdalinn í átt til Breiðholts, „...og framleiða nóga mjólk handa öllum í stórum mjólkurbúum. Þessi regluþanki er mjög ofarlega. Þetta áttu íhaldið og sósíalist- ar sameiginlegt í nýsköpunarstjórninni." Páll: „Það er einmitt þessi sjálfsgagnrýni sem manni finnst að mætti vera meira af í bók- inni. Gagnrýni á sjálfan sig og sinn flokk og að tekist sé á við fortíðina.“ Svavar: „Það getur vel verið. Það er einfald- lega vegna þess að mér er meira niðri fyrir gagnvart framtíðinni. Virkir stjórnmálamenn eiga að segja hvert þeir séu að fara. Ef þessi bók getur gert gagn þá er það kannski helst það að fleiri stjórnmálamenn sýndu á spilin." Páll: „Hefur þér fundist stjórnmálaumræðan vera á of lágu plani?“ Svavar: „Þetta er óttalega hugsjónalítið á köflum. Menn hafa enga skoðun sjálfir, enga tilfinningu, enga sýn. Menn pæla alltaf í því hvað öðrum finnist áður en þeir gera nokk- uð. Auðvitað þarf að gera það líka. En við eigum að vera forystumenn. Hitt er fjarska ómerkilegt og lágkúrulegt hlutskipti að breyta sjálfum sér í gangandi Gallup.“ Páll: „Þú talar um lýðræðisvæðingu í bók- inni. Er þetta trúverðugt tal? Maður hefur nú ekki þá mynd af Alþýðubandalaginu, þar sem þú hefur starfað, að það sé mjög lýðræð- islegt heldur ráði fimm til sex manns öllu.“ Svavar: „Það finnst mér tiltölulega gott miðað við ýmsa aðra stjórnmálaflokka þar sem einn maður virðist ráða öllu. Auðvitað mætti þetta alltaf vera betra. Það mætti vera líflegri þátttaka í stjórnmálastörfum, meðal annars hjá okkur. Þetta hefur breyst mikið. Pólitísk virkni hefur minnkað. Það er áhyggjuefni. Þessi fjölmiðlastjórnmál eru stærri og stærri hluti af tilverunni. Menn líta meira og meira á stjórnmálamenn sem vöru og úrslitin í kosningum eins og Evróvisjón. Það er svo lítil tilfinning og svo lítil sál í þessu. Það má enginn sem er í stjórnmálum láta sér finnast neitt. Auglýsingastofurnar ráða ótrúlega miklu í kosningabaráttunni. Þetta er svo óeinlægt." Páll: „En er einhver grasrót í Alþýðubanda- laginu? Fáið þið í flokkseigendafélaginu ein- hver viðbrögð þaðan?“ Svavar: „Kannski fær maður þau ekki bara í flokknum heldur líka til dæmis á vinnustaða- fundum. Ég reyni líka að skrifa svolítið til þess að prófa mig áfram með hluti. Það er alveg ljóst að það er ekki nærri nógu mikil virkni, ekki nógu mikil tilfinning hjá fólki að það geti ráðið einhveiju. Ég er hræddur um stjórnmálin, að þau verði bara verkefni tæknimanna sem eru aldrei sjálfir með sínar tilfinningar og sín viðhorf í þessu.“ Ólafur: „Það hefur verið spurt hvort þessi bók sé vísir að stefnuskrá nýs, stórs jafnaðar- mannaflokks. Er angi af slíkri hugsun í þess- ari útgáfu?“ Svavar: „Ég hef tekið eftir því að eftir því sem menn hafa stærri orð um sameiningu því minni verða flokkarnir. Stjórnmálaflokkar verða ekki til öðru visi en með mikilli vinnu, meðal annars neðan frá, það verði til grasrót sem foringjarnir búa ekki sjálfir til. Ef þessi bók getur stuðlað að því að vinstri menn á íslandi tali saman þá þætti mér vænt um það. En mér gest ekki að þessu þjóðvakalega tali.“ Morgunblaðið/Sverrir EINN góðan veðurdag bauð Svavar tveimur blaðamönnum Morgunblaðsins til rabbs í dýrlegum garði sínum og Guðrúnar Ágústsdóttur í Elliðaárdal.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.