Morgunblaðið - 15.05.1997, Blaðsíða 53
MORGUNBLAÐIÐ
MINIMINGAR
FIMMTUDAGUR 15. MAÍ1997 53
síðan árið 1978 að fjölskyldan
fluttist til ísafjarðar og minnkaði
þá eðlilega samgangurinn, en hin
góðu tengsl héldust þó alltaf. Fjöl-
skyldan fluttist til Reykjavíkur árið
1984 í húsið í Hólmgarði og var
notalegt að vita af góðum frænda
aftur í nágrenninu, sem hlátur-
mildur iðaði af lífi og þrótti. Þó
svo að samgangurinn yrði ekki
aftur eins mikill og áður hafði ver-
ið var vissan um gagnkvæmar til-
fínningar óbreytt. Eftir nokkurn
tíma í Hólmgarði var síðan farið
til Hafnarfjarðar og nú síðast hef-
ur heimilið verið þar við Lækjar-
götu.
Þegar hugsað er til baka til
unga mannsins, sem starfaði einu
sinni hjá Pósti og síma, síðar hjá
Samvinnutryggingum og síðan hjá
Ríkissjónvarpinu er það eftirtekt-
arvert að það var eins og hann
væri síungur, bæði vegna þess að
yfirbragðið var eins og ungs manns
og einnig vegna þess að hugurinn
var alla tíð ljúfur og glaður í eðli
sínu. Það er þannig, elsku frændi,
sem við geymum minninguna um
þig-
011 hljótum við að sakna hins
ljúfa drengs, sem nú er farinn í
síðustu ferðina. Góður Guð gefi
eiginkonu og fjölskyldu styrk í
harmi sínum.
Jón, Sigurveig og Halla.
Fallinn er í valinn vinur minn
kær, Ingvar Sigurbjörnsson. Ógn
þessa hræðilega sjúkdóms verður
ljósari þegar maður eins og Ing-
var, ímynd hreysti og heilbrigðis,
er lagður af velli á örfáum mánuð-
um. Ég ætla að minnast vinar
míns að leiðarlokum með örfáum
orðum.
Ég kynntist Ingvari þegar báðir
voru þrettán ára í Gagnfræðaskó-
lanum við Lindargötu. Ingvar
vakti strax athygli fyrir gjörvi-
leika og óx við frekari kynni.
Hann var án efa fremsti íþrótta-
maður bekkjarins, gekk ágætlega
í námi og var vinsæll meðal skóla-
félaga sinna. Heimilishagir voru
aðrir en hjá okkur flestum hinna,
þó að þess bæri ekki ytri merki.
Ingvar bjó með föður sínum og
eldri bróður í lítilli íbúð ofarlega
á Njálsgötunni. Móður sína höfðu
bræðurnir misst og eldri systir
þeirra var flutt búferlum til Dan-
merkur. Sigurbirni heitnum Ing-
varssyni, föður Ingvars, kynntist
ég sem sómamanni. Hann var
ættaður úr Grímsnesinu, en flutt-
ur á mölina. Sigurbjörn mátti ekki
vamm sitt vita og ól syni sína upp
í vinnusemi og heiðarleika eins
og hans kynslóð hafði fengið í
erfðir úr íslenska sveitasamfélag-
inu.
Ingvar vann sem unglingur á
sumrin við tengingar hjá bæjar-
símanum, en lauk síðar námi loft-
skeytamanns. Sem loftskeytamað-
ur starfaði hann aðeins stuttan
tíma, en lengst af vann hann hjá
tryggingafélagi, m.a. sem umboðs-
maður á ísafirði í nokkur ár. Síð-
ustu árin vann hann sem tækni-
maður hjá Ríkissjónvarpinu og
nýttist þá eflaust aftur loftskeyta-
námið.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi
að ganga í gegnum unglingsárin
með Ingvar sem vin. Þessi ár, frá
fermingu og fram yfir tvítugt, eru
spennandi en hættuleg og oft
spurning um hvernig ungmennum
reiðir af. Þá var gott að eiga
trausta og góða vini með eðlislægt
skynbragð á réttu og röngu. Eg
veit að það væri ekki í anda Ing-
vars ef ég færi að tíunda á tilfinn-
ingalegan hátt minningabrot frá
því liðna, en ég vil lýsa nokkrum
eiginleikum Ingvars á eftirfarandi
hátt: Hann var tryggur og heiðar-
legur. Hann var skemmtilegur og
til í flest, en var þó alltaf með inn-
byggðan öryggisventil. Hann var
félagslyndur og skoraðist ekki
undan þátttöku og stjórnun, eins
og fram kom á íþróttaferli hans.
Hann var sjálfbjarga, ávallt með
sitt á hreinu og fáum háður. Hann
var dulur um sína hagi og innstu
hugsanir. Það kom meðal annars
fram í því að á móðurmissinn
minntist hann sjaldan og þáði enga
vorkunn. Samt var það að þegar
nær kvikunni kom fannst hve hann
unni og saknaði móður sinnar mik-
ið.
Þegar unglingsár eru liðin
tvístrast félagar í ýmsar áttir og
ekki séð fyrir um frekari sam-
skipti. Eitt er þó víst að þann
kjarna sem maður kynnist þegar
hann er í mótun þekkir maður
best. Þannig var því farið með
okkur Ármenninga að bönd ungl-
ingsáranna reyndust það sterk að
við höfum haldið hópinn síðan.
Ekki er það síst að þakka eiginkon-
um okkar. Ingvar og Kata hafa
alltaf verið sterkir hlekkir í þessum
vinahópi.
Sárt er að kveðja, en minningar
eru ævarandi verðmæti. Sárast er
það fyrir þá nánustu, en Katrín
og börn þeirra Ingvars, Hjördís og
Sigurbjörn, hafa staðið við hlið
hans af mikilli ástúð og umhyggju.
Það verður þeim styrkur að þau
gátu verið hjá honum þar til yfir
lauk æðrulaus og samhent. Blessuð
sé minning góðs drengs.
Sigurjón S. Yngvason.
Mörgum bregður í brún þegar
vinsæll og ötull starfsmaður er
kallaður af máttarvöldum yfir
móðuna miklu. Þannig var okkur
brugðið þegar tilkynning barst um
að Ingvar Sigurbjörnsson væri lát-
inn.
Sjúkrasaga Ingvars hófst síðast-
liðið sumar eftir að hann kom
ásamt konu sinni Katrínu Her-
mannsdóttur heim úr ferðalagi frá
Bandaríkjunum. Allan tímann sem
í hönd fór hélt hann í bjartsýni
sína og trú á tilveruna og gat varla
beðið þess að hefja störf á ný. En
það átti ekki fyrir honum að liggja
því að morgni 8. maí sl. lést hann.
Hans líkamlegu þrautum í þessu
lífi var þar með lokið. Blessuð sé
minning hans.
Ingvar kom til starfa hjá Sjón-
varpinu sem bókari í tæknirekstr-
ardeild í apríl 1985. Þar tók hann
virkan þátt í uppbyggingu nýs
bókunarkerfis og reyndist ráða-
góður og áhugasamur. Hugur hans
stóð þó alltaf til tæknistarfa, enda
loftskeytamaður að mennt og í
nóvember 1988 fluttist hann að
eigin ósk yfir í dagskrártæknistörf
og vann þar við myndbandavinnslu
og síðar við móttökur á innlendu
og erlendu efni. Þannig kom fram
fjölhæfni Ingvars til ýmissa starfa.
Hann var einstaklega samvisku-
samur, lipur og áhugasamur
starfsmaður.
Ingvar tók virkan þátt í golffé-
lagi Sjónvarpsins. Hann vann þar
til ýmissa verðlauna og sýndi af
sér góða hæfni á því sviði sem og
öðrum.
Fyrir hönd Sjónvarpsins þökkum
við Ingvari fyrir mjög gott sam-
starf og sendum eftirlifandi eigin-
konu hans og fjölskyldu innilegar
samúðarkveðjur og munum minn-
ast hans sem góðs starfsfélaga og
vinar.
Elías Þ. Magnússon,
Sverrir Ólafsson.
í dag er kvaddur hinstu kveðju,
tæplega 57 ára vinur og félagi,
Ingvar Sigurbjömsson.
Leiðir okkar Ingvars lágu fyrst
saman á unglingsárunum í anddyri
Gagnfræðaskóla Austurbæjar.
Ingvar tilheyrði eldri bekkingum
og við sem yngri vorum litum upp
til þessa glæsilega, fjölhæfa
íþróttamanns, sem fór jafnan fyrir
sýningarflokki skólans í fímleikum.
Vignir Andrésson leikfimikennari
treysti Ingvari best til að ganga
fram sem fulltrúa okkar hinna í
lokaþætti hverrar íþróttasýningar
sem jafnan var hápunkturinn og
Ingvari tókst að skilja eftir í loftinu
þögn og hrifningu sem fékk tímann
til að stöðvast, hvort heldur var á
árshátíðum eða við önnur hátíðleg
tækifæri. Líkamsbyggingin var
eins og hún fegurst getur orðið
og þessum glæsileika hélt Ingvar
vinur minn og samstarfsmaður í
Ármanni alla tíð.
Það var ekki lítill heiður fyrir
mig, strákinn, þremur árum yngri,
þegar Ingvar tilkynnti mér ásamt
Hallgrími Sveinssyni, formanni
nemendafélags GA, að ég hefði
verið valinn í skólaliðið bæði í
handbolta og körfubolta. Mér var
upphefðin ljós, en var hræddur
um að ég stæði mig ekki, væri
ekki nægilega góður í liðið og
hafði orð á því við Ingvar. Léttur
gjallandi hláturinn og drengilegt
brosið fullvissaði mig um að
áhyggjur mínar væru óþarfar og
við Ingvar urðum vinir upp frá
því. Ingvar hafði þá um nokkurra
ára skeið æft handbolta og körfu-
bolta hjá Ármanni. Ég hélt sömu
leið.
Ingvar var mjög frambærilegur
í hvaða íþróttagrein sem var, enda
kom hann víða við. Handboltinn
átti hug hans,_en körfuboltinn þó
enn fremur. Á árum áður fóru
handbolta- og körfuboltaleikirnir
fram í gömlum hermannabragga
sem hét því virðulega nafni
íþróttahúsið við Hálogaland. Ing-
var sem lék í fleiri en tveimur
flokkum varð ásamt félögum sín-
um margfaldur íslandsmeistari í
báðum greinum og að sigri loknum
var oft kátt í bragganum. Ingvar
söng manna hæst „Við erum allir
Ármenningar". Miklar framtíðar-
vonir voru bundnar við þennan liðs-
hóp Ármanns, sem Ingvar til-
heyrði, en alvara lífsins tók fljótt
við hjá mörgum okkar með vinnu,
skólagöngu að ógleymdum íþrótta-
meiðslum. Hópurinn tvístraðist og
náði því miður ekki að uppfylla þær
væntingar sem margir gerðu til
hans.
Á yngri árum iðkaði Ingvar
frjálsar íþróttir, glímu og sund,
allt undir merkjum Ármanns. Er á
leið einbeitti Ingvar sér að körfu-
boltanum, með góðum árangri og
endaði opinberan íþróttaferil sinn
sem þjálfari meistaraflokks Ár-
manns. í keppnum er oft við ram-
man reip að draga, liðin eru jöfn
og oft heppni hver nær fram sigri.
Ármann vann eftirminnilega titla
á þessum árum, náði því að verða
Reykjavíkurmeistari og bikar-
meistari, en oft varð liðið að láta
sér annað sætið nægja, sem marg-
ir liðsmenn voru ekki mjög ánægð-
ir með. Ingvari var einkar lagið
að telja kjarkinn í menn og full-
vissa þá um að betur mundi ganga
í næsta leik. Hópurinn var sam-
stilltur og samstarfíð ánægjulegt.
Það var ekki síst að þakka Ingvari
og Katrínu eða Kötu eins og við
köllum hana. Þau hjónin voru dug-
leg að bjóða hópnum heim til sín,
þar sem málin voru rædd og nýir
sigrar undir merkjum Ármanns
voru ráðgerðir. Hinn sanni sigur
er þegar til baka er litið vinátta
og tryggð gamalla félaga frá þess-
um árum. Við höfum haldið hóp-
inn, hittumst reglulega ásamt eig-
inkonum okkar og vitum hver af
öðrum.
Þegar um hægðist fór Ingvar
að fara á skíði og síðari árin stund-
aði hann golf hjá Golfklúbbnum
Keili á Hvaleyrarvelli. í golfínu
hafa leiðir legið saman.
íþróttir voru aðaláhugamálið.
Ég er þakklátur fyrir sunnudags-
eftirmiðdag sem við áttum saman
á Landspítalanum fyrir stuttu. Við
fylgdumst með beinni útsendingu
á heimsmeistaramóti í fijálsum
íþróttum frá París. Ingvar var fár-
sjúkur maður, en duldi það vel.
Hann var sem fyrr vel inni í öllum
málum og gladdist yfir því sem vel
var gert. Hinn hreina og sanna
keppnisanda geymdi vinur minn
og félagi fram á síðustu stundu.
Ármenningar senda eftirlifandi
eiginkonu, Katrínu Hermannsdótt-
ur, Hjördísi og Sigurbirni, tengda-
syni og barnabörnum innilegustu
samúðarkveðjur.
Grímur Valdimarsson,
formaður Ármanns.
GUÐMAR
STEFÁNSSON
+ Guðmar Stef-
ánsson var
fæddur að Götu í
Hrunamannahreppi
1. ágúst 1905. Hann
lést 9. maí sl. á
Hrafnistu í Reykja-
vík. Foreldrar hans
voru hjónin Helga
Halldórsdóttir, f. 1.
mars 1862, d. 1929,
og Stefán Jónsson,
f. 12. feb. 1856, d.
1916, bóndi að Götu
í Hrunamanna-
hreppi. Systkini
Guðmars voru Sig-
urdór, f. 11. feb. 1891, Jón, f.
1895, og Stefanía Helga, f.
1901, en þau eru öll látin.
Fyrri kona Guðmars var
Ástríður Hannesdóttir, f. 17.
des. 1907, og áttu þau saman
tvö börn. Þau skildu. 1) Stefan-
ía Heiga, f. 4. des. 1931, íþrótta-
kennari í Borgarnesi, maður
hennar er Sigfús Helgi Sumar-
liðason, sparisjóðsstjóri í Borg-
arnesi, eiga þau tvö börn, Jón
Ómar, f. 23. mars 1950, og
Guðríði Hllf, f. 8. jan. 1955. 2)
Helgi, f. 1932, en
hann lést sama ár.
Seinni kona Guðm-
ars er Þórunn Sig-
urðardóttir frá
Hjalla í Ölfusi. Þau
giftu sig hinn 27.
júní 1946. Áttu þau
tvö börn saman: 1)
Sigurður, f. 22. júní
1945, brunavörður
í Reykjavík og á
hann með fyrrv.
konu, Kristínu
Óskarsdóttur, þrjú
börn og einn upp-
eldisson, þau eru
Einar, f. 2. sept. 1964, Ingi
Þór, f. 8. des. 1966, Pétur, f.
7. maí 1970, og Þórunn f. 24.
nóv. 1977. 2) Ardís, f. 4. sept.
1948, verslunarmaður í
Reykjavík, gift Einari Jónas-
syni, f. 10. júní 1948, vélstjóra
og eiga þau þrjú börn, Guðm-
ar, f. 21. mars 1967, Sigríði,
f. 25. apríl 1972, og Einar Örn,
f. 12. feb. 1980.
Útför Guðmars fer fram frá
Áskirkju i dag og hefst athöfn-
in klukkan 15.
Mig langar til að minnast afa
míns sem lést hinn 9. maí sl. með
örfáum orðum. Afi var mjög hag-
yrtur maður og lumaði alltaf á vís-
um við allskonar tækifæri. Yfirleitt
spurði hann til nafns og kom svo
með vísu sem innihélt nafn viðkom-
andi. Ekki veit ég nú hvort hann
orti þær allar sjálfur, en hann var
allavega duglegur að miðla þeim.
Afi var náttúrubarn og kunni góð
skil á íslenskri landafræði og ferð-
aðist mikið bæði í sínum frítíma og
starfí, en hann var með sérleyfí til
fólksflutninga á milli Reykjavíkur
og austur í Hrunamannahrepp og
var hann því mikið á ferðinni og
þekkti marga. Eftir að hann hætti
að keyra rútumar sínar gerðist
hann hús- vörður í Árnagarði. Þar
man ég fyrst eftir honum að skipta
um perur og dytta að hinu og þessu.
Hann var bam síns tíma og var
mjög nýtinn og fannst mér sem
bami oft ansi kúnstugar þessar við-
gerðir hans, en þær stóðu fyrir sínu.
Afí keypti húsið þeirra ömmu á
Ásvegi 11 stuttu eftir að þau giftu
sig hinn 27. júní 1946 og áttu þau
því 50 ára brúðkaupsafmæli á síð-
asta ári. Þar hafa þau búið alla sína
hjúskapartíð og býr amma þar enn
en afí fór á Hrafnistu fyrir nokkrum
árum vegna heilsu sinnar. Það er
alltaf jafn notalegt að koma á Ás-
veginn og fá sér mjólk og kleinur
hjá ömmu.
Þegar ég fer að hugsa til baka
um afa man ég hvað honum þótti
grænn litur fallegur og bar um-
hverfi þeirra ömmu þess merki.
Húsið þeirra var með grænu þaki
og grindverkið var hvítt og grænt
til skiptis, ég held að rúturnar hans
hafí verið grænar og lengi vel átti
hann grænan Skoda. Hann sagði
líka alltaf „allt er vænt sem vel er
grænt". Ég vil meina að allur þessi
græni litur hafi verið tengsl hans
við náttúmna.
Ég man alltaf eftir því þegar ég
var lítil stelpa og þið amma komuð
til okkar upp á Seljabraut og þú
varst að atast smávegis í okkur
krökkunum fyrir utan. Hinum
krökkunum og mér fannst þú frá-
bær afi.
Elsku afi, ég vona að þú hafír
fengið góða hvíld og ég vona að
þér líði betur þar sem þú ert núna.
Sigríður Einarsdóttir.
Þegar nóttin kemur
taktu henni feginshugar.
Hún mun loka hurðinni
að baki deginum
og lyfta byrði hans
af herðum þinum.
Hún, sem geymir fortíðina
og safnar óskum,
mun vita
hvert skal leiða þig
og vídd hennar er önnur.
(Þóra Jónsdóttir)
Guðmar, Elín og Elísa.
• Fleirí minningargreinar um
Guðmar Stefánsson bíða
birtingar og munu birtast í
blaðinu næstu daga.
Erfidrykkjur
•fc .
HÓTEL
REYKJAVÍK
Sigtúni 38
Upplýsingar í síma 568 9000
V 4 iL 4 Y 4 J $ & S
í stórum og rúmgóðum sýningarsal okkar
eigum við ávallt fyrirliggjandi margar gerðir
legsteina og minnisvarða úr íslenskum og
erlendum steintegundum.
Verið velkomin til okkar eða hafið
samband og fáið myndalista.