Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1979, Page 9
UPPRIFJUN ÚR HUNDRAÐ ÁRA SÖGU FORNLEIFAFÉLAGSINS
15
föngum fornminjar í landinu, hinsvegar að gefa út tímarit sem yrði
málgagn þessarar starfsemi. Milli þessara tveggja þátta sama ætlun-
arverks var meiningin að skipta því litla fjármagni sem tiltækt var.
Skal hér vikið að rannsóknunum sem hófust þegar sumarið 1880 og
þá á Þingvelli, eins og eðlilegt má teljast þar sem sá staður var ein-
mitt hvatinn að því að félagið var stofnað.
Það var svo sem sjálfsagt að varaformaður félagsins, Sigurður
Vigfússon, veldist til þess að gera hinar fyrstu rannsóknir og kann-
anir. Hóf hann þá starfsemi 1880 og hélt henni áfram til 1891, en þá
var hann farinn að heilsu og andaðist árið eftir. Skulu nú taldir
upp í stórum dráttum þeir landshlutar sem hann lagði undir fót, en
að vísu er misjafnt hversu víða hann fór um þau héruð sem nefnd
verða:
1880: Uppgröftur og staðarrannsókn á Þingvelli. Rannsókn á
Þyrli í Hvalfirði og sitthvað viðvíkjandi Harðar sögu og
Hólmverja.
1881: Breiðafjarðardalir og Þórsnesþing.
1882: Vestfirðir, einkum í sambandi við Gísla sögu.
1883: Rangárvallasýsla.
1884: Borgarfjarðarsýsla.
1885: Rangárvallasýsla og Skaftafellssýsla vestanverð.
1886: Húnavatnssýsla og Skagafjarðarsýsla.
1888: Vestfirðir öðru sinni.
1889: Breiðafjörður aftur, enn fremur Kjalarnesþing.
1890: Austurland.
1891: Vesturland.
Þessar ferðir Sigurðar voru fyrst og fremst könnunarferðir, athug-
anir ýmsar á staðfræði og fornminjum, ekki síst með tilliti til forn-
sagnanna, sem honum voru mjög hugleiknar. Skýrslur um ferðir sínar
samdi Sigurður vandlega og birti þær fyrst í stað jafnharðan í Ár-
bók félagsins, en þó voru margar þeirra óútgefnar þegar hann dó og
komu fyrst að honum látnum í Árbók 1888—92 og 1893. Þess ber að
geta að þótt ferðirnar væru einkum könnunarferðir bar Sigurður
ósjaldan við að gera dálitla uppgrefti, sem víst mun mega kalla
fyrstu fornleifarannsóknir er gerðar hafa verið á Islandi. Þeim sem
vilja kynna sér nánar fornfræðistörf Sigurðar Vigfússonar skal bent
á yfirlit í æviminningu hans, sem Valdimar Ásmundsson birti í
Árbók 1888—92.