Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1979, Blaðsíða 74
UPPHAF RITALDAR Á ÍSLANDI
79
en að líta á hana sem safn laga frá ýmsum tímum, tekin upp eftir
skrám úr einkaeign, sem voru í upphafi ritaðar meðan þau voru
lög, og síðan færðar inn í þær áorðnar breytingar. Elstu lögin í Grá-
gás eru eflaust eins og þau voru í upphafi skráð í Úifljótslögum og
ástæðulaust að rengja þá sögn Ara fróða að „þau voru flest sett
að því sem þá voru Gulaþingslög eða ráð Þorleifs ins spaka Hörða-
Kárasonar voru til, hvar við skyldi auka eða af nema eða annan veg
setja“ (Isl. fornrit I, 7), því úr vestanfjallsfylkjum Noregs eru
flestir þeir landnemar ættaðir er ættir eiga að rekja til Noregs. En
Ari á ekki við Gulaþingslög eins og við þekkjum þau, mörkuð fram-
kvæmdavaldi konungs, heldur eins og þau voru meðan Gulaþing var
þing ættarsamfélaga er stunduðu víking og landnemar þekktu af
eigin raun og líklegt að hafi verið lífsreglur þeirra áður en Alþingi
var stofnað. Baugatal fellur vel að víkingasamfélagi, þar eru víg
bætt ætt hins vegna af ætt veganda og karlar ættanna eru baug-
bætendur og baugþiggjendur.
1 Landnámabók Hauks lögmanns er í sambandi við Úlfljót getið
laga hans og tilfærðir kaflar úr þeim (ísl. fornrit I, H268). En
þegar sleppir atriðum sem eru nær samhljóða í Grágás, er fátt í
þessum köflum sem minnir á lög. Þeir eru að mestum hluta í frá-
sagnarstíl með ívafi af lagaskýringum, eins og ,,svo að landvættir
fælist við“, ,,því voru þeir guðar kallaðir“ og ,,hver maður skyldi
gefa toll til hofs, sem nú til kirkju tíund“. Atriði, sem ekki eiga
heima í lögum, enda eiga sér ekkert fordæmi í Grágás. Ef það væri
rétt að upphaf Úlfljótslaga hafi verið tengt landvættum, er nær
óhugsandi að svo merkilegs atriðis væri ekki getið í Islendingabók.
Nú mun frásögn Landnámabókar af Úlfljótslögum vera úr Styrmis-
bók (Jón Jóhannesson, Gerðir Landnámabókar, 160) og gæti þá
hugsast að tengsl væru milli hennar og hinnar ítarlegu frásagnar
Snorra Sturlusonar af landvættum í Heimskringlu, en einmitt í þeim
sama kapítula er mjög torkennilega getið íslenskra laga, nefnilega:
„Það var í lögum haft á Islandi, að yrkja skyldi um Danakonung níð-
vísu fyrir nef hvert, er á var landinu . . .“ (Isl. fornrit XXVI, 33). En
hvernig sem þessu kann að vera farið, er ekki að sjá að Snorri hafi
lagt trúnað á þá furðuveru Úlfljótslaga Landnámu er nefnist „inn
almáttki áss“, sem hefur valdið mörgum merkum fræðimönnum
heilabrotum. Hvorug Eddanna kann frá slíkri veru að segja og hún
er að mínu mati ekki úr heimi norrænna goða, því ekkert þeirra var
almáttugt, og mun það rót hinnar litríku fjölbreytni í ljóðum og sögn-
um um þau.