Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1992, Side 155
ÁRSSKÝRSLA 1992
159
sveinanna og útbúa og klæða jólasveinagínur í fullri líkamsstærð sem hafðar voru í sýningar-
sölum safnsins í desember.
Á árinu afgreiddi deildin 139 samtöl, ýmist símtöl eða viðtöl, aðallega varðandi margvís-
legar upplýsingar um klæðnað og textíla, einkum þjóðbúninga, útsaum og vefnað. Eru þá
hvorki taldir með húsfundir né óformlegir fundir vegna undirbúningsstarfa að sýningar-
haldi og öðrum sameiginlegum innanhússtörfum. Meðal þeirra sem óskuðu eftir upplýsing-
um og aðstoð voru að venju nemendur á framhaldsskóla- og háskólastigi í leit að heimildum
vegna vinnu við verkefni (ritgerðir). Einnig vöndu nokkrir komu sína í deildina að staðaldri,
svo sem einnig var á síðast liðnu ári, til þess að kynna sér og rannsaka ýmsar hannyrðir, svo
sem knipl og baldýringu.
Líkt og fyrri ár var kennaraefnum og myndlistarnemum í textílmennt veitt leiðsögn um
safnið og einnig erlendum gestum sem áhuga höfðu á því sviði.
Á árinu voru send frá deildinni 22 formleg bréf og ellefu símbréf, flest varðandi umbeðn-
ar upplýsingar, auk þess sem mikið var um, sem fyrr, að fyrirspyrjendum voru sendar upp-
lýsingar í formi ljósrita og sérprenta með undirrituðu kveðjuspjaldi.
Deildarstjóri var hinn 16. júli viðstaddur opnun sýningar á íslenskum þjóðlífsmyndum
Sigríðar Kjaran í Grundarsafni í Hveragerði, en hafði áður veitt frú Sigríði upplýsingar um
atriði varðandi íslenskan brúðarbúning frá 18. öld sem hún notaði sem fyrirmynd að einu
verka sinna, og samið um hann kafla í sýningarskrá.
í apríl fór deildarstjóri í kynnisferð til Parísar og Bayeux til þess að skoða söfn og menn-
ingarminjar, en kveikjan að ferðinni var víkingasýningin, sem skömmu áður hafði verið opn-
uð í Grand Palais í París og fsland var þátttakandi í. f París voru ýmis söfn skoðuð og m.a.
gafst betra tækifæri, en áður hafðið staðið til boða, að rannsaka íslenska refilsaumaða aitaris-
klæðið frá Grenjaðarstað, nú í Cluny safni þar í borg. Hafði klæðið nýlega verið tekið úr sýn-
ingarsal safnsins og rammi, gler, strekkingargrind og fóður fjarlægt og heimilaði Deny
Sandron, safnvörður, nákvæma skoðun á klæðinu, bæði rétthverfu þess og ranghverfu. Kom
þetta sér einkar vel vegna rannsókna deildarstjóra á íslenskum refilsaumsklæðum.
I Bayeux var sótt heim safn refilsins fræga sem við þann bæ er kenndur. Gætir talsverðrar
nýbreytni í sýningum sem settar hafa verið upp til skýringar á myndefni refilsins. Að beiðni
safnstjóra þar, Sylvette Lemagnen, átti deildarstjóri fund með henni og Antoine Verney, safn-
stjóra listasafns bæjarins Musée Baron Gerard, varðandi möguleika á sýningu í Bayeaux eftir
nokkur ár.
Um mánaðamótin júní-júlí sat deildarstjóri norrænt heimilisiðnaðarþing sem haldið var í
Reykjavík og flutti þar fyrirlestur um hefðbundinn íslenskan útsaum og setti upp á fundar-
stað litla sýningu af hannyrðum unnum með íslenskum útsaumsgerðum. Ennfremur veitti
hún leiðsögn í Þjóðminjasafni Islands þeim ráðstefnugestum sem áhuga höfðu á útsaumi.
Dagana 29. ágúst til 7. september tók deildarstjóri þátt í norrænni myndfræðilegri ráð-
stefnu, 13. Nordiske Symposium for Iconografiske Studier, í Nýja Valamo klaustri í Finnlandi
og kynnisferðum í tengslum við ráðstefnuna til miðaldakastalans Ólafsborgar í Savonlinna,
til kirkjulistasafns finnsku orþódoks kirkjunnar í Kuopio, og til Rússlands, um Sordavala til
(Gamla) Valamo klausturs við Ladogavatn. Á ráðstefnuni flutti deildarstjóri erindi með lit-
skyggnum, „En bispedatters forbedere? Om rnulig sammenhæng mellem et islandsk middel-
alderbroderi og en episode i biskop Gudmundur Arasons saga." Eftir að heim var komið var
svo sama erindi um ferðina með rúmlega 70 litskyggnum flutt fyrir samstarfsfólk á Þjóð-
minjasafni.
Undir lok september sat deildarstjóri fund stjórnarnefndar CIETA, alþjóðasamtaka textíl-
og búningafræðinga, en fundur þessi var haldinn í Vín að þessu sinni. Að CIETA-fundinum
loknum hélt deildarstjórinn til Kaupmannahafnar. Þar átti hún fund með tveimur sérfræð-
ingum við Þjóðminjasafn Dana, Nationalmuseet, Else Grolsted safnverði og Else Ostergárd
aðaltextílforverði, meðal annars varðandi væntanlegt lán safnsins á íslenskum karlmanns-