Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1992, Page 164
168
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Skoðunarferð á Hellissand. Vegna skipulagshugmynda um íþróttavöll á svonefndum
Drimbum rétt ofan við Keflavíkurvör á Hellissandi, var svæðið skoðað af fornleifafræðingi.
Hugsanlegar minjar eru í útjöðrum svæðisins sem þyrfti væntanlega að kanna ef til fram-
kvæmda kemur. Virtist frekar þröngt um íþróttavöll þarna.
Skoðunnrferð í Flatey á Breiðafirði. Vegna fyrirhugaðrar viðgerðar á vegum Framfarafélags
Flateyjar á svonefndum SiJfurgarði í Flatey, var garðurinn skoðaður og ráðgjöf veitt um lag-
færingu á honum.
Glaumbær, Gáseyri og Granastaðir. Vegna staðhæfinga um að minjarnar að Gásum í Eyja-
firði lægju undir skemmdum vegna hækkunar sjávarstöðu og vanrækslu Þjóðminjasafns var
staðurinn kannaður. Reyndust fullyrðingar um eyðingu rústanna sem betur fer ekld eiga við
rök að styðjast. I sömu ferð var völvuleiði skoðað að Tjarnargerði og fornar bæjarrústir að
Granastööum í Eyjafirði og viðgerð torfveggja að Glaumbæ í Skagafirði.
Vígðalaug við Laugarvatn. Vegna óska um lagfæringar var gerð könnun á Vígðulaug.
Ástand hennar reyndist allgott. Laugin var mæld upp og mynduð og veittar ráðleggingar
um endurbætur.
Búrhellir fundinn á Eystri Gaddstöðum. Forn manngerður hellir fannst árið 1981 er verið var
að grafa grunn fyrir húsinu að Freyvangi 6 á Hellu. Fornleifanefnd heimilaði lóðareiganda að
byggja hús sitt yfir hellinn gegn því að hann yrði varðveittur. Við lagfæringu á lóðinni utan
við húsið sumarið 1992 kom framhald hellisins í ljós. Við atliugun reyndust vera sáför í gólfi
sem bendir til þess að um búrhelli hafi verið að ræða. Aðeins er þekktur einn annar slíkur
hellir hér á landi.
Tvö skipsflök við Flatey á Breiðafirði. í ágúst fundu tveir áhugakafarar leifar af tveimur
skipsflökum er þeir voru við köfun í gömlu höfninni í Flatey. Af munum, eins og t.d. holl-
ensku postulíni, sem þeir fundu og afhentu Þjóðminjasafni má ætla að annað skipið sé frá
miðri 17. öld og hitt nokkru yngra eða hugsanlega frá síðustu aldamótum.
I framhaldi af neðansjávarfundinum við Flatey var staðurinn kannaður. Eldra flakið reynd-
ist mjög skaddað. Vantar á það bæði stafn, stefni og alla yfirbyggingu. Ekki er hægt að full-
yrða um uppruna skipsins, en hugsanlega er um að ræða hollenskt kaupfar sem talið er hafa
farist þarna árið 1659. I yngra skipinu fundust tvær fallbyssur sem gæti bent til að það sé
eldra en frá aldamótum og af erlendum uppruna.
Þvergarður á Seltjarnarnesi. Vegna byggingarframkvæmda var svonefndur Þvergarður eða
Valhúsagarður sem liggur þvert yfir Seltjarnarnesið grafinn burt á kafla. Könnun var gerð á
sniði þar sem garðurinn kemur inn á lóð Valhúsabrautar 17 og það mælt og teiknað upp.
Niðurstaða um aldur garðsins er ekki ótvíræð, en ætla má að garðurinn geti verið frá 11.-12.
öld eða frá því eftir miðja 13. öld.
Kolagröf og fleiri minjar að Skálmholti, Villingaholtshreppi. Er verið var að grafa nýjan vatns-
veituskurð að Skálmholti var komið niður á fornar minjar. Við rannsókn á staðnum kom í
ljós dálítil gryfja á rúmlega 50 cm dýpi, um 110 cm breið og allt að 50 cm djúp, með viðar-
kolaleifum í botni. Bendir flest til að um sé að ræða forna kolagröf. Nokkru síðar fundust
mannvistarleifar um 70-80 m vestar í sama skurði, á um 1 m dýpi. Virðist sem um sé að ræða
gólf og veggjabrot fornrar rústar.
Ný tóft fundin á Stóruborg. Rannsakaðar voru grjótdreifar sem Bakkakotsá hafði skolað
fram um 200 m norðan við bæjarhólinn sem rannsakaður var á árunum 1978-1990. Hugsan-
lega er um útihúsarústir að ræða.
Auk ofangreindra rannsóknar- og eftirlitsferða var gengið frá tveimur rannsóknarskýrsl-
um frá 1990. Sú fyrri greinir frá rannsóknarleiðangri sem farinn var að Arnargerði í Flatey á
Skjálfanda til að rannsaka rústir sem álitið var að tengst gætu veru Stjörnu-Odda í Flatey og
athugunum hans á sólargangi á 12. öld. Einnig voru kannaðar tóftir víðar í Flatey og að Hálsi
í Eyjafirði. Sú seinni greinir frá síðasta sumrinu sem rannsóknin á Stóruborg stóð yfir.