Dagblaðið Vísir - DV - 14.08.1987, Blaðsíða 14

Dagblaðið Vísir - DV - 14.08.1987, Blaðsíða 14
14 FÖSTUDAGUR 14. ÁGÚST 1987. Frjálst,óháð dagblað Útgáfufélag: FRJALS FJÖLMIÐLUN HF. Stjórnarformaður og útgáfustjóri: SVEINN R. EYJÓLFSSON Framkvæmdastjóri og útgáfustjóri: HÖRÐUR EINARSSON Rltstjórar: JÓNAS KRISTJANSSON og ELLERT B. SCHRAM Aðstoðarritstjórar: HAUKUR HELGASON og ELlAS SNÆLAND JÓNSSON Fréttastjóri: JÓNAS HARALDSSON Auglýsingastjórar: PÁLL STEFÁNSSON og INGÓLFUR P. STEINSSON Ritstjórn, skrifstofur, auglýsingar, smáauglýsingar, blaðaafgreiðsla, áskrift, ÞVERHOLTI 11, SlMI 27022 Setning, umbrot. mynda- og plötugerð: PRENTSMIÐJA FRJALSRAR FJÖLMIÐLUNAR HF„ ÞVERHOLTI 11 Prentun: ÁRVAKUR HF. - Áskriftarverð á mánuði 550 kr. Verð I lausasölu virka daga 55 kr. - Helgarblað 65 kr. Kringlan Þúsundir fólks lögðu leið sína í Kringluna í gær. Þá var húsnæðið vígt og verslanir opnaðar. Undanfarnar vikur og mánuði hefur þetta stóra og sérstæða verslun- arhúsnæði blasað við augum vegfarenda og innan dyra hefur verið unnið að því hörðum höndum að hafa allt til reiðu á sjálfum opnunardeginum. Enginn verður fyr- ir vonbrigðum með árangurinn. Þegar tjaldið var dregið frá í gær fór ekki á milli mála að hér í höfuðborginni er risin verslunarbygging sem jafnast á við það besta og fínasta í háborgum heimsins. Ekki aðeins í vöruvali og vörugæðum, heldur og í útliti, hönnun og smekkvísi. Auðvitað hafa ýmsar verslanir hér á landi verið í fremsta flokki, en aldrei áður hefur heil verslunarsam- stæða, samtals sjötíu og sex talsins, borið svo af. í þessari byggingu, sem og í einstökum verslunum, er órúlegur metnaður, glæsileiki og fjármagn. Kringlan er minnisvarði nýrrar aldar, straumhvarfa í íslenskri verslunarsögu. Göngu- eða verslunargatan er yfirbyggð, hátt til veggja og vítt til lofts. Verslanirnar eru hannað- ar af einstakri smekkvísi og við fyrstu sýn virðist vöruúrvalið mikið og veglegt. Þar skortir ekkert á. Kringlan er byggð fyrir forgöngu Hagkaups og það fyrirtæki er með langstærstu verslunina á staðnum. Þar fara ungir menn fyrir, sem hafa unnið þrekvirki við uppbyggingu og frágang Kringlunnar. Ástæða er til að óska þeim til hamingju með útkomuna. En á engan er hallað þótt sérstaklega sé minnst á Pálma Jónsson, stofnanda og aðaleiganda Hagkaups. Pálmi í Hagkaup er fyrir löngu orðinn þjóðsagnapersóna enda hefur hann markað spor í íslenskri verslunarsögu löngu áður en hið nýja hús reis í Kringlumýrinni. Það er rétt sem viðskiptaráðherra sagði í setningarræðu sinni í gær- morgun, að Pálmi í Hagkaup hefur með verslunarrekstri sínum bætt kjör almennings og fært honum kjarabætur til jafns við alla aðra kjarabaráttu.. Það er löngu kunn- ugt að hagstætt vöruverð í Hagkaup hefur gert fólki kleift að kaupa nauðsynjavörur, bæði í gæðum og magni, á viðráðanlegum kjörum. Saga Hagkaups er lýs- andi dæmi um kosti samkeppninnar og frjálsrar verslun- ar. Sumir hafa áhyggjur af þeim afleiðingum sem versl- unarsamstæðan í Kringlunni kann að hafa í för með sér. Halda að verslun dragist saman annars staðar, að gömlu verslunargöturnar í miðbænum lognist út af, að kaupmaðurinn á horninu sjái sína sæng útbreidda. Enginn vafi er á því að nýjar verslanir draga úr verslun annars staðar. Markaðurinn tekur ekki endalaust við. En þetta hefur áður verið sagt og hræðslan við nýjung- arnar er aðeins útrás tregðulögmálsins og kyrrstöðunn- ar. í Kringlunni er vissulega boðið upp á nýmóðins þjónustu og glæsilega vöru, en þegar ti lengdar lætur munu þær verslanir lifa sem neytendunum líkar best við. Frelsi í verslun er einmitt í því fólgið að kaupmenn keppa um markaðinn og það gera þeir einvörðungu með þjónustu, vöru og gæðum þess sem á boðstólum er. Sá sem dregst aftur úr í verðlagningu og úrvali getur ekki búist við að neytendur leiti' til sín. Svo einfalt er það lögmál, svo sjálfsögð er sú þróun. Reynsla mun skera úr um það hvort Kringlan sogar til sín fjöldann, en ef aðrir mæta samkeppninni frá Kringlunni með sama áræði og stórhug, eins og þar getur að líta nú, er engin hætta á að aðrir verslunarstaðir eða búðir spjari sig ekki. Markaðurinn leitar alltaf uppi það sem honum býðst best. Ellert B. Schram „Þrátt fyrir útreikninga og aðvaranir var eins og fyrrverandi rikisstjórn væri alveg ákveðin í að sjá hvorki né heyra.“ Húsnæðiskerfi í vanda Nú eru liðnir rúmir 11 mánuðir frá því lög um nýtt húsnæðislánakerfi tóku gildi. Frumvarpið var lagt fram í lok þings vorið 1986 og því miður fékk það frekar litla umíjöll- un á Alþingi vegna tímaskorts eins og því miður svo mörg önnur frum- vörp. Þrátt fyrir að mikið lægi á að fá frumvarpið samþykkt fyrir þing- lausnir var strax ljóst að ýmsir gallar voru á því og margir mikil- vægir þættir húsnæðislánakerfis- ins voru ski'.dir eftir. Nýju lögin miðuðust nær eingöngu við að fólk keypti sér íbúðarhúsnæði. Félags- lega íbúðalánakerfið, búseturéttar- íbúðir, leiguíbúðir og fleira var þar ekki tekið með. í umfjöllun um frumvarpið kom einnig fram sú óvissa sem ríkti um fjármögnun húsnæðiskerfisins. Gert var ráð fyrir að lífeyrissjóðir landsmanna lánuðu fé til Húsnæðisstofnunar sem síðan endurlánar til húsbyggj- enda með lægri vöxtum en lífeyris- sjóðirnir fá. Mismunur á þeim ■ vöxtum, sem lífeyrissjóðirnir fá, og þeim sem húsbyggjendur greiða verður auðvitað að koma einhvers staðar frá, annars stefnir í gjald- þrot húsnæðissjóðanna. Á Alþingi var bent á þetta og var sæst á það að fyrir haustþingið yrðu þessir þættir teknir til endur- skoðunar í milliþinganefnd.' Þrátt fyrir samkomulag þingflokkanna um endurskoðun tókst ekki að ná neinum árangri varðandi önnur íbúðarform en séreignaríbúðir sem nýju lögin gera ráð fyrir. Virtist það helst skorta að stjórnvöld gæfu fulltrúum sínum það veganesti sem til þurfti til að þeir tækju alvarlega á málum. Vandamálin komu strax í Ijós Strax og lögin tóku gildi kom í ljós að mun fleiri sóttu um lán en gert hafði verið ráð fyrir þegar þau voru samin. Þetta hefði ekki þurft að koma á óvart því að mikið af fólki hafði haldið að sér höndum þar sem nær ómögulegt hafði verið fyrir venjulegt fólk að kaupa hús- næði. Það hefði því strax þurft að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir kollsteypu. Þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram varð ljóst að stjórnvöld höfðu ekki gert sér grein fyrir vandanum eða vildu ekki horfast í augu við hann. Það er ekki nóg að setja fram ákveðið lánafyrirkomulag og taka ekki til- lit til þess að það þarf fé ef lána á fólki úr opinberum sjóðum til íbúðakaupa. Það er eins og stjóm- völd hafi gleymt svo augljósri staðreynd. Þrátt fyrir útreikninga og aðvaranir var eins og fyrrver- andi ríkisstjórn væri alveg ákveðin í að sjá hvorki né heyra. Ég tel ekki óeðlilegt að fólk þurfi að bíða í ákveðinn tíma eftir lánum en það er í hæsta máta óeðlilegt að bið- tíminn lengist stöðugt og stefni í að verða mörg ár. Ánægðir með sig Ríkisstjómin virtist svo blind á Kjallariim Kristín Einarsdóttir þingkona Kvennalistans ástandið að húsnæðislánakerfið var meira segja talið vera ein af skrautfjöðrunum í hatti hennar og þótti ástæða til að auglýsa það sérstaklega fyrir kosningar í vor. Meira að segja þótti félagsmála- ráðuneytinu ástæða til að gefa út lofbækling um húsnæðislánakerfið og var hann borinn í hvert hús á landinu. Hvað gerir ný ríkisstjórn? Það var ekki liðinn meira en mánuður frá því að ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum að yfir- lýsing kom frá ráðuneyti hús- næðismála. Húsnæðiskerfið er sprungið. Það er sprungið vegna þess að fjármagn vantar til að hægt sé að framfylgja lögunum. Þetta var svo sem ekki meira en margoft var búið að benda á. Það er ekki von að vel fari þegar þeir sem mál- um stjóma ganga um með augn- blöðkur og setja tappa í eyrun og telja að öll gagnrýni sé af hinu illa. Helsta gagnrýnin á lánakerfið er að ekki er tekið tillit til aðstæðna fólks við úthlutun lána. Lánið er óháð því hvort fólk á fullnægjandi íbúð eða íbúðir fyrir og ekkert til- lit er tekið til fjölskyldustærðar. Þennan og fleiri agnúa er sjálfsagt að sníða af kerfinu en það sem skiptir þó mestu máli er að gera sér grein fyrir fjárþörf, ekki bara til skamms tíma heldur til frambúð- ar. Það er ekki nóg að Húsnæðis- stofnun fái lán hjá lífeyrissjóðun- um nú til að lána, það verður að hugsa fyrir því að einhvern tíma verður að greiða lánin til baka. Félagslega íbúöalánakerfið Síðastliðin ár hefur færst í vöxt að sveitarfélög úti á landi hafi sótt um lán hjá Húsnæðisstofnun til að byggja leiguhúsnæði. Verulegur skortur hefur verið á leiguhúsnæði í landinu og er það meðal annars talið standa atvinnuástandi á mörgum stöðum úti á landi fyrir þrifum. Það sem veldur ekki síst áhyggj- um er sú staðreynd að verulega hefur dregið úr fjármagni til félags- legra íbúðabygginga. Eins og kemur fram í fréttatilkynningu fé- lagsmálaráðuneytisins: „Miðað við óbreytt ríkisframlag og óbreyttan hlut lífeyrissjóða verður ekki um neinar nýjar framkvæmdir að ræða í félagslegum íbúðabyggingum á næsta ári“. Þetta hlýtur að koma sér illa bæði varðandi byggingu verkamannabústaða og ekki síður byggingu leiguíbúða. Bygging leiguhúsnæðis, tillögur Kvennalistans Kvennalistakonur hafa margoft bent á að nauðsynlegt sé að auka byggingu leiguíbúða og lagt fram tillögur á Alþingi í því sambandi. Það er nauðsynlegt að fólk hafi um eitthvað annað að velja en að leggja út í þá miklu kvöð sem það er fyrir marga að kaupa íbúð. Með því að auka byggingu leiguíbúða úti á landsbyggðinni er hægt að nota fé lífeyrissjóða byggðarlag- anna heima í héraði fremur en að það fari í byggingar á öðrum svæð- um, eins og til dæmis á SV-horninu. Varasamt að vekja falskar vonir Á Alþingi hefur flokkur félags- málaráðherra lagt fram tillögur um kaupleiguíbúðir sem lausn á hús- næðisvandanum. Ég tel þessar tillögur óframkvæmanlegar í óbreyttu formi. Það væri aðeins að setja fram nýtt kerfi við hlið þess sem fyrir er með verulegri mismun- un á milli kerfa. Sumir gætu samkvæmt því fengið 80% af kostn- aðarverði íbúðar en aðrir miklu minna. Hverjir eiga að fá hvað? Það þarf að fara varlega í þessum efnum og vonast ég til að tíma verði varið í að vinna þessi mál en ekki rokið til án þess að hugsa málið til enda. Það er mikilvægt varðandi húsnæðismál að fólk viti hvað framundan er og geti treyst ráð- stöfunum stjómvalda þannig að ekki sé sífellt verið að vekja falskar vonir. Kaupleiguíbúðir eru heldur ekki lausn ef ekki fæst fjármagn til bygginga. Það þýðir ekki að tjalda aðeins til einnar nætur held- ur verður að hugsa til framtíðar. Kristín Einarsdóttir „Það er mikilvægt varðandi húsnæðis- mál að fólk viti hvað framundan er og geti treyst ráðstöfunum stjórnvalda þannig að ekki sé sífellt verið að vekja falskar vonir.“

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.