Frjáls verslun - 01.03.1988, Page 52
Herratískan
„Eitthvað annað en dökk jakkaföt“:
Klæðnaður karla hefur
tekið miklum breytingum
Karlmenn sem vilja klæð-
ast vel geta nú valið um eitt-
hvað annað en dökk jakkaföt,
hvíta skyrtu og bindi. Á tím-
um jafnréttis og frjálsræðis
þykir ekkert sjálfsagðara en
að karlmaðurinn hafi úr nógu
að velja þegar fatnaður er
annars vegar. En svona hefur
það ekki alltaf verið.
Lengst af var úr afskaplega litlu að
moða þegar karlmaðurinn ætlaði að fá
sér fatnað — hvort sem um spariföt
eða hversdagsföt var að ræða. Talað
var um að karlmenn væru afar íhalds-
samir í klæðaburði og að þeir vildu
einfaldlega ekki breyta til í efnum,
litum og sniðum. Karlmaðurinn
keypti sér sín dökku jakkaföt sem
hann notaði síðan næstu árin. Þegar
þau voru orðin ónýt þá voru keypt ný
og ekki var verra ef þau væru eins og
þau gömlu svo munurinn yrði ekki of
mikill. Á meðan dekruðu tískukóng-
arnir við konurnar sem gátu valið úr
kjólum í öllum síddum, pilsum og
blússum eða peysum við. Meira að
segja fóru þær að ganga í síðbuxum.
Það sem var í tísku eitt árið gekk ekki
það næsta svo konan hafði alltaf úr
nógu að velja og ástæðu til að kaupa
sér ný og ný föt. Á meðan voru það
gömlu góðu jakkafötin sem giltu hjá
karlmönnunum.
En svo breyttist þetta. Krafan um
aukið jafnrétti kynjanna — reyndar
með konur í fremstu víglínu — hafði
mikil áhrif á allt lífsmynstur í heimin-
um. Umræða varð opnari en áður,
gildismat breyttist og eitt af því sem
gerðist var að karlamaðurinn þurfti
allt einu á tískufatnaði að halda sem
hafði verið einkaréttur konunnar
lengst af. Fyrir tískuhönnuði opnaðist
nýr markaður og smám saman fór að
koma meiri breidd í karlmannafatnað-
inn.
Klassísku dökku jakkafötunum var
að vísu ekki hent en við þau var bætt.
Meira úrval varð í jakkafötum, skyrt-
ur urðu fjölbreyttari og bindin litrík-
ari. Peysur í ýmsum gerðum og litum
urðu vinsælar. Auk þessa fóru karl-
menn að sækjast eftir fjölbreyttari
fatnaði. Stakir jakkar í ýmsum litum
urðu vinsælir. Leðurjakkar og rú-
skinsjakkar einnig. Litavalið jókst.
Menn voru ekki lengur dæmdir til að
ganga í svörtu, bláu eða brúnu. Farið
var að nota nýja liti og rauðar, gular
eða grænar flíkur voru ekki lengur
einkaeign kvennanna.
Þróunin í karlmannatískunni tók
tíma og var hæg framan af en þegar
komið var fram á níunda áratuginn
urðu breytingarnar aftur á móti hrað-
ari, öfgafyllri en um leið sjálfsagðari.
Án efa hafa ungir poppsöngvarar og
aðrir ungir listamenn haft mikið að
segja. T.d. datt einhverjum tísku-
kónginum það snjallræði í hug að
bjóða karlmönnum upp á pils til að
ganga í. Slíkt varð ekki vinsælt meðal
hins almenna karlmanns — nokkrir
voru auðvitað svo djarfir að kaupa sér
pils — en það eitt að koma með þessa
nýjung segir meira en margt annað
um það frelsi sem nú ríkir í tískuheim-
inum.
Karlmannafatnaðurinn var ekki það
eina sem breyttist því hin síðari ár
þykir einnig sjálfsagt að karlar séu
almennt vel hirtir, fari reglulega til
hárskera og fái sér t.d strípur, perm-
anent eða láti lita á sér hárið. Jafn
sjálfsagt þykir að karlmenn noti
snyrtivörur og aðra skartgripi en
baughringa. Göt í eyrum þykir ekki
lengur „hommalegt“ fyrirbæri.
Karlmannsímyndin hefur breyst.
Það þykir eðlilegt að ungir spengilegir
karlmenn séu nú hafðir — á sama hátt
og konur — í auglýsingum til að vekja
athygli á einhverri vöru. Allir kannast
við fáklæddu stúlkuna liggjandi ofan á
bílhúddinu eða þá sem situr brosandi
á rafgeymi úr bíl í þeim eina tilgangi að
vekja athygli á vörunni. Nú má alveg
eins búast við að sjá fáklæddan ungan
mann brosa við ísskápnum eða hræri-
vélinni í auglýsingu.
Afleiðing þessa alls er ótakmarkað
frelsi sem einkennir karlmannatísk-
una í dag. Nú þykir sjálfsagt að menn
séu vel til fara, eigi nokkurt úrval í
fataskápnum og eyði meiri tíma og
peningum í föt en áður. Sumir halda
því jafnvel fram að karlmenn séu
komnir fram úr konunum og að versl-
anir bjóði upp á meira úrval fyrir karl-
menn, hönnunin sé betri og efnin
vandaðri. Tískukóngarnir leggi sig
meira fram við karlmannatískuna en
kvenfatatískuna. Skýring? Ætli tími
karlmannanna sé ekki bara runninn
upp?
En hvað er að gerast hér á landi?
Eru íslenskir karlmenn vel klæddir?
Hvaða stétt manna er vel klædd?
Hvað með aldurinn? Eru það bara
menn úr viðskiptaheiminum sem
leggja áherslu á vandaðan og góðan
klæðnað? Hvað er í tísku um þessar
mundir? Til að forvitnast örlítið meira
um herratískuna voru tveir þekktir
karlmenn úr tískuheiminum þeir Guð-
mundur Blöndal í PÓ og Garðar Sig-
geirsson í Herragarðinum teknir tali.
TEXTI: HALLDÓRA SIGURDORSDOTTIR MYNDIR: KRISTJAN EINARSSON
52