Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1985, Qupperneq 11

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1985, Qupperneq 11
þiljaðan ganginn. Eg vatt mér inn um fyrstu dyrnar á hægri hönd, inn í matsal yfirmanna. Eg fór úr blautum skjóljakkanum og hengdi hann á snaga á þilfarinu við dyrnar. Svo settist ég í mitt venju- lega sæti við matborðið, næst endasæti skipstjórans á hægri hönd. Arvid matsveinn var eitthvað að sýsla frammi í eld- húsi. Hann kom fram í lúguna og kinkaði kolli til mín og augnabliki síðar færði hann mér krús af rjúkandi kaffi. Ég vermdi hendurnar á heitri kaffikrúsinni og hann settist hjá mér og tók að vefja sér vindling. Arvid var besti vinur minn og félagi um borð, — fremur hávaxinn en feitlaginn maður, rétt innan við fertugt, með tvískipt kringlótt gleraugu og stöðugt bros á vör. Hann hafði verið góður íþróttamaður á yngri árum. Hann var enn unglegur ef horft var framhjá skallanum. Arvid hafði aðeins verið örfá ár til sjós eða eftir að konan hans dó. Áður hafði hann rekið litla veitinga- og drykkjukrá fyrir sjómenn í Nýhöfn. Við höfðum fyrst kynnst, er við vorum nokkra mánuði saman á símalagningarskipinu Edouard Suenson. Hann opnaði box af Golden Flake, tók tóbak milli þumalfingurs og visifingurs og stráði því í breiða rák á vindlingabréfinu. Ég saup á kaffinu og velti fyir mér hvort ég ætti að segja honum frá þeim hugsunum sem höfðu ásótt mig stöðugt frá því að við létum úr höfn. Ef til vill myndi ég bara gera sjálfan mig að athlægi eins og þegar ég helt að ég hefði séð skipsdrauginn á Edouard Suenson. En þetta var reyndar öðruvísi og miklu alvarlegra. Ég varð að tala við einhvern um þetta og Arvid var sá sem ég treysti best. Arvid fann á sér að eitthvað var að brjótast í mér. Hann leit upp og sprði um leið og hann sleikti límrönd- ina á vindlingabréfinu og vafði því saman: „Er nokkuð að?“ „Neeii, það get ég varla sagt.“ Ég hikaði eilítið en tók svo á mig rögg. „En, hérna, hefurðu nokkuð tekið eftir einhverju undarlegu í fari Snedkers skipstjóra?" Um leið og ég sagði þetta gaut ég augunum ósjálfrátt til dyranna, eins og í öryggisskyni. Arvid horfði á mig yfir gleraugun. „Ja, ég veit nú ekki hvað segja skal,“ svaraði hann. „Það væri þá helst það, að hann læsir alltaf að sér klefanum og hleypir engum manni inn. í morgun færði ég honum til dæmis sjálfur morgunverð og hann hleypti mér ekki inn heldur tók við matnum í dyrunum. Svo eru augun máski einkennileg, — óþægi- leg.“ „Já, það eru þau tvímælalaust," samsinnti ég, — „og það sem meira er, þetta eru augu óheillakráku." Ég leit beint framan í hann til að sjá viðbrögð hans við þessari fullyrðingu minni. Ég var hræddur um að sjá votta fyrir háði eða brosi, en sá ótti reyndist ástæðu- laus. „Nei, heyrðu nú, Eiríkur Níelsson," sagði hann, næstum föðurlega. „Er þetta nú ekki fulldjúpt í árinni tekið?“ Hann stakk vindlingnum í annað munnvikið og þreifaði eftir eldspýtnastokknum í buxnavasa sínum. „Svona alvarlega áfellingu máttu ekki koma með nema þú hafir sterkar röksemdir máli þínu til stuðnings." Hann kveikti í vindlingnum. Reykjarský myndaðist þegar kringum hann og liðaðist hægt í áttina til mín yfir orðið. „Enginn fær að því gert, hvernig augu hann hlýtur í vöggugjöf, og við höfum svo að segja ekkert kynnst honum ennþá. Hann hefur jú aðeins verið um borð í tvo daga.“ „Já, veit ég vel,“ svaraði ég og hallaði mér aftur á bak í sætinu, aðstoðaður af veltingi skips- ins. „En það er heldur ekki alveg laust við að ég hafi fleira fyrir mér í þessu en tilfinningu mína eina saman. Ég skrapp niður í vélarrúm i morgun til að kíkja á regúlatorinn, — hann er með uppsteyt rétt eina ferðina enn. Eins og þú veist, hefur hann verið síbilandi frá því að hann var settur í til reynslu, og það getur vel verið að við verðum að sigla á hálfum dampi einhvern hluta af túrnum. Jæja, en þá rabbaði ég svolitið við Nils og hann sagði mér að hann kannaðist lauslega við Snedker frá því fyrir mörgum árum. Hann bað mig að visu blessaðan að láta þetta ekki fara lengra, en ég veit að það er óhætt að trúa þér fyrir þessu. Snedker var víst ráðinn 1. stýrimaður á sænskan fragtkláf, sem Nils var á og það vildi þannig til, að hann veiktist og komst ekki með fyrsta túrinn sem Snedker var um borð. Hann var heppinn þar, því það varð jafnframt síðasta ferð skipsins. Það fórst á grynningum við St. Georgs- eyju. Öll áhöfnin bjargaðist reyndar, en þú verður að viðurkenna, að þetta er einkennileg tilviljun." Arvid tók ofan gleraugun og þurrkaði af þeim á skyrtu sinni, eins og hann gjarnan gerði þegar hann velti einhverju fyrir sér. Hann opnaði munninn til að gera einhverja athugasemd, en ég varð fyrri til og hélt áfram: „Og sagan er ekki alveg búin, vinur minn. Löngu síðar heyrði Nils að þessi sami Snedker, þá stýrimaður, en nú skipstjóri d/s Amazone og yfirmaður okkar, hafi verið einn af fáum mönnum, sem komust af, er stórt skip fórst í norska skerjagarðinum. Skipið var víst á venjulegri áætlunarleið og það var ekkert að veðrinu. Tilviljanir? Þú getur kallað það hvað sem þú vilt, en ég er viss um að það hefur allt annað en gott gengi í för með sér að hann er hér um borð. Snedker skipstjóri er ljóslifandi dæmi um það, sem við sjómenn köllum óheillakrákur, — menn sem slys og ófarir fylgja hvar sem þeir fara.“ Það varð þögn ofurlitla stund. Arvid bar gleraugun upp að ljósinu og rýndi gegnum glerin. Þegar hann hafði þannig sannfært sig um að þau væru orðin hrein, setti hann þau upp. „Níelsson," sagði hann hægt og lagði áherslu á hvert orð: „Yfirmenn á stórum skipum eiga ekki að vera fullir af hjátrú og hindurvitnum. Þeir eiga að vera fyrirmynd og leiðandi í að útrýma gömlu bábiljunum, sem hafa verið að hræða líftóruna úr sjómönnum gegnum aldirnar. Þú hefur nú alltaf verið hjátrúarfullur, og ég held að þú ættir að reyna að bægja frá þér ölium svona hugsunum svo þú gerir ekki sömu gloríu og um borð í Suenson hérna um árið. Ef óheillakrákurnar væru í raun eins margar og þið sjóararnir trúið, kæmist víst fá skip heil í höfn.“ Ég hafði ekki búist við þessum viðbrögðum hjá Arvid. Ég hélt að við hefðum komið okkur saman um að gleyma Suenson-draugnum. Mér líkaði alls ekki hvernig Arvid gerði lítið úr áhyggjum mínum varðandi skipstjórann. Mér sárnaði mjög. „Þér má finnast hvað sem þú vilt um þetta, en ég er nú svo viss um að skipstjóranum fylgir ófarnaður, að ég skal veðja við þig um það. Ég skal meira að segja veðja hafmeyjarpípunni." Arvid hristi höfuðið. „Þú með þín veðmál Níelsson." Hann dró fast að sér síðasta reykinn úr vindlingnum og drap í honum á lokinu á tóbaksboxinu. „Þótt ég veðji aldrei, skal ég nú samt taka þessu veðmáli, ef það kynni að verða þér einhver lexía," sagði hann. „Ætli ég verði ekki að leggja gullúrið, sem ég ætlaði að gefa pabba gamla, á móti pípunni. Hún er jú sá hlutur, sem þér þykir vænst um.“ Við staðfestum þetta með handabandi. Veltingur skipsins var enn það mikill að ég hrasaði í neðstu þrepum stigans, sem lá niður á gang yfir- manna. Ég greip mér til stuðnings í hurðarhúninn á skipstjórakáetunni, en á Amazone var hún fremst á ganginum, ólíkt því sem yfirleitt var. Hurðin hrökk upp og mér dauðbrá. Hún hafði verið kviklæst. Ég stóð augnablik stjarfur og hélt i hurðarhúninn. Ég vissi að Snedker skipstjóri var í brúnni. Ég stóðst ekki freisting- „Sumir hafa greinilega búið sig undir strandið“, sagði hann. „Þú hafðir engan tíma til þess að komast niður í klefann þinn“. Hann lækkaði röddina, en um leið varð hún hvassari: „Þú ert brjálaður að sökkva skipi út af einu andskotans veðmáli.“ una, leit í kringum mig og skaust inn um dyrnar, inn í dimma káetuna. Ég þreifaði eftir rofanum á veggnum, fann hann og kveikti ljósið. Ég trúði varla því sem ég sá. Var þetta ástæðan fyrir pukri skipstjórans í klefan- um? Þetta var þá allur leyndardómurinn. Á mahoníborðinu við hlið kojunnar lá sérkennileg trégrindartaska hálfopin. Hún var full af bróderuðum hlutum. Sumt af þeim lá dreift út um borðið og á koj- unni lá hálfsaumaður púði ásamt skærum og garni. Á litla silfurplötu við læsingu töskunnar voru grafnir stafirnir EJS. Það varð ekki um villst, Ernst Johan Snedker, skipstjóri, saumaði í. Þegar ég kom í klefann minn varð mér fyrst fyrir að ganga að veggnum þar sem pípurnar mínar héngu í röð. Efst trónaði hafmeyjarpípan, sérsmíðuð Olden- kottpípa frá því fyrir aldamót, snilldarlega útskorin. Ég strauk fingrunum létt yfir hafmeyna framan á pípu- hausnum, en tók pípuna ekki niður af veggnum. Ég gerði það aldrei, af ótta við að brjóta hana. Hún var perla safnsins, áreiðanlega jafn veðmæt og allar hinar til samans og voru þær þó bestu gripir. En svo undar- legt sem það kann að virðast og eins dýrmæt og hún var mér, þá hafði hún kostað mig minnst þeirra allra. Reyndar ekkert annað en áræði í veðmáli. Var ég nú að missa hana aftur í veðmáli? Ég gat ekki vikið þeirri hugsun frá mér að líkast til hefði ég verið of fljótur á mér í þetta skiptið að veðja. Ég sem þekktur var að því að tapa aldrei veðmáli. Ég barði hnefanum af gremju í vegginn. Ég var alls ekki eins sannfærður og áður um að sú tilfinning mín væri rétt, að skipstjóranum fylgdi ófarn- aður. Og ekki bætti úr skák að leyndardómurinn með hina læstu káetu hans hafði átt áer ofureinfalda skýr- ingu. Ef til vill var það einnig af náttúrulegum orsökum, sem skipin tvö höfðu sokkið undan honum? Eða kannski tók Nils Snedker fyrir einhvern annan mann eða mis- minnti um þetta? Það gat verið. Ég fór úr skónum og fleygði mér út af í kojuna. En augun? Ég sá þau glöggt fyrir mér í huganum. Já, andskotinn, þetta voru engin venjuleg augu. Venjulegur maður gat ekki haft þetta augnaráð. Tilfinning mín hrópaði að þetta væri maður, sem flytti með sér ógæfu. Hafði tilfinning mín ekki reynst mér vel fram að þessu? Þegar ég veðjaði fór ég eingöngu eftir henni og ég vann alltaf. Ég reis upp við dogg og leit enn einu sinni á haf- meyjarpípuna. Ég skyldi vinna þetta veðmál líka. Ég var staðráðinn í því að sýna Arvid fram á, að Snedker væri óheillakráka. Ég átti aðeins eftir að finna út hvernig ég færi að því. Ég stóð fyrir framan vélsímann, hvíldi olnbogana á karmi eins framgluggans og horfði út. Stjörnurnar sindruðu á dimmum næturhimninum. Dauf skíma hálf- mánans nægði til þess að afmarka hvalbakinn frá biks- vörtum, lygnum bakgrunni hafflatarins. Mér' líkuðu næturvökurnar vel, kyrrðin í brúnni og gul glæta raf- magnsperunnar. Rasmussen háseti stóð þögull við stýrishjólið. Hann horfði einnig út. Fyrir utan jafnt suðið í vélinni, sem var orðið svo venjulegt að það heyrðist ekki lengur, var alger þögn. Svo var þögnin rofin. Hás, raulandi karlmannsrödd barst innan úr kortaklefanum: „Jcg har vær’t i Grimsby og jeg har vær’t i Hull...“ Það var þriðji stýrimaður sem raulaði. Hann var búinn að vera drjúga stund inni í kortaherberginu, að reikna út miðanir, þótt hans vakt ætti raunar ekki að byrj a fyrr en eftir hálftíma. „... jeg hart vær’t í Liverpool ogdrukketmigsáfuld. Ud pá livets vej har du lokket mig menjegskal aldrig...“ Hann þagnaði. Nokkur stund leið. Þá opnaðist marr- andi hurðin á kortaklefanum. Gulhvítur ljósferhyrning- urinn speglaðist í rúðunni fyrir framan mig. „Níelsson." Ég sneri mér við og gekk inn í klefann. Hann grúfði sig yfir kortin, en leit upp þegar ég kom. „Haldið þér að þér gætuð litið á kortið snöggvast. Mér finnst eins og kúrsinn liggi full nálægt Schouwen-rifinu." Mér brá, en tókst að láta sem ekkert væri. Þetta var ungur maður, tiltölulega nýr í áhöfninni, menntaður hjá flot- anum. „Hafið þér siglt þessa leið áður?“ spurði ég um leið og ég leit beint framan í hann. „Nei, reyndar ekki,“ svaraði hann. Ég studdi báðum höndum á kortið og leit á það um leið og ég sagði: „Ég fullvissa yður um að þetta er venjuleg leið fyrir Duiveland-eyju.“ Ég leit aftur framan í hann og gekk fram í stýrishúsið. Amazone strandaði klukkan 4.15 þessa nótt. Þá voru rúmlega tvær klukkustundir liðnar frá því að ég fór af vakt, en mestan hluta þess tíma hafði ég staðið við borðstokkinn og horft á tunglið, glitrandi smábárurnar og stjörnurnar. Ég þekkti mörg stjörnumerkin, — Ökumanninn, Herkúles og Jómfrúna, sem rétt gægðist upp yfir sjónarrönd. Einnig bar ég saman í huganum þá norðurátt, sem ég áætlaði út frá stefnu skipsins og það norður, sem lesa mátti úr afstöðu Stóra Bjarnar og Pólstjörnunnar. Orion sást ekki, enda var komið fram í ágústmánuð. Þetta var einkennilegt skipsstrand, öðruvísi en ég hafði gert mér slíkt í hugarlund. Rósemi áhafnarinnar einkenndi það. Ég held að enginn hafi verið hræddur um að farast, enda var veðrið lygnt og milt, og við vorum skammt undan landi. Fljótlega varð ljóst að skipinu yrði ekki bjargað. Botninn hafði laskast mikið, aðallega á stjórnborða og eitt og tvö lestar fóru brátt að fyllast. Skipið þoldi ekki háa og þunga viðarbúlkana á þilfarinu og hallaðist talsvert á stjórnborðshlið. Það var ákveðið að búa sig undir að yfirgefa skipið og farið var að gera bátana klára. Úti á þilfari, í skímunni frá kýraugunum á borðsal yfirmanna, unnu nokkrir menn við að losa aftari stjórn- borðsbátinn úr sætinu. Andlitin voru ógreinanleg, en ég kallaði til þeirra sem ég bar kennsl á af útlínum: „Ras- mussen, Arvid, — komið þið fram á og hjálpið til að losa frambátana." Ég lagði af stað fram eftir hallandi þilfarinu og þeir komu á eftir. Allt í einu tapaði skipið jafnvæginu og datt einar fimm gráður til viðbótar út á hliðina. Ég skall flatur á þilfarið. Rasmussen hafði náð að halda sér í borðstokkinn. Hann kom til mín og hjálpaði mér á fætur. „Það er allt í lagi með mig, Rasmussen," sagði ég og neri sára öxlina. „Farið þér nú að hjálpa við að losa bátana. Mér sýnist ekki veita af að fara að koma þeim út.“ Hann lagði af stað. Ég ætlaði að snúa við til að finna Arvid en þá var gripið þéttingsfast í sáru öxlina og ég dreginn inn í skot hjá loftpípu. Það var hann. „Hvað er...“ byrjaði ég en þagnaði þegar ég sá svipinn á honum. Ljóskeila Hook of Schouwen-vitans úti á sjónum endurspeglaðist í gleraugunum, þannig að það var eins og augu hans glóðu. „Þú misstir þetta úr vásanum þegar þú dast.“ Arvid rétti fram hafmeyjarpípuna. Ég tók við henni og skildi að upp um mig hafði komist. „Sumir hafa greinilega búið sig undir strandið," sagði hann. „Þú hafðir engan tíma til að komast niður í klefann þinn.“ Hann lækkaði röddina, en um leið varð hún hvassari: „Þú ert brjálaður, að sökkva skipi út af einu andskotans veðmáli." Við störðum hvor í augu annars. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja. „Jæja, við skulum fara að koma okkur í bátana," sagði hann og hvarf út úr skot- inu. Ég stóð eftir og heyrði fótatak hans fjarlægjast. Ég vissi að hann myndi ekki segja frá þessu. En veðmálið var tapað. Þó var ég vissari en nokkru sinni áður um að skip- stjórinn var óheillakráka. Ég áttaði ‘mig allt í einu á því þarna í myrkrinu á sökkvandi skipinu, að það voru ógæfuálög skipstjórans sem ollu því, að skipið fórst, þótt ég væri reyndar notaður til að framkvæma verkið. Ég staldraði svolitla stund við í horninu hjá loft- pípunni. Svo hljóp ég aftur á, að björgunarbátnum sem verið var að sjósetja. Eiginlega hefði ég átt að fara í frambátinn, en ég var ákveðinn í að fara ekki í bát með skipstjóranum, — óheillakráku. LESBÖK MORGUNBLAÐSINS 24. DESEMBER 1985

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.