Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1985, Qupperneq 23

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1985, Qupperneq 23
Tsékov (til vinstrí) og Toistoy áríð 1901. sig aðeins um og bætti við: „En ljóta." (í Máfinum.) Karlmennirnir í Villihunangi virðast yfirleitt útslokknaðir, og birtist það ekki síst í miklum drykkjuskap. En kon- urnar bera enn von í brjósti um betra líf. Þennan draum sinn sjá þær holdtekinn í hugsjónamanninum Platonof, og eru því allar ástfangnar af honum — svo ólíkar sem þær eru hver annarri. Áþekkt hlutverk hafði persóna í Máfinum, og notfærði sér það af kulda og kæruleysi, en það er nú öðru nær um Platonof, hann ætlar að kikna undan þessu, leggst í drykkju, hirðuleysi og sjálfsmorðsörvinglan. Þetta er í raun aðalpersóna leiksins, og því nokkuð sam- sett, rúmar meginandstæður leikritsins, milli draums og veruleika. En aðalatriðið virðist mér vera hvernig eldhuginn koðnar niður. Til að undirstrika það enn betur, er hann hafður kennari, en það eru ein- hverjar lágkúrulegustu persónur sem hugsast geta í leikritum Tsékovs, sbr. kennarann í Máfinum, sem aldrei talar um annað en bág kjör sín! Hliðstæða Platonofs í Máfinum er hins vegar heimsmaður og glæsimenni, leikari. Það er þetta samsetta eðli Platonofs sem heillar konurnar í Villi- hunangi, annarsvegar eldsál, sem getur hrifið þær út úr hversdagsleikanum, hins- vegar ræfill, sem þarfnast þeirra til að reisa sig við. Þetta leikrit er eins og forvinna að Máf- inum, ekki eins marghliða, snýst mest um ástarsambönd. Tákn eru mikilvæg í verk- um Tsékovs, hlutir sem óeðlilega mikil áhersla virðist lögð á. En það er þá vegna þéss að þeir vísa til aðstæðna persónanna, sýna meginatriði verksins í nýju ljósi. Þetta finnst mér öllu fínlegar gert í frægu leikritunum fjórum en í Villihunangi, þar sem járnbrautarlest fer öskrandi yfir mitt sviðið, sóðar út umhverfi sitt, og kremur loks aðalpersónuna, sem áþreifanlegt tákn þess mannlífs sem lýst var hér að framan, og ryöst yfir persónurnar, treður óskir þeirra og drauma í skítinn. Raunar er þetta svo nútímalegt atriði á leiksviði, að tilgátur hafa heyrst (frá Árna Ibsen) um að Frayn hafi bætt þessu við. Enska leikskáldið Michael Frayn samdi þessa leikgerð úr handriti Tsékovs, sem fyrst var gefið út 1923, nær tuttugu árum eftir dauða höfundar. í formála sínum rekur Frayn sterkar heimildir fyrir því, að Tsékov hafi samið verkið þegar hann var um tvítugt — ef ekki fyrr. Eins og Frayn segir þar, er þetta með ólíkindum, verkið er það merkilegt. Ekki segist Frayn hafa gert mikið annað en að stytta verkið um meira en helming og einfalda það, ydda. Frumgerð segir hann vera í senn endur- tekningasama og sundurleita, og að hún tæki 6—7 klukkutíma í flutningi. Ýmsar styttingar þess munu hafa verið á fjölunum víða um lönd. Árni Bergmann þýddi þessa gerð á íslensku, sem virðist vel. Skáld Og Samfélag Það hefur verið sagt um leikrit Tsékovs, að þau séu dramatísk — ekki vegna þess sem persónurnar gera, heldur þvert á móti vegna þess að þær geta ekkert gert. Þessi almenna tilfinning fyrir að drabbast niður í getuleysi á sér augljósa hliðstæðu í þjóð- félagi þessa tíma, þar sem ungt menntafólk myndaði mikla hreyfingu til að bæta hag alþýðunnar, fór út í sveitir til að kenna sveitafólki að lesa, til að vekja það til umhugsunar um eigið líf, svo það gæti náð á því tökum. En hugsjónafólkið einangrað- ist í sinnuleysinu sem múgurinn var þrung- inn af, og ekkert virtist geta breytt. Sumt af þessu unga fólki tók upp hermdarverk til að útrýma fulltrúum spillingar og harð- stjórnar, sem virtust heimskan og dólgs- háttur holdi klædd, þannig myrtu þau keisarann 1881, ogýmsa háttsetta embætt- ismenn hans. En auðfundnir voru aðrir jafnillir eða verri til að taka við af þeim, og ríkisvaldið fór létt með að sigrast á fámennum hermdarverkasamtökum „Þjóð- viljans", Narodnaja Volja. Hér skal ekki margt sagt um ævi Tsékovs. Hann fæddist árið 1861 í Tagan- rog, lítilli borg á norðurströnd Asov-vatns, austan Krímskaga. Hann var einn af sex börnum matvörukaupmanns, sem aftur var sonur ólæss leysingja. Tsékov lét illa af kúgun og trúarofstæki í föðurhúsum, og ekki þótti honum vistin í framhaldsskóla frjálslegri. Kennarana hefur hann gert minnisstæða í sögunni „Maður í hulstri", sem birst hefur í sam- nefndu smásagnasafni hans í þýðingu Geirs Kristjánssonar (Smábækur Menning- arsjóðs, 1962, endurprentuð í íslenskar smásögur V, AB 1984). 1879 fluttist fjölskyldan til Moskvu, þar hóf Anton læknisnám, og vann jafnframt alla tíð uppfrá því fyrir fjölskyldu sinni með skriftum. Fyrst skrifaði hann í afþrey- ingarrit, en 1884 varð hann læknir í út- hverfi Moskvu, og sama ár birtist fyrsta bók hans, smásagnasafn. Tsékov fór nú að skrifa reglulega í íhaldssamt stjórnarblað og efnaðist af ritstörfum. Frægð öðlaðist hann sem rithöfundur 1886, og síðan æ meiri. En hann leggur áherslu á að mark- mið manna geti ekki verið að leita að hamingju hver fyrir sjálfan sig, hún verði aðeins höndluð í stærri ramma. Menn verði því að sýna minnstu bræðrum sínum umhyggju. í einræðisríki zarsins voru það einkum útlægir refsifangar. f apríl 1890 fór Tsékov til fangaeyjarinnar Sakhalín, dvaldist þar þrjá mánuði, og gaf út ítarlega skýrslu um fangabúðirnar, 1891—93, þar sem hann lýsti því nákvæmlega hvernig þær brytu fólk niður, andlega og líkamlega, og dræpu það í hrönnum. Hér kemur fram það sem einnig var grundvallaratriði í skáldskap Tsékovs, hlutlæg athugun á fólki Tsékov ásamt skáldbróður sínum, Gorky, á Yalta árið 1900. Tsékov les eitt af leikrítum sínum fyrir leikarana í Art-leikhúsinu. við tilteknar aðstæður, byggð á djúpri samúð. Raunar einkenndist lífsstíll hans af hinu sama, hann hafði jafnan um sig fjölda gesta á sveitasetri sínu Melikhovo, skammt utan við Moskvu, og var óheyrilega örlátur við hvern sem var. — Tsékov hafði lengi mátt fresta þessari för til Sakhalín, því allt frá 1884 þjáðist hann af berklum. Síðustu fjögur æviárin varð hann þess vegna að búa suður á Krímskaga, sem hann hafði ýmugust á, fjarri vinum sínum og konu sinni, sem starfaði í Moskvu, leik- konunni Olgu Knipper. Tsékov lést á ferða- lagi með henni um Þýskaland, sumarið 1904. List Tsékovs Þegar Tsékov hóf leikritagerð drottnaði hefð fléttunnar í leikritum, dramatísk, ósveigjanleg atburðarás. Hann leggur lítið upp úr henni, en þeim mun meira upp úr að sýna örlög venjulegs fólks, örlög sem tengjast og varpa ljósi hver á önnur, án áberandi dramatískra áhrifa eða átaka, nánast ómerkjanlega. Tsékov orðaði þessa stefnu sína svo: „Á leiksviðinu ætti allt að vera einmitt eins flókið og einfalt í senn og það er í lífinu. Fólk borðar saman, það er nú allt og sumt, og jafnframt öðlast það hamingjuna, eða líf þess hrynur í rúst.“ Leikritin byggði hann, eins og smásögur sínar á því að flétta fínlega saman textann og það sem honum liggur til grundvallar, og kemur aðeins óbeint fram, meðal annars í leikhljóðum, táknrænum sviðsmunum (svo sem máfinum í samnefndu leikriti) og í hljómfalli, en Tsékov var leikskálda ítar- legastur í fyrirmælum um hvernig bæri að mæla fram tilsvörin í leikritunum. Einkum eru leikrit Tsékovs þó fræg fyrir þagnirnar — hve mikið varð sagt með þögn á réttum stað. Öll þessi atriði spinna saman hugblæinn sem er megineinkenni leikritanna, enda er það einkum hann sem er burðarás þeirra, kemur í stað fléttu atburða til að tengja einstök atriði. Þessi hugblær þykir yfirleitt vera heldur þung- lyndislegur, en á grundvelli þess hljóms er þó mikil fjölbreytni, og samspil and- stæðna, frá ljóðrænum blæ yfir í lágkúru, frá fjöri til íhygli, gamans og alvöru. Kirsu- berjagarðurinn er þrunginn sárri eftirsjá, en að hluta er hann farsi, eins og Tsékov benti sjálfur á. Villihunang er það enn fremur. Öll þessi fjölbreytni gerir leikritin áhrifamikil, og það er líklega ekki síst hennar vegna sem þau hafa þótt svo raun- sannar myndir mannlífsins. Þetta er svip- að og í smásögum hans, en hann varð fyrstur manna til að beita þar því sem Hemingway kallaði aðferð borgarísjakans, að leggja mest upp úr því sem ekki er sagt, heldur gengið út frá, kemur óbeint fram. Sögur hans eru oft augnabliksmynd- ir úr mannlífinu, án eiginlegs upphafs, loka eða þess endahnúts, oft óvænts, sem þótti hlýða að ríða á smásögur. Samþjöppunin er mikilvæg, eins og Tsékov sagði: „Því styttra, þeim mun betra. Hæfileikarnir birtast í því að vera stuttorður. Kjörorðin eru: Algjör hlutlægni, lýsa ber persónum og hlutum réttilega, í sem allra stystu máli; þar ríki dirfska, frumleiki, blíða. Þessi áhersla á hlutlægni kann einhverj- um að þykja undarlegt boðorð hjá höfundi, sem eins og áður sagði, vildi umfram allt leggja minnstu meðbræðrum sínum lið, taldi hamingjuna vera samfélagslega. En skýringin er sú, að hann ætlaðist til að lesendur og áhorfendur legðu sig líka fram við leikritið, treysti á virkni þeirra og skilning. „Til hvers er að útskýra eitthvað fyrir áhorfendum? Það þarf bara að hræða þá, og þá fara þeir að hugsa að nýju.“ „Rithöfundur á að vera eins hlutlægur og efnafræðingur, umfram allt hlutlaust vitni.“ Nú er augljóst, að Tsékov er allt annað en hlutlaus. Bein athugun hans á lífinu er kjædd persónulegri afstöðu, en hún er alltaf gerð ópersónuleg, hafin upp til æðra gildis. Þessvegna grípur hún áhorfendur. Tsékov ætlast til mikils af þeim, þannig veitir hann þeim mikið. Heimildir: S. Laffitte í Encyclopædia Universalis, Paris, 1980, og Nils Á. Nilsson í Verdenslitteratur- historie, Politikens forlag, Kobenhavn 1973. Mic- hael Frayn: Introduction (bls. vii—xviii) í Chekov: Wild Honcy; Methuen, London 1984. Höfundurinn er bókmenntafræðingur I Reykjavlk. LESBÖK MORGUNBLAÐSINS 24. DESEMBER 1985 23

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.