Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1985, Síða 37
Skjöldungar í heimsókn. Vngir Skjöldungar.
Við laxveiðar, sem voru eitt megin viðfangsefnið.
okkar til hliðar að sinni og var þá talað
um, að við hefðum stofnað villimannafélag.
Skeggbroddarnir reyndust vissulega til
bóta, en ástandið var nógu slæmt samt. Ég
var t.d. allur útsteyptur á enninu, hálsin-
um, eyrunum og á höndunum. Jafnvel
þykkir ullarsokkar nægðu ekki til að verja
fæturnar.
Við 1 villimannafélaginu fórum einkar
sparlega með vatn og hlutum fyrir það lof
hjá skipstjóranum, því að vatnsbirgðir
okkar voru af skornum skammti. Reyndar
var ég a.m.k. yfirleitt Svo útmakaður af
græðandi koppafeiti, að hvorki vatn né
sápa áttu neitt erindi til mín. Síðar verður
drepið á afdrif villimannafélagsins.
LÍNUVEIÐAR
Landslagi er þannig háttað í Skjöldungs-
firðinum, að fjöll ganga yfirleitt snarbrött
í sjó fram og halda síðan áfram neðan
yfirborðs. í þverskurði er fjörðurinn því
V-laga án þess að nein setlög séu, þar sem
dýpst er. Við þessar aðstæður var þess
enginn kostur að koma niður trolli.
Eg hafði mikinn áhuga á að leggja þorsk-
gildruna, sem var alfarið á vegum Krist-
jáns eins og áður sagði. Að höfðu samráði
við Skjöldungana tók Kristján þá ákvörðun
að setja gildruna ekki í sjó, enda talið að
ekki væri þorskur í firðinum og aðstæður
til að leggja gildruna heldur ekki góðar.
Það frétttum við svo af fiskveiðum þeirra
Skjöldunga fyrir utan lax, að einn sá iðn-
asti þeirra, Harald að nafni hefði reynt
fyrir sér með handfærum í 3 vikur og
aðeins fengið einn kola, sennilega skráp-
flúru.
Ekki boðaði þetta góðar fréttir fyrir
okkur en til að afla nánari upplýsinga um
veiðimöguleika áttum við um fátt annað
að ræða en leggja línu. Á tímabilinu 19.-25.
8. lögðum við línuna 5 sinnum allt frá
Laxnesi og nokkuð út fyrir fjörðinn. Ekki
vorum við með nema 12 lóðir, enda aðstæð-
ur um borð ekki sem bestar til að stunda
línuveiðar. Aflinn var allt frá engu upp í
60 kg, sem svarar til tæplega tonns miðað
við fulla línulengd á íslandi. Langmest bar
á hlýra og grálúðu en ofurlítið sást af karfa
og keilu en engan sáum við þorskinn. Einn
hákarlsræfill hafði líka lag á því að flækja
sporðinum utan um línuna. Aflann gáfum
við Skjöldungunum jafnharðan og kunnu
þeir vel að meta og tóku hlýra og grálúðu
fram yfir eilífan lax.
Við höfðum bæði síld og smokk í beitu
og þeir Indriði, Steini, Gísli og Sólmundur
voru ávallt í beitningunni og Snorri og
Grænlendingarnir stundum. Guðmundur
bátsmaður hafði jafnan nóg annað að sýsla
á meðan beitt var, enda vorum við vel
mannaðir í beitningunni.
Hitastig sjávar var annars á þann hátt
vorið í Skjöldungsfirði, að yfirborðshitinn
var um 5° en síðan snarkólnaði og þegar
komið var niður á 40 faðma var hitastigið
komið niður fyrir frostmark en fór aftur
upp í plús á 100 föðmum og fór svo fljótlega
upp í 2° og hélst svo allt til botns.
Það má geta þess, að við reyndum af og
til fyrir okkur með handfærum en jafnan
án árangurs.
MeiraUm Lax
Það er væntanlega orðið ljóst, að lítið
var að hafa við Skjöldunginn nema lax.
Laxinn heldur sig í yfirborðslögunum, þar
sem sjórinn er tiltölulega hlýr og er, eins
og lög gera ráð fyrir, í ætisleit. Einkum
bar mikið á ískóði í maganum en lítið eitt
af smáloðnu. Mun meira bar á hrygnum í
aflanum og voru þær um 70%, hvað sem
því kann að valda. Grænlendingarnir segja,
að best veiðist, þegar sólin skín, því að þá
blindist laxinn og sjái þá síður netin. Fyrir
kom, að við fórum eikki aðeins í netin á
morgnana heldur líka á kvöldin en þá var
sjaldnast afli að ráði, svo að mér virtist
netin einkum veiða að nóttunni. í október
er laxinn genginn innst inn í fjörð en þá
er fjörðinn farið að leggja. Einn góðan
veðurdag hverfur iaxinn svo gjörsamlega
og er því væntanlega í úthafinu yfir vetur-
inn.
Útbúnaður okkar til laxveiða var ekki
mikill að vöxtum, eins og áður hefur verið
tekið fram. Við vorum aðeins með 7 net
sem hægt var að kalla laxanet, þ.e. 5
tommu net, og þess utan fengum við 2 net
frá Kristjáni með ívið stærri riðli sennilega
514 tommu. Þau net voru 60 m löng en
okkar net aðeins 35 m. Þar að auki vorum
við með nokkur 5 tommu net í laxinum og
reyndar komust nokkur 6 tommu net einnig
í gagnið. Annars voru 6 tommu netin ætluð
fyrir þorsk en okkur lék forvitni á að vita,
hvort til væri svo stór lax á svæðinu, að
hann fengist í svo stóran riðil. Ekki var
hægt að nota þorskanetin óbreytt, því að
þau sökkva, eins og þorskanetum ber. í
stað þess að dandalast lengi með aukaflot
á þessum netum, voru þau felld upp á þann
hátt, að aðeins einn þáttur af blýtóginn
var notaður að neðan. Slík net voru kölluð
Gvendar eftir þeim, er felldi.
Eftir að við höfðum fengið 55 laxa að
morgni þess 20. 8. fór heldur að draga úr
aflabrögðum. Við drógum nokkur net að
kvöldi sama dags og fengum þá aðeins 10
laxa. Þann 21. 8. drógum við 12 net og
fengum við aðeins 10 fiska. Þá bar svo við,
að skýjað var aldrei þessu vant. Þetta
rennir stoðum undir þá kenningu Græn-
lendinganna, að verr veiðist, þegar sólin
er í feluleik. Þess ber þó að geta, að 6 net
voru illa staðsett og öll hálfóklár vegna
strauma. En 6 net höfðum við á aflasælasta
staðnum okkar, Vatnsvíkinni og þau gáfu
óvenju lítið eða aðeins 10 fiska. Þann 21.
ágúst fengum við 27 fiska í 16 net, þar af
voru 15 fiskar i 4 net í Vatnsvíkinni og
þann 22. ágúst fengum við 39 laxa í 16
net, þar af 31 lax úr 6 netum í Vatnsvík-
inni. Hin netin voru hinum megin fjarðar-
ins við Stórkoddavík og þar í grennd.
Heildarlaxafjöldinn var nú kominn upp í
154 fiska.
STÓRKODDAVÍK
Þetta merkilega nafn er svolítið öðruvísi
á kortum eða Stærkodders Vig. Svo kyn-
lega vildi til, að ég var um þessar mundir
að lesa bókina „Jónas Hallgrímsson og
Fjölnir" eftir Vilhjálm Þ. Gíslason og þar
bar Stærkodder á góma og skilst mér, að
þar hafi verið ,um sænskan víking að ræða.
Eðlilegt hefði því verið að tala um Oddsvík
sterka en það þótti okkur óþjálft og í létt-
um anda varð því Stórkoddanaf nið ofaná.
Töluverður foss steyptist í Stórkoddavík-
ina og þótti okkur þetta allfiskileg slóð.
Lögðum við net sitt hvoru megin við foss-
inn, einn Gvendur var utan við fossinn en
ein þriggja neta trossa af 4 tommu netum
innan við hann. Þessi net voru þarna í 3
sólarhringa og gaf Gvendurinn 2 laxa á
dag en trossan alls 13 laxa og fengust allir
nema einn í það net sem fjærst var landi
og skaut þá upp þeirri hugmynd í kolli
mér, að það væri ekki endilega víst, að
best væri að vera með laxanetin upp í
harða landi.
Annars fór ég í land við Stórkoddafoss-
inn ásamt Grænlendingnum og Steina
Jóns. Steini var með veiðstöng og reyndi
bæði uppi i ánni og í sjónum fram af fossin-
um en án árangurs. Þarna í grendinni voru
sérkennilegar grjóthrúgur, sem reyndust
vera aflagðar refagildrur. Veiðiaðferðin
mun byggjast á því, að refurinn verður
innlyksa.
Laxnes
Við vorum sífellt að fikra okkur innar
eftir firðinum og þann 23. ágúst lögðum
við nokkur net við nes, sem við kölluðum
Laxnes vegna væntanlegs afla. Það var þó
með harðindum, að þetta væri réttnefni,
þar sem við fengum aðeins einn lax á
þessum slóðum. Eftir að við höfðum komið
netunum í sjó, fórum við í land á meðan
þeir Drafnverjar drógu línuna.
Sagan hermir, að á Laxnesi hafi komið
til átaka milli heimamanna og Norðmanna
árið 1938. Mun hafa verið skipst á skotum
og óstaðfestar sögur herma, að mannfall
hafi orðið.
Eftir þennan atburð eiga Norðmenn svo
að hafa dregið sig brott af svæðinu.
Á Laxnesi fundum við vörðu og nokkrar
grjóthrúgur, sem notaðar voru til að fergja
kjöt og verja það fyrir hundum og öðrum
rándýrum. Einnig fundum við leyfar af
tjaldstæði og gamlar rústir, sem vinir
mínir Grænlendingarnir vildu meina að
væru eftir norræna menn og Mikki nefndi
Eirík rauða í þessu sambandi. Þessu mót-
mælti ég alfarið. Einnig fundum við rústir
veiðikofa og leitaði ég þar að minjum.
Fann ég dauðan steindepil, snifsi úr hand-
klæði og hálfbrunninn bút úr krossviðar-
plötu. Þar skammt frá fann ég svo grisju
og poka undan skonroki og dálítið af skelja-
brotum úr kræklingi. Mun þarna vera án-
ingarstaður innfæddra og berjaland, þegar
vel árar. Tjörn var þarna líka og synti þar
lómur með tvo unga og var einkar spakur.
Á meðan þessu fór fram hafði línan verið
dregin með þeim einstaka árangri, að
enginn fiskur fékkst á 1200 króka.
Framhald í næstu Lesbók
Höfundur er fiskifræðingur og starfar hjá Haf-
rannsóknastofnun.
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 24. DESEMBER 1985 37