Lesbók Morgunblaðsins - 17.12.1991, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 17.12.1991, Blaðsíða 10
„Styrmir fróði lét af Iögsögumannscmbætti 1214. Þá tók Snorri við. Ekki er ósennilegt að um það leyti hafi kynni þeirra hafist fyrir alvöru. Þeir hafa átt mörg hugðarefni sameiginleg... Eg sé þá fyrir mér vinina, Styrmi og Snorra, ræða það hvernig bezt yrði hlúð að íslenskri sagnaritun og öðru menningarstarfi. Þar hefur áreiðanlega verið horft til Viðeyjarklausturs. “ Teikning: Eiríkur Smith. þekktustu og stærstu einkaskólarnir, að Haukadal og í Odda, hættu um svipað leyti, þá varð eitthvað að koma í staðinn. Sá möguleiki er að vísu fyrir hendi, að til- koma Viðeyjarklausturs hafi orðið til þess, að nefndir skólar lögðust niður. Ekki fínnst mér það þó líklegt, að Haukdælingurinn Þorvaldur Gissurarson og glæsilegasti læri- sveinn Oddaskóla, Snorri Sturluson, hafí lagt í framkvæmdir, sem rýrðu hin fomu höfuðból. Hitt er miklu nær, að þeir hafí sameinast um, að merki lærdóms og mennta yrði ekki látið niður falla í Sunn- lendingafjórðungi, þótt aðstæður breyttust svo á hinum fornu stöðum, að ekki yrði lengur unnt að standa þar að skólahaldi. V. Bjöm, sonur Þorvalds, bjó að Breiða- bólsstað í Fljótshlíð og þótti mikið höfð- ingjaefni. Eiginkona hans var Hallveig Ormsdóttir. Móðurbróðir hennar, Kol- skeggur hinn auðgi í Stóradal undir Eyja- fjöllum, var ókvæntur og bamlaus. Hann var talinn með ríkustu mönnum hér á landi og var Hallveig Ormsdóttir einkaerfingi hans. í átökum út af landamerkjamálum var Björn Þorvaldsson veginn árið 1218. Eins og nærri má geta urðu af því mikil eftirmál. Margir frændur Björns vildu ekki fallast á sættir manndrápslaust. En Þor- valdur faðir hans sýndi þá enn einu sinni, hvert göfugmenni hann var. Sagði hann, „að honum þóttu þær sonarbætur verstar, ef hann yrði öxi að eyða óvinum sínum“. Fékk hann þá sjálfdæmi og fór eftir þeim hinum stærstu gerðum, sem verið höfðu hér á íslandi. Það er athyglisvert, að eftir þetta virðist klausturstofnun hafa leitað sterkt á Þor- vald. Hann hefur þó trúlega ekki sjálfur haft það fjármagn, sem tii þurfti. Því hef- ur hann leitað á náðir Kolskeggs hins auðga, sem hét að leggja fé þar til. Af því varð þó ekki, því Kolskeggur andaðist áður svo yrði. Var það 1223. Hallveig, ekkja Bjöms, tók þá arf eftir hann. En af ein- hveijum ástæðum lá fé Kolskeggs þá ekki á lausu. E.t.v. hefur Þorvaldur verið fjár- haldsmaður tengdadóttur sinnar og ekki viljað taka féð úr eigin hendi. En úr rætt- ist, þegar Snorri Sturluson, sem þá hafði fyrir löngu sagt skilið við Herdísi Bersa- dóttur á Borg, kom suður um heiði þeirra erinda að biðja Hallveigar sér til handa. Hét Þorvaldur honum liðsinni við kvonbæn- imar, sem urðu auðveldar, og fékk í móti af fé Kolskeggs, svo sem hann þurfti til klausturstofnunar. Var þetta árið 1224. Keypti Þorvaldur þá Viðey og var þar efnt til klausturs. En jafnframt var vinátta þeirra, Snorra og hans, tryggð með þeim hætti, að Gissur sonur Þorvalds skyldi fá Ingibjargar dóttur Snorra. Þrátt fyrir sættir og há manngjöld hlaut missir glæsilegs sonar og mikils höfðingja- efnis að skilja eftir sársauka og söknuð. Það er vel hugsanlegt, að maður svo göfug- ur í hugsun sem Þorvaldur, hafi verið fljót- ur að tengja saman sonarminningu og stofnun heilags klausturs. Sú hugmynd var og þekkt á hans tíð að minnast látinna að andlegum leiðum. Snorri notaði það mótíf vel, er hann skrifaði Egilssögu, þar sem hann lýsir því af stakri snilld, hvemig Þor- gerður fékk Egil föður sinn til að yrkja Sonatorrek. Presturinn og höfðinginn í Hruna á 13. öld getur hafa verið svipaðs sinnis og vestfirskur prestur einn á 20. öld, en hann orti: - Það er lífsins gæfugaldur gull að vinna úr raun og tárum.“ (Sr. Einar Sturlaugsson.) Alltént er hitt víst, að með traustri sam- vinnu sinni að stofnun Viðeyjarklausturs, og í bandalagi við Magnús biskup, lögðu þeir Þorvaldur og Snorri dýrmætt gull i lófa framtíðar íslenskrar menningar. Það hafa þeir báðir vonað og raunar vitað. Hitt gat hvorugan þeirra órað fyrir, að við það, að Snorri tók Hallveigu sér fyrir konu, þá var hafinn spuni þráða þeirra örlaga, sem urðu Snorra að fjörtjóni. Gissur Þor- valdsson stóð yfír höfuðsvörðum Snorra fyrrum tengdaföður síns. í flokki hans var annar tveggja sona þeirra Hallveigar og Björns Þorvaldssonar. Þeir þóttust reyndar báðir sviknir af Snorra um arf. En það er önnur saga> Stofnár Yiðeyjar- KLAUSTURS Sturla Þórðarson segir, að Viðeyjar- klaustur hafí verið sett vetri síðar en þeir Þorvaldur og Snorri gerðu samkomulag sitt, þ.e. 1225. Bæði annálar og saga Guð- mundar biskups hin elsta telja, að Viðeyjar- klaustur hafí verið sett 1226 og til þess árs er talinn máldagi klaustursins. Við það ártal hafa sagnfræðingar miðað. Mér virð- ist þó ekki hægt að rengja ártal það, sem Sturla greinir. Hann er manna næstur þessum atburðum. Klaustrið hefur trúlega verið sett á messudegi heilags Ágústínus- ar, 28. ágúst 1225, en máldagi þess hefur svo sennilega verið kynntur á næsta Al- þingi, sem ekki var fyrr en sumarið 1226. Þá var Snorri lögsögumaður og hefur því væntanlega lesið máldagann upp til þing- lýsingar. En af framangreindum ástæðum hef ég í ritum mínum og frásögnum flutt stofnár klaustursins til 1225. Kanoki, Príor, ábóti Nokkrar umræður hafa orðið vegna þess, að Þorvaldur Gissurarson er hvergi nefndur ábóti eða príor, aðeins kanoki, sem er heiti munks í Ágústínusarklaustri. Almennar klausturreglur leyfðu ekki, að príor væri skipaður, nema klausturbræður væru orðn- ir 6, en rétt til ábóta átti klaustur, þegar þeir voru orðnir 12. Hitt var og algengt í Ágústínusarklaustrum, að biskup væri ábóti, og príor starfaði í hans umboði. Guðmundarsaga segir frá því, að kanokar í Viðey hafí í upphafi verið 5. Því er Þor- valdur sennilega aldrei annað en venjuleg- ur forstöðumaður í umboði biskups, fremst- ur meðal jafningja. En kanokum hefur fjölgað, því að Styrmir fróði, eftirmaður Þorvalds, hlaut príorstign og Arnór Digur- Helgason var vígður ábóti 1247. ÁRTÍÐASKRÁ Viðeyjar- klausturs Sturla Þórðarson segir í íslendingasögu frá þeim orðrómi, að Skúli jarl í Noregi gæfi Snorra jarlsnafn. Því hafi Styrmir fróði ritað: „Ártíð Snorra fólgsnarjarls". Orðið „fólgsnaijarl" þýðir sennilega leynd- aijarl, enda hefur slík nafnbót ekki mátt fara hátt á þeim tíma. Styrmir hefur senni- lega verið mikill trúnaðarvinur Snorra og því vitað þetta, en ekki talið ástæðu til að halda þessu leyndu að Snorra látnum. En hvar hafði hann ástæðu til að rita ártíð Snorra? Árið 1241 var hann príor í Viðey og þvi varla um annan ritunarstað að ræða en í ártíðaskrá klaustursins. Ártíðaskrá var í raun almanak, en inn á það voru færð á dánardaga nöfn þeirra manna, sem beðið skyldi fyrir á hverri ártíð. í klaustrum var þessu þann veg háttað, að þegar miðmorgunstíð var lokið í klaust- urkirkjunni, gengu bræðurnir til kapítul- ans, sem var sérstakt herbergi, tengt kirkj- unni. Þar var tilkynnt hvaða dagur væri samkvæmt almanakinu. Væri sá dagur ártíð einhvers, sem klaustrið hafði tekið að sér að biðja fyrir, þá var þessi stund í kapítulanum notuð til þess. En þar var líka lesinn, dag hvern, einn kapítuli klaustur- reglnanna og af þeirri gjörð var nafn her- bergisins dregið. Ymsar ártíðaskrár eru til frá kaþólskum tíma hér á landi og hafa þær verið gefnar út á prenti. Meðal þeirra er eitt skinnblað fornt, sem nokkur rök benda til, að gæti verið héðan úr Viðey og er ritað á fyrri hluta 13. aldar. Það geymir þó aðeins fyrstu tvo mánuði ársins, janúar og febrú- ar. Auk ártíðar Styrmis fróða eru þar ártíð- ir tveggja náinna ættmenna Snorra, tveggja úr fjölskyldu Þoi’valds og 12 ann- arra. Samanburður við aðra ártíðaskrá nokkuð yngri, sem kennd hefur verið við Helgafellsklaustur og nær yfir árið allt, bendir til þess, að sú hafi verið byggð á Viðeyjarskránni og þar er m.a. ártíð Snor- ra, þótt ekki sé hann þar nefndur fólgsnar- jarl. Þar er einnig ártíð Þorvalds Gissurar- sonar. Um þessar ártíðaskrár hafa á seinni árum ritað einkum þeir Lars Lönnroth pró- fessor í Gautaborg og Stefán Karlsson handritafræðingur við Árnastofnun. Lars Lönnroth, sem telur skinnblaðið komið úr Viðey og að Helgafellsártíðaskráin geti gefíð það sem hina vantar, teflir fram snjöllum rökum fyrir því, að sjá megi hönd Styrmis meðal þeirra sex rithanda, sem eru á þessu eina skinnblaði, sem varðveist hefur, sé tilgátan um Viðeyjarupprunann rétt. Stefán Karlsson telur hins vegar all- sendis óvíst, að rétt sé að ættfæra umrædd- ar ártíðaskrár til Viðeyjar og Helgafells.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.