Lesbók Morgunblaðsins - 23.12.2000, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 23.12.2000, Blaðsíða 6
 BR^F UR BLÁUM KISTLI EFTIR INGVELDI RÓBERTSDÓTTUR Sigurður Guðmundsson, skólameistari á Akureyri, varð öllum eftirminnilegur sem kynntust honum. Hann var sveitadrengur úr Húnavatnssýslu sem hóf nám í Kaupmannahöfn 1902. Vegna þess að nútíma fjar- skipti voru ekki komin til sögu er enn til kistill sem geymir bréfin sem hann skrifaði heim og bréfin sem hann fékk frá foreldrum sínum. Hér er gluggað í þoiZ Sigurður Gudmundsson á námsárunum. FYRIR nokkrum árum fékk mað- urinn minn að hirða kistil, sem var verið að henda á haugana. Kistillinn hafði verið í eigu afa hans, Sigurðar Guðmundssonar skólameistara á Akureyri. Hann var afar illa farinn, járnin ryðg- uð og í honum var hrúga af gömlum pappírum. Það kom svo í minn hlut að flokka og fara yfir þessa pappíra. Þarna var ótrúlegur fjöldi af litlum minn- ismiðum, sem Sigurður hafði skrifað, þegar hann var við nám í Kaupmannahöfn. Þangað fór hann árið 1902 og hóf nám í stjórnmála- fræði, en hætti því námi og lagði stund á nor- rænu. Auk minnismiðanna voru nokkrar stílabækur frá námsárunum, með glósum og hugleiðingum hans. Það sem mér fannst þó skemmtilegast að finna í kistunni voru bréf, sem honum höfðu verið skrifuð á skólaárum hans í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Flest bréfin voru frá foreldrum hans og systrum. í þeim bréfum er sagt frá því helsta sem á daga drífur hjá fólkinu í sveitinni og pabbi hans og mamma reyna einnig að leggja hon- um lífsreglurnar. Foreldrar Sigurðar voru Guðmundur Erlendsson bóndi og hreppstjóri í Mjóadal í Austur-Húnavatnssýslu og Ingi- björg Sigurðardóttir. f kistunni voru lfka bréf frá félögum Sig- urðar og vinum. Sigurður Guðmundsson var róttækur í hugsun og mikill baráttumaður fyrir sjálfstæði íslands. Hann skrifaði marg- ar greinar um þau mál^ sem birtar voru í blöðum undir dulnefni. I þeim bréfum, sem vinir hans skrifa honum, koma fram hugleið- ingar þeirra um pólitík og hvað þeir geti gert til að losna undan stjórn Dana. Þar er marg- an fróðleiksmola að finna fyrir sagnfræðinga. Ingibjörg Sigurðardóttir, móðir Sigurðar, skrifaði honum yfirleitt í mesta fiýti, enda var hún önnum kafin flesta daga. I bréfunum frá henni kemur vel í ljós hrifnæmi hennar og viðkvæmni og er greinilegt að þau mæðgin hafa verið afar náin. Hér á eftir fer bréf, sem Ingibjörg skrifar syni sínum til Reykjavíkur. lHJóadalll.aprfll897. Hjartkæri góði Siggi minn! Jeg fæ ekki orðum að komið öllu því þakk- læti er þú átt skilið fyrst og fremst fyrir góða brjefið þitt og elsku myndina þína, ó jeg margkysti hana og fanst þú vera komin og það hefurðu nú sjálfsagt verið í anda, já jeg gleimdi mjer alveg um stund við að skoða hana í krók og kríng og lesa yndælu brjefin þín vel skrifuð og vel úr garði gjörð í alla staðí, og seinast fyrir blessaða bókina þína, mjer kom hreint að óvörum og varð með öllu hissa, en þótti jafnframt svo innilega vænt um að fá að gjöf frá þjer þetta fágæta meist- araverk sem svo að segja hvert mansbarn að maklegleikum lofar. jeg er búin að lesa meiri partin af henni við ljós á kveldin þegar jeg er háttuð og allt er komið í kyrð og ró. þá hefi jeg svo gott næði þangað til jeg hníg í faðm svefnsins og fæ ei lengur staðist hans yfirráð. Hvað viðvíkur skáldskapi á bókini hefi jeg fyrir mitt leiti lítið vit á honum eins og þú þekkir en hitt veit jeg að jeg hefi ekki af öðru orðið meira hrifin en að lesa hana, bæði fyrir efni og meðferð á því. Þeir eru í sannleika sælir sem af drottni hafa þegið jafn ágætar gáfur og síra Valdimar og brúka þær jafnvel sem nú á tímum er sjaldgæft, en svona er þegar maður yfirvegar gang lífsins. verða þá jafnan einhverjir er kröptuglega stiðja sigur hins góða svo maður gétur þó lifað í þeirri öruggu von að hið góða hljóti á endanum að bera hærri hluta en hið lakara að kollsteipast og verða að eingu. Ef jeg lifi lengi verð jeg að sýna lit á að borga þjer skuld mína, því ekki er gustuk að hafa af þjer. Frjettir hefi jeg engar að skrifa því pabbi er búin að því, þó hefur hann alveg gleimt að segja þjer að ínga frændkona þín er búin að eignast son, en ekki búið að skfra hann, en ekki veit jeg hvort við verðum þar við eða ekki. Nú ætlar pabbi að halda sveitafund á morgun í Hlíð en er fyr en vant er vegna heiðarmálsins. Jónas í Tungu sárlasinn, búin að vera það á 4 viku, væri ósk- andi að honum batnaði því þar væri mikill mannskaði. Jóhannes sýslumann á að jarða næsta þriðjudg og þangað boðið öllum sem vilja. verður sjálfsagt hátíðlegt tækifæri. Gamla okkar að hressast eptir léttuna og vona jeg hún hjari þangað til þú kemur alltjent það mikið gleðst hún af að fá kveðju frá þjer og biður þá strax að heilsa þjer apt- ur, en rjett getur þú í vonirnar að sama er sinnið og verður víst leingst. Hjeðan er ann- ars ekkert að frjetta. allt tíðindalaust svo langt sem maður veit. heyrðu, láttu Oddnýju Smitt koma nprður með þjer í sumar. Þú gét- ur verið hestadrengurin hennar á leiðini. Nú er komin mánudagur, pabbi farin á fundin og litla bogga ætlar fram að Brún að finna Betu sína og gömlu hjónin ætla vestur að Torfalæk og þaðan að Mánaskál og hann að finna Sýslumahn svo það gengur nú heilmikið á. Ekki veit jeg hvort jeg gét sent þjer í fötin með skipi en mig langar til þess. Lúlli biður að heilsa Sigga á landi. Systur þína biðja að heilsa þjer hlýtt og inni lega. Ó að Guð gæfi okkur að sjást heilum á húfi. það væri mikil gleðistund. Þá er skilnaðar stundin komin. jæa vertu margblessaður og sannfarsæll í lífi og dauða. Þín heitt elskandi móðir Ingibjörg Sigurðardóttir. Guðmundur Erlendsson, faðir Sigurðar, skrifar honum oft og hefur yfirleitt frá mörgu að segja. Peningaskortur og margs konar bú- mannsraunir plöguðu hann og að auki hafði hann oft miklar áhyggjur af syni sínum, eink- um og sér í lagi öllum hans pólitísku af- skiptum. Vandar hann oft um við hann vegna greinaskrifanna og er dauðhræddur um að nöpuryrði hans og árásir á andstæðingana verði honum fjötur um fót, jafnvel þótt Sig- urður skrifi greinar sínar oftast undir dul- nefni. Mjóadal 15. febr. 1902 Elskul. Siggi minn! Fátt er í frjettum eins og vant^ er. Tíð- arfarið styrt, hríðar og frostasamt. ís sagður kominn um daginn en nú aptur sagt íslaust. I vetur hefir óvanal. lítil snjóalög verið hjer á dalnum. í Langadal verið lakara til jarðar. Hefi jeg tekið inn 11 hross mín en 6 ganga hjer enn. Skepnuhöld mín góð, en fjeð fátt eins og jeg hefi áður skrifað þjer 144 kindur. Ákveðið er að hjer verði á föstudaginn kemur ballsamkoma, ráðgjört að verði 8 pör, gengst Brynjólfur fyrir því, en óvíst er þó að af þessu verði, ef þá yrði hríð ferst það fyrir og jeg hefi viðbúnað til einskis nema mjer til skaða. Þú talar um lasleika í brjefi til mömmu. Það er eins og það eigi eigi af þjer að ganga heilsuleysið, sem lengi hefir verið með ýmsu móti, en vonandi er samt að guð gefi þjer aptur bót á því böli. „Þjóðólf' fjekk jeg ekki með pósti seinast, hefir máski orðið eptir á Osnum, svo jeg get eigi sagt þjer álit mitt um ritsmíði þitt í blaðinu enn. Jeg á von á að fá blaðið lánað í Þverárdal og þrái jeg það mjög. Sagði jeg við mömmu að einu sinni á æfi þinni hefðir þú þó unnið þjer inn krónu. Óska jeg að Eymundsson vildi eitthvað frek- ar styðja þig, því eitthvað má nú leggjast til, þar eð jeg er nú ómögulegur Iengur til að hjálpa þjer í peningasökum. Þú ert að minn- ast á frakkaföt. Jeg er nú svo apturhalds- samur að mjer finnst slfkt hjegómamál fyrir pilt sem verður að ganga á mis við margt annað, sem síður má án vera fyrir fjeskort. Hefði jeg í þínum sporum sjeð mjer fært að kaupa frakka, hefði jeg brúkað það fje fyrir eitthvað annað og kostað kapps um að sleppa skuldlaus úr Reykjavík í vor. Þetta máttu ekki ímynda þjer að sje af tímaleysi fyrir mjer, því að jeg hefi aldrei verið fastur á því sem jeg hef til, en tregur til að kaupa það er jeg engan veg hefði sjeð til að borga. Öll óskilvísi er mjer óbærileg við þá er til skuldar telja hjá mjer og sjálfur vil jeg fremur fara margs á mis en að geta eigi staðið í skilum. Þegar svo er komið er öll tiltrú og álit tapað. Þú spyrð mömmu hvað hún vilji að þú lesir, ef til kæmi að þú sigldir. Jeg veit að hún svarar þessu einhverju skynsamlegu eins og henni er lagið. En það er ekki vandalaust að segja nokkuð um það ákveðið, ef þú vildir taka það til greina. Það er ekki auðvelt að sjá hvaða stefna kynni að vera arðvænlegust og happa- drýgst fyrir þig í framtíðinni. Það er gott og áríðandi að setja markið hátt, en það eins og annað verður að vera með skynsemd. Það er ekki skynsamlegt að setja sig á háan hest og regla mannsins þarf að vera sú, að ætla sjer aldrei meira, en hann finnur sig færan til og er þá nauðsynlegt að skoða málið frá sem flestum hliðum og heyra álit þess manns, eða þeirra manna er vitrir eru og reyndir eru að góðu, þ.e. einlægni og hreinskilni. Það er fjarstæða að taka annað fyrir en það sem maður hefir upplag fyrir, ef um það annars er að velja, það hefir þó margur orðið að gera vegna þess að önnur leið var eigi fær. Þú sjerð af þessum athugasemdum mínum að jeg finn mig eigi færan til að svara spursmáli þínu núna ákveðið. Jeg vildi auðvitað geta bent þjer á hamingju-brautina, en verð að játa mig ófæran til þess. Sleppi jeg svo þessu. Hefir þú eigi ritað greinar í Þjóðólf í vetur fl. en þá er þú játar þig höfund að? Mjer finnst endilega að þú hafir ritað „Laumu- spilið eða hinn sjerstaki", þó þú ekki hafir kannast við það. Jeg skil ekki að annar hafi gert það eptir stílnum á því að dæma. í sein- asta brjefi mínu bað jeg þig að tala við Hann- es Þorsteinsson um peningasakir og vona jeg að þú hafir gert það, og að jeg fái að vita um árangur af því. Jeg sagði upp „Þjóðólf'" við hann í brjefi til hans í vor, sem hann hefir sent Þorleifi á Botnast. en þó sendir hann blaðið eigi að síður. Þorleifur vill ekki hafa það, sökum þess að hann getur ekki borgað það og jeg treysti mjer eigi heldur til að út- vega skilvísan kaupanda að því no. þó leitt sje. Það er annað en gaman að ná inn blaða- skuldum hjá sumum; tilfellið er að maður verður að borga fyrir þá sjálfur og taka það svo í reitingi eða að hafa ekkert. Þetta ætla jeg að biðja þig að tjá Hannesi að hann hætti að senda Þorleifi blaðið. Mamma ráðgerir að skrifa þjer og því slæ jeg botninn í brjefið. I guðs friði Þinn einl. Guðm. Erlendsson. PS. Jeg hefi nú fengið „Þjóðólf' minn og lesið ritsmíði þitt sem ekki er nein smágrein. Þótti mjer heppilegt að Viðaukablaðið dugði 6 ŒSBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/USTIR 23. DESEMBER 2000

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.