Morgunblaðið - 28.01.2001, Blaðsíða 12
12 SUNNUDAGUR 28. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
GEORGE W. Bush satekki auðum höndumfyrstu vikuna í forseta-embættinu, menntamál-
in voru sett á oddin, frumvörp sam-
in, fundað með þingmönnum og til
að gleðja andstæðinga frjálsra
fóstureyðinga var gamalt bann
endurvakið sem tekur fyrir fjár-
hagsaðstoð til heilsugæslustofnana
í þróunarlöndum sem gefa ráðgjöf
um fóstureyðingar. Það bar ef til
vill ekki mikið á utanríkismálum,
en á fyrsta vinnudeginnum var til-
kynnt um fyrirhugaðan fund Bush
með Vincente Fox, forseta Mexíkó
í næsta mánuði.
Það má segja að Bandaríkjafor-
seti brjóti hefð með því að heim-
sækja Mexíkó fyrst en ekki Kan-
ada. Það ætti þó ekki að koma á
óvart. Bush og Fox eru kunnugir
og fyrirhugaður fundur þeirra
þann 16. febrúar mun verða á
óformlegum nótum á búgarði
Mexíkóforseta þar sem ekki verður
að vænta stórra yfirlýsinga. Sem
ríkisstjóri Texas hafði Bush tölu-
verð samskipti við Mexíkó og hann
gerir sér fulla grein fyrir því að
málefni Mexíkó skipta Bandaríkja-
menn töluvert miklu máli í daglegu
lífi þeirra. Burtséð frá stöðugum
straumi innflytjenda, þá er Mexíkó
þriðji stærsti viðskiptaðili Banda-
ríkjanna, Kanada er í fyrsta sæti
og Evrópusambandið í því öðru.
Sama dag og tilkynnt var um
ferðina til Mexíkó hringdi Bush
reyndar í forsætisráðherra Kan-
ada, Jean Chrétien, og það var
fyrsta formlega símtal hans til er-
lends leiðtoga. Þeir töluðu um að
hittast fljótlega og nokkrum dög-
um síðar var tilkynnt að þeir
myndu hittast í Hvíta húsinu 5.
febrúar og ræða saman yfir „vinnu-
kvöldverði“. Chrétien verður þann-
ig fyrsti erlendi leiðtoginn til að
funda með nýja forsetanum. Aftur
má reikna með að þetta verði svo-
kölluð „kurteisisheimsókn“ og eng-
in stór málefni á dagskrá.
Leiðtogafundur
Ameríkuríkja
Fyrsti stóri leiðtogafundurinn
sem Bush mun mæta á verður leið-
togafundur Ameríkuríkja í Quebec
í Kanada, 20.–22. apríl. Þar munu
leiðtogar 34 landa funda um mál-
efni Norður- og Suður-Ameríku.
Eini leiðtoginn, sem ekki er boðið,
er Fidel Castro, en hann uppfyllir
ekki skilyrði um að vera kosinn í
frjálsum, lýðræðislegum kosning-
um. Í ljósi úrslita kosninganna í
Flórída þykir það líklegt að fyrst
um sinn muni harðlínumenn og
hatrammir andstæðingar Castro
ráða ferðinni gagnvart Kúbu og að
ekki verði slakað á stefnunni. Því
má svo til gamans geta, að Kather-
ine Harris, sem sér um innanrík-
ismálefni Flórida og varð þjóðkunn
í tengslum við kosningaklúðrið þar,
hefur verið nefnd sem hugsanlegur
sérskipaður sendiherra í Róm-
önsku-Ameríku. Ólíkt ráðherraefn-
um og öðrum sendiherrum þarf
slík staða ekki að hljóta staðfest-
ingu öldungadeildar Bandaríkja-
þings.
Fríverslunarsamningar verða
helsta mál á dagskrá fundarins í
Quebec, enda yfirlýst stefna land-
anna að þeir náist fyrir 2005. Þetta
þykir henta Bush vel, þar sem
frjáls milliríkjaverslun er eitt af
baráttumálum forsetans. Hér velta
embættismenn því nú fyrir sér
hvort Bush muni fara fram á að
þingið veiti honum heimild til flýti-
meðferðar á slíkum samningum.
Clinton fór fram á slíkt á sínum
tíma, en því var hafnað. Þó svo að
Clinton og Gore hafi báðir verið
fylgjandi aukinni fríverslun milli
landa, eru sterk öfl innan Demó-
krataflokksins, svo sem verkalýðs-
félög og umhverfissinnar á móti
slíkum samningum, nema þeir
tryggi áframhaldandi atvinnu
heimafyrir og að mengunarstaðlar
verði ekki lækkaðir. Repúblikanar
setja enga slíka fyrirvara og trúa
staðfast á frelsi markaðarins. Það
gæti því reynst auðveldara fyrir
Bush að koma slíkum samningum í
höfn.
Málefni Rómönsku-Ameríku
verða áfram á dagskrá að sögn
kunnugra og það þykir líklegt að
Bush vilji ræða við Andres Pastr-
ana, forseta Kólumbíu, í náinni
framtíð.
Stjarnan í
utanríkisráðuneytinu
Þegar Colin Powell mætti til
vinnu í utanríkisráðuneytið 22.
janúar var honum tekið sem hetju.
Starfsfólk ráðuneytisins stóð í and-
dyrinu og fagnaði ákaft. Þetta seg-
ir kannski sitt um vonir og vænt-
ingar embættismanna, en líklega
meira um vinsældir mannsins á
landsvísu. Engu að síður vonast
diplómatar eftir því að Powell
standi við orð sín og reiði sig á fag-
menn ráðuneytisins í ríkari mæli
en forveri hans í starfi. Ekki er bú-
ið að skipa í allar helstu stöður
þannig að það á eftir að koma í ljós
hvort af því verður, en mönnum
fannst mikið til þegar hann mætti á
undirbúningsfund fyrr í mánuðin-
um án ótal aðstoðarmanna og ljós-
ritaði sjálfur þau gögn sem hann
þurfti.
Powell hefur líka sagst ætla að
sækjast eftir frekari fjárveitingu
handa ráðuneytinu og það má fast-
lega búast við að hann verði helsti
talsmaður stjórnarinnar í utanrík-
ismálum. Sumir vilja jafnvel ganga
svo langt að segja að hann verði
áhrifamesti utanríkisráðherra
Bandaríkjanna síðan Henry Kiss-
inger gegndi þessu starfi.
Þegar þykir ljóst að framhaldi
friðarviðræðnanna í Miðaustur-
löndum verður stýrt úr ráðuneyt-
inu, en ekki af skrifstofu forsetans.
Og reyndar er það svo að Ari
Fleischer, talsmaður Hvíta húss-
ins, hefur alla vikuna á daglegum
blaðamannafundum bent á utan-
ríkisráðuneytið til að svara spurn-
ingum varðandi utanríkismál.
Þetta kann þó að breytast þegar
menn sjóast þar á bæ.
Ekki ber að vanmeta öryggis-
ráðgjafa forsetans, Condoleezza
Rice. Bush ber fyllsta traust til
hennar og það má segja að Rice og
lið hennar hafi tekið hann í kennslu
á meðan á forsetaslagnum stóð.
Rice ver líka Bush af eldmóð og
segir að hann hafi verið afbragðs
nemandi, sem þrátt fyrir takmark-
aða reynslu af utanríkismálum hafi
verið fljótur að ná tökum á mál-
efnum umheimsins.
Rice sem er sérfræðingur í mál-
efnum fyrrum Sovétríkjanna þykir
harðlínumaður og hún er alfarið á
móti því að Bandaríkjamenn ani út
í friðargæsluverkefni án þess að
þeir eigi beinna hagsmuna að gæta.
Þegar við það bætist Powell hefur
ítrekað lýst sig tregan til að senda
bandaríska hermenn á hættuslóðir
nema með nema þeir njóti gífur-
legra yfirburða, velta menn því fyr-
ir sér hvort Bandaríkin muni draga
úr umsvifum sínum á alþjóðavett-
vangi. Mörgum er það enn í fersku
minni að sem formaður bandaríska
herráðsins var Powell á móti því að
senda hermenn til fyrrum Júgó-
slavíu og Bush sagði sjálfur í kosn-
ingabaráttunni að hann vildi kalla
lið Bandaríkjanna heim frá Balk-
anskaganum. Báðir hafa þó dregið
í land og í dag er enginn að tala um
tafarlausa brottför sveitanna.
Stjörnustríð
Þótt Evrópuríkin séu uggandi
gagnvart hugsanlegri einangrun-
arstefnu Bandaríkjanna, er helsta
áhyggjuefni Evrópuleiðtoga, sem
og Kínverja, yfirlýstar áætlanir
stjórnarinnar um uppbyggingu
hátæknieldflaugavarnarkerfis sem
gæti skotið niður óvinaflugskeyti
áður en þau næðu skotmarki sínu.
Þrátt fyrir efasemdir bæði heima
og að heiman, er Bush sannfærður
um ágæti þessara áforma. Varnar-
málaráðherrann Donald Rumsfeld,
einn af höfundum umfangsmikillar
skýrslu um eldflaugavarnarkerfið,
er einnig dyggur stuðningsmaður
slíkra áætlana.
Þeir segja að stjórn Clintons
hafa sinnt þessu af hálfum hug og
eru bjartsýnir um að tækninni fari
óðfluga fram, þannig að efasemd-
armenn muni sannfærast. En það
eru ekki bara tæknilegir erfiðleik-
ar og hár kostnaður sem standa í
vegi fyrir eldflaugavörnum. Vlad-
ímír Pútín Rússlandsforseti hefur
margsinnis sagt að kerfið muni
brjóta í bága við banninu við að
koma á laggirnar gagneldflauga-
kerfi frá 1972 (ABM-sáttmálinn).
Bush hefur svarað að hann muni
fækka öðrum kjarnaflaugum til að
sýna Rússum að kerfinu sé ekki
beint að þeim, nú og ef nauðsynlegt
er segist hann tilbúinn að endur-
skoða samninginn – einhliða ef með
þarf. Evrópu til handa segir forset-
inn að varnarkerfið muni líka þjóna
Evrópu, en eitthvað virðist það
standa í mönnum að samþykkja
slíkt.
Málefni heimastjórnar Græn-
lands hafa ekki verið í hámælum
hér, þó fréttnæm séu í Danmörku.
Embættismaður sem vildi ekki láta
nafn síns getið sagði í samtali við
Morgunblaðið að líklega væri um
byrjendamistök að ræða.
Bréfið sem Bush sendi til Jón-
atans Motzfeldt, formanns heima-
stjórnarinnar, um samstarf á sviði
hagsmunamála, m.a. herstöðina í
Thule, hafi verið sent frá Austin,
Texas og sé byggt á misskilningi á
réttarfarslegri stöðu landsins. Þó
að Bandaríkjamenn vilji hafa góð
samskipti við Grænland og að
Grænlendingar muni taka þátt í
slíkum viðræðum, þá hljóti danska
utanríkisráðuneytið að koma þarna
að málum fyrr en seinna.
Auk ýmissa annarra leiðtoga
spjallaði Bush við forsætisráðherra
Bretlands og Japans í vikunni sem
leið og reikna má með að Tony
Blair banki uppá á næstunni.
Margir hafa þó tekið eftir því að
Bush hefur hvorki sett sig í sam-
band við leiðtoga Rússlands né
Kína. Menn ganga frá því sem vísu
að stjórn Bush muni leggja áherslu
á fríverslun og að opna markaði án
þess að leggja áherslu á mannrétt-
indamál í því sambandi. Powell er
þó búinn að kalla kínverska sendi-
herrann á teppið og lesa yfir hon-
um vegna mannréttindabrota í
Kína. Rice hefur hins vegar sagt að
það verði að láta Rússa um það
sjálfa að koma efnahagsmálum þar
í landi í lag. Það hafa þó heyrst
varnaðarraddir innan veggja ráðu-
neytisins, sem benda á að Pútin
megi ekki líta á þetta sem leyfi til
að berja á stjórnarandstæðingum.
Bush talaði digurbarkalega um
að herða viðskiptabannið á Írak og
knésetja Saddam Hussein. Það
kann þó að reynst honum þung
byrði og fyrstu vísbendingar gefa
til kynna að litlar breytingar verði
á stefnunni gagnvart Hussein,
a.m.k. fyrsta kastið. Því má heldur
ekki gleyma að raunverulegir arki-
tektar aðgerðanna voru faðir hans,
George Bush forseti, þáverandi
varnarmálaráðherra og núverandi
varaforseti, Dick Cheney, og fyrr-
um formaður herráðsins, sjálfur
utanríkisráðherrann Colin Powell.
Bush þykir líklegur til að leita
ráða hjá föður sínum, en George
Bush eldri hefur sagt að hann muni
ekki hafa afskipti af málum son-
arins óumbeðinn. Eftir að Cheney
hafði virst vera potturinn og pann-
an í öllu í tengslum við valdaskipti
voru margir farnir að efast um
hver væri við stjórnvölinn. Vara-
forsetinn hefur hins vegar haldið
sig til hlés þessa fyrstu viku í emb-
ætti. Enginn er þó í vafa um að
hann muni verða einn áhrifamesti
varaforseti sögunnar.
Augljóst er að Bush ætlar sér að
fara að engu óðslega í utanríksmál-
um. Hann mun einbeita sér fyrst að
því sem hann þekkir best, löndun-
um í Rómönsku-Ameríku og taka
síðar á erfiðari málum svo sem frið-
arferlinu í Miðausturlöndum. Þetta
virðist skynsamleg stefna svo langt
sem hún nær, eða þangað til hættu-
ástand skapast í fjarlægum heims-
hornum og örlögin taka í taumana.
George W. Bush fer sér að engu óðslega í utanríkismálum
Bandaríkja-
forseti fundar
fyrst með ná-
grönnunum
APGeorge W. Bush Bandaríkjaforseti fylgist með Colin Powell utanríkisráðherra ávarpa blaðamenn.
Utanríkismál voru ekki ofarlega á baugi í
bandarísku forsetakosningunum enda
lögðu frambjóðendurnir ekki mikla
áherslu á þau. George W. Bush þykir
reynslulítill á þessu sviði, en hann hefur
fengið fólk til liðs við sig með áratuga
reynslu af utanríkismálum og fer nýskip-
aður utanríkisráðherra Colin Powell þar
fremstur í flokki. Bandamenn jafnt sem
óvinveitt ríki velta því nú fyrir sér hvort
stefnubreytingar sé að vænta af hálfu
nýrrar stjórnar. Margrét Björgúlfsdóttir
kannaði stöðuna í Washington.