Morgunblaðið - 01.12.2001, Blaðsíða 59
UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2001 59
Í DAG, laugardaginn 1. desember,
halda stúdentar við Háskóla Íslands
fullveldisdaginn hátíðlegan. Um ár-
legan viðburð er að ræða en stúd-
entar hafa allt frá árinu 1921 haft
forgöngu með hátíðarhöld þennan
dag.
Hátíðarsamkoma
Dagskráin hefst kl. 11 með hátíð-
armessu guðfræðinema í kapellu Að-
albyggingar þar sem biskup Íslands,
hr. Karl Sigurbjörnsson, þjónar fyr-
ir altari og Eygló Bjarnadóttir pre-
dikar. Klukkan 12.15 leggja stúdent-
ar blómsveig að leiði Jóns
Sigurðssonar í Suðurgötukirkju-
garði þar sem Sveinn Ólafur Gunn-
arsson íslenskunemi flytur minni
Jóns. Hátíðarsamkoma í Aðalbygg-
ingu hefst síðan kl. 13. Yfirskrift
hennar er Fullvalda og fordóma-
laus?, vitundarvakning um fordóma.
Meðal annarra sem flytja erindi eru
Páll Skúlason rektor, Páll Pétursson
félagsmálaráðherra, Bjarney Frið-
riksdóttir, forstöðukona Alþjóða-
húss, og Sigursteinn Másson, for-
maður Geðhjálpar. Heiðursgestur
samkomunnar er forseti Íslands, hr.
Ólafur Ragnar Grímsson. Nánari
dagskrá er að finna á heimasíðu
SHÍ, www.student.is.
Vitundarvakning um fordóma
Í samstarfi við jafnréttisnefnd Há-
skóla Íslands stendur Stúdentaráð
Háskóla Íslands fyrir átakinu Vit-
undarvakning um fordóma. Mark-
miðið með átakinu er að upplýsa og
vekja fólk til umhugsunar um hvað
fordómar eru og er lögð áhersla á að
aukin þekking vinni gegn fordómum.
Háskóli Íslands er einn stærsti
vinnustaður landsins með um 8.500
starfsmenn og nemendur sem geta
orðið fyrir fordómum og verið með
fordóma jafnt á við aðra í samfélag-
inu. Því er mikilvægt að umræðu um
þessi mál sé haldið á lofti innan
menntastofnunarinnar en ekki síður
utan hennar enda Háskóli Íslands
hluti af stærra samfélagi. Átakinu
verður hleypt af stokkunum á hátíð-
arsamkomu stúdenta í dag.
Taktu þátt
Dagskráin í dag er spennandi og
hvet ég alla landsmenn til að fjöl-
menna á hátíðarsamkomuna, votta
Jóni forseta virðingu sína og taka
þátt í umræðum um fordóma í ís-
lenskum samtímaveruleika. Þetta er
mál sem snertir okkur öll. Er ís-
lenska þjóðin fullvalda og fordóma-
laus?
Er íslenska
þjóðin fullvalda
og fordómalaus?
Haukur Agnarsson
Höfundur situr í Stúdentaráði HÍ
fyrir hönd Röskvu.
HÍ
Markmið átaks okkar,
segir Haukur
Agnarsson, er að
upplýsa og vekja fólk til
umhugsunar um hvað
fordómar eru.