Morgunblaðið - 07.12.2001, Blaðsíða 50

Morgunblaðið - 07.12.2001, Blaðsíða 50
MINNINGAR 50 FÖSTUDAGUR 7. DESEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ svo minnisstætt þeim sem á hlýddu að allir máttu skilja hvers vegna Gísli var ógleymanlegur kennari hverjum þeim sem þess fékk að njóta. Nú er Gísli Jónsson horfinn til ljós- ari heima og vonandi fær hann þar að „hnusa í fræðanna jötu“ og líklega er þar oft sjóveður og Trillunni 1 róið til fiskjar með valinn mann í hverju rúmi. Hann kvaddi í samhljómi við loka- erindi haustljóðs síns: En hver sem um ævina einhverju hafði að skarta, á þó á haustdegi þakklæti ríkast í hjarta. Sem lauf mun hann hóglega í húmkyrru falla til svarðar í hlýju þess faðmlags sem ól hann til skapandi jarðar. Amtsbókasafnið á Akureyri hefur misst sinn besta vin og velunnara og við sem þar störfum munum sakna hans oft og sárlega. Með kveðju frá starfsfólkinu í Brekkugötu 17, Hólmkell Hreinsson. Við fráfall Gísla Jónssonar finn ég betur en áður hvað ég á honum mikið að þakka og sit nú eftir með söknuð í brjósti eins og margir aðrir. Sagt er að maður komi jafnan í manns stað, en víst er að enginn verður til að fylla það rúm sem Gísli skipaði. Hann kom víða við eins og alþjóð veit, en eflaust hefir hann orðið þekktastur fyrir Morgunblaðsþætti sína um íslenskt mál. Fyrst man ég eftir Gísla veturinn 1943–44 þegar ég var að hefja nám í fyrsta bekk Menntaskólans á Akur- eyri, varla kominn af barnsaldri, en hann var í fjórða bekk. Ég var busi en hann í lærdómsdeild. Þar á milli var himinn og haf, en allir í skólanum þekktu Gísla fyrir skemmtilegan kveðskap og vissu að hann var bæði hagmæltur og góður í íslensku. Þegar ég hóf svo nám í íslenskum fræðum í háskólanum 1949 var Gísli langt á undan mér sem fyrr og ég sá aðeins hilla undir hann. Skömmu síðar varð hann menntaskólakennari á Akur- eyri. Einhvern tímann á skólaárunum urðum við þó málkunnugir, enda var alltaf líf í kringum Gísla, og það hélst til æviloka. En leiðir okkar lágu ekki beinlínis saman fyrr en vorið 1964 þegar ég starfaði með honum sem prófdómari í forföllum og þá aðeins í það eina skipti. Tæpum tuttugu árum síðar átti ég erindi við Gísla og skrifaði honum bréf af því tilefni. Upp úr því fórum við að ræðast við oftar en áður og ráðgast hvor við annan um íslenskt mál, bæði í símtölum og bréfum, og þá flaut stundum ýmislegt annað með sem við höfðum okkur til bragðbætis. Það var gaman að leika sér við hann og hafa málið að leikfangi. Hann skildi á augabragði allar tóntegundir og tilbrigði í máli, hálfkveðnar vísur og óbeinar tilvitnanir, fullur af and- legu fjöri, mannlegri mýkt og yl. Gísli var manna fróðastur um ís- lensk mannanöfn og útbreiðslu þeirra, stundaði viðamiklar rannsókn- ir á því efni og samdi um þær margar ritgerðir. Ein þeirra er um nöfn Skag- firðinga 1703–1845. Gísli sendi mér hana í sérprenti og þegar ég lauk upp heftinu blöstu við mér orðin „Nýbjörg Jónsdóttir í Helgárseli í Eyjafirði“. Það þótti mér heldur en ekki kunn- uglegt. Ég sagði Gísla þetta þegar ég þakkaði honum fyrir sendinguna og bætti við fáeinum orðum um þær kon- ur sem ég vissi um með Nýbjargar nafni. Tvær þeirra voru mér nákomn- ar. Við þetta upptendraðist Gísli og steypti sér út í rannsókn á upptökum og útbreiðslu þessa fágæta nafns og gekk svo vasklega til verks að eftir nokkrar vikur var hann búinn að setja saman fróðlega og skemmtilega rit- gerð um nafnið Nýbjörg og allar kon- ur sem það nafn hafa borið! Ritgerðin birtist í Skagfirðingabók 1994. Þetta var skemmtilegur tími. Við töluðum oft saman og skrifuðumst á um Nýbjargarfræði sem við kölluðum svo. Gísli var sífellt að uppgötva eitt- hvað, og á þessu lærði ég margt um föðurfólk mitt, m.a. um ömmu mína, sem Nýbjörg hét. Allt leiddi þetta til ýmissa breytinga í mínu lífi, svo sem óvæntra kynna af fólki, þar á meðal frændfólki, sem ég vissi ekki um áður, og hafa þau breytt ýmsu um ferðir mínar og áhugamál á síðustu árum. Fyrir þetta eitt, og annað þessu tengt, stend ég í mikilli þakkarskuld við Gísla. Um það leyti sem Gísli varð um- sjónarmaður hinna vikulegu Morgun- blaðsþátta, hafði ég tekið við for- mennsku í Íslenskri málnefnd og varð forstöðumaður málstöðvarinnar þeg- ar hún tók til starfa 1985. Mörgum var nokkur ráðgáta hvað þessi mál- stöð ætti að gera, en Gísli var fljótur að átta sig á því, hafði gott samband við hana og lagði henni lið. Það var ómetanlegt að eiga Gísla að, og raun- ar Morgunblaðið líka. Fyrir það er ég afar þakklátur. Það gladdi mig mjög þegar Morg- unblaðið hóf að birta þessa þætti 1979, og mætti rita um þá langan bálk. Ég hefi lesið þá frá upphafi og minnist þess ekki að nokkru sinni hafi orðið lykkjufall hjá Gísla. Ef undan hefir dregist að birta þátt í blaðinu á laugardegi hefir mátt skrifa það á reikning útgáfunnar fremur en um- sjónarmanns. Það er ótrúlegt afrek að halda úti föstum þætti svo lengi og fjalla farsællega um svo vandasamt og viðkvæmt efni. Gísli sagði oft að hann gæti þakkað það lesendum sín- um og bréfriturum. En sjálfur breiddi hann á borð um þjóðbraut þvera. Honum tókst að gera þennan þátt að einstökum vettvangi. Hvergi annars staðar hafa áhugamenn um íslenskt mál, lærðir sem leikir, getað borið saman bækur sínar um málfar líðandi stundar og liðinna alda, viðrað hug- myndir sínar og fengið leiðbeiningar og ábendingar frá reyndum kennara og fræðimanni. Allir höfðu jafnan að- gang, ef þeim tókst að ræða málin af sæmilegri skynsemi og stillingu. Þáttum eins og þessum er auðvitað ætlað öðrum þræði að bera fram gagnrýni. Gísli hafði sérstakt lag á því eins og öðru, en hann beitti ekki síður því bragði að lofa það sem honum þótti vel gert og skar þá ekkert við nögl. Hann var rausnarmaður í við- urkenningarorðum eins og lesendur hans þekkja. Aldrei missti Gísli tökin á þessu verkefni. Þeim hélt hann fram í and- látið þótt þjáður væri. Síðasti þáttur- inn birtist að honum látnum, og var enginn feigðarsvipur á þeim skrifum. Það mætti segja mér að þannig hefði Gísli helst viljað hafa það. Nú verður allt daufara um sinn þegar Gísli er horfinn. Ég þakka hon- um að leiðarlokum fyrir samfylgdina, margvíslega örvun og hvatningu í starfi, vináttu hans og ræktarsemi. Ég sakna hans mjög og votta eigin- konu hans og öðrum ástvinum samúð mína. Baldur Jónsson. Mér varð hugsað til Gísla Jónsson- ar, míns gamla kennara og aldavinar, eitt kvöldið seint í nóvember er ég heyrði nýtt lag Gunnars Þórðarsonar spilað í sjónvarpinu við myndir frá Öxarárfossi. Já, hugsaði ég, frábærar myndir og fallegt lag, ég veit Gísli verður hrifinn. En svo vildi til að ein- mitt þetta kvöld var Gísli nýlagstur á sjúkrabeð á FSA, hann hafði veikst heima nokkru fyrr og verið fluttur í skyndi uppeftir, heilsan hafði farið versnandi er á leið haustmánuði. Heilsan var í raun mjög slök mörg undanfarin ár, einir þrír skæðir sjúk- dómar á hann herjandi, en Gísli hélt einhvern veginn áfram í sínum stæl, sagði passjónina halda sér gangandi. Síðast skráir hann sig í dagbókina á Amtsbókasafninu 20. nóvember, sýsl- andi við ritstörf og kroppandi í bækur til hinstu stundar. Þó var ofleikur hetjunnar Gísla ekki til geðs og hef ég af fáum lært jafn mikið um mannlega auðmýkt andspænis því hjálparleysi í lífinu sem Guðmundur biskup góði tjáði svo vel með orðunum: „eigi má vesalingur minn.“ Oft höfðum við Gísli rætt Alþingi og Öxarárfoss. Lögberg, fossinn og gjáin heilluðu í mystík og sögu, vildi Gísli hróður Alþingis og löggjafans sem mestan, var þá rætt um mögulega endurreisn Alþingis á Þingvöllum sem ég var mjög fylgjandi en Gísla fannst alltaf dálítið flippað hjá mér, og þó, og dró seiminn enda launstríðinn. Fannst Gísla meiru varða að Alþingi hæfist á ný til vegs sem löggjafarsam- kunda, hann saknaði málefnalegrar þjóðmálaumræðu og skörungsskapar í landsmálapólitíkinni og barðist fyrir aðskilnaði löggjafar- og fram- kvæmdavalds og auknu sjálfstæði þegnanna. Var ætíð trúr hugsjón Hávamála: „Bú er betra þótt lítið sé, halur er heima hver, þótt tvær geitur eigi og taugreftan sal, það er þó betra en bæn.“ Gísli var merkilegt sambland af ar- istókrata, bóhem, heimsmanni, póli- tíkusi og fræðimanni, í senn virðuleg- ur og alþýðlegur. Ég kynntist Gísla strax í uppvexti mínum þar sem hann og faðir minn, Bjarni Sveinsson, voru lengi samherjar í bæjarmálapólitík- inni á Akureyri en Gísli var um langt árabil bæjarfulltrúi Sjálfstæðis- flokksins og sat í bæjarráði og ýmsum nefndum svo sem jafnréttisnefnd. Hann vildi málstað kvenna sem mest- an og bestan eins og sum ritverk hans bera vitni, þýddi t.a.m. bókina Sept- embermánuður árið 1958 sem var ör- lagasaga konu. Sjálfur átti hann á lífs- leiðinni þrjár glæsilegar konur. Ég gekk í MA, byrjaði þar haustið ’68 og var í máladeild. Öll mennta- skólaárin nutum við frábærrar ís- lenskukennslu. Í 1. bekk vorum við svo lánsöm að Brynjólfur Sveinsson kenndi okkur sem þá var að láta af störfum sakir aldurs. Brynjólfur vígði okkur til siðaheims norrænna manna, að vera drengur góður, skipti mestu. Íslenskan varð því strax meira en bara mál, málfræði, merking, hún var lifandi sálrænt afl, sem bjó yfir inn- byggðum sveigjanleika til breytinga og sífelldrar sköpunar. Ástin á málinu var aðal Gísla sem kennara, passjónin sem fylgdi honum alltaf, hún var í ætt við allífið. Enginn kom ólesinn í tíma til Gísla, hann var jafnvígur á allt og var orðsifjafræðin það svið sem hélt okkur algjörlega hugföngnum, hann kenndi okkur líka Íslandssöguna og fór á kostum í leiftrandi frásögn. Gísli var fjölfræðingur af bestu gerð en viðurkenndi að ekki hefði hann svör við öllu (okkur nemendum hans fannst það nú skrítið komandi frá honum). Eigi má sköpum renna, var viðkvæðið. Mátti Gísli axla miklar raunir í sínu prívatlífi á þessum árum því árið 1971 missti hann konu sína, Hervöru, langt fyrir aldur fram, eftir hetjulega baráttu við krabbamein, og frá sjö börnum. Þessi mikli missir Gísla snart alla og varð lærdómur fyr- ir lífstíð. Þetta var þá rétt, það var ekki svör að hafa við öllu. Ljóðlínur úr 20001 dagur Ísaks Harðarsonar koma í huga minn nú þegar ég minnist Gísla og mennta- skólaáranna: Áður en þú vaknar er hann í hverju hreiðri að fylgjast með ungum og stráum og básum og kofum og höllum og það er hann sem yrkir litinn í bláklukkurnar og óminn í kirkjuklukkurnar og orkuna í vekjaraklukkurnar sem tísta á náttborðum hinnar mannlegu tegundar. Að vísdómur gæti leynst í því að vita ekki var ekki það sama og vera ignorant: viska óvissunnar megnaði að opna dyr nýrrar þróunar. Þetta var nýtt koncept. Og valdi ég sálfræði eftir menntaskólann. Gísli kom á tímabili daglega á æskuheimili mitt í miðbænum, Brekkugötu 3, og var þá margt spjallað, sálræn viðrun myndi það heita í dag og hefur það samband okkar haldist alla tíð síðan. Sálfræðin var þá nýbyrjuð í Háskóla Íslands og virti Gísli þá fræðigrein mikils, hann þekkti vel eigið geð og hið mannlega drama. Ég komst að því síðar í dokt- orsnámi mínu í Skotlandi þegar ég var að lesa málvísindin hve vega- nestið var drjúgt frá Gísla. Í mörg ár hringdi Gísli í mig á jól- um, oftast á nýársdagsmorgni, heils- aði gjarnan á latínu og spurði frétta af börnunum, Jóhanni og Birtu, og sagði mér af sjálfum sér og sínum. Ég hafði ætlað að skrifa honum fréttir af kín- verska fornskáldinu Li Pó núna á jólakortið og hve glöð ég var að finna ljóðin hans á Netinu. Góður skáld- skapur jafngilti sálfræði með því að hann tjáði svo vel hið óræða skapandi afl tilverunnar, um það vorum við Gísli alltaf sammála. Sálfræðingum gagnaðist því hvað best að lesa epík á borð við goðafræðina og Mahabh- arata til þess að kanna brambölt mannanna og hinn óskiljanlega vef örlaganna og læra um dharma mannsins, lögmálið. Skrítið væri þetta með dharma, það fylgdi manni eins og hundur. Þarna var Gísla rétt lýst, hann hafði gaman af því fjar- stæðukennda og fyndna við djúp- spekina og finnst mér þetta koma vel fram í ást hans á limrum en síðasta ritverk hans, Nýja limrubókin, kom út hjá Hólum stuttu fyrir fráfall hans. Þar eru margar limrur eftir Jóhann S. Hannesson, fyrrum skólameistara á Laugarvatni, tengdaföður minn, en á honum hafði Gísli miklar mætur. Í Hlymrek Jóhanns er þessi limra: Alltaf leita til laupanna hrafnar, og ég læt þér í staup, Anna Rafnar, sagði Li Pó frá Kína við lagskonu sína, er þau komu til Kaupmannahafnar. Langar mig að kveðja kærastan vin og afburða fræðara margslunginna heima með ljóði hins kínverska Li Pó, Klausturfjall, í þýðingu Helga Hálf- danarsonar: Á Klausturfjalli stóð ég um stund í nótt; við stjörnunum hefði ég getað snert í laumi. Svo djúp var kyrrðin, að hjarta sem bærðist hljótt var hrætt, að það vekti skapara sinn af draumi. Votta ég Önnu og börnunum öllum og barnabörnum einlæga samúð mína. Björg Bjarnadóttir. Oft þó hafi illu kynnst á það hiklaust treysti að búi í hvers manns eðli innst einhver góður neisti. Gísli hét maður og var Jónsson. Hann var vinur minn. Hann kenndi mér þessa vísu þegar ég var um 9 ára gömul. Hann gerði mikið af því að kenna mér vísur og ég á erfitt með að hugsa til þess að hann muni aldrei kenna mér eina slíka aftur. Ég passaði aldrei inn í hóp jafn- aldra minna þegar ég var lítil og segja má að hann hafi verið besti og jafnvel eini vinur minn. Litla kompan sem hann og pabbi deildu á Amtsbóka- safninu, „Smugan“, var minn griða- staður, en þær eru ófáar stundirnar sem ég minnist að hafa setið hjá Gísla og lært vísur. Ég er þeim kostum búin að vera mjög fljót að læra vísur og kvæði og hann hafði unun af því að kenna mér þær. Þannig dreifði hann huga mínum frá amstri lífsins, amstri hversdags- ins. Ég veit ekki hvað hefði orðið um mig ef hans hefði ekki notið við. Hann hvatti mig líka alltaf til dáða, alltaf áfram í námi og hann ákvað það eig- inlega fyrir mig að ég skyldi fara í Menntaskólann á Akureyri, en þar kenndi hann í mörg ár, eins og flest- um er kunnugt. Ég mun eflaust aldrei gleyma gleðitóninum í rödd hans þeg- ar hann hringdi eitt sinn í föður minn síðastliðið sumar og ég tilkynnti hon- um að ég væri komin inn í MA. Ein elsta minning mín af Gísla er að síminn hringir á laugardegi um há- degisbil. Ég er nýbúin að borða graut og hleyp og svara. Hinum megin lín- unnar er Gísli, hann segir „Góðan dag, þetta er hinn gamli Gilbertus, er þetta hin unga Bellatrix?“ Þá var hann að hringja í föður minn, til að tala um hvernig ástandið og veðrið væri. Svona var þetta í hverri einustu viku, alveg síðan ég man eftir mér, og það er skrýtin tilfinning að hann hringi ekki lengur, það er eins og hluta úr laugardeginum vanti. Við vorum þríeykið mikla, ég, Gísli og faðir minn, Sigurður Eggert Dav- íðsson. Þegar ég var með þeim gat ekkert komið fyrir mig og ég var ekki lengur Helga, rauðhærða Helga sem fannst hún vera einskis virði, heldur var ég prinsessan þeirra, Bellatrix. Þeir voru svo Gilbertus og Sivertus. Þeir höfðu verið vinir um aldir, eða það fannst mér, og þeir gerðu mikið af því að fara á veitingahús, eða vertshús eins og þeir orðuðu það. Það eru ein af allra skemmtilegustu sumrum lífs míns. Þá var nú gaman að vera til, heyra alls kyns sögur og læra. Enda kann ég hinar ótrúlegustu kynjasög- ur frá lífi Akureyringa hér í den. Það að Gísli er dáinn er eitthvað sem er erfitt að sætta sig við og ég efa að ég geri nokkurn tímann. Hann mun alltaf vera partur af því hver ég er og hvernig. Þau eru ófá tárin sem féllu er ég skrifaði þessa grein, en það er því um daginn missti ég ekki aðeins mann sem ég þekkti, heldur Gilbert- us, besta vin minn. Þín Hólmfríður Helga (Bellatrix). Mig langar hér í örfáum orðum að minnast Gísla Jónssonar sem lést hinn 26. nóvember síðastliðinn. Kynni okkar Gísla hófust í sögutím- um í MA fyrir hartnær 30 árum. Einna minnisstæðast frá þeim tíma er sú aðferð hans við kennsluna að hann skrifaði nöfn nemenda á litla miða sem hann geymdi í íláti. Var svo dregið úr pottinum hver ætti að koma upp. Var langt liðið á veturinn þegar í ljós kom að sá sem þetta skrifar hefði aldrei sést uppivið en það var ekki fyrr en ítarleg rannsókn fór fram á bókhaldsgögnunum að upplýstist að nafn hans hafði aldrei í pottinn komið, verða ekki höfð fleiri orð um það hér. Það var svo á síðasta áratug að Gísli fór að venja komur sínar í sund- laug Akureyrar snemma á morgnana með Arnfinn bíóstjóra sér til fullting- is. Þeir morgungesta sem voru hvað heimaríkastir höfðu þá hreiðrað um sig í einu horni herbergis þess sem var ætlað starfsfólkinu og stofnað þar til kyndugs samfélags sem þreifst á drykkju á bleksterku kaffi sem hitað var uppá gamla mátann. Gísli Jónsson varð strax nokkurskonar guðfaðir þessa hóps og kallaði þessa athöfn að ganga til altaris. Hann hóf strax að halda til haga þeim skáldskap sem þarna varð til og ef ég man rétt munu vísurnar nú vera á fjórða þúsundið og er haldið til haga á Héraðsskjalasafn- inu á Akureyri. Fagleg breidd þessa skrýtna sam- félags var mikil og skartaði það meðal annars málarameistara, bátasmið, lögregluvarðstjóra og líkskurðar- manni svo nokkrir séu nefndir. Oft hef ég undrast langlundargeð starfs- manna sundlaugarinnar að umbera þennan söfnuð án þess að nokkru sinni félli styggðaryrði og má án efa þakka það samningalipurð og lagni Gísla í mannlegum samskiptum. Ég hitti Gísla síðasta mánudag á Fjórðungssjúkrahúsinu. Hann tók mér vel eins og alltaf og spurði hvað væri að gerast í heiminum, kvaðst hafa eytt helginni í veikindavafstur, rétti mér svo höndina og kvaddi á sinn hlýlega hátt. Nokkrum tímum síðar var hann allur. Að lokum, kæri vinur og félagi. Það voru mér forréttindi að kynnast þér og fá að ganga með þér stuttan spöl. Hver veit nema ein- hverntíma verði annað altari sett á stofn í annarri vídd og á öðrum tíma og þykist ég vita að þá muni Rögn- valdur ekki skera kaffið við nögl frek- ar en áður. Guðmundur Hrafn Brynjarsson. Við fráfall Gísla Jónssonar hverfur af sjónarsviðinu óvenjulegur sam- ferðamaður. Kvaddur er afburða kennari, fagurkeri og unnandi ís- lenskra fræða. Að sitja í íslensku- tímum hjá þessum snillingi var ómet- anlegt. Það er mikið lán að hafa verið sam- tíða Gísla Jónssyni meiri hluta ævinn- ar, fyrst sem nemandi allt frá menntaskólaárunum og síðan í starfi sem héraðslæknir. Það var mikið happ að eiga á vísan að róa með ráð- gjöf við flóknar þýðingar og nýorða- smíð. Gísli var heimulegur málfars- ráðunautur héraðslæknisembættisins og lagði ætíð til málanna það sem besta sáttin varð um. Hann hafði lag á að leiðbeina þannig að maður fór upp- hafinn af fundi hans. Snöggt og óvænt kvaddi hann okkur morgunhanana í sundlauginni þar sem morgunsundið hefur verið þreytt áratugum saman. Þar höfum við hist og rabbað saman um lífið og tilveruna. Gísli var alla tíð afgerandi í verkum sínum, ekkert hálfkák eða skoðanaleysi. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég fjölskyldu hans. Guð blessi minningu Gísla Jónssonar. Ólafur Hergill Oddsson.  Fleiri minningargreinar um Gísla Jónsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72
Blaðsíða 73
Blaðsíða 74
Blaðsíða 75
Blaðsíða 76
Blaðsíða 77
Blaðsíða 78
Blaðsíða 79
Blaðsíða 80
Blaðsíða 81
Blaðsíða 82
Blaðsíða 83
Blaðsíða 84

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.