Morgunblaðið - 19.12.2001, Síða 40
LISTIR
40 MIÐVIKUDAGUR 19. DESEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
ÞAÐ er alltaf gaman þegar brydd-
að er upp á einhverju nýju og öðruvísi
í tónlistinni. Selkórinn á Seltjarnar-
nesi hefur að undanförnu sungið ný-
stárlega dagskrá, þar sem eingöngu
er flutt tónlist sem á einhvern hátt
tengist Suður-Ameríku, með íslensku
ívafi þó. Kórinn hefur fengið til liðs
við sig heimamenn af Nesinu, þá
Bubba Morthens og Jóhann Helga-
son og sungið tónlist úr suðrinu, lög
eftir suður-amerísk tónskáld og lög
eftir Jóhann útsett í suðrænum
rytma. Bubbi hefur sungið lög af
Kúbuplötunni sinni og saman hefur
hersingin flutt Misa Criola eftir
Ramirez með liðsinni lítillar hljóm-
sveitar. Tónleikar kórsins á sunnu-
dagskvöld voru vel heppnaðir og
skemmtilegir – ekki síst fyrir þessa
ágætu blöndu í tónlist og vali tónlist-
armanna.
Í upphafi söng kórinn án undir-
leiks, lög frá Perú og Venesúela og
tókst þar á við hefðbundna suðuram-
eríska rytma, þar sem tvískiptum og
þrískiptum takti er teflt saman. Þessi
hrynjandi getur verið þrælsnúin og
erfið þeim sem ekki hafa hana í blóð-
inu. Selkórinn fór þó létt með þetta
og fleytti sér í gegnum synkópur eins
og ekkert væri. Það sem að má finna
var það að sópraninn var dálítið flat-
ur og söng ekki nógu hátt upp í tón-
inn, þannig að jaðraði við að vera
óhreint. Þegar hljómsveitin bættist
við rættist úr þessum vanda; auð-
veldara að syngja með hljóðfærum;
og kórinn söng þá lög eftir Escalada
og Piazzolla. Fyrra lagið, Cand-
omblé, einfalt lag með endurteknum
stefjum, var prýðilega sungið, en
nokkuð vantaði á að Otoño Porteno,
lag tangókóngsins Piazzollas kæmist
vel til skila, það var einfaldlega of erf-
itt fyrir kórinn. Tvö lög eftir Jóhann
Helgason, Meðan dagur er og Heiðló,
hljómuðu mjög fallega í ágætum út-
setningum eins kórfélaga, og ekki
sakaði hvað þau féllu vel að svipmóti
kvöldsins í rúmbu- og sömbutakti.
Þetta eru prýðisgóðar tónsmíðar sem
henta mjög vel í kórsöng. Bubbi
Morthens tók salinn með trompi þeg-
ar hann steig einn fram á sviðið og
söng þrjú lög. Hann byrjaði á gamla
kreppuslagaranum Brother, Can
You Spare Me a Dime, sem hann lék
og söng af einstakri innlifun. Þá
komu tvö lög af Kúbuplötunni; Myrk-
ur, sjór og sandur og Borgarbarn,
góð lög og bæði gríðarvel flutt af
Bubba. Á milli laga sagði Bubbi sög-
ur á sinn einstaka hátt, og rakti tilurð
laganna og uppruna, samskipti við
Kúbumennina og fleira.
Stærsta verkið á efnisskránni,
Misa Criolla eftir Ariel Ramírez var
haft síðast á efnisskránni, en þar
sungu Bubbi og Jóhann Helgason
einsöng með kórnum og hljómsveit-
inni. Það má segja að þessi alþýðlega
messa hafi notið sín sérdeilis vel í
þessum flutningi og Jóhann og Bubbi
voru virkilega góðir og öruggir í ein-
söng og samsöng. Raddir þeirra féllu
vel saman í samsöngsatriðum og suð-
urameríski rytminn og innkomur
sem oft voru flóknar, reyndust þeim
leikur einn. Hljómsveitin var skín-
andi góð. Þar voru Kjartan Valdi-
marsson á píanó, Magnús R. Einars-
son á mandólín, Gunnar Hrafnsson á
bassa, Árni Scheving á harmónikku
og slagverk, Jón Árni Þórisson á gít-
ar og Þorvaldur Þór Þorvaldsson á
slagverk. Kórinn bar þó hitann og
þungann af flutningi verksins og var
mjög fínn, og greinilegt að verkið hef-
ur verið æft bæði vel og lengi. Margi
kórfélaga sungu nótnalaust og voru
komnir með hnykk í mjaðmir áður en
yfir lauk. Jón Karl Einarsson, kór-
stjóri Selkórsins, sýndi mikið hug-
rekki með því að tefla saman lista-
mönnum úr ólíkum kimum tón-
listarinnar. Þetta er allt of sjaldan
gert, og því miður virðast þeir enn
þann dag í dag nokkuð margir sem
vilja reisa múra á milli þess sem kall-
ast klassískt og hins sem kallað er
létt. En þessi skil eru sem betur fer
óðum að hverfa enda engin ástæða til
að flokka tónlist í annað en mesta lagi
góða og vonda, og þar eru engin
samasemmerki við ákveðnar tegund-
ir.
Jón Karl stjórnaði tónleikunum af
reisn; músíkin varð lifandi og fjörug í
höndum hans og söngur kórsins með
ágætum þrátt fyrir svolitla hnökra
hjá sópran. Þetta voru óvenjulegir
tónleikar og bráðskemmtileg til-
breyting mitt í hefðbundnum helgi-
söng aðventunnar.
Ameríslensk
helgisveifla
TÓNLIST
Kórtónleikar
Selkórinn og hljómsveit fluttu söngva frá
Suður-Ameríku, og tvö lög eftir Jóhann
Helgason. Bubbi Morthens söng þrjú lög,
og kórinn, hljómsveitin og einsöngv-
ararnir Bubbi Morthens og Jóhann Helga-
son fluttu Misa Criolla eftir Ariel Ram-
írez. Stjórnandi var Jón Karl Einarsson
SELTJARNARNESKIRKJA
Bergþóra Jónsdóttir
ÞRÁTT fyrir að J.S. Bach hafi
kynnt sér konsertana eftir Antonio
Vivaldi og umritað nokkra þeirra fyr-
ir orgel þýðir það ekki að Bach hafi í
raun verið hrifinn af vinnuaðferðum
Vivaldis, því varla er hægt að hugsa
sér ólíkari vinnubrögð en hjá þessum
tveimur snillingum. Þennan mun
hafa margir túlkað með því að kalla
Vivaldi „poppara“ og vísa til þess hve
ritháttur hans er einfaldur. Hann
hefur verið sagður tónskáld „þriggja
hljóma“, þeirra sem nefnast aðal-
hljómar, auk þess sem bassaferlið sé
að mestu leyti byggt á grunnstöðu-
tónum hljómanna og vanti nær allt
lagrænt ferli, sé að miklu leyti aðeins
trommandi endurtekningar. Þá er
hin tematíska endurtekning innan
stefjanna og úrvinnsla þeirra mjög
einföld og augljós og mörg hljóm-
skipti á milli tóntegunda ofin í form
„sekvensa“. Þrátt fyrir þennan ein-
faldleika tekst Vivaldi að gæða verk
sín þeim sérkennilega tæra tónaleik
er heldur hlustendum föngnum og
hafa margir fræðimenn haldið því
fram, að því valdi hin leikræna ein-
lægni og gleði, sem einkennir tónlist
þessa sérstæða snillings.
Á tónleikum Kammersveitar
Reykjavíkur í Áskirkju sl. sunnu-
dagskvöld voru fluttir fjórir konsert-
ar eftir Antonio Vivaldi, sem einu
nafni eru nefndir Árstíðirnar og eru
meðal vinsælustu verka hans.
Nokkrir kaflar hafa orðið sérlega
vinsælir, eins og t.d. í konsertinum
sem ber nafnið Vorið eru bæði fyrsti
og síðasti kafli sérlega vinsælir fyrir
lagræn og syngjandi aðalstefin. Ein-
leikari í Vorinu var ungur fiðlari,
Hrafnhildur Atladóttir, sem lék
konsertinn af öryggi, sérstaklega í
þrumukaflanum. Fuglasöngurinn
var að vísu svolítið órólegur en þrum-
urnar og eldingarnar voru áhrifa-
miklar. Dansskemmtunin í lokakafl-
anum er sá kafli þar sem mest er
umleikis í bassaröddunum, sem á
köflum voru einum of hljómfrekar.
Annar konsertinn er Sumarið, sem
nýtur minnstra vinsælda af konsert-
unum fjórum, enda er þar ekki að
hafa jafn lagrænar tónhendingar og í
hinum konsertunum en aftur er þar
meira umleikis í tónferli og tæknileik
hljóðfæranna. Einleikari var Una
Sveinbjörnsdóttir, er átti ýmsa góða
spretti, en það skemmdi nokkuð að
samleikur hennar við sellóið var ekki
í góðu jafnvægi og sellóið allt of
hljómfrekt, t.d. í gaukskaflanum og
stuttum tvíleikskafla undir lokin í
þriðja þætti.
Haustið skartar sérlega skemmti-
legum tónlínum enda er þar dansað
og haustið er tími uppskerunnar og
veiðiferðanna. Sigurbjörn Bern-
harðsson lék einleikinn með miklum
„bravúr“ en eins og í viðkvæmum
einleiksköflum vantaði nokkuð á að
gætt væri jafnvægis í hljómstyrk og
undirleikurinn var ekki markviss í
hryn og styrk. Veiðikaflinn var að
mörgu leyti skemmtilega lifandi tví-
gripaleikur og flóttalínurnar voru
glæsilega mótaðar af Sigurbirni.
Miðþátturinn, „svefninn“, er ein-
kennilegur leikur með hljóma, er
stingur í stúf við við leikandi lagferli
annarra þátta.
Síðasti konsertinn nefnist Vetur-
inn, er skartar hinum fræga mið-
þætti. Þessi konsert er sérlega leik-
rænn og hefst á túlkun á kuldahrolli
en síðan taka við tónlínur sem eiga að
túlka það er fólk ber sér til hita, Hægi
kaflinn á að túlka hve notalegt er að
sitja inni við hlýjan arineld en loka-
kaflinn er lýsing á ferð yfir ísi lagða á.
Veturinn var leikinn af Sif Tulinius,
sem lék konsertinn af glæsibrag, sér-
staklega þar sem kuldahrollur og
tannaglamur er túlkað með endur-
teknum nótum innan sama hljómsins.
Hægi kaflinn og ísgangan, sérstak-
lega þegar ísinn á endanum brotnar,
var glæsilega leikin.
Í heild voru þetta skemmtilegir
tónleikar og lék kammersveitin oft
mjög vel, þótt á köflum væri hægt að
finna fyrir því, að ekki væri gætt
jafnvægis í styrk, einkum á móti ein-
leikurum, sem æfingastjóri hefði haft
betri tök á að leiðrétta en samleik-
arar, sem eiga nóg með sitt hverju
sinni.
Tónskáld einlægni og einfaldleika
TÓNLIST
Áskirkja
ásamt Hrafnhildi Atladóttur,
Unu Sveinbjarnardóttur,
Sigurbirni Bernharðssyni og
Sif Tulinius flutti Árstíðirnar
eftir Antonio Vivaldi. Sunnudaginn 16.
desember.
KAMMERSVEIT REYKJAVÍKUR
Jón Ásgeirsson
Í TUTTUGU og sjö ár hefur
Hljómeyki verið fastur punktur í ís-
lensku tónlistarlífi og er það enn, en
það sem vakti athygli undirritaðs á
tónleikum þeim sem Hljómeyki
efndi til sl. laugardagskvöld í Há-
teigskirkju var að mjög mikil end-
urnýjun söngkrafta hafði átt sér
stað, svo að í raun er um nýjan kór
að ræða. Hljómur kórsins er tær en
vantar ennþá dýpt og þéttleika, sem
fyrrum var aðal hans.
Tónleikarnir hófust á nýju kór-
verki eftir Hildigunni Rúnarsdóttur,
samið við latneska textann Canita
tuba. Það er ljóst að ungu tónskáld-
in eru að færast nær tónölum rit-
hætti og í stað þess að yrkja ann-
aðhvort algerlega „ótónalt“ eða
„tónalt“ er að koma upp samspil
þessara þátta, sem hugsanlegt er að
verði tónmál 21. aldarinnar. Canita
tuba er vel samið kórverk og er
Hildigunnur vaxandi höfundur og
hefur þegar haslað sér völl sem eitt
af eftirtektarverðustu tónskáldum
yngri kynslóðarinnar.
Næstu fimm lög voru hefðbundin
jólalög; Það aldin út er sprungið,
Kemur hvað mælt var, Borið er oss
barn í nótt, Nú gjalla klukkur og
Quem pastores laudavere. Útsetn-
ing Praetoriusar á laginu Það aldin
út er sprungið var mjög fallega
sungin. Grunnur hljómur kórsins
var nokkuð áberandi í lögunum eftir
William Byrd, Thomas Tallis og sér-
staklega í Susanni eftir Richard
Rodney Bennett, sem er fjörlegt og
þarf að flytja með þéttum hljómi.
Tvö lög eftir Herbert Howell féllu
mjög vel að fíngerðum hljómi kórs-
ins, sérstaklega kvenraddanna, og
voru lög Howells með því best
sungna á þessum tónleikum. Sér-
kennilegt lag, Dormi Jesu eftir
Christopher Brown, var ekki sann-
færandi í flutningi og vantaði eitt-
hvað í dulúð þessarar einkennilegu
vögguvísu.
Jólagjöfin eftir Hörð Áskelsson er
þokkafullt lag og mættu söngstjórar
leggja sig eftir að semja fyrir kór-
ana sína, þótt ekki væri til annars en
að öðlast þá reynslu að það er ekki
einfalt mál að búa til lög. Hirðarar
sjá og heyrðu, eftir Hildigunni, við
texta eftir síra Einar í Heydölum, er
vel gerður sálmur sem trúlega verð-
ur til að auka lagaval kirkjukóra og
sungið um öll jól.
Fallegt þjóðlag frá Katalóníu, Á
leið til Betlehem, var hér sungið í
útsetningu Jóns Nordals og síðan ís-
lenska þjóðlagið Hátíð fer að hönd-
um ein, í útsetningu undirritaðs,
sem kórinn söng mjög fallega og af
töluverðri innlifun. Næstu þrjú jóla-
lögin eru klassík en það voru Þá ný-
fæddur Jesús, Ó, jesúbarn blítt og
Hringi klukkurnar í kvöld, sem öll
voru vel flutt. Hodie Christus natus
est eftir Jan P. Sweelinck var ekki
fyllilega í jafnvægi, enda hratt og
nokkuð kröfuhart í hljóman, sem
kórinn hefur ekki full tök á enn sem
komið er. Tónleikunum lauk svo
með því að Canite tuba eftir Hildi-
gunni var endurtekið og gerði kór-
inn verkinu góð skil. Eins og fyrr
segir er hljómur kórsins enn nokkuð
grunnur en hann syngur hreint og
fallega, svo að vonir standa til að
Hljómeyki muni ná sér á strik undir
markvissri stjórn Bernharðs Wilk-
insonar.
Jón Ásgeirsson
Grunn-
ur en
hreinn
hljómur
TÓNLIST
Háteigskirkja
Hljómeyki undir stjórn Bernharðs Wilk-
insonar flutti aðventusöngva. Laugardag-
inn 15. desember.
KÓRSÖNGUR
SÝNING á verkum ljósmyndarans Ásgeirs Long
stendur nú yfir í Hafnarborg undir yfirskriftinni
Svona var Fjörðurinn og fólkið.
Á sýningunni eru milli 280 og 290 myndir, all-
ar svart/hvítar. Þær elstu eru frá 1943–5. Að
sögn Ásgeirs verður að líta á sýninguna frá
heimildarsjónarmiði fyrst og fremst, þar sem
hugað er að atburðum og framkvæmdum, bjástri
fólks í dagsins önn við að afla sér viðurværis og
eins við tómstundagaman.
Árið 1966 stofnaði Ásgeir kvikmyndagerð og
framleiddi aðallega sjónvarpsauglýsingar en
1974 stofnaði hann, ásamt Páli Steingrímssyni
og Ernst Kettler, kvikmyndagerðina Kvik s/f og
ráku þeir hana til 1978.
Sýningin stendur fram yfir áramót. Fram að
jólum verður hún opin alla daga frá kl. 11 til 17.
Safnið er lokað á þriðjudögum.
Svona var Fjörðurinn og fólkið
Morgunblaðið/Árni Sæberg