Morgunblaðið - 21.02.2002, Side 39

Morgunblaðið - 21.02.2002, Side 39
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. FEBRÚAR 2002 39 heimilisvináttu við þau, enda voru dyggðir, sem prýddu þau sameig- inlega, margar: Þau áttu það sam- eiginlegt að vera vinmörg, vinföst og gestrisin og raunar höfðingjar heim að sækja, og er þá fátt eitt nefnt. Sú alúð og umhyggja sem Hann- es naut af hendi Sigríðar í veik- indum hans undanfarna mánuði, þegar að þrengdi, var okkur sem umgengust þau ljós. Æðruleysi Hannesar var svo jafnframt aðdá- unarvert. Spurningum í þá veru, hvernig honum liði, eða hvernig gengi, svaraði hann gjarnan með gamanyrði á vör: „Blessaður, eftir atvikum hef ég það bara fínt og hvaða þörf er þá að kvarta.“ Þannig var Hannes. Og nú verður okkur hugsað til Sigríðar og barnanna, Hildar og Agnars, og fjölskyldunnar allrar. Og nú þegar Hannes Ó. Johnson er kvaddur með söknuði, færum við Elísabet þeim öllum samúðar- kveðjur okkar og fjölskyldu okkar. Jóhann Möller. Horfinn er á braut hollvinur, sem sárt er saknað, en einstaklega ljúft að minnast. Hannes Ó. Johnson ólst upp í Reykjavík til 16 ára aldurs. For- eldrar hans voru hjónin Ólafur Þ. Johnson, Þorláks Johnson kaup- manns í Reykjavík, og síðari kona Ólafs, Guðrún Árnadóttir frá Geitaskarði í Langadal. Faðir Hannesar var umsvifamik- ill kaupmaður í Reykjavík. Hann stofnaði með fleirum viðskiptafyr- irtækið Ó. Johnson & Kaaber, sem enn er rekið, elst heildsölufyrir- tækja, lengst af undir stjórn Ólafs og síðar afkomenda hans. Hannes átti æsku- og unglingsár sín á Íslandi og bjó í hinu veglega húsi Esjubergi við Þingholtsstræti. Þá var nóg rými í Þingholtunum fyrir ærslafulla og öfluga stráka að leika sér. Hann stundaði nám við Verslunarskóla Íslands og eignað- ist á þeim árum vini meðal skóla- félaga og entist sú vinátta mörgum þeirra ævilangt. Ólafur Johnson tók sig upp með fjölskyldu sína og flutti til Banda- ríkjanna árið 1940. Yngstu börn hans, Hannes, Helga og Ólafur, fylgdu foreldrum sínum. Heimsstyrjöldin 1939-1945 hafði með mörgum illum afleiðingum rústað gömul og gróin viðskipta- sambönd í Evrópu. Meginverkefni Ólafs var að leita að og byggja upp viðskiptasambönd við Bandaríkin, bæði fyrir hans eigin fyrirtæki og fleiri sem að þessari ráðstöfun stóðu. Hannes var ungur að árum þegar hann kom til Bandaríkjanna og dvöl hans þar varð 5 ár. Hann sótti þar skóla og stundaði þar síð- ar störf. Dvölin var nógu löng til þess að hinn ungi maður mótaðist að nokkru af amerískum siðum og háttum og tvö tungumál urðu hon- um jafn tiltæk. Vor landi vill mannast á heimsins hátt, en hólminn á starf hans, líf hans og mátt og í vöggunnar landi skal varðinn standa. Hannes kom heim 21 árs gamall, vel á sig kominn og einstakt snyrtimenni, sem hélst alla ævi hans. Hann hóf fljótlega störf hjá Flugfélagi Íslands þar sem bróðir hans, Örn Ó. Johnson, stjórnaði. Á þessum árum bast hann tryggðaböndum við Sigríði Páls- dóttur, Sigfússonar, skipstjóra. Sirrý er hún kölluð af vinum sín- um, skörungur að gerð komin af Bergsætt og vestfirskum sægörp- um. Þau stofnuðu heimili árið 1949 og hefur sambúð þeirra staðið síð- an þar til nú er Hannes fellur frá. Heimili þeirra varð fljótt fallegt og með höfðingjabrag. Hann er stór kunningja- og vinahópurinn sem hefur notið frábærrar gestrisni þeirra sem húsráðenda í meira en hálfa öld. Hannes sneri sér snemma á starfsferlinum að tryggingamálum. Eftir margra ára starf á þeim vett- vangi var honum boðið starf hjá Tryggingu hf. og var hann fram- kvæmdastjóri þess fyrirtækis í fjölda ára, eða þar til heilsu hans fór að hraka. Jafnframt átti hann aðild að stjórn fjölskyldufyrirtækisins, Ó. Johnson & Kaaber, og sat í stjórn þess í rösk 30 ár. Bróðir Hannesar, Ólafur, var lengi forstjóri fyrirtæk- isins. Með þeim bræðrum voru miklir kærleikar alla tíð eins og reyndar milli allra systkinanna. Bræðurnir héldu stöðugt vöku sinni um rekst- ur fyrirtækisins, höfðu mikinn metnað um hag þess og skiluðu því í blóma til næstu kynslóðar John- sona. Ólafur, sem var yngri en Hann- es, lést á síðastliðnu ári og var bróður sínum harmdauði, sem og öllum vinum Ólafs því hann var mikill drengskaparmaður. Hannes naut samskipta við vini sína og kunningja. Umræðuefnin urðu þá af ýmsum toga því hann hafði áhuga fyrir flestu því sem mannlífið varðar. Ekki fór milli mála að hann hafði mikla yfirsýn og mótaðar skoðanir á fjármuna- og viðskiptamálefnum. Eiginkonur okkar Hannesar eru vinkonur frá því þær léku sér telp- ur í Tjarnargötunni. Þær færðu okkur Hannes að hvor öðrum. Margra góðra stunda er að minn- ast. Sirrý og Hannes áttu um ára- bil afburða reiðhesta. Stunduðu út- reiðar með vinum sínum og fóru margar ferðir í góðra vina hópi í faðm fjalla og fegurðar lands okk- ar. Á þeim árum voru þau öflugir stuðningsmenn Hestamannafélags- ins Fáks. Mest voru samskipti okkar í Þingvallasveit. Þar þurfti ekki vík milli vina, því kallfæri er á milli kota okkar. Staðreynt var að okk- ur öllum leið þar best þegar hús- ráðendur voru í báðum kotum sín- um, Neskoti og Kusukoti. Þá mátti löngum sjá ljósa og síðar silfraða lokka Sirrýar inn á milli trjánna, þar sem hún hlúði að gróðri jarðar með sínum grænu fingrum. Fyrr á árum var oft kátt í kotunum á kvöldin, „hent að mörgu gaman“ og lagið tekið þegar Sirrý greip gítarinn og dreif upp söng. Hannes bjó í mörg ár við skerta heilsu. Hann sat löngum í horni sínu við stóran glugga og undi sér við lestur, hlýddi á tónlist eða naut fegurðarinnar sem blasti við utan gluggans. Hann fór reglubundið í gönguferðir um nágrennið, oftast í fylgd Sirrýar sinnar, enda vék hún þessi erfiðu ár nánast aldrei frá honum. Hann naut fegurðarinnar í fjallafaðmi Þingvallasveitar og hreinleika náttúrunnar til hlítar. Gönguferðirnar urðu honum til styrktar og aldrei brást hið ljúfa viðmót hans, né jákvæðni í langri sjúkdómsglímu. En nú er hljótt yfir kotunum okkar í Þingvallasveit og reyndar húsum vina Sirrýar og Hannesar, en þá er gott að ylja sér við minn- ingar þess sem var og þakka af al- hug liðna tíð. Börnum og afkomendum Hann- esar má ætíð verða minningin um hann uppörvun og hvatning til fag- urs mannlífs. Sirrý okkar óskum við hjónin þess að aftanskin sólar vermi hana og gylli minningar um lífsförunaut- inn og besta vininn. Pálína og Sveinbjörn Dagfinnsson. Stundum dregur snögglega ský fyrir sólu, en þetta er nú einu sinni gangur lífsins. Þótt dagurinn leng- ist nú enn á ný, þá er oft skammt á milli lífs og dauða. Laugardaginn 9. febrúar hringir vinur minn Hannes í mig til að láta mig vita að Lionsfélagi okkar, Þor- lákur Þórðarson, hafi látist þá um nóttina. Við ræddum saman góða stund um lífið og tilveruna, og Hannes kvaddi mig að lokum með þeim orðum, að enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Maður veit víst aldrei hvenær kemur að okkur. Sannleiksgildi þess er ótvírætt, sem sannfærði mig enn á ný, þegar Sirrý hringir í mig tveim dögum síðar og færir mér þá sorgarfrétt að Hannes hafi kvatt þá um kvöld- ið. Kynni okkar Hannesar og vin- átta spannar nú röska sex tugi ára, en við kynntumst fyrst í Verzl- unarskólanum 1938, og vorum þar samferða, þar til hann fór með for- eldrum sínum til Bandaríkjanna sumarið 1940. Við tengdumst fljótt sterkum vináttuböndum, og marg- ar ógleymanlegar stundir áttum við saman á hinu fallega heimili foreldra hans á Esjubergi, en þangað var stutt að fara úr Verzló. Þótt Hannes færi af landi brott 1940 og yrði að hætta námi í Verzló og kveðja skólafélagana, slitnaði ekki sambandið okkar á milli. Í júlí 1940 skrifar Hannes mér langt bréf, þar sem hann segir mér frá ferð sinni með Lagarfossi til New York með viðkomu í Bost- on. Siglingin hafi tekið rúma sex- tán sólarhringa, enda sagðist hann hafa verið feginn, þegar komið var á leiðarenda. Hannes var fljótur að aðlagast lífinu í stórborginni, og segir hann mér í bréfinu að hann sé búinn að fara á marga tónleika og hlusta m.a. á Lois Armstrong, Tommy Dorsey og Benny Good- mann. Hannes dvaldi í Bandaríkjunum til ársins 1945, og hafði þá sótt skóla um hríð og unnið á skrifstofu föður síns, Ólafs Johnson, stór- kaupmanns, sem rak umfangsmik- ið fyrirtæki í New York á þessum árum. Eftir heimkomuna styrktust vináttubönd okkar Hannesar á ný. Við unnum saman um hríð hjá Flugfélagi Íslands, en bróðir Hannesar, Örn Ó. Johnson, var þá forstjóri félagsins. Starfsferill Hannesar snerist síðan að trygg- ingasviðinu, sem segja má að hann hafi helgað starfskrafta sína þar til hann dró sig í hlé. Árið 1953 stofnuðum við Hannes Lionsklúbbinn Baldur ásamt tíu öðrum ungum mönnum, en Baldur var annar Lionsklúbburinn sem stofnaður var á Íslandi, næstur á eftir Lkl. Reykjavíkur. Minningarnar eru margar og ánægjulegar frá samstarfi okkar Hannesar í Baldri, en þar kynnt- umst við og eignuðumst fjölda góðra vina á nærfellt fimmtíu ára tímabili. Hannes naut þess að sækja fundi og hitta félagana, þar sem tækifæri gafst til að ræða hin margvíslegustu málefni og gleðjast á góðra vina fundum. Eftir að heilsu Hannesar tók að hraka, saknaði hann þess að geta ekki sótt fundi eins og áður, en hann hafði oft samband við mig og þurfti þá að fá upplýsingar um hvernig hlutirnir gengju fyrir sig hjá okkur Baldursfélögunum. Ekki alls fyrir löngu færði ég það í tal við Hannes, hvort hann treysti sér ekki til að heimsækja okkur á einn fund, þegar færi gæfist. Hann var ekki frá því, og ég heyrði á honum að löngunin var fyrir hendi. Tím- inn hefur því miður runnið út án þess að ósk hans yrði að veruleika, en við Baldursfélagar þökkum Hannesi langa og ánægjulega sam- fylgd. Hans verður sárt saknað af góðum vinahópi. Hannes átti því láni að fagna að eignast góðan og yndislegan lífs- förunaut. Sigríður hefur alla tíð verið hans stoð og stytta, og sam- an hafa þau byggt upp fagurt og vinalegt heimili, þangað sem vinir og vandamenn hafa ætíð verið vel- komnir og notið hlýhugar og gest- risni hjónanna. Þegar að kveðjustund kemur, minnist ég fyrst og fremst allra gleðistundanna, sem við Hannes áttum saman. Stundum ræddum við samt tæpitungulaust um menn og málefni og vorum ekki alltaf sammála, en vinskapurinn var óskertur eftir sem áður. Við hjónin munum seint gleyma öllum góðu samverustundunum, sem við áttum með þeim Sirrý og Hannesi og vináttu þeirra í okkar garð. Við kveðjum nú góðan vin með söknuði um leið og hlýjar ósk- ir fylgja honum á leið hans til fyr- irheitna landsins. Svava saknar þess að geta ekki kvatt Hannes og verið við útför hans af ástæðum, sem hann mundi skilja best. Samúðarkveðjur sendum við Sirrý og öllum ættingjum Hann- esar. Blessuð sé minning góðs vin- ar. Njáll Símonarson. Hannes Johnson var góður ná- granni. Það reyndum við systkinin, börn Selmu Kaldalóns og Jóns Gunnlaugssonar læknis, sem bjuggum um langt árabil í næsta húsi við Hannes og Sirrí konu hans á Skólabraut 61, sem nú heitir raunar Valhúsabraut 35. Við flutt- umst út á Seltjarnarnes á Þorláks- messu 1965. Sigurgeir bæjarstjóri var nýsestur að völdum og þá voru ekki mörg hús þarna norðvestan- megin á Skólabrautinni en hús þeirra Hannesar og Sigríðar John- son var risið þar alveg úti á enda, mikið og glæsilegt hús. Þaðan er einstakt útsýni, þar sem Snæfells- jökull blasir við í allri sinni dýrð og sólarlagið verður óvíða fallegra hér á landi. Fyrir neðan húsin voru á þessum árum óspillt engi og tún langleiðina niður að Gróttu, varp- land fyrir kríuna og heilu fótbolta- vellirnir frá náttúrunnar hendi fyr- ir börn og unglinga – svo lítið hafði þá enn verið byggt á því svæði sem nú er löngu fullbyggt vestan Val- húsahæðar. Það fór ekki hjá því að fljótlega tækist kunningsskapur milli fjöl- skyldnanna og einhvern tíma hafði faðir minn heitinn á orði í boði á hinu smekklega heimili þeirra Hannesar og Sirríar að það segði sína sögu að aldrei hefði þurft að reisa girðingu milli lóðanna. Það voru orð að sönnu. Þó minnist ég þess að í fyrstu fannst mér, viðkvæmum unglings- pilti, Hannes ekki árennilegur. Það gustaði oft af honum, hann lét skoðun sína mjög ákveðið í ljós og var ekki laust við að sumum okkar stæði stuggur af honum, fannst hann allt að því hranalegur. Sú skoðun breyttist fljótt og við enn nánari kynni kom vel í ljós að þessum hressilega og orðhvata manni bjó einstaklega hlýtt og gott hjarta. Þegar eitthvað bjátaði á í fjölskyldu okkar reyndist hann og þau hjónin svo sannarlega vinir í raun. Minnist ég ekki síst þegar móðir mín lést af slysförum að þá áttum við hauk í horni þar sem Hannes var. Reyndist hann föður okkar sérlega vel eftir að hann varð ekkjumaður. Hannes var þá sestur í helgan stein og leið varla sá dagur að hann liti ekki til föður míns, kom oft án þess að gera boð á undan sér, þess þurfti ekki, var í senn hressilegur og nærgætinn, hafði einstakt lag á að rífa sorg- mæddan ekkjumann upp úr deyfð og drunga sem sótti á hann. Nú þegar þessi góði nágranni og mikli höfðingi Hannes Johnson er fallinn frá vil ég fyrir hönd systk- ina minna og fjölskyldna okkar þakka Hannesi löng og góð kynni, trygglyndi og vináttu. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.) Megi góður Guð styrkja Sigríði og börn þeirra Hildi og Agnar og fjölskyldur í sorg þeirra. Gunnlaugur A. Jónsson. Að morgni 12. þ.m. hringdi Sig- ríður kona Hannesar í okkur og sagði frá versnandi heilsu hans. Þau voru komin með hann upp á Landspítala. Hann andaðist þar um kvöldið. Ekki man ég hvenær leiðir okkar Hannesar lágu fyrst saman, en það hefur efalítið verið þegar við vorum strákar. Ég átti kunningja, Núma, sem bjó í næsta húsi við okkur á Ránargötunni og hann flutti í Næpuna við Skálholts- stíg 7. Hannes átti heima í Esju- bergi rétt hjá. Hannes fór til Am- eríku með foreldrum sínum 1940 og bjó þar í mörg ár. Þegar hann kom heim man ég eftir að hann starfaði hjá Flugfélaginu. Eftir að þau Hannes og Sirrí giftu sig bjuggu þau við Miklu- braut en þangað kom ég stundum. Ég fór í mína fyrstu hestaferð 1952. Við riðum inn á Arnarvatns- heiði, og gekk það ágætlega. Við vorum tólf karlmenn í ferðinni og veiddum svolítið til matar. Síðan hef ég haft mikla unun af hestum og ferðast á hverju sumri. Það gladdi okkur mikið þegar Hannes og Sirrí fengu sér hesta. Hestur hennar var hrafnsvartur gæðingur frá Garðakoti í Viðvíkursveit, Hannesar var bleikur, prúður og gangsamur frá sama bæ. Páll Sig- urðsson frá Varmahlíð var mikill hestamaður og hafði góða hesta til ferðalaga. Sumarið 1963 riðum við norður Kjöl og fóru þau hjónin með okkur í ferðina, sem heppn- aðist ljómandi vel. Síðan komu mörg sumur og margar ferðir, hver annarri betri. Vel man ég eft- ir ferð okkar austur í Þjórsárdal og síðan inn með Þjórsá að Arn- arfelli hinu mikla. Við höfðum góða meðreiðarmenn og leigðum af þeim nokkra hesta bæði til reiðar og undir trúss. Ferðin frá Ásólfs- stöðum og norður að Arnarfelli tók fjóra daga. Við höfðum tjöld en sváfum í leitarmannakofum þar sem það var hægt. Það er ekki lítil vinna að taka niður töskur og tjöld af trússhestunum, spretta af og láta þá velta sér. Taka matarílát upp úr töskum, bera matinn inn í kofann eða tjaldið. Næsta dag þurfti að ganga frá og gera allt klárt, leggja við hestana og girða klifsöðla fyrir töskurnar. Hannes hafði í þessari ferð þetta starf, að sjá um töskuhestana, og hann gerði það vel. Eðlilega fékk hann aðstoð við þetta verk en hann sá um að allt væri eins og það átti að vera, þetta var hans verk. Við vor- um sautján í ferðinni svo auðvelt er að hugsa sér að mikil vinna er að láta hlutina ganga upp. Við vor- um með krossviðarkistur á tveimur hestum, í þær fóru diskar og þurrkur á milli og síðan varð að setja tuskur og dót ofan í tösk- urnar svo ekki skrölti í öllu saman svo hestarnir fældust ekki. Í tíu daga ferð fyrir sautján manns þarf mikinn mat og svo þarf ílát, potta, pönnur, brúsa og gasáhöld til eld- unar o.fl. Eftir fjóra daga komum við í námunda við Arnarfellið og tjölduðum þar. Við héldum veislu og nutum þess að vera komnir á áfangastað. Næsta dag hvíldum við sum lúin bein og klárarnir teygðu úr sér, veltu sér og báru sig eftir beitinni. Einhverjir gengu á fjallið fræga, Arnarfell hið mikla, og létu mikið af því, sem þeir sáu þaðan. Þröngt var í tjöldum og sváfum við Ingigerður í tjaldi Hannesar og Sigríðar – þröngt var, en þreytt fólk svaf vel og undir morgun fór- um við að hugsa um næsta áfanga í Kerlingarfjöll. Þegar þau hjónin Hannes og Sirrí hættu hestaferðum héldum við samt áfram ferðalögum fjögur saman. Við höfðum það þannig að Hannes ákvað hvert fara ætti og ég ók og svo öfugt. Við fórum víða, lásum okkur til um betri bæi, ár, fjöll og vötn. Helst voru valdar leiðir sem við höfðum ekki farið áður. Við fórum á Vestfjarðakjálk- ann og stoppuðum víða. Á Rauða- sand fórum við og veltum því fyrir okkur af hverju þessi fámenna sveit hefði átt svona marga af- bragðsmenn. Marga gátum við tal- ið en okkur datt helst í hug góðir kennarar, jafnvel frændsemi og að gáfur gengju í ættir. Við ætluðum að skoða sögustaði Gunnars Gunn- arssonar í Svartfugli, sjöundarmál- in, en ekki komumst við þangað á fararskjóta okkar, sem var ekki fær í torfærur. Þannig héldum við vestur og lærðum margt, því gam- an er að velta fortíðinni svolítið fyrir sér. Við spjölluðum um hitt og þetta á þessum ferðum okkar og hittum marga sem gaman var að ræða við eða til að fræðast af þeim sem þarna bjuggu. Hannes hafði létta lund og gat gert góðlátlegt grín að þeim sem með honum voru og öðrum sem urðu á vegi hans. Áratugirnir sem við Hannes höfum ferðast saman eru orðnir margir. Þegar við spjölluðum saman rifjuðum við upp hitt og þetta sem var til gleði – það þarf stundum svo lítið til ef vel er frá sagt og það gat Hannes svo oft gert. Með þessum orðum sendum við Sigríði og fjölskyldu innilegustu samúðarkveðjur. Hjalti Pálsson og Ingigerður Karlsdóttir.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.