Morgunblaðið - 19.06.2002, Page 23
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 19. JÚNÍ 2002 23
DONALD Rumsfeld, varnarmálaráð-
herra Bandaríkjanna, varaði á mánu-
dag við því að sífellt meiri ógn stafaði
af Írak enda ynnu stjórnvöld þar í
landi að því hörðum höndum að þróa
gereyðingarvopn. Rumsfeld lét þessi
ummæli falla í kjölfar frétta um að
George W. Bush Bandaríkjaforseti
hefði veitt bandarísku leyniþjónust-
unni (CIA) víðtækt umboð til að binda
enda á valdaskeið Saddams Hussein í
Írak. Slíkt umboð fæli m.a. í sér heim-
ild til að ráða Saddam af dögum við
tilteknar aðstæður.
Rumsfeld vildi ekki svara því beint
hvort bandarísk stjórnvöld hefðu
ákveðið að taka upp þá stefnu í varn-
armálum að bregðast við hugsanleg-
um ógnum erlendis frá með „fyrir-
byggjandi“ aðgerðum, þ.e. efna til
hernaðaraðgerða gegn tilteknum
ríkjum áður en þau hefðu hrint fyr-
irætlunum sínum í framkvæmd.
Hann gaf hins vegar til kynna að rík-
isstjórn Bush hefði tekið skref í þessa
átt með hernaðaraðgerðum sínum í
Afganistan, þar sem ráðist var í það
verkefni að uppræta hryðjuverka-
starfsemi al-Qaeda þar í landi og
steypa af stóli talibanastjórninni sem
hélt verndarhendi yfir hreyfingunni.
Stjórnvöld í Írak létu sér hins veg-
ar fátt um meinta stefnumörkun
Bush finnast. „Þetta er ekkert nýtt,“
sagði Naji Sabri utanríkisráðherra er
hann var spurður um fréttaflutning
dagblaðsins The Washington Post frá
því á sunnudag. „Bandaríkin hafa haft
horn í síðu Íraks í meira en þrjátíu ár
og skipuleggja jafnan aðgerðir gegn
hverju því ríki í heiminum sem leyfir
sér að sýna sjálfstæði,“ sagði hann.
Þá sagði í leiðara dagblaðsins Bab-
el í gær að áætlanir Bandaríkja-
manna, um að steypa Saddam af stóli,
væru „fyrirlitlegur glæpur“. „Það
sem er nýtt við þessar fréttir er að
stjórn Bush yngri virðist ekki lengur
kunna að skammast sín; þar á bæ
reyna menn ekki lengur, eins og fyrri
stjórnir hafa þó gert, að breiða yfir
áætlanir sínar í þessum efnum,“ sagði
í leiðara blaðsins, sem lýtur stjórn
Udays, eldri sonar Saddams Hussein.
Sérsveitum beitt til að
steypa Saddam
Skv. frétt The Washington Post á
sunnudag skrifaði Bush undir fyrir-
skipun þess efnis í mars sl. að CIA
væri heimilt að hefja undirbúning
leyniaðgerða til að steypa Saddam af
stóli. Kom fram að þetta fæli í sér
aukinn stuðning við írakska stjórnar-
andstöðuhópa sem og tilraunir til að
safna leynilegum upplýsingum úr
innsta valdahring í Bagdad. Einnig að
sérsveitum yrði hugsanlega beitt til
að handsama forsetann, eða ráða nið-
urlögum hans. Yrði sérsveitarmönn-
um heimilt að beita öllum brögðum til
að handsama Saddam, þ.m.t. vopnum.
Strax á sunnudag var ljóst að al-
menn ánægja var meðal áhrifamanna
á Bandaríkjaþingi með meintar fyr-
irætlanir Bush forseta. Sagði repú-
blikaninn Richard Armey, leiðtogi
meirihlutans í fulltrúadeildinni, m.a.
að aukinn viðbúnaður CIA væri rétt-
lætanlegur sökum þess að Írak styddi
hryðjuverkasamtök sem ógnuðu ekki
aðeins Bandaríkjunum, heldur öðrum
löndum einnig. Leiðtogi minnihlut-
ans, demókratinn Richard Gephardt,
tók í sama streng og sagði leynilegar
aðgerðir á vegum CIA eðlilegar í ljósi
tilrauna Íraka til að koma sér upp
gereyðingarvopnum og tregðu þeirra
til að fara að ályktunum Sameinuðu
þjóðanna um vopnaeftirlit.
Þá sagði John McCain, öldunga-
deildarþingmaður Repúblikana-
flokksins, að rétt væri hjá Bush-
stjórninni að halda áfram á þessari
braut en að jafnframt þyrfti að búa
bandarískan almenning undir þann
möguleika að Bandaríkin þyrftu að
efna til eiginlegs hernaðar gegn Írak
til að þvinga Saddam frá völdum.
Áhrifamenn lýsa stuðn-
ingi við stefnu Bush
Bandaríkjaforseti sagður hafa veitt CIA víðtækt umboð
til að binda enda á valdaskeið Saddams Hussein
Washington, Bagdad. AFP, The Washington Post.
George W.
Bush
Saddam
Hussein
KÍNVERSK yfirvöld hafa í kjölfar
bruna netkaffihúss í Peking aðfara-
nótt sunnudags að kínverskum tíma,
þar sem 24 námsmenn létu lífið af
völdum reyks, látið loka öðrum net-
kaffihúsum í borgum víðsvegar um
Kína. Jafnframt hefur víða verið til-
kynnt um hertar reglur um starfsemi
netkaffihúsa, að sögn kínverskra rík-
isfjölmiðla. Í Peking hafa eigendur
ólöglegra netkaffihúsa verið varaðir
við hörðum refsingum og mörg þeirra
höfðu þegar hætt starfsemi á mánu-
dag.
Netkaffihúsum hefur fjölgað ört í
Kína undanfarin ár og laða þau að sér
mikinn fjölda ungs fólks, sem kemur
þangað aðallega til að senda tölvupóst
og nota spjallrásir. Yfirvöld í Kína líta
þessa þróun hins vegar hornauga og
hafa þau þráfaldlega bent á að þau
telji netkaffihús hafa slæm áhrif á
ungt fólk. Þessir staðir ræni ung-
menni dýrmætum tíma sem annars
fari í nám og veiti þeim stundum að-
gang að ólöglegu efni eða klámsíðum.
Hafa kínversk stjórnvöld strangt
eftirlit með efni á Netinu og reyna af
fremsta megni að hindra aðgang al-
mennings að vissum síðum. Má þar
nefna síður sem innihalda pólitískt
andóf og vissa vestræna fréttamiðla.
Útgangur kaffihússins
sem brann var læstur
Algengt mun vera að fólk sé á net-
kaffihúsunum alla nóttina, enda er
nettengingin ódýrust á þeim tíma.
Eigendur kaffihúsanna læsa þeim oft
utanfrá yfir nóttina og voru viðskipta-
vinirnir þá læstir inni þar til starfsfólk
kæmi aftur næsta morgun. Hefur
komið í ljós að útgangur kaffihússins
sem brann á sunnudag var læstur.
Auk þeirra 24 ungmenna sem lét-
ust í brunanum, slösuðust 13 manns
og hlutu sumir mjög alvarleg bruna-
sár. Hafði fólkið nýverið lokið prófum
við Vísinda- og tækniháskólann í Pek-
ing en níu þeirra sem létust á sunnu-
dag voru þar við nám.
24 fórust er netkaffihús brann í Kína
Yfirvöld herða
eftirlit til muna
AP
Slökkviliðsmenn virða fyrir sér
afleiðingar bruna netkaffihúss-
ins í Peking þar sem 24 létu lífið
á sunnudag.
Peking. AFP