Morgunblaðið - 23.07.2002, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 23.07.2002, Blaðsíða 20
LISTIR 20 ÞRIÐJUDAGUR 23. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ FORNLEIFAVERND ríkisins, Húsafriðunarnefnd ríkisins og Þjóðminjasafn Íslands stóðu í gær fyrir fundi um varðveislu menning- arminja er haldinn var í Þjóðmenn- ingarhúsinu. Fundurinn var haldinn í tilefni þess að um þessar mundir eru staddir hér á landi dr. Nicholas Stanley-Price, forseti alþjóðlegu forvörslustofnunarinnar ICCROM, og Bent Eshøj, varaforseti stofnun- arinnar, sem jafnframt er forstöðu- maður kennslu í forvörslu útilista- verka og varðveislu rústa og bygginga við Konunglegu dönsku listakademíuna í Kaupmannahöfn. Eru þeir hér á landi til að ræða við forstöðumenn helstu menningar- minjastofnana Íslands um hugsan- lega aðild Íslands að stofnuninni. Meginmarkmið að miðla þekkingu um forvörslu ICCROM stendur fyrir Internat- ional Centre for the Study of the Conservation and Restoration of Cultural Property, og er hún ein sinnar tegundar í heiminum. Að stofnuninni eiga nú aðild yfir 100 lönd, þar á meðal Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk. Hún var stofnuð árið 1959 í Róm að frum- kvæði UNESCO. Meginmarkmið ICCROM er að miðla þekkingu og auka samfélagslega vitund um for- vörslu, og bæta gæði hennar sem fræðigreinar á heimsvísu. Þetta gerir stofnunin gegn um mikilvirkt námskeiðahald, umfangsmikið bókasafn sem aðgengilegt er á net- inu, og ráðgjöf og milligöngu um samstarf milli einstaklinga og stofn- ana, en auk þess leitast stofnunin við að hafa yfirsýn yfir flest þau verkefni á sviði varðveislu menning- arminja sem fram fara í heiminum, hvort sem um er að ræða eiginleg rannsóknarverkefni og uppgötvan- ir, ráðstefnur eða útgáfu fræðirita og tímarita um málefni er snerta svið varðveislu menningarminja. Dr. Stanley-Price hélt erindi á fundinum í gær og sagði m.a. að ICCROM stundaði ekki fornleifa- rannsóknir á eigin vegum, heldur væri meginmarkmið stofnunarinnar að auka þekkingu og vitund um for- vörslu menningarverðmæta. „Menningarverðmæti þurfa ekki bara að fela í sér styttur eða einstök skjöl,“ bætti hann við. „Við erum að tala um allt sem lýtur að menning- ararfi þjóðanna, allt frá einstökum forngripum til svokallaðs „menn- ingarlandslags“, hugtaks sem hefur verið mikið í umræðu undanfarið. Þannig liggur starfsemi stofnunar- innar á mjög breiðu sviði og nær til margra mismunandi stofnana sem fást við söfnun, rannsóknir og sýn- ingu menningarminja.“ Að sögn Stanley-Price er stofn- unin fjármögnuð af ríkisstjórnum aðildarríkja hennar, sem og styrkj- um úr ýmsum sjóðum. Hvert land greiðir í samræmi við efnahagslega getu sína. „Fjármögnunin fylgir stöðlum UNESCO varðandi útgjöld hvers lands,“ útskýrði hann. „Þó að ICCROM heyri í raun ekki undir Sameinuðu þjóðirnar, fylgir hún þeirra stöðlum, sem reiknaðir eru út frá ýmsum þáttum í efnahags- stöðu hvers lands, vergri þjóðar- framleiðslu og þar fram eftir göt- um.“ Hagkvæmt íslenskum menningarstofnunum Spurður um aðgang starfsfólks menningarstofnana þeirra landa sem ekki eru hluti af ICCROM, eins og Ísland er enn sem komið er, að starfsemi stofnunarinnar, svaraði Stanley-Price að allir hefðu aðgang að bókasafni ICCROM gegn um int- ernetið. Hins vegar væri starfsemi stofnunarinnar, í formi ráðgjafar og námskeiðahalds, einkum ætluð starfsfólki menningarstofnana þeirra landa sem væru aðildarríki að stofnuninni. „Það hefur þó komið fyrir að við höfum aðstoðað og haft milligöngu um rannsóknir og varð- veislu í löndum sem ekki eru aðild- arríki að ICCROM, til dæmis í nokkrum löndum Afríku,“ sagði hann. „Við óskum auðvitað eftir því að fá sem flest lönd til liðs við okkur. Bæði teljum við að það sé menning- arstofnunum hvers lands til hægð- arauka að hafa aðgang að þeim upp- lýsingum og þeirri ráðgjöf sem við veitum, en einnig mun það auka vægi forvörslu sem fræðigreinar að sem flestir samstarfsaðilar tengist ICCROM.“ Margrét Hallgrímsdóttir þjóð- minjavörður og Kristín Huld Sig- urðardóttir forstöðumaður Forn- leifaverndar ríkisins sögðu að fundurinn með Stanley-Price og Es- høj væri liður í undirbúningi fyrir aðild Íslands að ICCROM. „Ákvörðunin verður endanlega tek- in af menntamálaráðherra. Starfs- svið ICCROM tengist ekki bara Þjóðminjasafninu eða Fornleifa- vernd, heldur munu stofnanir eins og Húsafriðunarnefnd, Þjóðskjala- safn, Listasafn Íslands og þar fram eftir götum, einnig njóta góðs af samstarfi við þessa stofnun,“ sögðu þær. „Í raun tengjast allar þær ís- lensku stofnanir og einstaklingar sem fást við einhverja gerð af minj- um og minjavarðveislu starfsemi ICCROM og geta haft gagn af starfsemi hennar.“ Margrét sagði að samstarfið við stofnunina væri liður í auknu sam- starfi þeirra stofnana sem fást við varðveislu menningarminja á Ís- landi, sem og að opna möguleika þeirra erlendis. „Samstarf við ICC- ROM er hluti af því að auka gæði forvörslu á Íslandi,“ sagði hún. „Það er mikilvægt fyrir íslenskar menn- ingarminjastofnanir að auka tengsl, bæði sín á milli á Íslandi, sem og að þær taki þátt í þessu alþjóðlega um- hverfi erlendra menningarminja- stofnana.“ Forstöðumenn alþjóðlegu forvörslustofnunarinnar ICCROM um varðveislu menningarminja Mikilvægt að halda ut- an um og miðla þekk- ingu um forvörslu Morgunblaðið/Kristinn Dr. Nicholas Stanley-Price, forseti forvörslustofnunarinnar ICCROM, hélt erindi á fundinum í gær. Sitjandi eru Bent Eshøj varaforseti og Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins. Dr. Nicholas Stanley-Price, forseti alþjóðlegu forvörslustofnunarinnar ICCROM, hélt erindi á fundi um varðveislu menningarminja er haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Inga María Leifsdóttir sat fundinn. ingamaria@mbl.is ÞEIR svartklæddu eru komnir aftur. Svalari en allt sem svalt er og fara hressilega af stað. Jay (Smith), er í vandræðum með nýja félagann sinn á geimveruvakt rík- isstofnunarinnar Menn í svörtu (MÍS). Stræti og neðanjarðarlesta- kerfi New York borgar er ekki við- mótsþýtt umhverfi að öllu jöfnu, hvað þá þegar menn þurfa að fást við illvígan óþjóðalýð utan úr him- ingeimnum í ofanálag. Þegar gam- all erkifjandi MÍS, geimveran Se- reena (Lara Flynn Boyle), kemur til jarðar í því skyni að tortíma henni með manni og mús er tími kominn til að Jay hafi uppi á Kay (Tommy Lee Jones), sínum gamla fylginaut í baráttunni við hina ójarðnesku gesti. Kay, sem var gerður minnislaus um fortíðina í lok myndar I, er sóttur út í sveit þar sem hann starfar við póstþjónustuna. Minn- inu troðið aftur í hausinn á karlin- um og ballið byrjar á fullu. MÍS I var í hæsta máta efnislega óvenjuleg gamanmynd þótt grund- vallartónninn væri gamla góða tvíeykið þar sem annar sprellar en hinn fræðir félaga sinn á tilsvörum. Til viðbótar var myndin yfirfull af hugmyndaríkum brellum, tölvu- teiknuðum geimverum, hinum lit- ríkasta og líflegasta hópi, og grág- lettinn andi Sonnenfelds sveif yfir sköpunarverkinu. Kostir nýju myndarinnar eru ná- kvæmlega þeir sömu og hinnar fyrri. Smith og Jones eru fyndnir og svalir og falla óaðfinnanlega saman. Líkt og fyrri daginn er það hlutskipti Jones að vera drumbs- legi fræðarinn, Smith fær flesta brandarana. Tony Shlaoub og Rip Torn eru á sínum stað, Lara Flynn Boyle er mætt í staðinn fyrir Lindu Fiorentino og Johnny Knoxville, spaugarinn úr MTV-sjónvarpinu, er skemmtilega ýktur sem geim- vera með sitt annað sjálf í farangr- inum. Hundstíkin Frank fær stærra hlutverk og er hvað fyndn- ust fígúranna í skrautlegum „leik- hópnum“. Sem fyrr segir fer eftirlíkingin vel af stað en um leið og J og K leggja til atlögu upplifir áhorfand- inn hálfgert deja vu, það er allt með ósköp svipuðu sniði. Stórar byssur, mýgrútur af furðuverum og feiknarbrellum en fátt nýtt að ger- ast og þrátt fyrir allan tilkostn- aðinn og hamaganginn fjarar MÍS II hægt og hægt út á lokasprett- inum. Það má örugglega slá því föstu að við fáum þessa kappa aftur í heimsókn en menn ættu ekki að draga það í fimm ár; Jones virðist vera tekinn að lýjast. Auðgleymd og lengst af lífleg afþreying sem höfðar helst til gamalla aðdáenda hinna svartklæddu sendiboða. KVIKMYNDIR Smárabíó, Regnboginn, Laug- arásbíó, Borgarbíó Akureyri, Sambíóin Keflavík, Ísafjarðarbíó Leikstjóri: Barry Sonnfeld. Handrit: Robert Gordon og Barry Fanaro, byggt á teiknimyndasögu e. Lowell Cunningham. Kvikmyndatökustjóri: Greg Gardiner. Tónlist: Danny Elfman. Förðun: Rick Baker. Aðalleikendur: Tommy Lee Jones, Will Smith, Lara Flynn Boyle, Rip Torn, Tony Shaloub, Johnny Knoxville, Rosario Dawson. Sýningartími 88 mín. Columbia. Bandaríkin 2002. MEN IN BLACK II / SVALIR Í SVÖRTU II 1⁄2 MÍS og ómenni Sæbjörn Valdimarsson Hundstíkin Frank fær stærra hlutverk og er hvað fyndnust fígúranna í skrautlegum „leikhópnum“, segir meðal annars í umsögninni. TÓNLEIKARNIR hófust á Fant- asíu í A-dúr, eftir César Franck, er hann samdi 1878 en á því ári samdi hann einnig orgelverkin Cantabile og Piéce heroique. Fantasían er einföld að gerð, fallegar tónlínur, umofnar krómatískum og sætum hljómum, er var sérlega vel flutt og það sem best var, án þess að mjög væri gert úr sætri raddskipan orgelsins, sem oft vill verða hjá þeim er leika orgelverk Francks. Annað viðfangsefni Katrínar Mar- iloo var prelúdía í G-dúr eftir danska orgel- og fiðluleikarann Nicolaus Bruhns (1665–1697) en hann mun hafa leikið sér að því, að leika á fiðlu og undirleikinn á pedala orgelsins. Hann var talinn einn af bestu orgel- leikurum síns tíma og sérstaklega lof- aður fyrir pedaltækni sína en eftir hann hafa aðeins varðveist fimm org- elverk og 12 kantötur. Katrin Mariloo lék þessa skemmtilegu prelúdíu mjög vel en tónmálið er, samkvæmt tím- anum, mikið til röð af sekvensum, með „fugato“-köflum á milli. Þrjú smáverk, sem ekki skipta miklu máli, voru næst á efnisskránni, fyrst enskur næturgalasöngur, eftir óþekktan höfund, þá útsetning (Hanadans) eftir Michael Praetorius og djazzrugl, eftir ungverska tón- skáldið Zsolt Gardonyl, útsett eða samið yfir hægan kafla úr píanósón- ötu eftir Mozart. Ef menn vilja semja djazz, sem er hið besta mál, ætti betur við að nota eigin tónhugmyndir, eða lög, sem henta tilbrigðaformi djazz- ins, en síður, að umrita fullgerð tón- verk, eins og hér á sér stað, sem í besta falli er hægt að skilgreina sem afbökun. Katrin Mariloo sýndi, að hún er góð- ur orgelleikari í orgelverki, Piéce d’Orgue (BWV 572), er með réttu á að kalla Fantasíu í G, eftir meistara J.S. Bach, sem er leikandi skemmtilegt verk, þar sem tignarlegur „kóral“-kafli er rammaður inn með tveimur „solfeggio“-leikniþáttum. Þetta fantas- íuverk var ágætlega flutt og sama má segja um kóralfantasíuna op. 40, nr. 2, eftir Max Reger. En á milli þessara stórverka lék Mariloo tvö „improvísat- orísk“ verk eftir landa sinn, Peeter Süda (1883–1920), sem bæði eru unnin yfir krómatískan síbyljubassa, og eru þessi verk heldur svona létt og lítil í sér en voru liðlega leikin. Af verkunum eftir Franck, Bruhns, J.S. Bach og Reger má ráða að Katrin Mariloo er góður orgelleikari og sýndi töluverða leikni í verkinu eftir Reger, sem m.a. er nokkuð kröfuharður um pedaltækni, svo sem einnig mátti heyra í frísklega leiknu verki Bruhns. Ljóst er að Mariloo kann ýmislegt fyrir sér og var leikur hennar í heild mjög skýr, oft fallega mótaður og á köflum töluvert rismikill, t.d. í verk- unum eftir J.S. Bach og Reger. Það hlýtur að vera mögulegt að velja sem þægilega „millikafla“ al- mennileg verk, því annars er hætta á að tónleikarnir verði með einhverjum hætti lítilfjörlegir ef ekki er þar vel til vandað. Val á viðfangsefnum er að þessu leyti töluvert vandaverk. Hvað um það, aðalverkin voru það vel leikin af Katrínu Mariloo að í heild voru þetta góðir tónleikar. TÓNLIST Hallgrímskirkja Katrin Mariloo frá Eistlandi, lék m.a. orgelverk eftir César Franck, Nicolaus Bruhns, J.S. Bach og Max Reger. Sunnudagurinn 21. júlí, 2002. ORGELTÓNLEIKAR Vandaverk að velja viðfangsefni Jón Ásgeirsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.